Sérstakt tækifæri til að gleðjast og næra okkar andlega mann
1. Hvernig uppfyllir Jehóva andlegar þarfir þjóna sinna?
1 Jehóva er annt um þjóna sína og uppfyllir andlegar þarfir þeirra. Flestir í heiminum svelta andlega en við erum hins vegar vel nærð. (Jes. 65:13) Jehóva notar meðal annars landsmótin til að sjá okkur fyrir andlegri næringu. Hefur þú gert ráðstafandir til að vera viðstaddur alla dagskrána á næsta landsmóti sem ber stefið „Látum anda Guðs leiða okkur“? Búið er að skipuleggja andlega veislu fyrir okkur með gómsætri og næringarríkri fæðu.
2. Hvað þurfum við að gera til að undirbúa okkur fyrir mótið?
2 Undirbúðu þig: „Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel.“ (Orðskv. 21:5) Þú þarft því að undirbúa þig til að geta verið viðstaddur alla þrjá mótsdagana. Ef þú þarft að fá frí frá vinnu skaltu ekki fresta því að tala við yfirmann þinn. Hefurðu fengið gistingu ef þú kemur langt að? Þú þarft líka að hugsa um að taka með hádegismat svo að þú getir borðað með trúsystkinum þínum á mótsstaðnum. Sjáðu til þess að þú getir mætt nógu snemma til að finna sæti og vera með í upphafssöngnum og bæninni.
3. Hvernig ættum við að vera til fara?
3 Við þurfum að gæta þess að vera látlaus og snyrtilega til fara. (1. Tím. 2:9, 10) Landsmótin gefa okkur einstakt tækifæri til að sýna öðrum hvernig vottar Jehóva hegða sér. Við skerum okkur úr og gefum jákvæða mynd af vottum Jehóva með því að vera virðuleg í klæðaburði og hafa barmmerkin á okkur.
4. Hvað getur hjálpað okkur og fjölskyldu okkar að hafa sem mest gagn af dagskránni?
4 Hlustaðu með athygli: Við viljum vafalaust ekki missa af neinu sem borið er fram í þessari andlegu veislu. (Orðskv. 22:17, 18) Með því að fylgjast með í Biblíunni þegar ritningarstaðir eru lesnir og skrifa stutta minnispunkta getum við einbeitt okkur betur að dagskránni og leitt hjá okkur truflanir. Um kvöldið getum við síðan rætt við aðra um áhugaverð atriði sem komu fram á mótinu. Á undanförnum árum hefur borið á því að sum ungmenni sitji saman og tali á meðan á dagskránni stendur eða sendi SMS-skilaboð. Ef við eigum börn, þar á meðal unglinga, gæti verið gott að öll fjölskyldan sitji saman og hlusti á dagskrána í stað þess að leyfa börnunum að sitja annars staðar hjá jafnöldrum sínum.
5. Hvernig getum við haft enn meiri ánægju af mótinu?
5 Njóttu félagsskaparins: Gómsæt máltíð verður enn betri ef hennar er neytt með vinum. (Orðskv. 15:17) Að sama skapi getur félagsskapur við trúsystkini stuðlað að því að við höfum enn meiri ánægju af mótinu. Þegar dagskráin er ekki í gangi er því mjög gefandi að eiga frumkvæðið að því að kynnast öðrum mótsgestum og njóta félagsskapar við þá. (Sálm. 133:1) Þegar kynnirinn býður okkur að setjast rétt áður en tónlistin hefst ættum við að binda enda á samtöl okkar við aðra og vera komin í sætin áður en dagskráin byrjar.
6. Segðu frá eigin reynslu sem sýnir hvernig við getum vitnað fyrir fólki eftir mótsdagskrána.
6 Notaðu öll tækifæri til að vitna: Mótin gefa oft góð tækifæri til að vitna fyrir öðrum. Sumir mótsgestanna fara til dæmis á veitingarstaði eftir dagskrána og þjónustufólk eða aðrir spyrja stundum út í stef mótsins á barmmerkinu. Þetta hefur leitt til samræðna og borið sannleikanum fagurt vitni. Sumir sem sýna áhuga hafa þegið boð um að koma á mótið.
7. Hvers vegna ættum við öll að mæta á næsta landsmót?
7 Þúsundum klukkustunda hefur verið varið í það að undirbúa dagskrána, finna hentuga mótsstaði, skipuleggja ýmsar mótsdeildir og æfa ræðurnar. Öll sú mikla vinna, sem hefur verið lögð í undirbúninginn fyrir þessa andlegu veislu, er merki um umhyggju Jehóva fyrir þjónum sínum. Við skulum öll mæta og vera dugleg að næra okkar andlega mann. Þá munum við, ólíkt heiminum, „fagna af hjartans gleði“. — Jes. 65:14.
[Rammi á blaðsíðu 4]
Til minnis
◼ Dagskrártímar: Dagskráin hefst kl. 9:20 alla þrjá dagana. Þegar inngangstónlistin hefst ættu allir að fá sér sæti svo að dagskráin geti hafist á sómasamlegan hátt. Dagskránni lýkur kl. 16:55 á föstudegi og laugardegi og kl. 16:00 á sunnudegi.
◼ Sæti: Við ættum aðeins að taka frá sæti fyrir heimilisfólk okkar og þá sem eru okkur samferða.
◼ Hádegisverður: Komdu með hádegisverðinn í stað þess að yfirgefa mótsstaðinn til að fá þér að borða. Hægt er að hafa litla tösku með sér undir matinn. Ekki er leyfilegt að hafa glerílát eða áfengi á mótsstaðnum.
◼ Framlög: Það er nokkuð kostnaðarsamt að halda landsmót. Við getum sýnt þakklæti okkar með frjálsum framlögum til alþjóðastarfsins, annaðhvort í ríkissalnum eða á mótinu.
◼ Slys og neyðartilfelli: Ef upp kemur neyðartilfelli á mótsstaðnum skal láta næsta salarvörð vita og mun hann hafa samband við Skyndihjálp. Þá geta hæfir einstaklingar metið stöðuna, veitt viðeigandi aðstoð eða hringt í neyðarlínuna ef þess er þörf.
◼ Heyrnarskertir: Í mótssalnum er ákveðið svæði með tónmöskva ætlað fólki með skerta heyrn. Þeir sem hafa viðeigandi heyrnartæki geta nýtt sér þetta. Einnig standa til boða fáein þráðlaus heyrnartól en hljóðdeildin veitir frekari upplýsingar um þau.
◼ Ilmefni: Flest mót fara fram innandyra þar sem þörf er á loftræstikerfi. Það væri því tillitsamt af okkur að takmarka notkun á sterkum ilmefnum, rakspírum og ilmvötnum því að þau gætu valdið þeim óþægindum sem eru með öndunarfærasjúkdóma eða annað svipað. — 1. Kor. 10:24.
◼ Fylgjum eftir áhuga: Hvað ættum við að gera ef við vitnum óformlega fyrir fólki yfir mótshelgina og það sýnir áhuga? Við ættum að biðja viðkomandi um nafn og heimilisfang eða símanúmer þar sem hægt er að nálgast hann aftur. Ef við höfum ekki tækifæri til að fylgja áhuganum eftir sjálf ættum við að koma upplýsingunum á framfæri við annan boðbera sem getur annast heimsóknina. Ef þú ert ekki viss um hvert þú átt að snúa þér getur ritarinn í þínum söfnuði aðstoðað þig. — Sjá Ríkisþjónustu okkar í febrúar 2005 bls. 7.