ÆVISAGA
Við lærðum að segja aldrei nei við Jehóva
FELLIBYLUR hafði gengið yfir og ólgandi mórauð áin bar með sér stóra hnullunga. Við þurftum að komast yfir ána en vatnsflaumurinn hafði skolað brúnni burt. Við Harvey maðurinn minn og sá sem túlkaði fyrir okkur á amis vorum hrædd og bjargarlaus. Við lögðum af stað út í ána og trúsystkini okkar hinum megin árinnar fylgdust áhyggjufull með. Við höfðum ekið litla bílnum okkar upp á pallinn á vörubíl sem var litlu stærri. Síðan ók vörubíllinn varlega út í straumharða ána. Við höfðum enga kaðla eða keðjur til að festa bílinn á pallinum og ferðin yfir virtist aldrei ætla að taka enda. Við vorum á bæn alla leiðina og komumst yfir heilu og höldnu. Þetta var 1971 og við vorum á austurströnd Taívan, mörg þúsund kílómetrum frá heimalöndum okkar. Ég skal segja ykkur sögu okkar.
VIÐ LÆRUM AÐ ELSKA JEHÓVA
Harvey var elsti sonurinn af fjórum. Fjölskyldan kynntist sannleikanum í Midland Junction í Vestur-Ástralíu í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Harvey elskaði Jehóva og lét skírast 14 ára. Hann lærði fljótlega að hafna aldrei verkefnum sem hann fékk í söfnuðinum. Þegar hann var strákur neitaði hann eitt sinn að lesa í Varðturnsnáminu því að honum fannst hann ekki hæfur til þess. En bróðirinn sem bað hann um það sagði við hann: „Þegar þú ert beðinn um að gera eitthvað í söfnuði Jehóva er það vegna þess að þú ert talinn hæfur til þess.“ – 2. Kor. 3:5.
Ég kynntist sannleikanum á Englandi ásamt mömmu minni og eldri systur. Pabbi var á móti sannleikanum til að byrja með en tók við honum seinna. Í óþökk hans lét ég skírast innan við tíu ára gömul. Ég setti mér það markmið að verða brautryðjandi og svo trúboði. En pabbi leyfði mér ekki að verða brautryðjandi fyrr ég yrði 21 árs. Ég ætlaði mér ekki að bíða svo lengi. Þegar ég var 16 ára leyfði hann mér að flytjast til Ástralíu til eldri systur minnar sem var þegar komin þangað. Loksins þegar ég varð 18 ára byrjaði ég í brautryðjandastarfi.
Á brúðkaupsdeginum okkar árið 1951.
Ég kynntist Harvey í Ástralíu. Okkur langaði bæði til að þjóna Jehóva sem trúboðar. Við giftum okkur 1951. Við höfðum starfað saman sem brautryðjendur í tvö ár þegar við vorum beðin um að byrja í farandstarfi. Farandsvæðið okkar var stór hluti af Vestur-Ástralíu og við keyrðum því oft langar leiðir gegnum afskekkt svæði og eyðimörk.
DRAUMURINN RÆTIST
Gíleaðútskrift á Yankee Stadium árið 1955.
Okkur var boðið að sækja 25. bekk Gíleaðskólans árið 1954. Draumur okkar um að verða trúboðar var innan seilingar! Við komum með skipi til New York og hófum stíft nám í Biblíunni. Í Gíleaðskólanum áttum við líka að læra spænsku sem var erfitt fyrir Harvey því að hann gat ekki lært að trilla r-inu.
Leiðbeinendurnir í skólanum tilkynntu að þeir sem hefðu áhuga á að fara til Japans gætu skráð sig í japönskutíma. Við ákváðum að láta frekar söfnuð Jehóva velja hvert við færum. Stuttu síðar tók Albert Schroeder, einn leiðbeinendanna, eftir að við höfðum ekki skráð okkur. Hann sagði: „Hugsið um það.“ Og þegar við skráðum okkur samt ekki sagði hann: „Við leiðbeinendurnir erum búnir að skrá ykkur. Reynið að læra japönsku.“ Harvey náði japönskunni auðveldlega.
Við komum til Japans 1955. Þá voru ekki nema 500 boðberar í öllu landinu. Harvey var 26 ára og ég var 24. Við vorum send til hafnarborgarinnar Kobe og störfuðum þar í fjögur ár. Svo var okkur boðið að fara aftur í farandstarf og við vorum himinlifandi yfir því. Við þjónuðum í nágrenni borgarinnar Nagoya. Okkur fannst verkefni okkar frábært í alla staði – trúsystkinin, maturinn og umhverfið. Áður en langt um leið fengum við þó nýtt tækifæri til að hafna ekki verkefni frá Jehóva.
NÝTT VERKEFNI MEÐ NÝJUM ÁSKORUNUM
Við Harvey með öðrum trúboðum í Kobe í Japan árið 1957.
Eftir þriggja ára farandstarf spurði deildarskrifstofan í Japan okkur hvort við værum til í að fara til Taívan og boða trúna innfæddum sem tala amis. Fráhvarfsmenn höfðu komið fram og það vantaði bræður á Taívan sem höfðu gott vald á japönsku til að stemma stigu við fráhvarfinu.a Það var erfitt að taka ákvörðun því að við vorum svo ánægð með verkefnið okkar í Japan. En Harvey hafði lært að hafna aldrei verkefnum og því samþykktum við að fara.
Við komum til Taívan í nóvember 1962. Það var 2.271 boðberi á Taívan. Flestir tilheyrðu Amis-ættbálkinum. En við þurftum að byrja á að læra kínversku. Við vorum bara með eina kennslubók og kennara sem talaði ekki ensku. En við lærðum samt málið.
Stuttu eftir að við komum til Taívan var Harvey falið að starfa sem deildarþjónn. Deildarskrifstofan var ekki stór þannig að Harvey gat sinnt skrifstofustarfinu jafnframt því að þjóna með amismælandi bræðrum í allt að þrjár vikur í mánuði. Hann þjónaði líka sem umdæmishirðir inn á milli en það fól meðal annars í sér að flytja ræður á svæðismótum. Hann hefði getað flutt ræðurnar á japönsku og amismælandi trúsystkini hefðu skilið hann. En ríkisstjórnin leyfði aðeins að trúarlegar samkomur væru haldnar á kínversku, svo að hann flutti ræðurnar á kínversku þó að hann væri enn að læra málið og annar bróðir túlkaði þær á amis.
Á þessum tíma giltu herlög í Taívan og því þurftu bræðurnir að fá skriflegt leyfi til að halda svæðismót. Það var ekki auðvelt að fá leyfin og lögreglan var oft sein að veita þau. Ef hún var ekki búin að taka málið fyrir í mótsvikunni sat Harvey bara á lögreglustöðinni þangað til hún gerði það. Og þar sem lögreglunni fannst vandræðalegt að láta útlending bíða inni á stöðinni virkaði bragðið.
FYRSTA FJALLAKLIFUR MITT
Farið yfir grunna á á leið í boðunina á Taívan.
Vikurnar sem við vörðum með trúsystkinum gengum við yfirleitt í meira en klukkustund, klifum fjöll og óðum ár. Ég man eftir fyrsta fjallaklifrinu. Við fengum okkur morgunmat í flýti og tókum svo rútu klukkan hálfsex um morguninn til bæjar í nokkurri fjarlægð, gengum yfir breiðan árfarveg og klifum bratta fjallshlíð. Hún var svo brött að ég horfði á hælana á þeim sem var næstur á undan mér.
Þennan morgun boðaði Harvey trúna með nokkrum heimamönnum en ég var ein í litlu þorpi þar sem japönskumælandi fólk bjó. Um eittleytið var ég að örmagnast vegna þess að ég hafði ekki borðað neitt í margar klukkustundir. Þegar ég hitti Harvey loksins voru engin önnur trúsystkini nálægt. Harvey hafði fengið þrjú hænuegg í skiptum fyrir blöð. Hann sýndi mér hvernig væri hægt að borða hrátt egg með því að gera lítið gat báðum megin á það og sjúga eggið út. Það var ekki mjög girnilegt en ég prófaði samt eitt. En hver fengi þriðja eggið? Ég fékk það því að Harvey treysti sér ekki til að bera mig niður fjallið ef ég skyldi missa meðvitund af hungri.
ÓVENJULEG BAÐAÐSTAÐA
Eitt sinn þegar við sóttum svæðismót lenti ég í sérstökum aðstæðum. Við gistum hjá bróður sem bjó við hliðina á ríkissal. Það er talið mjög mikilvægt hjá Amis-ættbálkinum að baða sig og þess vegna útbjó kona farandhirðisins þvottaaðstöðu fyrir okkur. Harvey var upptekinn svo að hann bað mig að fara fyrst. Það voru þrjú ílát – fata með köldu vatni, önnur með heitu vatni og tóm skál. Mér til undrunar hafði systirin stillt þeim upp fyrir utan húsið þar sem mátti horfa beint yfir á ríkissalinn þar sem bræður hjálpuðust að við að undirbúa mótið. Ég bað hana um eitthvað til að draga fyrir og hún kom með gegnsætt plast! Ég hugsaði mér að flýja í skuggann bak við hús en þar stungu gæsir hausnum gegnum girðingu tilbúnar að bíta alla sem kæmu of nálægt. Þá hugsaði ég með mér: „Bræðurnir eru svo uppteknir að þeir taka ekkert eftir að ég er að baða mig. Og ef ég geri það ekki móðgast þeir. Drífðu þig bara!“ Og það gerði ég.
Í viðhafnarbúningi Amis-ættbálksins.
RIT Á AMIS
Harvey tók eftir að það var erfitt fyrir marga amismælandi bræður og systur að styrkja trú sína því að mörg voru ólæs og það voru engin rit á amis. Málið var nýlega búið að fá ritmál með latnesku letri og því tilvalið að kenna þeim að lesa á sínu máli. Það var gríðarleg vinna en að lokum gátu þau fræðst um Jehóva á sínu máli. Fyrstu ritin voru gefin út seint á sjöunda áratugnum og árið 1968 byrjaði Varðturninn að koma út á amis.
En yfirvöld settu hömlur á rit sem voru ekki á kínversku. Til að forðast vandamál var Varðturninum á amis því dreift með ýmsum hætti. Um tíma notuðum við til dæmis tvímála útgáfu af Varðturninum, á mandarin-amis. Ef einhverjar spurningar vöknuðu virtumst við vera að kenna heimamönnum kínversku. Söfnuður Jehóva hefur gefið út mörg rit á amis síðan þá til að hjálpa þessu indæla fólki að kynnast sannleika Biblíunnar. – Post. 10:34, 35.
TÍMI HREINSUNAR
Á sjöunda og áttunda áratugnum lifðu margir bræður og systur af Amis-ættbálkinum ekki eftir siðferðiskröfum Guðs. Þau skildu meginreglur Biblíunnar ekki til fulls og sum lifðu því siðlausu lífi, drukku eða notuðu tóbak og betelhnetur. Harvey heimsótti marga söfnuði og reyndi að hjálpa trúsystkinum að skilja viðhorf Jehóva í þessum efnum. Í einni slíkri ferð gerðist atvikið sem ég sagði frá í byrjun.
Auðmjúkir bræður og systur voru fús til að gera breytingar en því miður voru margir aðrir ekki fúsir til þess og á 20 árum lækkaði boðberafjöldinn á Taívan úr meira en 2.450 niður í um það bil 900. Það var mjög niðurdrepandi. En við vissum að Jehóva myndi aldrei blessa óhreinan söfnuð. (2. Kor. 7:1) Með tímanum voru söfnuðirnir farnir a þjóna Jehóva á réttan hátt og nutu blessunar hans. Núna eru yfir 11.000 boðberar á Taívan.
Frá níunda áratugnum sáum við bræður og systur í amismælandi söfnuðunum dafna í trúnni og Harvey gat varið meiri tíma á kínverska svæðinu. Hann var mjög ánægður að geta hjálpað mörgum eiginmönnum systra að taka við sannleikanum. Ég minnist þess að hann sagði mér hvað það gladdi hann mikið þegar einn af þeim bað til Jehóva í fyrsta sinn. Ég er líka glöð yfir að hafa fengið að kenna mörgum réttsinnuðum konum að kynnast Jehóva. Ég hef meira að segja fengið að þjóna á deildarskrifstofunni á Taívan með syni og dóttur fyrrverandi biblíunemanda míns.
SÁR MISSIR
Núna hef ég ekki maka minn með mér lengur. Eftir 59 ára hjónaband lést elsku Harvey minn þann 1. janúar 2010 eftir að hafa barist við krabbamein. Hann þjónaði í fullu starfi í næstum 6 áratugi. Ég sakna hans enn þá ákaflega mikið. En ég er mjög ánægð að hafa þjónað með honum í tveim heillandi löndum á meðan boðunin var enn að slíta barnsskónum þar. Við lærðum að tala tvö erfið asísk tungumál og Harvey lærði líka að skrifa þau.
Nokkrum árum eftir að Harvey dó ákvað hið stjórnandi ráð að það væri best fyrir mig að snúa aftur til Ástralíu þar sem ég var orðin þetta fullorðin og þurfti meiri aðstoð. Fyrsta hugsun mín var að ég vildi ekki fara frá Taívan. En Harvey kenndi mér að gera alltaf það sem söfnuður Jehóva biður mig um svo að ég gerði það. Með tímanum sá ég viskuna í því.
Mér finnst gaman að nota japönskuna mína og kínverskuna í skoðunarferðum á Betel.
Núna starfa ég á deildarskrifstofunni í Ástralasíu virka daga og boða trúna með söfnuðinum um helgar. Mér finnst gaman að nota japönskuna mína og kínverskuna í skoðunarferðum með þeim sem heimsækja Betel. En ég hlakka verulega til upprisunnar sem Jehóva hefur lofað því að ég veit að hann man eftir Harvey, sem lærði að segja aldrei nei við Jehóva. – Jóh. 5:28, 29.
a Kínverska er núna opinbert mál Taívan en japanska hafði verið það í marga áratugi. Þess vegna var japanska almennt mál ýmissa þjóðarbrota á Taívan.