Verum framsækin í þjónustunni
1 Páll postuli hvatti kristna menn til að ganga á vegi Guðs og taka „enn meiri framförum“. (1. Þess. 4:1) Hvað þýðir það fyrir okkur? Meðal annars að við ættum sífellt að leita leiða til að taka meiri þátt í boðunar- og safnaðarstarfinu og reyna alltaf að ‚fullna þjónustu okkar‘. — 2. Tím. 4:5.
2 Ástæðan: Við erum framsækin í þjónustunni af því að okkur langar til að þjóna skapara okkar eftir bestu getu. Við höfum löngun til að vaxa og dafna í trúnni og leita leiða til að standa okkur betur í þjónustu Jehóva. Góðar venjur af réttum hvötum hjálpa okkur til að ná markmiðum í þjónustunni. — Sálm. 1:1, 2; Fil. 4:6; Hebr. 10:24, 25.
3 Við verðum að þroska með okkur gjafmildi og fórnfýsi þegar við vinnum að því að auka þátt okkar í boðunar- og safnaðarstarfinu. Slíka eiginleika getum við áunnið okkur með því að vera bænrækin og hugleiða gott fordæmi Jesú. (Matt. 20:28) Jesús naut mikillar gleði allan þann tíma sem hann veitti öðrum þjónustu. (Post. 20:35) Við getum líkt eftir honum með því að sýna fólki persónulegan áhuga og vera vakandi fyrir tækifærum til að sækja fram í þjónustunni. — Jes. 6:8.
4 Hlutverk foreldra: Það er hægt að innræta börnum á unga aldri löngun til að þjóna öðrum og vera framsækin í boðunarstarfinu. Ung börn taka eftir áhuga annarra í fjölskyldunni og hve duglegir þeir eru að auka þátttöku sína í þjónustunni. Drengur nokkur vann með afa sínum að því að sinna verkefnum í söfnuðinum. Dugnaður afans og ánægja urðu honum hvatning til að þjóna trúbræðrum sínum. Hann er nú safnaðarþjónn.
5 Þörf fyrir fleiri bræður: „Sækist einhver eftir [þjónustustarfi innan safnaðarins], þá girnist hann fagurt hlutverk.“ (1. Tím. 3:1) Þessi orð hvetja bræður til að sækjast eftir að verða hæfari til að sinna fleiri verkefnum í söfnuði Jehóva. Það krefst ekki sérstakrar færni né framúrskarandi meðfæddra hæfileika. Framsækinn bróðir leitar fyrst ríkis Guðs og tekur drjúgan þátt í boðunarstarfinu. (Matt. 6:33; 2. Tím. 4:5) Hann reynir að vera öðrum gott fordæmi.
6 Út um allan heim: Jehóva hraðar uppskerustarfinu. (Jes. 60:22) Það er bráðnauðsynlegt fyrir alla þá sem fylgja fordæmi Jesú að taka framförum í boðunar- og safnaðarstarfinu. Í ársskýrslunni fyrir þjónustuárið 2006 má sjá að 248.327 létu skírast. Það eru að meðaltali 680 nýir vottar á hverjum degi! Höldum öll áfram að leita leiða til að taka framförum í þjónustunni.