Spurningakassinn
◼ Hvað þurfa hjónaefni að ræða við öldungana ef þau óska eftir að láta gefa sig saman í ríkissalnum?
Brúðkaup, sem eru haldin í samræmi við meginreglur Biblíunnar, eru Jehóva til heiðurs. Það er sérstaklega mikilvægt að hafa þetta í huga ef hjónavígslan fer fram í ríkissalnum vegna þess að samfélagið lítur svo á að allt sem fram fer þar gefi ákveðna mynd af söfnuði okkar. Við viljum að „allt fari sómasamlega fram og með reglu“ þannig að þegar brúðhjón óska eftir að þau verði gefin saman í ríkissalnum ættu öldungarnir að ræða við þau um ýmis mál tengd því. — 1. Kor. 14:40.
Hjónaefni, sem vilja láta gefa sig saman í ríkissalnum, ættu að leggja beiðnina skriflega fyrir starfsnefnd safnaðar sem sækir þann ríkissal. Beiðnin þarf að koma með góðum fyrirvara og þar þarf að koma fram hvaða dag og hvenær dagsins óskað er eftir afnotum af salnum. Hjónaefnin ættu að hafa hugfast að öldungarnir breyta ekki samkomutímum til að hliðra til fyrir brúðkaupi. Og þau þurfa bæði að vera í góðu áliti og lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar og réttláta mælikvarða Jehóva.
Til að tryggja að hjónavígslan sé Guði okkar til sóma ættu hjónaefnin að ræða við starfsnefndina um fyrirkomulag hjónavígslunnar áður en gengið er frá smáatriðum. Öldungarnir reyna ekki að þröngva eigin smekk upp á hjónaefnin. Ef þau hafa hugsað sér eitthvað, sem ekki á við í ríkissalnum, ættu þau hins vegar að breyta því. Aðeins ætti að nota tónlist úr söngbókinni okkar eða af geisladiskunum Kingdom Melodies. Ef skreyta á ríkissalinn eða endurraða stólum þarf samþykki starfsnefndarinnar fyrir því. Ef teknar eru ljósmyndir við athöfnina eða hún tekin upp á myndband má það ekki spilla virðuleika athafnarinnar. Öldungarnir geta leyft að fram fari æfing í ríkissalnum svo framarlega sem hún truflar ekki safnaðarstarfið. Ekki ætti að nota tilkynningatöflu safnaðarins til að bjóða til hjónavígslunnar. Hins vegar geta öldungarnir tilkynnt söfnuðinum stuttlega á þjónustusamkomu um væntanlega hjónavígslu.
Það er ekki skilyrði að allir, sem ganga með brúðhjónunum inn í salinn við athöfnina, séu skírðir vottar. Hins vegar væri ekki viðeigandi að þar færu einstaklingar sem lifðu í hróplegu ósamræmi við meginreglur Biblíunnar eða vektu spurningar í hugum viðstaddra vegna hegðunar sinnar. Ef þess er kostur ætti öldungur að flytja hjónavígsluræðuna. Öldungar eru hæfir biblíukennarar og eru því best til þess fallnir að leggja áherslu á þær biblíulegu meginreglur sem eiga við mikilvægan atburð af þessu tagi. — 1. Tím. 3:2.
Þar eð hjónavígslan hefur líka áhrif á orðstír öldungsins, sem gefur hjónin saman, ætti að upplýsa hann fyrir fram um allt sem viðkemur athöfninni. Hann hittir hjónaefnin til að spyrjast fyrir um siðferði þeirra í tilhugalífinu og þau ættu að vera opinská og hreinskilin við hann. Áður en hægt er að gefa hjón saman þarf að ganga frá svokallaðri hjónavígsluskýrslu. Hún er vottorð um að öllum hjónavígsluskilyrðum sé fullnægt og sömuleiðis vottorð svaramanna sem ábyrgjast að engir lagatálmar séu á fyrirhuguðum hjúskap. Hjónaefnin þurfa að leggja fram (1) fæðingarvottorð frá Þjóðskrá, (2) persónuskilríki, (3) vottorð frá Þjóðskrá um hjúskaparstöðu eða sambærilegt vottorð frá erlendu yfirvaldi og (4) gögn um að fyrra hjónabandi sé lokið ef hjónaefnin, annað eða bæði, hafa verið gift áður. Það getur tekið sinn tíma að afla allra gagna þannig að mikilvægt er hjónaefnin hugsi um það með góðum fyrirvara.
Ef hjónaefnin eiga gott samstarf við öldungana og eru hreinskilin og opinská stuðlar það að því að brúðkaupið verði ánægjulegt fyrir alla. — Orðskv. 15:22; Hebr. 13:17.