Ungu bræður, sækist þið eftir þjónustuverkefni?
1. Hvenær ætti ungur bróðir að byrja að taka til sín leiðbeiningarnar sem við finnum í 1. Tímóteusarbréfi 3:1?
1 Ef einhver sækist eftir þjónustuverkefni „þá girnist hann göfugt hlutverk“. (1. Tím. 3:1) Þessi innblásnu orð eru bræðrum hvatning til að leggja sig fram um að verða hæfir til að gegna þjónustuverkefnum í söfnuðinum. Þarftu að vera fullorðinn til þess? Nei. Það er reyndar best að byrja að sækjast eftir þessum verkefnum á meðan maður er enn ungur. Þá geturðu fengið þjálfun og sýnt að þú sért tilbúinn til að verða safnaðarþjónn seinna meir. (1. Tím. 3:10) Hvernig geturðu sótt fram ef þú ert skírður ungur bróðir?
2. Hvernig geturðu glætt með þér fórnfýsi og sýnt hana í verki?
2 Fórnfýsi: Mundu að þú sækist eftir göfugu starfi en ekki titli. Þess vegna er gott að glæða með sér löngun til að hjálpa bræðrum og systrum. Ein leið til þess er að hugleiða það góða fordæmi sem Jesús gaf. (Matt. 20:28; Jóh. 4:6, 7; 13:4, 5) Biddu Jehóva um hjálp til að sýna öðrum persónulegan áhuga. (1. Kor. 10:24) Gætirðu létt undir með þeim sem eru aldraðir eða veikir í söfnuðinum? Býðst þú til að slá grasið, moka snjóinn eða hjálpa til með viðhald á ríkissalnum? Gætirðu boðist til að hafa ræðu í Boðunarskólanum ef það eru forföll? Þú átt eftir að upplifa gleðina sem hlýst af því að gefa af sjálfum sér í þágu annarra. – Post. 20:35.
3. Hvaða máli skiptir það að hafa andlegt hugarfar og hvernig er hægt að þroska það með sér?
3 Andlegt hugarfar: Það er miklu mikilvægara fyrir safnaðarþjóna að hafa andlegt hugarfar heldur en sérstaka hæfileika eða meðfæddar gáfur. Andlegur maður reynir að sjá hlutina eins og Jehóva og Jesús sjá þá. (1. Kor. 2:15, 16) Hann sýnir ávöxt andans í fari sínu. (Gal. 5:22, 23) Hann er kappsfullur trúboði sem lætur hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir öllu öðru. (Matt. 6:33) Þú getur þroskað þinn andlega mann ef þú ert duglegur að sinna sjálfsnámi þínu. Það felur í sér að lesa í Biblíunni daglega, lesa hvert tölublað Varðturnsins og Vaknið!, mæta á samkomur og undirbúa sig fyrir þær. (Sálm. 1:1, 2; Hebr. 10:24, 25) Þegar Páll hvatti hinn unga Tímóteus til að taka andlegum framförum skrifaði hann: „Haf gát á ... fræðslunni.“ (1. Tím. 4:15, 16) Vertu því iðinn við að sinna verkefnum þínum fyrir Boðunarskólann. Undirbúðu þig fyrir boðunarstarfið og taktu reglulega þátt í því. Settu þér andleg markmið eins og til dæmis að verða brautryðjandi, hefja Betelþjónustu eða að sækja Biblíuskólann fyrir einhleypa bræður og reyndu að ná þeim markmiðum sem þú setur þér. Andlegt hugarfar á eftir að hjálpa þér að flýja æskunnar girndir. – 2. Tím. 2:22.
4. Hvers virði eru áreiðanleiki og trúfesti?
4 Áreiðanleiki og trúfesti: Postularnir þurftu ekki að vantreysta bræðrunum á fyrstu öld sem sáu um að færa hinum fátæku í söfnuðinum mat. Þessir bræður voru ,vel kynntir‘, það er að segja þeir voru þekktir fyrir að vera áreiðanlegir og trúfastir. Postularnir gátu því hugað að öðrum mikilvægum málum. (Post. 6:1-4) Þegar þér er treyst fyrir verkefni í söfnuðinum er þess vegna mikilvægt að þú gerir eins vel og þú getur. Líktu eftir Nóa, en þegar hann smíðaði örkina fór hann vandlega eftir þeim leiðbeiningum sem hann fékk. (1. Mós. 6:22) Jehóva kann að meta trúfesti og hún ber einnig vott um þroska í trúnni. – 1. Kor. 4:2. Sjá rammann „Gagnleg þjálfun“.
5. Hvers vegna ættu ungir bræður að sækja fram?
5 Jehóva er að hraða starfinu eins og spáð var fyrir. (Jes. 60:22) Að meðaltali láta 250.000 manns skírast á hverju ári. Þar sem svo margir nýir koma inn til sannleikans er þörf fyrir andlega menn sem eru hæfir til að sinna ábyrgðastörfum innan safnaðarins. Aldrei hefur verið jafn mikið að gera í þjónustu Jehóva. (1. Kor. 15:58) Þið ungu bræður, sækist þið eftir þjónustuverkefnum? Ef þið gerið það sækist þið svo sannarlega eftir göfugu hlutverki.
[Innskot á bls. 2]
Þar sem svo margir nýir koma inn til sannleikans er þörf fyrir andlega menn sem eru hæfir til að sinna ábyrgðastörfum innan safnaðarins.
[Rammi á bls. 3]
Gagnleg þjálfun
Hæfir ungir bræður njóta góðs af þegar öldungar veita þeim verkefni og þjálfa þá. Farandhirðir sat upp á sviði og var að uppörva boðbera nokkurn eftir samkomu. Þá tók hann eftir því að ungur bróðir stóð þar nærri svo að hann spurði unga bróðurinn hvort hann væri að bíða eftir að ná tali af sér. Hann svaraði því til að það væri sitt verkefni að ryksuga sviðið eftir samkomur. Foreldrar hans voru tilbúnir að fara en hann vildi ekki fara fyrr en hann hefði lokið við verkefni sitt. Farandhirðirinn færði sig með ánægju af sviðinu. Hann sagði síðar: „Öldungarnir í þessum söfnuði voru vanir að þjálfa unga bræður og gefa þeim verkefni. Þess vegna var algengt að þeir mæltu með ungum bræðrum sem safnaðarþjónum á þeim tíma sem ég heimsótti söfnuðinn.“