Nýjar aðferðir við að kynna ritin meðal almennings
1. Hvaða fordæmi gáfu kristnir menn á fyrstu öld?
1 Kristnir menn á fyrstu öld prédikuðu ekki bara hús úr húsi heldur alls staðar þar sem fólk var að finna. (Post. 20:20) Þeir fóru til dæmis í helgidóminn því að þeir vissu að þar gætu þeir fundið fullt af fólki. (Post. 5:42) Þegar Páll postuli var í Aþenu boðaði hann trúna á hverjum degi fyrir þeim sem voru á markaðstorginu. (Post. 17:17) Ein helsta leið okkar til að ná til fólks nú til dags er að fara hús úr húsi en við störfum líka í fyrirtækjum, almenningsgörðum, á bílastæðum, fjölförnum göngugötum og annars staðar þar sem við finnum fólk til að tala við. Allir boðberar eru hvattir til að boða trúna meðal almennings. Nú fá hins vegar margir að vera með í nýju og spennandi starfi sem fram fer á götum úti og annars staðar þar sem fólk hópast saman.
2. Hvaða tilraunaverkefni hófst í nóvember 2011?
2 Sérstakur vitnisburður í stórborgum: Eins og skýrt var frá í árbókinni 2013, bls. 16-17, hófst tilraunaverkefni í New York í nóvember 2011. Borðum og ritatrillum með fallegum auglýsingaskiltum og ritum á nokkrum tungumálum var komið fyrir á áberandi stöðum í borginni þar sem margir voru á ferli. Á hverjum degi gengu þar þúsundir manna fram hjá, meðal annars þeir sem búa í læstum byggingum þar sem aðgangur er bannaður og þeir sem eru sjaldan heima hjá sér. Viðbrögðin voru ótrúleg. Í einum mánuðinum dreifðu boðberar 3.797 blöðum og 7.986 bókum. Margir sem áttu leið hjá báðu um biblíunámskeið. Þar sem aðaláherslan var lögð á að stofna biblíunámskeið var heimilisföngum fólks komið fljótt til viðkomandi safnaðar sem sá um að fylgja áhuganum eftir.
3. Hverju hefur nú verið hleypt af stokkunum um allan heim?
3 Vegna þess hve vel gekk í upphafi hefur þessu starfi nú verið hleypt af stokkunum um allan heim í þéttbýlum stórborgum. Deildarskrifstofur á hverjum stað ákveða í hvaða borgum þetta starf muni henta. Þetta geta verið borgir með samgöngumiðstöðvum sem tengja aðrar borgir eða lönd. Þetta geta líka verið staðir þar sem mikið er um skrifstofubyggingar og háhýsi og því er þar múgur og margmenni. Deildarskrifstofan hefur samband við þá söfnuði sem taka þátt í verkefninu og gefur þeim nánari leiðbeiningar. Brautryðjendur og sérbrautryðjendur eru fengnir til að taka þátt í verkefninu en sums staðar hafa aðstoðarbrautryðjendur einnig fengið að hjálpa til.
4. Hvernig fer þetta sérstaka starf fram?
4 Hvernig fer þetta sérstaka starf fram? Þeir sem eru þátttakendur í þessu sérstaka starfi bíða venjulega eftir því að fólk komi að borðinu eða ritatrillunni. Þegar einhver kemur nærri er honum boðið að fá rit sem höfða til hans. Brautryðjendur svara auðvitað spurningum fólks með glöðu geði og nota til þess Biblíuna. Ef einhver tekur rit minnast brautryðjendurnir ekki á frjálsu framlögin að fyrra bragði, en ef einhver spyr hvernig starfssemin er fjármögnuð útskýra þeir að hægt sé að senda framlög á póstfangið sem auglýst er í ritinu. Þegar tækifæri gefst spyrja þeir: „Viltu fá heimsókn?“ eða „vissirðu að þessu riti fylgir ókeypis biblíunámskeið?“
5. Hvernig fannst hjónum einum það gefandi að fá að taka þátt í þessu starfi?
5 Það er mjög gefandi að taka þátt í þessu starfi. Hjón ein skrifuðu: „Þegar við stöndum við borðið og fylgjumst með þúsundum manna ganga fram hjá daglega erum við minnt á það magnaða starf sem gert er út um allan heim. Að fá að sjá allan þennan fólksfjölda og hugsa til þess að Jehóva elskar hvern einasta einstakling hefur gert okkur enn ákveðnari í að halda áfram að láta boðunarstarfið vera þungamiðjuna í lífi okkar. Við sjáum fyrir okkur hvernig Jehóva ,skannar‘ hjörtu allra sem ganga fram hjá og leitar eftir þeim sem hafa rétt hjartalag. Sjaldan hefur okkur fundist við svo náin englunum, samverkamönnum okkar.“
6. (a) Hvers konar starf er verið að undirbúa í mörgum söfnuðum og hvernig er það frábrugðið starfinu í stórborgunum? (b) Hvernig geta söfnuðir forðast óþarfa árekstra í tengslum við starfið meðal almennings?
6 Starf meðal almennings í söfnuðinum þínum: Í starfinu í stórborgunum hefur deildarskrifstofan valið ákveðin svæði og boðbera úr mörgum söfnuðum til að starfa þar saman. Öldungaráð víðs vegar hafa aftur á móti skipulagt annars konar starf á sínum safnaðarsvæðum. Þetta starf er frábrugðið starfinu í stórborgunum að því leyti að boðberar notast við borð eða ritatrillur á fjölförnum stöðum innan safnaðarsvæðisins. – Sjá rammann: „Góð samvinna er nauðsynleg.“
7. Hvernig skipuleggja öldungar starf á almenningsstöðum þar sem það hentar?
7 Öldungar ræða hvort finna megi fjölfarna almenningsstaði á safnaðarsvæðinu og reyna að komast að raun um hvort þessi nýja starfsaðferð henti þar. Það mætti til dæmis setja upp borð eða vera með ritatrillur í almenningsgörðum, háskólagörðum, á stórum biðstöðvum, torgum, fjölförnum götum, verslanamiðstöðvum, flugvöllum eða stöðum þar sem haldnir eru árlegir viðburðir. Það er mjög gott að geta verið með borð á sama stað, sömu daga og á sama tíma dags. Reynst hefur betur að vera með borð í verslanamiðstöðvum frekar en fyrir utan stórverslanir þar sem fólk kemur í þeim eina tilgangi að versla inn. Ritatrillur væri hins vegar best að nota á stöðum eins og fjölförnum göngugötum eða gangstéttum. Öldungar geta hlaðið niður skrám af Netinu sem notaðar verða til að búa til auglýsingaskilti með myndum af Varðturninum, Vaknið! og bókinni Hvað kennir Biblían? Þessar skrár hafa sérstaklega verið hannaðar með starf á almenningsstöðum í huga. Þátttakendur í þessu starfi fara eins að og þeir sem starfa í stórborgunum og ættu að fylgja náið leiðsögn starfshirðisins. Ef þeir fá heimilisföng hjá áhugasömu fólki, sem býr utan safnaðarsvæðisins, ættu þeir að fylla út eyðublaðið Vinsamlegast fylgið eftir (S-43) og afhenda það ritara eins fljótt og auðið er.
8. Ef starf á almenningsstöðum er ekki skipulagt í söfnuðinum þínum hvernig gætir þú samt starfað á slíkum svæðum?
8 Allir geta starfað meðal almennings: Kannski hafa sumir söfnuðir enga staði á starfssvæði sínu þar sem er nógu mikið af fólki á ferðinni til að það borgi sig að setja upp borð eða nota ritatrillur. En jafnvel í þeim söfnuðum eru boðberar hvattir til að vera vakandi fyrir tækifærum til að vitna fyrir fólki alls staðar þar sem það er að finna. Eru til dæmis verslunargötur eða stórverslanir á svæðinu? Hvað með almenningsgarða eða aðra staði þar sem fólk safnast saman? Eru reglulega haldnir einhverjir viðburðir á svæðinu? Ef svo er getið þið líka tekið þátt í að kynna ritin á meðal almennings.
9. Af hverju ættum við að vera vakandi fyrir því að boða trúna fyrir fólki hvar sem það er að finna?
9 Það er vilji Jehóva að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:4) Þess vegna reynum við að ná til eins margra og mögulegt er áður en endirinn kemur. (Matt. 24:14) Á mörgum stöðum er erfitt að hitta fólk heima. En kannski gætum við náð tali af því annars staðar. Það gæti verið eina leiðin fyrir suma til að fá að heyra fagnaðarboðskap Biblíunnar. Við skulum því fullna þjónustu okkar með því að boða trúna fyrir fólki hvar sem það er að finna. – 2. Tím. 4:5.
[Rammi á bls. 5]
Góð samvinna er nauðsynleg
Fréttir hafa borist af því að boðberar nærliggjandi safnaða starfi stundum í sömu götu, á sama bílaplani eða fyrir framan sömu verslanir. Boðberar mismunandi safnaða hafa skilið eftir rit á sömu stöðum eins og biðstofum, almenningsþvottahúsum og fyrirtækjunum. Þetta hefur orðið til þess að pirra starfsfólk og nágranna í hverfinu, jafnvel þótt boðberar hafi ekki verið að starfa þar á sama tíma. Þess vegna er best að starfa á því svæði sem tilheyrir söfnuðinum þínum þegar vitnað er fyrir fólki á almenningsstöðum.
Ef boðberar vilja starfa á starfssvæði nágrannasafnaðar ættu þeir að tala við starfshirðinn sinn. Hann getur þá haft samband við starfshirði nágrannasafnaðarins og fengið leyfi áður en boðberarnir byrja að starfa þar. Á þeim svæðum þar sem fleiri en einn málhópur eða söfnuður starfa ættu starfshirðar allra safnaða að vinna vel saman til að ónáða ekki fólkið á svæðinu að óþörfu. Með góðri samvinnu getur allt farið „sómasamlega fram og með reglu“. – 1. Kor. 14:40.
[Mynd á bls. 6]
[Mynd á bls. 6]