Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w20 mars bls. 24-29
  • Elskum hvert annað af öllu hjarta.

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Elskum hvert annað af öllu hjarta.
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • VINNUM AÐ FRIÐI
  • MISMUNUM EKKI FÓLKI
  • VERUM GESTRISIN
  • Verum gestrisin – það er bæði ánægjulegt og mikilvægt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Þroskumst í kærleikanum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Höldum áfram að styrkja kærleikann hvert til annars
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Gleðstu yfir eigin framförum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
w20 mars bls. 24-29

NÁMSGREIN 13

Elskum hvert annað af öllu hjarta

„Elskið hvert annað af öllu hjarta.“ – 1. PÉT. 1:22.

SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars

YFIRLITa

Jesús talar við trúfasta lærisveina sína.

Síðasta kvöldið sem Jesús var með postulunum lagði hann áherslu á kærleikann. (Sjá 1. og 2. grein.)

1. Hvaða skýru fyrirmæli gaf Jesús lærisveinum sínum? (Sjá mynd á forsíðu.)

KVÖLDIÐ áður en Jesús dó gaf hann lærisveinum sínum skýr fyrirmæli. Hann sagði þeim: „Elskið hver annan eins og ég hef elskað ykkur.“ Síðan bætti hann við: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ – Jóh. 13:34, 35.

2. Hvers vegna er mikilvægt að við sýnum hvert öðru kærleika?

2 Jesús sagði að allir myndu geta séð hverjir væru sannir lærisveinar hans ef þeir sýndu sama kærleika og hann. Þannig var það á fyrstu öld og þannig er það enn þann dag í dag. Þess vegna er mjög mikilvægt að við sýnum hvert öðru kærleika, líka þegar reynir á.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Ófullkomleikinn gerir okkur erfitt fyrir að elska hvert annað af öllu hjarta. En við verðum að reyna að líkja eftir Kristi. Í þessari grein lærum við hvernig kærleikur hjálpar okkur að vinna að friði, forðast að mismuna fólki og vera gestrisin. Þegar farið er yfir efni greinarinnar skaltu spyrja sjálfan þig: Hvað get ég lært af bræðrum og systrum sem hafa sýnt hvert öðru kærleika þótt það hafi verið erfitt?

VINNUM AÐ FRIÐI

4. Hvers vegna eigum við að sættast við trúsystkini sem hefur eitthvað á móti okkur, samanber Matteus 5:23, 24?

4 Jesús kenndi okkur mikilvægi þess að sættast við trúsystkini sem hefur eitthvað á móti okkur. (Lestu Matteus 5:23, 24.) Hann lagði áherslu á að við verðum að varðveita gott samband við aðra ef við viljum þóknast Guði. Það gleður Jehóva þegar við gerum okkar besta til að sættast við trúsystkini okkar. Hann hefur ekki velþóknun á tilbeiðslu okkar ef við látum ekki af gremju í garð annarra og neitum jafnvel að vinna að friði. – 1. Jóh. 4:20.

5. Hvað gerði Mark erfitt fyrir að vinna að friði?

5 Það gæti verið erfitt að ná sáttum. Hvers vegna? Íhugum það sem Markb upplifði. Honum sárnaði þegar bróðir gagnrýndi hann og talaði illa um hann við aðra í söfnuðinum. Hvernig brást Mark við? „Ég reiddist og missti stjórn á skapi mínu,“ segir hann. En hann sá síðar eftir því hvernig hann hagaði sér. Hann reyndi að biðja bróðurinn afsökunar og sættast við hann. Bróðirinn vildi hins vegar ekki sættast. „Hvers vegna ætti ég að halda áfram að reyna fyrst hann vill ekki ná sáttum?“ hugsaði Mark með sér í fyrstu. En farandhirðirinn hvatti hann til að gefast ekki upp. Hvað gerði Mark?

6. (a) Hvernig leitaðist Mark við að vinna að friði? (b) Hvernig fór Mark eftir Kólossubréfinu 3:13, 14?

6 Þegar Mark leit í eigin barm áttaði hann sig á að hann skorti auðmýkt og að hann hafði tilhneigingu til að vera ánægður með sig. Hann gerði sér grein fyrir að hann þurfti að breyta hugarfari sínu. (Kól. 3:8, 9, 12) Hann fór aftur til bróðurins og baðst auðmjúkur afsökunar. Mark skrifaði líka bróðurnum nokkur bréf þar sem hann sagði að hann sæi eftir hegðun sinni og vildi að þeir yrðu vinir aftur. Hann gaf jafnvel bróðurnum litlar gjafir sem hann hélt að hann kynni að meta. Því miður vildi bróðirinn ekki fyrirgefa honum og var honum áfram reiður. Mark hélt samt sem áður áfram að hlýða fyrirmælum Jesú um að elska bróður sinn og vera fús til að fyrirgefa. (Lestu Kólossubréfið 3:13, 14.) Jafnvel þegar aðrir bregðast ekki við viðleitni okkar til að sættast hjálpar ósvikinn kristinn kærleikur okkur að halda áfram að fyrirgefa þeim og biðja Jehóva um að allt fari vel að lokum. – Matt. 18:21, 22; Gal. 6:9.

Klippimynd: Systir reynir endurtekið að sýna vinkonu sinni sem hún hefur móðgað kærleika. 1. Systirin sem móðgaðist vill ekki svara þegar vinkona hennar hringir í hana. 2. Systirin sem móðgaðist afþakkar gjöf vinkonu sinnar. 3. Systirin sem móðgaðist hlustar þegar vinkona hennar fullvissar hana um að hún elski hana.

Við gætum þurft að fara ýmsar leiðir til að ná sáttum við þann sem hefur eitthvað á móti okkur. (Sjá 7. og 8. grein.)c

7. (a) Hvað hvatti Jesús okkur til að gera? (b) Hvaða erfiðu aðstæðum lenti systir ein í?

7 Jesús hvatti okkur til að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Hann sagði líka að við ættum ekki að takmarka kærleika okkar við þá sem endurgjalda kærleikann. (Lúk. 6:31–33) Hvað nú ef einhver í söfnuðinum forðast þig og vill ekki heilsa þér? Það er óvanalegt að slíkt gerist en það henti Löru. „Systir ein hunsaði mig og ég vissi ekki hvers vegna. Ég varð kvíðin og hafði ekki ánægju af að mæta á samkomur,“ segir hún. „Þetta er ekki mér að kenna,“ hugsaði hún í fyrstu, „öðrum í söfnuðinum finnst líka þessi systir haga sér undarlega.“

8. Hvað gerði Lara til að vinna að friði og hvað getum við lært af henni?

8 Lara gerði eitthvað í málinu til að ná sáttum við systurina. Hún bað til Jehóva og ákvað að tala við hana. Þær ræddu vandamálið, föðmuðust og sættust. Allt virtist vera í lagi. „En seinna fór systirin að koma fram við mig eins og hún hafði áður gert. Mér leið svo illa yfir því,“ segir Lara. Hún hélt að hún gæti tekið gleði sína á ný aðeins ef systirin breytti framkomu sinni. En að lokum áttaði hún sig á að það besta sem hún gat gert var að halda áfram að koma fram við systur sína af kærleika og ,fyrirgefa henni fúslega‘. (Ef. 4:32–5:2) Lara hafði hugfast að ósvikinn kristinn kærleikur „heldur ekki reikning yfir rangindi ... Hann umber allt, trúir öllu, vonar allt, er þolgóður í öllu“. (1. Kor. 13:5, 7) Hún endurheimti innri frið. Með tímanum varð systirin vingjarnlegri við hana. Við getum verið viss um að ,Guð kærleikans og friðarins verður með okkur‘ þegar við vinnum að friði við bræður okkar og systur og höldum áfram að sýna þeim kærleika. – 2. Kor. 13:11.

MISMUNUM EKKI FÓLKI

9. Hvers vegna megum við ekki mismuna fólki, samanber Postulasöguna 10:34, 35?

9 Jehóva mismunar ekki fólki. (Lestu Postulasöguna 10:34, 35.) Þegar við gerum það ekki heldur sýnum við fram á að við erum börn hans. Við hlýðum þannig boðinu um að elska náunga okkar eins og sjálf okkur og við varðveitum friðinn innan okkar andlegu fjölskyldu. – Rómv. 12:9, 10; Jak. 2:8, 9.

10, 11. Hvernig sigraðist systir nokkur á neikvæðum tilfinningum?

10 Sumum getur reynst erfitt að fara ekki í manngreinarálit. Tökum systur að nafni Ruth sem dæmi. Þegar hún var unglingur varð hún fyrir slæmri reynslu af hendi einstaklings frá öðru landi. Hvaða áhrif hafði það á hana? Hún viðurkennir: „Ég þoldi ekkert við þetta land. Ég setti allt fólk frá þessu landi undir sama hatt, jafnvel bræður og systur.“ Hvernig sigraðist Ruth á þessum neikvæðu tilfinningum?

11 Ruth gerði sér grein fyrir að hún þurfti að leggja hart að sér og breyta hugarfari sínu. Hún las frásögur og skýrslur í árbókinni um landið. „Ég lagði mig í líma við að hugsa jákvætt um fólkið í landinu,“ segir hún. „Ég tók eftir að bræður og systur elskuðu Jehóva heitt. Mér varð ljóst að þau eru líka hluti af alheimsbræðralagi okkar.“ Ruth skildi með tímanum að hún þurfti að gera meira. Hún segir: „Í hvert sinn sem ég hitti bræður og systur frá þessu landi lagði ég mig sérstaklega fram um að vera vingjarnleg við þau. Ég talaði við þau og kynntist þeim betur.“ Hver var árangurinn? Ruth segir: „Neikvæðu tilfinningarnar hurfu smám saman.“

Tvenn hjón í ríkissal hlæja þegar þau skoða síma. Það liggur vel á þrem ungum bræðrum í bakgrunni sem tala saman. Eldri bróðir er svekktur að enginn skuli bjóða sér að taka þátt í umræðunum.

Ef við ,elskum allt bræðrasamfélagið‘ innilega forðumst við að mismuna fólki. (Sjá 12. og 13. grein.)d

12. Hvert var vandamálið hjá systur að nafni Sarah?

12 Sumir gætu mismunað fólki án þess að gera sér grein fyrir því. Sarah til dæmis hélt að hún væri óhlutdræg vegna þess að hún dæmdi ekki fólk út frá kynþætti, fjárhagsstöðu eða ábyrgð þess innan safnaðarins. En hún viðurkennir: „Ég fór að átta mig á að ég mismunaði samt fólki.“ Að hvaða leyti? Sarah kom úr vel menntaðri fjölskyldu og vildi helst umgangast fólk með sama bakgrunn. Hún sagði jafnvel vini sínum eitt sinn: „Ég umgengst trúsystkini sem eru vel menntuð. Ég forðast þau sem eru það ekki.“ Sarah þurfti augljóslega að breyta hugarfari sínu. Hvernig?

13. Hvað getum við lært af því hvernig Sarah breytti hugarfari sínu?

13 Farandhirðir hjálpaði Söruh að sjá sjálfa sig í réttu ljósi. Hún segir: „Hann hrósaði mér fyrir trúfasta þjónustu, góð svör og biblíuþekkingu. Síðan útskýrði hann að samfara vaxandi þekkingu verðum við að þroska með okkur kristna eiginleika eins og auðmýkt, hógværð og miskunnsemi.“ Sarah tók orð farandhirðisins til sín. „Ég áttaði mig á að það sem mestu máli skiptir er að við séum vingjarnleg og kærleiksrík,“ segir hún. Fyrir vikið fór hún að sjá bræður og systur í öðru ljósi. Hún útskýrir: „Ég reyndi að koma auga á þá eiginleika sem Jehóva metur mikils í fari þeirra.“ Hvað um okkur? Við myndum aldrei vilja telja okkur æðri öðrum vegna menntunar okkar. Ef við ,elskum allt bræðrasamfélagið‘ innilega forðumst við að mismuna fólki. – 1. Pét. 2:17.

VERUM GESTRISIN

14. Hvaða áhrif hefur það á Jehóva þegar við sýnum öðrum gestrisni samkvæmt Hebreabréfinu 13:16?

14 Jehóva metur gestrisni mikils. (Lestu Hebreabréfið 13:16.) Í augum hans er hún hluti af tilbeiðslu okkar, sérstaklega þegar við hjálpum þeim sem eru hjálparþurfi. (Jak. 1:27; 2:14–17) Biblían hvetur okkur því til að ,temja okkur gestrisni‘. (Rómv. 12:13) Við sýnum öðrum ást, umhyggju og vináttu þegar við erum gestrisin. Það gleður Jehóva þegar við gefum öðrum smá snarl, eitthvað að drekka, máltíð eða af tíma okkar og athygli. (1. Pét. 4:8–10) Hins vegar gæti eitthvað fengið okkur til að hika við að sýna gestrisni.

Systir sýnir hjónum með búnað fyrir byggingarvinnu gestaherbergi.

„Áður fyrr langaði mig ekki til að sýna gestrisni. En ég hef breyst og hlotið mikla gleði fyrir vikið.“ (Sjá 16. grein.)e

15, 16. (a) Hvers vegna gætu sumir veigrað sér við því að sýna gestrisni? (b) Hvað hjálpaði Edit að byrja að sýna gestrisni?

15 Við gætum veigrað okkur við því að sýna gestrisni vegna aðstæðna okkar. Skoðum dæmi ekkju nokkurrar sem heitir Edit. Áður en hún gerðist vottur vildi hún ekki hafa mikið samband við aðra. Henni fannst aðrir í betri aðstöðu til að sýna gestrisni.

16 Eftir að Edit varð vottur breyttist viðhorf hennar. Hún ákvað að byrja að sýna gestrisni. Hún segir: „Þegar verið var að byggja ríkissalinn okkar sagði öldungur mér frá hjónum sem ætluðu að koma og hjálpa til við verkið. Hann spurði hvort ég gæti boðið þeim gistingu í tvær vikur. Ég mundi hvernig Jehóva blessaði ekkjuna í Sarefta.“ (1. Kon. 17:12–16) Edit tók að sér að hýsa hjónin. Hlaut hún blessun fyrir? Hún segir: „Tvær vikur urðu að tveim mánuðum og við bundumst nánum vináttuböndum.“ Edit hefur líka eignast nána vini í söfnuðinum. Nú er hún brautryðjandi og hefur gaman af að fá þau sem hún vinnur með í boðuninni heim í hressingu. Hún segir: „Mér líður vel af að gefa. Og ég fæ ákaflega mikið til baka.“ – Hebr. 13:1, 2.

17. Hvað uppgötvuðu Luke og eiginkona hans?

17 Við sýnum kannski gestrisni nú þegar. En getum við gert enn betur? Tökum dæmi. Luke og konan hans eru gestrisin hjón. Þau höfðu fyrir vana að bjóða heim foreldrum sínum, ættingjum, nánum vinum og farandhirðinum og konu hans. En Luke segir: „Við uppgötvuðum að við buðum aðeins þeim sem voru okkur nánir.“ Hvernig tóku Luke og konan hans framförum í að sýna gestrisni?

18. Hvernig tóku Luke og konan hans framförum í að sýna gestrisni?

18 Luke og konan hans skildu hvað það merkir að vera gestrisinn í raun eftir að hafa hugleitt það sem Jesús sagði: „Hvaða laun hljótið þið ef þið elskið þá sem elska ykkur?“ (Matt. 5:45–47) Þau gerðu sér ljóst að þau þurftu að líkja eftir Jehóva sem er örlátur við alla. Þau ákváðu því að bjóða heim bræðrum og systrum sem þau höfðu ekki boðið áður. Luke segir: „Við höfum öll svo mikla ánægju af þessum samverustundum. Þær hafa verið hvetjandi og uppbyggjandi fyrir alla.“

19. Hvernig sýnum við fram á að við erum lærisveinar Jesú og hvað ætlar þú að gera?

19 Við höfum lært að þegar við elskum hvert annað innilega getur það hjálpað okkur að vinna að friði, mismuna ekki fólki og að vera gestrisin. Við verðum að vinna bug á öllum neikvæðum tilfinningum í garð bræðra okkar og systra og elska þau af öllu hjarta. Þá verðum við hamingjusöm og við sýnum fram á að við erum sannir lærisveinar Jesú. – Jóh. 13:17, 35.

HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT KÆRLEIKA AF ÖLLU HJARTA MEÐ ÞVÍ AР...

  • vinna að friði?

  • mismuna ekki fólki?

  • vera gestrisin?

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

a Jesús sagði að fólk myndi þekkja sannkristna menn á kærleikanum sem þeir sýna hver öðrum. Kærleikur til bræðra okkar og systra knýr okkur til að vinna að friði, forðast að mismuna fólki og til að vera gestrisin. Það getur verið þrautin þyngri. Í þessari grein fáum við að vita hvernig við getum elskað hvert annað af öllu hjarta án afláts.

b Sumum nöfnum í greininni hefur verið breytt.

c MYND: Systir reynir að koma á sáttum. Það skilar ekki strax árangri en hún gefst ekki upp. Hún heldur áfram að sýna kærleika og það ber árangur að lokum.

d MYND: Eldri bróður finnst hann vera út undan í söfnuðinum.

e MYND: Systir sem hikaði við að sýna gestrisni í fyrstu breytti viðhorfi sínu og varð hamingjusamari fyrir vikið.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila