Kristin brúðkaup sem gleðja
1, 2. Hvernig bregðast flestir við orðinu „brúðkaup“ og hvers vegna? (Matteus 19:4-6)
JÓHANNES postuli skýrir svo frá atviki sem hann var sjónarvottur að: „[Það] var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans.“ — Jóhannes 2:1, 2.
2 Hver eru viðbrögð þín við þessum orðum í Jóhannesi 2:1, 2? Ekki er ólíklegt að þau ylji þér um hjartaræturnar, því að orðið „brúðkaup“ er tengt ánægju og gleði. Fólk hefur ánægju af brúðkaupum. Eins og við lesum í 1. Mósebók 2:18-24 átti fyrsta brúðkaupið sér stað í paradís þegar mennirnir voru syndlausir. Það brúðkaup fullkomins manns og konu var skipulagt af skapara okkar og blessað af honum. Það var reisn yfir því og það var góð fyrirmynd brúðkaupum sem síðar myndu verða.
3. Hvaða anda setur Ritningin í samband við brúðkaup en hvaða erfiðleikar hafa komið upp? (Jeremía 7:34)
3 Að hafa ánægju af brúðkaupi er í samræmi við það sem við lesum í orði Guðs. Sálmur 45:16 kemst svo að orði um gesti í konunglegu brúðkaupi: „Þær eru leiddar inn með fögnuði og gledi, þær fara inn í höll konungs.“ Fögnuður og gleði kemur líka fram þegar talað er um brúðkaup í dæmisögum Biblíunnar. (Matteus 22:2-4; 25:1-10; Opinberunarbókin 19:6-9) Já, þótt verið sé að stíga alvarleg skref — hjón að bindast heilögum hjúskaparböndum — ætti að minnast brúðkaups sem gleðilegs og virðulegs atburðar. Fregnir úr öllum heimshornum gefa hins vegar til kynna að oft nái brúðkaup ekki því marki heldur valdi brúðhjónunum erfiðleikum og hryggð og gestunum leiðindum. Það hefur gerst jafnvel í sumum brúðkaupum þjóna Jehóva. Hvers vegna?
4. (a) Hvers vegna eru flest brúpkaup opinber atburður? (b) Hvað sagði Jesús um það að geftast á okkar tímum?
4 Í flestum löndum geta hjón látið gefa sig saman við fámenna athöfn sem fullnægir lagalegum skilyrðum. Ef hjón kjósa að láta gefa sig þannig saman ættu aðrir ekki að gagnrýna þau fyrir eða halda að þau hljóti að skammast sín fyrir eitthvað. Vera má að þau vilji einfaldlega heldur fara þannig að, og það getur jafnvel haft ýmsa kosti, svo sem fjárhagslega ef þau eru að búa sig undir ríkari þátttöku í þjónustu Jehóva. (Lúkas 12:29-31) Flest brúðkaup eru þó frekar fjölmenn og margir vinir og ættingjar viðstaddir. Hin breytta staða brúðhjónanna verður þar með alkunn í samfélaginu. Fari fram trúarleg athöfn eða flutt biblíuræða er brúðkaupið með andlegu ívafi. Og aðrir geta tekið þátt í gleði brúðhjónanna. Allt er þetta jákvætt. Stór og fjölmenn brúðkaup eru þó ekki með öllu hættulaus, einkum núna þegar heimurinn er svo niðursokkinn í að ‚kvænast og giftast‘ að ‚menn vita ekki‘ að hið illa heimskerfi er brátt að taka enda. — Matteus 24:37-39.
5. Hverjir ættu að hafa áhuga á heilræðum Guðs um brúðkaup?
5 Ef þú sérð fyrir þér gleðiríkt, kristið brúðkaup í framtíðinni er ýmislegt sem þú ættir að hugleiða. En við öll, sem kunnum að vera gestir eða þátttakendur í kristnum brúðkaupum, getum líka haft gagn af að hugleiða heilræði Biblíunnar þar að lútandi.
Vandamálið óhóf
6. Hvers konar vandamál geta komið upp í sambandi við stór og fjölmenn brúðkaup?
6 Fyrir margt veraldlegt fólk getur stórt brúðkaup verið stöðutákn, áþreifanlegt sönnunargagn um góðan efnahag eða þjóðfélagsstöðu. Því miður geta jafnvel kristnir menn látið leiðast út í að reyna að sýnast fyrir öðrum með skrúðklæðnaði eða öðru óhófi. (Galatabréfið 5:26) Nokkrir kristnir öldungar í Vestur-Afríku fundu nýverið að „sterkri tilhneigingu til að ‚apa eftir‘ heiminum í siðum, sýndarmennsku og taumlausum gleðskap“ í brúðkaupum. Það dregur úr þeirri reisn og gleði sem er sæmandi í lífi þeirra sem ‚hegða sér ekki lengur eftir mannlegum girndum eða lúta vilja holdsins.‘ (Efesusbréfið 2:3) Í stað gleði og góðra minninga hafa slík brúðkaup oft í för með sér ‚lauslæti, fjandskap, deilur, meting, öfund og ofdrykkju‘ — verk holdsins. — Galatabréfið 5:19-21.
7. Hvað getur komið sumum til að vilja halda íburðarmikil brúðkaup?
7 Sagan segir okkur að þegar Tólómeus VI. Fílometor hafi gefið Alexander Balas af Sýrlandi dóttur sína, hafi þeir haldið „brúðkaup hennar í Tólómeu eins og konungar (eru vanir), með mikilli dýrð.“ (1. Makkabeabók 10:58, Ísl. bi. 1859) Nú til dags finnst mörgum, sem hafa takmarkað fé handa á milli, að þeir (eða börnin þeirra) þurfi líka að giftast ,eins og konungar eru vanir, með mikilli dýrð.‘ Kannski hafa þeir látið auglýsingar koma þeirri hugmynd inn hjá sér. Kaupsýslumenn, sem hagnast á því að fólk haldi fjölmenn og íburðarmikil brúðkaup, ala á draumsýn um brúði sem sé „drottning dagsins“ rétt eins og ákveðnar tegundir prentaðra boðskorta, ljósmynda, blóma eða giftingarhringja sé trygging fyrir hinu fullkomna brúðkaupi. Þeir vilja fá þig til að hugsa: ‚Í þetta eina skipti verðskulda ég hið allra besta‘ — hvort sem þú hefur efni á því eða ekki. Þetta „auðæfa-oflæti“ tilheyrir heiminum sem er að liða undir lok. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Sumir kristnir öldungar hafa látið slík orð falla: „Við höfum veitt athygli samkeppnisanda. [Til dæmis] vegna áhrifa frá veraldlegum siðum geta brúðurin og fylgdarlið hennar skipt um dýra búninga allt að fjórum eða fimm sinnum.“
8. (a) Hvað getum við lært af Biblíunni um brúðkaupsklæði? (b) Hvers vegna hafa sumir kristnir menn valið sér brúðkaupsklæði sem raun ber vitni?
8 Biblían gefur ekki til kynna að brúðkaup þurfi að vera sem allra fábrotnust og einföldust. Til dæmis lesum við um það „þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu.“ (Jesaja 61:10; Sálmur 45:14, 15; Jesaja 49:18; Jeremía 2:32; Esekíel 16:9-13; Opinberunarbókin 21:2) Hinni táknrænu brúði Krists er svo lýst að hún hafi „skínandi og hreint lín til að skrýðast í.“ Því er viðeigandi fyrir brúðina og brúðgumann (og fylgdarlið þeirra) að klæðast hreinum og smekklegum fötum, en þau þarfnast ekki skrúða sem leggur á þau erfiða fjárhagsbyrði. Sum brúðhjón hafa af ásettu ráði valið sér mun ódýrari fatnað en þau höfðu ráð á. Hvers vegna? Til að forðast klæðnað sem að vísu gæti vakið aðdáun en um leið valdið gestunum óróa eða spillt hinni einföldu reisn, gleði og andlegu ívafi brúðkaupsins. — Opinberunarbókin 19:8; Orðskviðirnir 11:2; 1. Tímóteusarbréf 2:9.
9. Hvernig ættum við að líta á siði og venjur í sambandi við brúðkaup?
9 Önnur orsök óhófs í brúðkaupum er óþörf áhersla á form og siði — hina fjölmörgu „helgisiði“ sem „sérfræðingar“ í hegðunarvenjum segja að fylgja verði. Það þýðir ekki að þjónar Guðs hafni af ásettu ráði öllu sem tíðkast á hverjum stað í sambandi við brúðkaup.a Biblían segir frá því að í tengslum við brúðkaup hafi ‚Samson haldið veislu því að sá var háttur ungra manna.‘ (Dómarabókin 14:10) Þrælsleg hlýðni við formsatriði getur hins vegar sett slíkan svip á brúðkaup að raunverulegt gildi atburðarins hverfi í skuggan af þeim og það ræni alla þeirri gleði sem ríkja ætti.
Löglega gift — á tímum Biblíunnar og nú
10. Hvernig fóru brúðkaup fram á tímum Biblíunnar?
10 Við getum lært sitthvað af því sem Biblían segir um brúðkaup jafnvel þótt siðir kunni að vera aðrir núna og þar sem við búum. Á tímum Biblíunnar var engrar sérstakrar laga- eða trúarlegar athafnar krafist. Brúðguminn fór einfaldlega heim til unnustu sinnar og leiddi hana fyrir almenningssjónum heim til sín. Fögnuður ríkti með brúðhjónunum, nánum ættingjum þeirra og áhorfendum sem fylgdust af áhuga með þessum gleðiríka atburði. Venjulega voru brúðhjónin prúðbúin og á heimili brúðgumans var haldin veisla þangað sem gestum var boðið. — 1. Mósebók 24:65-67; Matteus 1:24; 25:1-10; samanber 1. Makkabeabók 9:37, 39.
11. Hvaða skjölum þurfti að ganga frá til forna í sambandi við brúðkaup?
11 Þjóðir umhverfis Hebreana höfðu lög sem kröfðust skriflegs hjúskaparsáttmála. Þótt Biblían nefni ekki slík skjöl talar hún um hjónabandið sem ‚sáttmálsgjörð.‘ (Malakí 2:14) Hinar ítarlegu ættarskrár Biblíunnar benda til að á einhvern hátt hafi verið haldin skrá um hjónabönd, og athygli vekur að Jósef og María fóru eftir kröfu yfirvalda um skrásetningu. (Lúkas 2:1-5; 3:23-38) Papýrusrit frá fimmtu öld f.o.t. frá Gyðinganýlendu í Elefantín (Egyptalandi) hafa að geyma hjúskaparsáttmála. Einn hljóðar svo:
‚. . . Ég er kominn í hús þitt til að þú gefur mér dóttur þína Míftaja fyrir eiginkona mín og ég er eiginmaður hennar frá þessum degi ævinlega. Ég haf gefið þér sem brúðarverð fyrir dóttur þína Míftaja fimm sikla . . .
12. (a) Hvernig líta vottar Jehóva á borgaralega hjónavígslu? (b) Hvað er ráðlegt ef haldin er bæði borgaraleg og trúarleg hjónavígsluathöfn?
12 Vottar Jehóva gera sér grein fyrir að brúðkaup ætti að samræmast lögum á hverjum stað, og með því ‚keisaranum goldið það sem keisarans er.‘ (Markús 12:17; Rómverjabréfið 13:1, 7) Lög kunna að krefjast þess að brúðhjón láti gera á sér blóðpróf, afli sér leyfis og vinni heit frammi fyrir löggiltum vígslumanni. Í sumum löndum mega aðeins opinberir embættismenn, svo sem bæjarstjórar eða dómarar, gefa saman hjón. Þó finnst þeim sem tilheyra kirkjum kristna heimsins oft að hjónavígsla sé ekki fullkomin fyrr en haldið hefur verið kirkjubrúðkaup. Sannkristnir menn viðurkenna að borgaraleg hjónavígsla er fullgild, en sumir vilja samt sem áður (eða almenningsálit mælir með því) að flutt sé biblíuleg ræða að lokinni hinni borgaralegu athöfn. Þegar svo er gert er best að það sé sem fyrst eftir hina borgaralegu hljónavígslu.b
13. Ef kristinn öldungar á að gefa saman hjón, hvað mun hann líklega gera fyrir brúðkaupið?
13 Í sumum löndum hafa nokkrir vottar Jehóva umboð yfirvalda að gefa saman hjón, venjulega safnaðaröldungar — menn sem búa yfir reynslu, innsæi, þroska og þekkingu á orði Guðs. Öldungur, sem beðinn er að annast hjónavígslu, mun líklega halda fyrirfram fund með hinum væntanlegu brúðhjónum. Þau munu eðlilega vilja fullvissa hann um að engin fyrirstaða sé lagalega eða siðferðilega fyrir því að þau gangi í hjónaband. Hann kann að gefa góð, biblíuleg heilræði og föðurleg ráð. Hann mun líklega einnig ræða við þau hvernig athöfninni skulu háttað, svo og brúðkaupsveislunni ef slík er haldin, því hann mun vilja hafa hreina samvísku í sambandi við þennan atburð sem hann er nú beðinn að gegna stóru hlutverki í. — Orðskviðirnir 1:1-4; 2:1; 3:1; 5:15-21; Hebreabréfið 13:17, 18.
14. Hvers konar brúpkaupsræður eru viðeigandi?
14 Hvort sem áður fer fram borgaraleg hjónavígsla eða ekki getur brúðkaupsræða, sem flutt er af þjóni orðsins í söfnuði votta Jehóva, lagt áherslu á að allt frá byrjun ætti hjónaband að vera með andlegu ívafi. Slíkar ræður eru ekki langar, rétt eins og tíunda þurfi í þeim allt sem Biblían segir um hjónaband, og þær ættu ekki heldur að einkennast um of af glensi eða lofgjörð um brúðhjónin. Hið öfgalausa, biblíulega efni í slíkum ræðum getur verið til gagns þeim sem eru að ganga í hjónaband, svo og öllum öðrum viðstöddum.c — 1. Tímóteusarbréf 3:16.
15. Í hverju eru þau heit, sem vottar Jehóva nota, ólík öðrum heitum sem stundum eru notuð nú?
15 Heit eru hluti af flestum hjónavígslum. Við sumar „nútímalegar“ veraldlegar hjónavígslur eru gefin heit sem stundum eru soðin saman úr kynlegum kveðskap, eða þá láta í ljós sérkennileg lífsviðhorf. Í ritgerð í tímaritinu Time um „hættuna af heimagerðum heitum“ var sagt frá presti sem spurði: „Gunna, lofarðu að elska Pétur heitar en þú elskar súkkulaði?“ Síðan spurði hann Pétur: „Lofar þú að elska Gunnu heitar en morgunblaðið?“ Greinin lagði þó áherslu á að „hjónavígsla væri opinber athöfn“ og ætti að heiðra það þýðingarmikla, þjóðfélagslega skref sem verið er að stíga. Þegar hjón eru gefin saman hjá vottum Jehóva muni heitin samræmast kröfum laganna á hverjum stað. Á Íslandi eru brúðhjón látin gefa þessi heit sem heiðra Guð, stofnanda hjónabandsins:
Vilt þú, (fullt nafn mannsins) frammi fyrir Jehóva Guði og í návist þessara votta, taka þér (fullt nafn konunnar) fyrir eiginkonu, og heitir þú að elska hana og annast í samræmi við lög Guðs um eiginmenn eins og þau koma fram í heilagri Ritningu, svo lengi sem þið bæði lifið eða Jehóva lætur hjúskaparfyrirkomulagið standa?
Vilt þú, (fullt nafn konunnar) frammi fyrir Jehóva Guði og í návist þessara votta, taka þér (fullt nafn mannsins) fyrir eiginmann og heitir þú að elska hann og virða í samræmi við lög Guðs um eiginkonur eins og þau koma fram í heilagri Ritningu, svo lengi sem þið bæði lifið eða Jehóva lætur hjúskaparfyrirkomulagið standa?d
Hjónavígslur í Ríkissalnum
16, 17. (a) Hvernig tengist öldungaráðið brúðkaupum sem haldin eru í Ríkissalnum? (Jakobsbréfið 3:17) (b) Hvers vegna er það ráðlegt?
16 Kristnum mönnum er sagt að giftast ‚aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39) Þegar tveir velmetnir kristnir einstaklingar í söfnuðinum óska að hafa hjónavígsla sína (eða brúðkaupsræðu) í Ríkissalnum ættu þeir að óska leyfis hjá öldungaráðinu.e Öldungarnir munu ekki krefjast að þeirra persónulegi smekkur ráði því hvernig brúðkaupið fer fram, þótt þeir muni spyrjast fyrir um hvað brúðhjónin hafi í hyggju, til að ekkert verði gert í Ríkissalnum sem líklegt er að valdi söfnuðinum óróa. — Samanber 1. Korintubréf 14:26-33.
17 Til dæmis hefur frést af ýmsu miður æskilegu sem gerst hefur í brúðkaupum sem ekki voru haldin í Ríkissalnum. Í einu slíku var byrjað á að leika háværa tónlist og síðan komu brúðurin, brúðguminn og fylgdarlið þeirra dansandi inn í salinn sem tekinn hafði verið á leigu. Gestirnir fóru að dansa með þangað til sá sem stýrði athöfninni stöðvaði leikinn til að hægt væri að flytja hjónavígsluræðuna að lokinni bæn. Ljóst er að þetta var ekki rétta andrúmsloftið í kristnu brúðkaupi. Það sýnir hins vegar hvers vegna öldungarnir gæta varúðar þegar brúðkaup í Ríkissalnum eru annars vegar. Í Ríkissalnum er aðeins leikin uppbyggjandi tónlist svo sem finna má í söngbók votta Jehóva. Blóm eða aðrar skreytingar ættu að vera innan hóflegra marka, og eins ætti að gæta smekkvísi í því hvernig brúðhjónin og fylgdarlið ganga inn í salinn og hvernig ljósmyndir eru teknar. — Filippíbréfið 4:5.
18. Hverjir geta fylgt brúðinni og brúðgumanum við hjónavígsluna? (1. Korintubréf 5:13; Jakobsbréfið 2:1-4)
18 Á tímum Biblíunnar var venjulega einhver „vinur brúðgumanns“ og konur sem fylgdu brúðinni. (Jóhannes 3:29; Sálmur 45:15) Svo er einnig oft við brúðkaup í Ríkissalnum. Þó þarf að gæta hófs í því hversu margar brúðarmeyjar og brúðarsveinar eru, hvernig þau klæðast og hvað þau gera. Óviðeigandi væri að hafa í fylgdarliðinu eða sem svaramenn fólk sem er burtrekið eða lifir hneykslanlegu lífi sem er í grófu misræmi við meginreglur Biblíunnar. (2. Korintubréf 6:14-16) Í stað þess að velja sér fólk sem gegnir virðingarstöðum eða gæti gefið dýrir gjafir kjósa mörg kristin brúðhjón (og ræðumenn) að hafa í fylgdarliðinu þá sem standa þeim nærri í þjónustunni við Jehóva.
19. Hvað annað mun stuðla að því að gera brúðkaup í Ríkissalnum ánægjuleg?
19 Ef nota á Ríkissalinn má lesa stutta tilkynningu um hvenær brúðkaupið fer fram. Þannig mun söfnuðurinn vita að salurinn verður notaður og að allir geta verið viðstaddir ef þeir vilja. Þar sem Ríkissalurinn er fyrst og fremst ætlaður fyrir kristnar samkomur verður brúðkaupið haldið á tíma sem stangast ekki á við þær. Hvenær sem það fer fram ber það vott um kærleika og tillitssemi að allir séu stundvísir. Í dæmisögu, sem Jesús sagði um brúðkaup „dvaldist brúðgumanum“ sem olli verulegum vandamálum fyrir suma. — Matteus 25:1-12.
20. Hvað annað, sem varðar brúðkaup, verðskuldar athygli okkar?
20 Spámaðurinn Jesaja talar um hvernig „brúðgumi gleðst yfir brúði.“ (Jesaja 62:5) Brúðurin gleðst einnig á brúðkaupsdegi sínum. Margir aðrir óska brúðhjónunum alls hins besta og ‚gleðjast mjög‘ yfir kristnum brúðkaupum. (Jóhannes 3:29) Í hófi eftir hjónavísgsluna, brúðkaupsveislu, fær sú gleði oft góða útrás og getur jafnvel aukist. Hvaða ráð gefur Jehóva í orði sínu sem stuðla munu að ánægju frekar en vandamálum í slíkum samkvæmum? Við skulum athuga það.
[Neðanmáls]
a Sjá umræðu um brúðkaupsvenjur í Varðturninum á ensku þann 15. janúar 1969, bls. 58 0g 59.
b Ef langur tími liði á milli gæti það hneykslað fólk í byggðarlaginu, hvort sem brúðhjónin byggju saman á meðan eða ekki. — 1. Korintubréf 6:3.
c Slíkar ræður má byggja á biblíulegri umræðu í Varðturninum þann 1. febrúar 1970, bls. 32-37 og 1. ágúst 1978 bls 5-17, einnig enskri útgáfu Varðturnsins þann 1. maí 1974, bls. 274-7.
d Ef hjónabandið hefur verið fullgilt áður af borgaralegum embættismanni og kristin brúðkaupsræða er haldin á eftir, getur sá sem ræðuna flytur nefnt að hin lagalegu skref hafi þegar verið stigin. Sum brúðhjón kjósa samt sem áður að endurtaka þessi heit frammi fyrir Guði og söfnuðinn.
e Stundum hafa tveir einstaklingar, sem þjóna Guði og bíða þess að láta skírast á móti innan skamms, verið gefnir saman í Ríkissalnum.
Mannstu eftir þessu?
□ Hvaða hættur þurfa kristnir menn að varast í sambandi við íburðarmikil brúðkaup?
□ Hvaða afstöðu taka vottar Jehóva til borgaralegrar eða trúarlegrar hjónavígsluathafnar?
□ Hvernig geta ákvarðanir brúðhjóna í sambandi við brúðkaupsathöfnina aukið gleðina af atburðinum?
□ Hvers konar brúðkaup má halda í Ríkissalnum?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Með fögnuði og reisn leiddi hinn hebreski brúðgumi brúði sína heim