Núna er tíminn til að prédika!
1. Hvers vegna er núna tíminn til að prédika?
1 „Óttist Guð og gefið honum dýrð.“ Þessi boðskapur er boðaður „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“ undir leiðsögn engla. Af hverju? „Því að komin er stund dóms [Guðs].“ Við lifum núna á þessari ‚stund dómsins‘ sem mun ná hámarki þegar núverandi heimskerfi verður eytt. Það er áríðandi að menn tilbiðji „þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna“. Ekkert annað starf, sem unnið er nú á tímum, er eins mikilvægt og aðkallandi og að prédika hinn ‚eilífa fagnaðarboðskap‘. Já, núna er tíminn til að prédika! — Opinb. 14:6, 7.
2. Hvernig sýna þjónar Jehóva að þeir vita að tíminn er stuttur?
2 Síðastliðin tíu ár hafa þjónar Jehóva varið nálega 12 milljörðum klukkustunda til að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. Margir hafa gert breytingar á lífi sínu til þess að geta tekið meiri þátt í hinu andlega uppskerustarfi. (Matt. 9:37, 38) Síðastliðið ár þjónuðu að meðaltali 850.000 boðberar sem brautryðjendur í hverjum mánuði, svo dæmi sé tekið. Reglulegir brautryðjendur þurfa að verja að meðaltali 70 klukkustundum á mánuði til boðunarstarfsins en aðstoðarbrautryðjendur 50 klukkustundum.
3. Hvaða breytingar þurfa boðberar oft að gera til að verða brautryðjendur?
3 Hvernig er hægt að gerast brautryðjandi? Þar sem brautryðjendur átta sig á því að „tíminn er orðinn stuttur“ keppa þeir að því að lifa einföldu lífi. (1. Kor. 7:29, 31) Þeir leita leiða til að draga úr útgjöldum svo að þeir geti eytt minni tíma í veraldlega vinnu. Sumir hafa til dæmis flutt í minna húsnæði. Aðrir hafa losað sig við óþarfar efnislegar eigur. (Matt. 6:19-21) Oft verða þeir einnig að nota minni tíma fyrir eigin hugðarefni. Markmiðið með þessu öllu er að hafa meiri tíma og krafta fyrir boðunarstarfið. (Ef. 5:15, 16) Með þrautseigju, fórnfýsi, bænrækni og trausti á Jehóva hafa margir boðberar getað komið sér upp hentugri áætlun sem gerir þeim kleift að gerast brautryðjendur.
4. Hvað getur auðveldað manni að ná því marki að verða brautryðjandi?
4 Getur þú starfað sem brautryðjandi? Spyrðu brautryðjendur hvernig þeir hafa farið að því að ná góðum árangri? Starfaðu með þeim úti á svæðinu og upplifðu hve mikla ánægju þeir hafa af starfinu. Lestu greinar um brautryðjandastarfið sem hafa birst í ritum okkar. Settu þér hentug markmið sem geta hjálpað þér að gerast brautryðjandi. Ef hindranir koma í veg fyrir að þú getir starfað sem brautryðjandi eins og stendur skaltu minnast á þær í bæn til Jehóva og biddu hann um að hjálpa þér að ryðja þeim úr vegi. — Orðskv. 16:3.
5. Hvernig getum við orðið færari í boðunarstarfinu með því að starfa sem brauðryðjendur?
5 Blessun og gleðigjafi: Þegar við störfum sem brautryðjendur verðum við færari í að beita orði Guðs og því fylgir aukin gleði. „Að geta farið rétt með sannleiksorð Guðs er blessun,“ sagði ung brautryðjandasystir. „Í brautryðjandastarfinu notar maður Biblíuna svo mikið. Þegar ég starfa núna hús úr húsi man ég eftir ritningarstöðum sem henta hverjum húsráðanda.“ — 2. Tím. 2:15.
6. Hvað er hægt að læra af brautryðjandastarfinu?
6 Í brautryðjendastarfinu lærir maður einnig margt sem er mikils virði í lífinu. Það getur hjálpað ungu fólki að læra hvernig eigi að gera skynsamlegar tímaáætlanir, fara með peninga og umgangast fólk. Margir verða andlega sinnaðri með því að starfa sem brautryðjendur. (Ef. 4:13) Þar að auki finna brautryðjendur oft að hönd Jehóva er með þeim. — Post. 11:21; Fil. 4:11-13.
7. Hvernig getur brautryðjandastarfið styrkt samband okkar við Jehóva?
7 Mesta blessunin, sem fylgir brautryðjandastarfinu, er ef til vill sú að það styrkir samband okkar við Jehóva en það getur síðan veitt okkur styrk í prófraunum. Systir, sem varð að þola mikla erfiðleika um tíma, sagði: „Hið nána samband mitt við Jehóva, sem ég hafði fengið með því að vera brautryðjandi, hjálpaði mér að þola erfiðleikana.“ Hún bætti við: „Ég er svo fegin að hafa þjónað Jehóva í fullu starfi eftir að ég varð uppkomin. Það hefur gert mér kleift að gefa af sjálfri mér á ýmsan hátt sem mér óraði aldrei fyrir að ég gæti gert.“ (Post. 20:35) Við getum treyst því að við hljótum ríkulega blessun þegar við gerum okkar besta til að sinna hinu mikilvæga boðunarstarfi. — Orðskv. 10:22.