Láttu „lögmál góðmennskunnar“ leiða þig
„GÓÐVILD bræðra og systra hafði mest að segja,“ sagði Lisa.a Hún var að tala um það sem laðaði hana að sannleikanum. Anne tók í svipaðan streng og sagði: „Vinsemd vottanna skipti meira máli en það sem þeir kenndu.“ Báðar þessar systur kunna að meta biblíulestur og að hugleiða það sem þær lesa en góðvild bræðra og systra hafði mikil áhrif á þær.
Hvernig getum við haft áhrif á þá sem við umgöngumst með því að sýna góðvild? Skoðum tvær leiðir til þess: í tali okkar og verkum. Síðan fjöllum við um það hverjum við ættum að sýna góðvild.
„LÖGMÁL GÓÐMENNSKUNNAR“ Í TALI OKKAR
Samkvæmt Orðskviðunum 31. kafla stýrir „lögmál góðmennskunnar“ tungu góðrar konu. (Orðskv. 31:26, NW) Hún leyfir þessu lögmáli að stjórna því sem hún segir og hvernig hún segir það. Eiginmenn og feður ættu líka að láta þetta lögmál stýra tungu sinni. Flestir foreldrar eru meðvitaðir um hvað það getur haft neikvæð áhrif á börnin að tala hranalega við þau og það dregur úr líkunum á að þau vilji hlusta. Það auðveldar börnunum að hlusta og hlýða þegar foreldrarnir tala vinsamlega við þau.
Hvernig geturðu lært að tala vinsamlega hvort sem þú ert foreldri eða ekki? Við fáum vísbendingu í Orðskviðunum 31:26: „Mál hennar er þrungið speki.“ Það skiptir máli hvað við segjum og hvernig við segjum það. Það getur verið hjálplegt að spyrja sig: Mun það sem ég segi reita aðra til reiði eða stuðla að friði? (Orðskv. 15:1) Það er gott að hugsa áður en við tölum.
Annar orðskviður segir: „Vanhugsuð orð eru sem sverðalög.“ (Orðskv. 12:18) Þegar við hugsum um áhrif orða okkar á aðra eigum við auðveldara með að stjórna því hvað við leyfum okkur að láta út úr okkur. Þegar við látum „lögmál góðmennskunnar“ leiða okkur eigum við auðveldara með að forðast særandi orð eða hvassan raddblæ. (Ef. 4:31, 32) Orð okkar endurspegla góðvild og hlýju í stað neikvæðni. Jehóva gaf okkur gott fordæmi í þessu sambandi þegar hann uppörvaði Elía þjón sinn sem var óttasleginn. Engillinn sem talaði í nafni Jehóva gerði það með ,blíðri, lágværri rödd‘. (1. Kon. 19:12, NW) En til að vera góðviljuð þarf meira að koma til. Við þurfum líka að sýna góðvild í verki. Hvernig?
GÓÐVERK HVETJA AÐRA
Þegar við líkjum eftir Jehóva sýnum við góðvild bæði í orði og verki. (Ef. 4:32; 5:1, 2) Lisa, sem áður er minnst á, lýsir góðvildinni sem vottarnir sýndu: „Þegar við fjölskyldan þurftum að flytja í skyndi tóku tvenn hjón í söfnuðinum sér frí úr vinnu til að hjálpa okkur að pakka. Á þeim tíma var ég ekki einu sinni í biblíunámi.“ Þessi góðverk hvöttu Lisu til að skoða sannleikann betur.
Anne, sem minnst er á í upphafi greinarinnar, var líka þakklát fyrir þá góðvild sem vottarnir sýndu henni. Hún segir: „Ég varð mjög tortryggin vegna þess hvernig fólk almennt kom fram við mig. Ég átti erfitt með að treysta öðrum.“ Hún heldur áfram: „Þegar ég hitti vottana treysti ég þeim ekki. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þeir sýndu mér áhuga. En einlæg góðvild systurinnar sem kenndi mér fékk mig til að treysta henni.“ Hver var árangurinn? „Síðar fór ég að hugsa vandlegar um það sem ég var að læra.“
Tökum eftir að Lisa og Anne urðu fyrir sterkum áhrifum af góðvild bræðra og systra í söfnuðinum og það hvatti þær til að kynna sér sannleikann. Góðvildin sem söfnuðurinn sýndi opnaði hjarta þeirra.
LÍKJUM EFTIR GÓÐVILD GUÐS
Sumir eiga auðveldara með að tala vingjarnlega og brosa vegna þess úr hvaða menningu þeir eru sprottnir. Það er lofsvert þegar menning eða persónuleiki fólks hefur þessi áhrif. En ef það er eina ástæðan fyrir góðvild okkar erum við ekki endilega að líkja eftir Guði. – Samanber Postulasöguna 28:2.
Góðvild eins og Guð sýnir er hluti af ávexti anda hans. (Gal. 5:22, 23) Við þurfum því heilagan anda Guðs til að hjálpa okkur að sýna sanna góðvild. Þegar við gerum það líkjum við eftir Jehóva og Jesú. Og eins og Jesús höfum við einlægan áhuga á öðrum. Það er því bæði kærleikur til Jehóva og náungans sem hvetur okkur. Góðvild okkar verður þá sterkur eiginleiki sem kemur frá hjartanu og gleður Guð.
HVERJUM ÆTTUM VIÐ AÐ SÝNA GÓÐVILD?
Það getur virst auðvelt að sýna þeim góðvild sem hafa sýnt okkur og þeim sem við þekkjum slíkt hið sama. (2. Sam. 2:6) Ein leið til þess er að þakka þeim. (Kól. 3:15) En hvað ef okkur finnst einhver ekki eiga góðvild okkar skilið?
Jehóva er besta fyrirmynd okkar í að sýna óverðskuldaða góðvild og orð hans hefur að geyma mikilvægar leiðbeiningar um hvernig það er hægt. Orðin „einstök góðvild“ koma oft fyrir í Grísku ritningunum. Hvernig sýnir Guð okkur góðvild?
Hugsaðu þér allar þær milljónir manna sem Jehóva hefur sýnt góðvild með því að sjá þeim fyrir því sem þeir þurfa til að lifa. (Matt. 5:45) Jehóva sýndi okkur góðvild jafnvel áður en við kynntumst honum. (Ef. 2:4, 5, 8) Hann gaf öllu mannkyni til dæmis það besta sem hann átti, einkason sinn. Páll postuli skrifaði að Jehóva hefði séð fyrir lausnargjaldi „því að einstök góðvild hans er svo ríkuleg“. (Ef. 1:7) Og Jehóva heldur áfram að leiðbeina okkur og kenna þótt við syndgum og völdum honum vonbrigðum. Orð hans og leiðbeiningar eru eins og „milt regn“. (5. Mós. 32:2, NW) Við getum með engum hætti endurgoldið honum þá góðvild sem hann hefur sýnt okkur. Og sannleikurinn er sá að við reiðum okkur á góðvild Jehóva til að eiga von í framtíðinni. – Samanber 1. Pétursbréf 1:13.
Góðvild Jehóva er okkur án efa hjartfólgin og hvetur okkur áfram. Við ættum því að leggja okkur fram við að líkja eftir Jehóva með því að sýna öðrum alltaf góðvild frekar en að velja þá úr sem við sýnum vinsemd. (1. Þess. 5:15) Þegar við sýnum stöðugt góðvild erum við eins og eldur sem vermir á köldum degi. Við uppörvum fjölskyldu okkar, trúsystkini, vinnufélaga, skólafélaga og nágranna.
Hugsum okkur ættingja eða þá í söfnuðinum okkar sem dafna þegar við sýnum góðvild í orði og verki. Kannski er einhver í söfnuðinum þínum sem þarf sérstaklega á hjálp að halda til að sjá um heimilið eða garðinn eða til að sinna störfum eins og að versla í matinn. Og gætirðu boðið þeim aðstoð sem þú hittir í boðuninni og þarf á hjálp að halda?
Líkjum eftir Jehóva og látum orð okkar og verk alltaf stjórnast af ,lögmáli góðmennskunnar‘.
a Nöfnum hefur verið breytt.