Ágúst verður sögulegur mánuður
Nýju smáriti verður dreift um allan heim
1. Hvaða sérstaka átak verður gert um alla jörðina þar sem 100 ár verða brátt liðin frá stofnun Guðsríkis?
1 Brátt verða 100 ár liðin frá stofnun Guðsríkis og því við hæfi að við heiðrum Jehóva með sérstöku átaki. Í ágúst tökum við þátt í að dreifa nýju smáriti um allan heim. Smáritið heitir Hvar finnum við svör við stóru spurningunum? Í þessu smáriti eru lesendur hvattir til að leita svara í Biblíunni og einnig er útskýrt hvernig má fá hjálp á jw.org.
2. Hvernig getum við átt þátt í að lofa Jehóva með „miklu fagnaðarópi“ í ágúst?
2 Mikið lof og fagnaðaróp: Sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar fyrir þá sem vilja gerast aðstoðarbrautryðjendur í ágúst til að hjálpa þeim að auka starf sitt. Þá verður skírðum boðberum gefinn kostur á að starfa 30 klukkustundir sem aðstoðarbrautryðjendur. Þar sem fimm helgar eru í ágústmánuði hafa boðberar, í fullri vinnu eða skóla, möguleika á að gerast aðstoðarbrautryðjendur. Ef biblíunemandi þinn er langt kominn í náminu eða þú átt barn sem vill verða boðberi skaltu ræða við umsjónarmann öldungaráðsins sem fyrst. Það væri þeim til mikillar uppörvunar að slást í hóp boðbera í þessum þýðingarmikla mánuði. Þrátt fyrir að margir brautryðjendur taki sér frí í ágústmánuði, eftir að hafa náð árlega tímamarkmiðinu, þá gætu þeir hugsanlega endurskoðað stundaskrá sína til að geta tekið sem mestan þátt í þessu sérstaka átaki. Nú er rétti tíminn fyrir fjölskyldur að ræða saman um það hvernig þær geti lofað Jehóva með því að taka undir hið ,mikla fagnaðaróp‘ í ágústmánuði. – Esra. 3:11; Orðskv. 15:22.
3. Hverju vonumst við til að áorka með þessu sérstaka átaki?
3 Þótt við höfum áður tekið þátt í svipuðu dreifingarátaki vonum við að þetta verði sögulegt. Náum við nýju meti í fjölda klukkustunda, boðbera og aðstoðarbrautryðjenda í ágúst? Nú þegar við nálgumst lok þjónustuársins 2014 biðjum við að Jehóva blessi viðleitni þjóna sinna um allan heim þannig að í ágúst verði starfað meira en gert hefur verið í nokkrum mánuði hingað til! – Matt. 24:14.