Skóli sem hjálpar okkur að heimfæra námsefnið
1 Þegar við förum yfir efnið í námsskrá Boðunarskólans fyrir árið 2006, reynum við að læra af kenningum Biblíunnar með því að heimfæra þær upp á heilaga þjónustu okkar og daglegt líf. Við einsetjum okkur að fara eftir því sem við lærum. — Jóh. 13:17; Fil. 4:9.
2 Þátttaka áheyrenda: Námsskráin í ár gerir ráð fyrir viðbótar mínútu fyrir þátttöku áheyrenda í höfuðþáttum biblíulesefnisins. Það þýðir að bróðirinn, sem fær það verkefni að sjá um höfuðþættina, ætti að gæta þess að klára sinn skerf á fimm mínútum í stað sex. Þeir sem svara úr sætunum ættu líka að gæta að tímanum. Með góðum undirbúningi geta þeir sem svara miðlað gagnlegum upplýsingum á 30 sekúndum eða styttri tíma. Um það bil tíu einstaklingar ættu að geta veitt góð svör á þeim fimm mínútum sem ætlaðar eru fyrir þátttöku áheyrenda.
3 Fræðandi ræður: Höfuðþættir biblíulesefnisins og kennsluræðan ættu að fjalla um gildi efnisins fyrir boðunarstarfið og daglegt líf okkar að öðru leyti. Ræðumaðurinn ætti að gera meira en að hvetja áheyrendur til dáða. Hann ætti að tilgreina hvað það er sem þarf að gera, sýna hvernig farið er að því og benda á hvaða blessun það hefur í för með sér. Hann ætti að geta sagt: „Þannig veitir þessi ritningarstaður okkur leiðsögn“ eða: „Þannig gætum við notað þessi vers í boðunarstarfinu.“ Öldungar og þjónar sem þekkja vel aðstæður á svæðinu ættu að leitast við að heimfæra efnið eins nákvæmlega og hægt er.
4 Þegar efnið er heimfært getur verið einstaklega áhrifaríkt að vitna í biblíufrásögu. Ræðumaðurinn gæti sagt eftir að hafa vitnað í ritningarstaðinn: „Þú gætir líka lent í svipaðri aðstöðu.“ Hann ætti einnig að fullvissa sig um að heimfærsla biblíufrásögunnar sé í fullu samræmi við samhengið, Biblíuna í heild og þau rit sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur gefið út. — Matt. 24:45.
5 Viska er hæfileiki til að nota þekkingu og skilning með góðum árangri. „Upphaf viskunnar er: afla þér visku.“ (Orðskv. 4:7) Höldum áfram að afla okkur visku með námi okkar í boðunarskólanum og reynum líka að bæta okkur í listinni að miðla henni til annarra.