Sýnum persónulegan áhuga — með því að vera athugul
1 Enginn er fremri Jehóva Guði og Jesú Kristi í því að koma auga á þarfir fólks og veita því hjálp. (2. Kron. 16:9; Mark. 6:34) Með því að átta okkur á áhugamálum og áhyggjuefni þeirra sem við hittum í boðunarstarfinu getum við kynnt fagnaðarerindið í samræmi við það.
2 Tökum eftir smáatriðum: Jesús var athugull. (Mark. 12:41-43; Lúk. 19:1-6) Þegar við nálgumst heimili húsráðanda getum við tekið eftir trúarlegu skrauti, slagorðum á bílum eða þá leikföngum á lóðinni og þannig skapað tækifæri til að boða fagnaðarerindið á árangursríkan hátt.
3 Svipbrigði og framkoma geta gefið vísbendingar um líðan fólks. (Orðskv. 15:13) Ef til vill þarfnast það huggunar vegna ástvinamissis eða einhvers annars sem veldur hryggð. Því gæti þótt vænt um að við læsum saman viðeigandi ritningarstað. (Orðskv. 16:24) Er húsráðandinn á hraðri leið út eða heldur hann á grátandi barni? Þá er kannski betra að ákveða að koma aftur á öðrum tíma. Með því að vera nærgætin og hluttekningarsöm gæti það orðið til þess að húsráðandinn hlusti þegar við komum aftur. — 1. Pét. 3:8.
4 Hagaðu orðum þínum eftir aðstæðum: Páll postuli tók eftir að í Aþenu var altari sem var helgað „ókunnum guði“. Það hafði áhrif á hvernig hann kynnti fagnaðarerindið því að hann sagði: „Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður.“ Þessi góða aðferð Páls fékk nokkra viðstadda til að gefa gaum að fagnaðarerindinu og taka trú. — Post. 17:23, 34.
5 Ef við erum álíka athugul eigum við auðveldara með að koma auga á áhugamál fólks og getum því sniðið aðferðir okkar eftir því. Notum spurningar sem gætu fengið húsráðanda til að tjá sig. Hugsaðu um ritningarstaði sem gætu orðið til þess að auka áhuga hans. (Orðskv. 20:5) Með því að vera athugul og sýna persónulegan áhuga á öðrum eigum við auðveldara með að segja þeim frá fagnaðarerindinu á áhrifaríkan hátt.