Bóknámsumsjónarmenn sýna persónulegan áhuga
1 Safnaðarbóknámið er skipulagt með það í huga að „hægt sé að veita hverjum og einum sem mesta persónulega athygli og stuðla að andlegum vexti þeirra. . . . Þetta endurspeglar ástúðlega umhyggju Jehóva fyrir fólki sínu.“ (om bls. 75; Jes. 40:11) Bóknámsumsjónarmaðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í því að veita þessa athygli.
2 Í bóknáminu: Bóknámshóparnir eru af ásettu ráði hafðir frekar fámennir þannig að bóknámsumsjónarmaðurinn getur kynnst öllum vel sem eru í hópnum hans. (Orðskv. 27:23) Yfirleitt gefst tækifæri í hverri viku til að tala við trúsystkini okkar bæði fyrir og eftir bóknámið. Umsjónarmaðurinn getur því náð að ræða við næstum alla í hópnum á einum mánuði. Þá verður auðveldara fyrir þá að leita til hans ef þeir lenda í prófraunum eða þarfnast uppörvunar. — Jes. 32:2.
3 Bóknámsumsjónarmaðurinn reynir að hvetja alla í hópnum til að taka þátt í náminu. Hann gerir það meðal annars með því að stýra náminu á vingjarnlegan og þægilegan hátt. (1. Þess. 2:7, 8) Hann reynir að finna leiðir til þess að fá alla til að taka þátt í umræðunni, þar á meðal börnin. Ef einhver er feiminn við að svara getur umsjónarmaðurinn boðið fram persónulega aðstoð með því að biðja viðkomandi fyrir fram um að lesa ritningarstað eða gefa athugasemd við ákveðna efnisgrein. Hann getur líka sýnt þeim hvernig þeir geti svarað með eigin orðum.
4 Ef aðstoðarbóknámsumsjónarmaðurinn er safnaðarþjónn biður bóknámsumsjónarmaðurinn hann um að stýra náminu einu sinni á tveggja mánaða fresti. Þannig getur hann fylgst með því hvernig aðstoðarmaðurinn stýrir náminu og gefið honum góð ráð. Þetta er góð ráðstöfun til að hjálpa bræðrum að bæta kennslutækni sína. — Tít. 1:9.
5 Í boðunarstarfinu: Ein mikilvægasta skylda bóknámsumsjónarmannsins er að fara með forystu í boðunarstarfinu. (4. Mós. 27:16, 17) Hann undirbýr hópstarf og leggur sig fram við að hjálpa öllum í hópnum að hafa ánægju af starfinu. (Ef. 4:11, 12) Þess vegna hefur hann það markmið að starfa með hverjum og einum í hópnum. Hann sér líka til þess að finna reyndan boðbera til að starfa með þeim sem vill bæta sig á ákveðnu sviði í boðunarstarfinu.
6 Kærleiksríkur hirðir: Bóknámsumsjónarmanninum er umhugað um þá sem geta aðeins tekið lítinn þátt í boðunarstarfinu aðstæðna vegna. Sumir eiga ekki heimangengt, sumir eru orðnir aldraðir og sumir eiga tímabundið við alvarleg veikindi eða meiðsli að stríða. Allt getur þetta takmarkað starf þeirra verulega. Umsjónarmaðurinn gerir þeim grein fyrir því að þeir geti skilað inn starfsskýrslu í 15 mínútna þrepum ef þeir hafa ekki náð að starfa heilan klukkutíma í mánuðinum. (Starfsnefnd safnaðarins ákveður hvenær þetta á við.) Hann sýnir óvirkum einnig áhuga og leggur sig allan fram við að hjálpa þeim að taka þátt í starfsemi safnaðarins á ný. — Lúk. 15:4-7.
7 Við erum þakklát fyrir þá kærleiksríku athygli sem bóknámsumsjónarmennirnir sýna okkur. Persónulegur áhugi þeirra hjálpar okkur að ,verða einhuga í trúnni og ná vaxtartakmarki Krists fyllingar.‘ — Ef. 4:13.