Líktu eftir Jesú
1. Hvaða fordæmi gaf Jesús?
1 Þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu verðum við að muna eftir því að fordæmi okkar getur haft sterk áhrif á þá sem fylgjast með okkur. Jesús kenndi í orði og verki. Þeir sem sáu til hans tóku eftir eldmóði hans, kærleika til fólks, einlægri löngun til að helga nafn föður síns og hversu staðráðinn hann var í að framkvæma vilja föður síns. — 1. Pét. 2:21.
2. Hvernig getur fordæmi okkar haft jákvæð áhrif á þá sem eru með okkur í boðunarstarfinu?
2 Í boðunarstarfinu hús úr húsi: Líkt og hjá Jesú hefur fordæmi okkar áhrif á þá sem eru með okkur í boðunarstarfinu. Þegar nýir og óreyndir boðberar sjá ákefð okkar í boðunarstarfinu hugsa þeir um hvernig þeir geta gert boðunarstarfi sínu betri skil. Þegar þeir sjá gleði okkar og einlægan áhuga á öðrum minnir það þá á hversu mikilvægt það er að sýna slíka eiginleika í boðunarstarfinu. Þegar þeir sjá að við erum dugleg við að nota Biblíuna, fara í endurheimsóknir og halda biblíunámskeið fá þeir hvatningu til að gera hið sama.
3. Hvað geta biblíunemendur lært af fordæmi okkar?
3 Á biblíunámskeiðum: Biblíunemendur okkar taka vel eftir því sem við gerum. Þótt við útskýrum til dæmis fyrir þeim að það sé mikilvægt að undirbúa sig fyrir námið, fletta upp ritningarstöðunum og strika undir aðalatriðin, munu þeir taka eftir því hvort við erum undirbúin eða ekki. (Rómv. 2:21) Ef við erum stundvís munu þeir síður láta önnur hugðarefni trufla biblíunámskeiðið. Og þeir munu örugglega taka eftir sterkri trú okkar og fúsleika til að færa fórnir vegna boðunarstarfsins. Það kemur því ekki á óvart að nemendur boðbera sem fylgja vandlega fordæmi Jesú verða oft sjálfir kostgæfir boðberar sem bera mikinn ávöxt.
4. Hvað geta aðrir lært af fordæmi okkar þegar við erum á samkomum?
4 Á safnaðarsamkomum: Allir þeir sem eru í kristna söfnuðinum eiga þátt í að kenna með fordæmi sínu á safnaðarsamkomum. Áhugasamir, sem byrja að sækja samkomur, njóta góðs af góðu fordæmi annarra safnaðarmanna. Þeir munu taka eftir kærleikanum sem ríkir milli trúsystkina, kristinni einingu, siðlegum klæðaburði og snyrtilegu útliti. (Sálm. 133:1) Þeir taka auk þess eftir góðu fordæmi okkar þegar við mætum reglulega á samkomur og tjáum trú okkar. Gestkomandi á einni samkomu tók eftir því hve fljótt lítil stúlka fann ritningarstað í biblíunni sinni og hversu vel hún fylgdist með þegar hann var lesinn. Fordæmi hennar fékk gestinn til að biðja um biblíunámskeið.
5. Hvers vegna ættum við aldrei að vanmeta gildi þess að setja gott fordæmi?
5 Biblían hvetur okkur til að líkja eftir góðu fordæmi annarra. (Fil. 3:17; Hebr. 13:7) Við ættum þess vegna að muna að aðrir taka eftir því ef við líkjum vandlega eftir fordæmi Jesú og það getur haft jákvæð áhrif á þá. Með þetta í huga skulum við því taka til okkar ráðin í 1. Tímóteusarbréfi 4:16: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni.“