Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 nóvember bls. 2-7
  • Viðhaltu gleðinni á efri árum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Viðhaltu gleðinni á efri árum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ELLIN GETUR HAFT ÁHRIF Á GLEÐI ÞÍNA
  • HVERNIG VIÐHÖLDUM VIÐ GLEÐINNI?
  • HVERNIG GETA AÐRIR HJÁLPAÐ?
  • Metum mikils eldri bræður okkar og systur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
  • Lærum af kveðjuorðum trúfastra manna
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Jehóva er annt um aldraða þjóna sína
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 nóvember bls. 2-7

NÁMSGREIN 44

SÖNGUR 138 Gráar hærur eru heiðurskóróna

Viðhaltu gleðinni á efri árum

„Á gamals aldri dafna þeir.“ – SÁLM. 92:14.

Í HNOTSKURN

Það er fjallað um hvers vegna það er mikilvægt fyrir hina öldruðu að viðhalda gleðinni og hvernig þeir geta farið að því.

1, 2. Hvernig lítur Jehóva á trúfasta, eldri þjóna sína? (Sálmur 92:12–14; sjá einnig mynd.)

VIÐBRÖGÐ fólks gagnvart því að eldast eru mismunandi. Manst þú eftir fyrsta gráa hárinu? Var kannski freistandi að slíta það burt áður en nokkur kæmi auga á það? En þú gerðir þér grein fyrir að þótt þú slitir gráu hárin burt kæmu bara ný í staðinn. Þetta sýnir hversu erfitt mörgum finnst að eldast.

2 En faðir okkar á himnum lítur öðruvísi á þjóna sína sem eru að eldast. (Orðskv. 16:31) Hann líkir þeim við gróskumikil tré. (Lestu Sálm 92:12–14.) Hvers vegna er þessi líking vel við hæfi? Gömul tré eru oft mjög falleg vegna þess að þau eru með mikið laufskrúð eða ilmandi blóm. Dæmi um þetta er japanska kirsuberjatréð. Sum þeirra fegurstu eru yfir þúsund ára gömul. Trúfastir, aldraðir þjónar Guðs eru, rétt eins og þessi gömlu tré, fallegir og þá sérstaklega í augum Guðs. Jehóva sér persónuna sem ber gráa hárið. Og hann kann vel að meta fallega eiginleika hinna öldruðu – þolgæði þeirra og hollustu – svo og margra ára trúfasta þjónustu þeirra.

Eldri hjón sitja á bekk og allt í kring eru kirsuberjatré í blóma.

Aldraðir sem eru trúfastir eru fallegir og halda áfram að dafna rétt eins og gömul tré. (Sjá 2. grein.)


3. Nefndu dæmi um hvernig Jehóva hefur notað hina öldruðu til að framkvæma vilja sinn.

3 Hár aldur gerir manneskju ekki minna virði í augum Jehóva.a Staðreyndin er sú að hann hefur oft notað aldraða þjóna sína til að framkvæma vilja sinn. Sara var til dæmis orðið öldruð þegar Jehóva tilkynnti að hún yrði ættmóðir mikillar þjóðar og formóðir Messíasar. (1. Mós. 17:15–19) Móse var líka kominn á efri ár þegar Jehóva fól honum að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. (2. Mós. 7:6, 7) Og Jóhannes postuli var orðinn gamall þegar Jehóva innblés honum að skrifa fimm biblíubækur.

4. Hvað geta hinir öldruðu gert samkvæmt Orðskviðunum 15:15 til að takast á við erfiðleikana sem mæta þeim? (Sjá einnig mynd.)

4 Aldraðir takast á við ýmsa erfileika sem fylgja aldrinum. Ein systir sagði glettnislega: „Ellin er ekki fyrir veimiltítur.“ En að vera glaðurb getur hjálpað fólki að takast á við raunirnar sem fylgja ellinni. (Lestu Orðskviðina 15:15.) Í þessari námsgrein skoðum við hagnýt ráð sem aldraðir geta nýtt sér til að varðveita gleðina. Við athugum líka hvað aðrir geta gert til að hjálpa öldruðum bræðrum og systrum í söfnuðinum. Skoðum fyrst hvers vegna það getur verið erfitt að varðveita gleðina þegar við eldumst.

Hjónin á fyrri myndinni standa undir kirsuberjatré í blóma og halda brosandi utan um hvort annað.

Jákvætt viðhorf getur hjálpað eldra fólki að halda út í erfiðleikum sem fylgja ellinni. (Sjá 4. grein.)


ELLIN GETUR HAFT ÁHRIF Á GLEÐI ÞÍNA

5. Hvað gæti valdið því að sumir aldraðir verði niðurdregnir?

5 Hvað gæti gert þig niðurdreginn? Þú ert kannski leiður vegna þess að þú getur ekki gert það sem þú varst vanur að gera. Þú saknar kannski þess tíma þegar þú varst yngri og hraustari. (Préd. 7:10) Systir sem heitir Ruby segir: „Mér finnst erfitt að klæða mig vegna verkja og stirðleika. Einföldustu hlutir eins og að komast í sokka eru erfiðir. Ég er dofin í höndunum og illa haldin af liðagigt og þess vegna eru jafnvel smæstu verk mér erfið.“ Og Harold sem þjónaði á Betel segir: „Ég þekki ekki lengur manninn sem ég er orðinn og það angrar mig stundum. Ég var góður í íþróttum. Uppáhaldsíþróttin mín var hafnarbolti. Félagarnir sögðu oft: ‚Gefðu á Harold, hann klikkar ekki.‘ En núna held ég að ég gæti ekki einu sinni kastað boltanum.“

6. (a) Hvað fleira getur orsakað að aldraðir verða niðurdregnir? (b) Hvað gæti hjálpað öldruðum að leggja mat á hvort þeir ættu að hætta að keyra? (Sjá grein í þessu blaði með heitinu „Ætti ég að hætta að keyra?“)

6 Þú ert kannski sorgmæddur vegna þess að þú ert að missa hluta af sjálfstæði þínu. Þetta á sérstaklega við ef þú þarft á umönnun að halda eða getur ekki lengur búið einn. Þú gætir líka verið vonsvikinn vegna þess að heilsunni hrakar eða sjónin hefur versnað það mikið að þú getur ekki lengur keyrt. Hvílík vonbrigði! En það er gott að minna sig á að Jehóva og aðrir meta okkur ekki eftir því hvort við getum hugsað um okkur sjálf, búið ein eða keyrt bíl. Og við getum verið viss um að Jehóva skilur tilfinningar okkar. Það sem skiptir hann máli er hvernig við erum hið innra – að við elskum hann og trúsystkini okkar af öllu hjarta. – 1. Sam. 16:7.

7. Hvað getur hjálpað þeim sem eru vonsviknir yfir því að endir þessarar heimskipanar virðist ekki ætla að koma meðan þeir eru á lífi?

7 Þú ert ef til vill vonsvikinn vegna þess að endir þessarar heimskipanar kemur kannski ekki meðan þú ert á lífi. Hvað geturðu gert ef þér líður þannig? Mundu að Jehóva bíður þolinmóður eftir því að binda enda á þennan illa heim. (Jes. 30:18) En það er ekki að ástæðulausu að hann sýnir þolinmæði. Hún gefur milljónum manna tækifæri til að kynnast honum og verða vinir hans. (2. Pét. 3:9) Þegar þú ert vonsvikinn skaltu reyna að hugsa um það hversu margir njóta góðs af þolinmæði Jehóva áður en endirinn kemur. Gætu jafnvel einhverjir í þinni eigin fjölskyldu verið þar á meðal?

8. Hvaða áhrif gætu fylgifiskar ellinnar haft?

8 Þegar okkur líður illa hættir okkur til að segja eða gera eitthvað sem við sjáum eftir, hversu gömul sem við erum. (Préd. 7:7; Jak. 3:2) Þegar hinn trúfasti maður Job þjáðist talaði hann „í hugsunarleysi“. (Job. 6:1–3) Hinir eldri segja og gera auk þess hluti sem eru þeim ekki eiginlegir ef þeir kljást við sjúkdóm eða þurfa að taka lyf. Ekkert okkar ætti að sjálfsögðu að nota aldur eða heilsu sem afsökun til að vera kröfuhörð eða sýna óvild. Og ef við áttum okkur á því að við höfum sagt eitthvað tillitslaust ættum við að sjálfsögðu að biðjast afsökunar. – Matt. 5:23, 24.

HVERNIG VIÐHÖLDUM VIÐ GLEÐINNI?

Blómguð grein á kirsuberjatré; innfelldar myndir af bræðrum og systrum sem varðveita gleðina með ýmsum hætti á gamals aldri. Í 9.–13. grein er fjallað um þessi dæmi.

Hvernig geturðu varðveitt gleðina þrátt fyrir erfiðleika ellinnar? (Sjá 9.–13. grein.)


9. Hvers vegna ættirðu að þiggja hjálp annarra? (Sjá einnig myndir.)

9 Þiggðu hjálp frá öðrum. (Gal. 6:2) Í fyrstu gæti þér þótt það erfitt. Systir sem heitir Gretl segir: „Stundum finnst mér erfitt að þiggja hjálp vegna þess að mér finnst ég verða byrði. Það hefur tekið mig tíma að breyta um hugarfar og þiggja hjálp af auðmýkt.“ Þegar þú þiggur hjálp annarra gefurðu þeim tækifæri til að finna gleðina samfara því að gefa. (Post. 20:35) Og það gleður þig eflaust að sjá að öðrum er annt um þig og að þeir elska þig innilega.

Öldruð systir heldur um handlegg yngri systur meðan þær versla í matinn saman.

(Sjá 9. grein.)


10. Hvers vegna ættirðu að muna að sýna þakklæti? (Sjá einnig mynd.)

10 Sýndu þakklæti. (Kól. 3:15; 1. Þess. 5:18) Þegar aðrir gera okkur gott erum við þakklát en gleymum kannski að láta það í ljós. En ef við brosum og þökkum fyrir okkur finna þeir hversu dýrmætir og mikils metnir þeir eru. Leah vinnur við umönnun á Betel. Hún segir: „Ein systranna sem ég annast skilur gjarnan eftir handa mér lítil þakkarkort. Þetta eru ekki löng skilaboð en þau eru svo elskuleg. Mér þykir svo vænt um þau og það gleður mig að vita að hún kann að meta hjálp mína.“

Öldruð systir skrifar þakkarkort.

(Sjá 10. grein.)


11. Hvernig geturðu hjálpað öðrum? (Sjá einnig mynd.)

11 Leggðu þig fram við að hjálpa öðrum. Þegar þú notar tíma þinn og krafta til að hjálpa öðrum eru minni líkur á að þú einblínir á eigin vandamál. Í afrískum málshætti er eldra fólki líkt við bókasafn fullt af bókum sem innihalda dýrmæta visku. En bækur sem liggja óhreyfðar á hillu miðla engu og segja engar sögur. Vertu því „lifandi bókasafn“ og taktu frumkvæði í að segja hinum yngri frá því sem þú býrð yfir eða hefur reynt. Spyrðu þau spurninga og hlustaðu síðan. Segðu þeim hvers vegna það er alltaf best að lifa í samræmi við mælikvarða Jehóva og hvernig það stuðlar að hamingju þeirra. Það gleður þig eflaust og uppörvar þegar þú styrkir yngri vini þína. – Sálm. 71:18.

Aldraður bróðir leggur við hlustir þegar yngri bróðir opnar sig fyrir honum.

(Sjá 11. grein.)


12. Hvað lofar Jehóva að gera fyrir hina öldruðu samkvæmt Jesaja 46:4? (Sjá einnig mynd.)

12 Biddu Jehóva um styrk. Þótt þú getir orðið líkamlega eða tilfinningalega örmagna „þreytist [Jehóva] aldrei né örmagnast“. (Jes. 40:28) Hvernig notar hann takmarkalausan kraft sinn? Hann gerir það meðal annars með því að styrkja trúfasta eldri þjóna sína. (Jes. 40:29–31) Hann lofar reyndar að hjálpa þeim. (Lestu Jesaja 46:4.) Og Jehóva stendur alltaf við loforð sín. (Jós. 23:14; Jes. 55:10, 11) Þegar þú biður og finnur síðan fyrir persónulegum stuðningi hans geturðu ekki annað en glaðst.

Aldraður bróðir á bæn.

(Sjá 12. grein.)


13. Hverju ættum við ekki að gleyma samkvæmt 2. Korintubréfi 4:16–18? (Sjá einnig mynd.)

13 Minntu þig á að aðstæður þínar eru tímabundnar. Þegar við höfum hugfast að erfiðar aðstæður eru tímabundnar er auðveldara að sýna úthald. Og Biblían fullvissar okkur um að elli og heilsubrestur er tímabundið ástand. (Job. 33:25; Jes. 33:24) Þú getur glaðst yfir vitneskjunni um að hið besta er fram undan, en ekki að baki. (Lestu 2. Korintubréf 4:16–18.) En hvað geta aðrir gert til að hjálpa?

Öldruð systir í hjólastól les í Biblíunni. Hún sér fyrir sér þegar hún verður aftur ung í paradís og stendur upp úr hjólastólnum.

(Sjá 13. grein.)


HVERNIG GETA AÐRIR HJÁLPAÐ?

14. Hvers vegna er mikilvægt að heimsækja og hringja í hina öldruðu?

14 Heimsæktu og hringdu reglulega í aldraða bræður og systur. (Hebr. 13:16) Hinum öldruðu getur fundist þeir vera einangraðir. Camille er bróðir sem kemst ekki að heiman. Hann segir: „Ég þarf að vera heima hjá mér frá morgni til kvölds. Þess vegna leiðist mér. Mér líður stundum eins og gömlu ljóni í búri. Ég finn fyrir kvíða og pirringi.“ Þegar við heimsækjum hina öldruðu fullvissum við þau um að þau séu okkur mikilvæg og að við elskum þau. Það hefur örugglega hent okkur öll að hafa ætlað að heimsækja eða hringja í aldrað trúsystkini en við komum því ekki í verk. Við erum öll svo upptekin. Hvað getur hjálpað okkur að ‚meta það sem er mikilvægt‘ eins og að heimsækja þá öldruðu? (Fil. 1:10) Það væri kannski hugmynd að merkja á dagatalið til að minna þig á að senda öldruðum skilaboð eða hringja í þau. Þú getur líka tekið frá tíma til að heimsækja þau í staðinn fyrir að láta það vera tilviljun undirorpið.

15. Hvað geta ungir og gamlir gert saman?

15 Ef þú ert ungur að árum gætirðu velt því fyrir þér um hvað þú átt að tala og hvað þú átt að gera með eldri trúsystkinum. En reyndu að ofhugsa ekki hlutina. Vertu frekar bara góður vinur. (Orðskv. 17:17) Staldraðu við og spjallaðu við hina öldruðu fyrir eða eftir samkomur. Þú gætir kannski spurt þau hvert uppáhaldsbiblíuversið þeirra sé eða beðið þau um að rifja upp skemmtilega bernskuminningu. Þú gætir líka boðið þeim að horfa með þér á sjónvarpsþátt í Sjónvarpi Votta Jehóva. Ef til vill gætirðu boðið fram hagnýta hjálp, eins og að hjálpa þeim að ná í nýjustu uppfærsluna fyrir snjalltækið þeirra eða hlaða niður nýjustu námsgögnunum. Systir sem heitir Carol segir: „Stingdu upp á að gera það sem þér finnst skemmtilegt með hinum öldruðu. Þótt ég sé orðin gömul langar mig enn þá að njóta lífsins. Mér finnst gaman að versla, fara út að borða og vera úti í náttúrunni.“ Og systir sem heitir Maira segir: „Ég á vinkonu sem er níræð. Það eru 57 ár á milli okkar. En ég gleymi því oft því að við hlæjum saman og njótum þess að horfa saman á bíómyndir. Og þegar við glímum við vandamál leitum við ráða hjá hvor annarri.“

16. Hvers vegna getur verið gagnlegt að fylgja öldruðum til læknis?

16 Fylgdu þeim í læknisheimsóknir. Auk þess að sjá öldruðum fyrir fari gætirðu stuðlað að því að heilbrigðisstarfsfólk komi vel fram við þau og gefi þeim nauðsynlega athygli. (Jes. 1:17) Það gæti hjálpað hinum aldraða ef þú skrifar hjá þér það sem læknirinn segir. Ruth er öldruð systir. Hún segir: „Oft þegar ég fer ein til læknis tekur hann mig ekki alvarlega. Læknar segja kannski við mann: ‚Vandamálið er sálrænt, það er í höfðinu á þér,‘ eða eitthvað í þá veruna. En þegar einhver kemur með mér gerbreytir það framkomu læknisins gagnvart mér. Ég er svo þakklát trúsystkinum mínum fyrir að taka sér tíma til að koma með mér.“

17. Í hvaða greinum þjónustunnar geturðu tekið þátt með öldruðum?

17 Boðaðu trúna með þeim. Sumir hinna öldruðu hafa ef til vill ekki líkamsburði til að boða trúna hús úr húsi. Gætirðu boðið aldraðri systur að koma með þér í trillustarf? Þú gætir jafnvel komið með stól handa henni. Eða gætirðu boðið eldri bróður með þegar þú stýrir biblíunámskeiði eða jafnvel haft það heima hjá honum? Safnaðaröldungar gætu hugleitt að hafa samansöfnun fyrir boðunina heima hjá öldruðum þannig að þeir eigi auðveldara með að taka þátt. Allt sem við gerum til að sýna öldruðum virðingu er fyrirhafnarinnar virði. – Orðskv. 3:27; Rómv. 12:10.

18. Um hvað verður fjallað í næstu námsgrein?

18 Við höfum verið minnt á að Jehóva elskar hina öldruðu og metur þá mikils. Og það gerum við líka. Það er erfitt að eldast en þú getur viðhaldið gleði þinni með hjálp Jehóva. (Sálm. 37:25) Er ekki uppörvandi að vita að það besta er fram undan en ekki að baki? En hvað með þau okkar sem annast aldraða ættingja, barn eða veikan vin? Hvernig geta þau viðhaldið gleðinni? Við skoðum það í næstu námsgrein.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvaða aðstæður gætu orðið til þess að öldruð trúsystkini misstu gleðina?

  • Hvernig geta hinir öldruðu viðhaldið gleðinni?

  • Hvernig getum við stutt aldraða í söfnuðinum?

SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir

a Sjá myndbandið Þið sem eruð öldruð gegnið mikilvægu hlutverki á jw.org og JW Library®.

b ORÐSKÝRING: Gleði er hluti af ávexti anda Guðs. (Gal. 5:22) Sönn gleði byggist á nánu sambandi við Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila