Förum aftur til þeirra sem sýndu boðskapnum einhvern áhuga
1 Mörg okkar eru í sannleikanum vegna þess að einhver tók eftir jákvæðum viðbrögðum okkar við boðskapnum um ríkið og kom aftur — ef til vill mörgum sinnum — til að glæða áhugann. Við ættum líka að fara samviskusamlega aftur til allra sem sýna einhvern áhuga. Endurheimsóknir eru hluti af því mikilvæga verkefni að gera fólk að lærisveinum. — Matt. 28:19, 20.
2 Komum auga á áhuga: Þótt húsráðandi þiggi ekki rit hjá okkur geta svipbrigði, raddtónn eða orðaval gefið til kynna að hann hafi einhvern áhuga á boðskapnum. Ef svo er ættum við ekki að hika við að fara aftur til viðkomandi. Bróðir nokkur heimsótti mann í hverri viku, fimm vikur í röð, án þess að maðurinn tæki við ritum. Í sjöttu heimsókninni þáði hann rit og að lokum var hafið biblíunámskeið með honum.
3 Ef þú verður var við áhuga skaltu fara fljótt aftur, jafnvel eftir nokkra daga. Ekki gefa ‚hinum vonda‘ tækifæri til að ræna því sem búið er að sá í hjarta húsráðandans. (Matt. 13:19) Vertu ákveðinn í að standa við orð þín ef þú hefur lofað að koma aftur á ákveðnum tíma. — Matt. 5:37.
4 Í götustarfinu: Gerir þú þitt besta til að fylgja eftir áhuga fólks sem þú hittir í götustarfinu eða þegar þú vitnar óformlega? Í lok samtalsins gætirðu sagt: „Það var gaman að tala við þig. Hvar get ég náð í þig svo að við getum haldið samtalinu áfram seinna?“ Þegar það á við hafa sumir boðberar gefið hinum áhugasama símanúmerið sitt eða spurt hvort þeir ættu að skiptast á símanúmerum. Ef fólk sér þig reglulega í götustarfinu á sama stað er það ef til vill reiðubúið að gefa þér símanúmerið sitt eða heimilisfang. Jafnvel þótt fólk vilji ekki gefa þér þessar upplýsingar geturðu reynt að rækta áhuga þeirra næst þegar þú hittir það í götustarfinu.
5 Það veitir okkur gleði að sjá plöntu blómstra eftir að hafa ræktað hana og vökvað. Á sama hátt veitir það okkur mikla gleði þegar við förum í endurheimsóknir og hjálpum fólki að taka andlegum framförum. (1. Kor. 3:6) Gerum það að markmiði okkar að fara aftur til allra sem sýna boðskapnum einhvern áhuga.