Mundu eftir trúföstu öldruðu fólki
1 Anna var 84 ára ekkja en þrátt fyrir háan aldur „vék [hún] eigi úr helgidóminum.“ Jehóva veitti henni sérstaka blessun fyrir trúfestina. (Lúk. 2:36-38) Fjöldi bræðra og systra nú á tímum sýnir sömu kostgæfni og Anna þrátt fyrir erfiðar kringumstæður. Þegar þessir trúföstu einstaklingar eiga við heilsubrest að glíma eða þegar ellin setur þeim takmörk geta þeir stundum orðið niðurdregnir. Skoðum nokkrar raunhæfar leiðir til að hvetja þá og hjálpa þeim að viðhalda góðum andlegum venjum.
2 Samkomur og boðunarstarf: Það auðveldar trúföstu fólki sem komið er á efri ár að sækja samkomur reglulega þegar aðrir bjóða því far. Þetta er andlega styrkjandi fyrir þessa gamalreyndu trúföstu þjóna og söfnuðurinn nýtur einnig góðs af því. Hefur þú tekið þátt í þessu góða verki? — Hebr. 13:16.
3 Það veitir sannkristnum mönnum gleði og innri vellíðan að fara reglulega í boðunarstarfið. En það getur verið erfitt fyrir aldraða og lasburða. Gæti einhver þeirra verið „samverkamaður“ þinn í einhverri grein boðunarstarfsins? (Rómv. 16:3, 9, 21) Þú gætir kannski boðið einstaklingnum að fara með þér í endurheimsókn, í símastarf eða leiðbeina með þér á biblíunámskeiði. Ef hann á ekki heimangengt, gæti biblíunemandinn þá komið heim til hans?
4 Nám og félagsskapur: Sumir bjóða stundum öldruðum eða lasburða að vera með í fjölskyldunáminu og jafnvel að hafa það heima hjá þeim. Móðir ein fór með tvö ung börn sín heim til eldri systur þegar hún las með þeim í Biblíusögubókinni minni. Félagsskapurinn var uppörvandi fyrir alla. Aldraðir og lasburða kunna líka vel að meta að vera boðið þegar bræður og systur hittast til að blanda geði, til dæmis í matarboð. Ef þeir eru of veikburða til að fara í langa heimsókn gætir þú kannski hringt eða komið stuttlega við hjá þeim til að lesa fyrir þá, biðja með þeim eða segja þeim uppörvandi frásögu. — Rómv. 1:11, 12.
5 Jehóva metur mikils trúfast fólk á efri árum. (Hebr. 6:10, 11) Við getum líkt eftir honum með því að segja því að við metum það mikils og hjálpa því að viðhalda góðum andlegum venjum.