NÁMSGREIN 32
SÖNGUR 44 Bæn hins bágstadda
Jehóva vill að allir iðrist
„Jehóva … vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast.“ – 2. PÉT. 3:9.
Í HNOTSKURN
Útskýrt er hvað iðrun er, hvers vegna hún er nauðsynleg og hvernig Jehóva hefur hjálpað fólki að iðrast.
1. Hvað er fólgið í því að iðrast?
ÞAÐ er mikilvægt að iðrast þegar við gerum eitthvað rangt. Samkvæmt Biblíunni breytir sá sem iðrast um hugarfar gagnvart ákveðinni hegðun, hættir henni og er ákveðinn í að láta hana ekki endurtaka sig. – Sjá orðaskýringar, „iðrun“.
2. Hvers vegna þurfum við öll að skilja hvað iðrun er? (Nehemíabók 8:9–11)
2 Hver einasta manneskja þarf að skilja hvað iðrun er. Af hverju? Af því að við syndgum öll á hverjum degi. Við erum afkomendur Adams og Evu og höfum öll fengið synd og dauða í arf. (Rómv. 3:23; 5:12) Ekkert okkar er undanskilið. Jafnvel fólk sem hafði sterka trú, eins og Páll postuli, átti í baráttu við syndina. (Rómv. 7:21–24) Þýðir það að okkur ætti alltaf að líða illa út af syndum okkar? Nei, Jehóva er miskunnsamur og vill að við séum glöð. Hugsaðu til Gyðinga á dögum Nehemía. (Lestu Nehemíabók 8:9–11.) Jehóva vildi ekki að þeir væru miður sín vegna fyrri synda heldur vildi hann að þeir tilbæðu hann með gleði. Jehóva veit að það gefur okkur gleði að iðrast. Þess vegna fræðir hann okkur um iðrun. Ef við iðrumst synda okkar getum við treyst að faðir okkar sé miskunnsamur og fyrirgefi okkur.
3. Hvað skoðum við í þessari grein?
3 Lítum nánar á hvað Biblían segir um iðrun. Í þessari grein ætlum við að skoða þrennt. Fyrst könnum við hvað Jehóva kenndi Ísraelsmönnum varðandi iðrun. Síðan beinum við athyglinni að því hvernig Jehóva hefur reynt að höfða til fólks og hvetja það til að iðrast. Að lokum ræðum við hvað Jesús kenndi fylgjendum sínum um iðrun.
HVAÐ KENNDI JEHÓVA ÍSRAELSMÖNNUM VARÐANDI IÐRUN?
4. Hvað kenndi Jehóva Ísraelsmönnum varðandi iðrun?
4 Þegar Jehóva gerði Ísraelsmenn að þjóð sinni gerði hann sáttmála við þá. Ef þeir héldu lög hans myndi hann vernda þá og blessa. Hann sagði um lög sín: „Þetta boðorð, sem ég gef þér í dag, er ekki of þungt fyrir þig og ekki utan seilingar.“ (5. Mós. 30:11, 16) En ef þeir gerðu uppreisn gegn honum, til dæmis með því að tilbiðja aðra guði, myndi hann taka blessun sína frá þeim og þeir myndu þjást. Þeir hefðu þó enn tækifæri til að endurheimta velþóknun hans. Þeir gátu ‚snúið aftur til Jehóva Guðs síns og hlustað á hann‘. (5. Mós. 30:1–3, 17–20) Þeir gátu með öðrum orðum iðrast. Ef þeir gerðu það myndi Jehóva nálgast þá og blessa þá á ný.
5. Hvernig sýndi Jehóva að hann gafst ekki upp á þjóð sinni? (2. Konungabók 17:13, 14)
5 Útvalin þjóð Jehóva gerði ítrekað uppreisn gegn honum. Menn tilbáðu skurðgoð og gerðu sig seka um aðrar hræðilegar syndir. Fyrir vikið þurftu þeir að þjást. En Jehóva gafst ekki upp á fólki sínu. Hann sendi spámenn hvað eftir annað til að hvetja það til að iðrast og snúa aftur til sín. – Lestu 2. Konungabók 17:13, 14.
6. Hvernig notaði Jehóva spámenn sína til að benda þjóð sinni á hversu mikilvægt væri að iðrast? (Sjá einnig mynd.)
6 Jehóva notaði oft spámenn sína til að hvetja þjóð sína til að snúa við og vara hana við afleiðingunum ef hún gerði það ekki. Hann sagði til dæmis fyrir milligöngu Jeremía: „Snúðu aftur, þú fráhverfa Ísrael … Ég mun ekki líta reiðilega til þín því að ég er trúfastur … Ég er ekki gramur að eilífu. Viðurkenndu aðeins sekt þína því að þú hefur gert uppreisn gegn Jehóva.“ (Jer. 3:12, 13) Hann lét Jóel flytja þessi boð: ‚Snúið aftur til mín af öllu hjarta.‘ (Jóel 2:12, 13) Hann sendi Jesaja með eftirfarandi boð: „Hreinsið ykkur, fjarlægið illskuverk ykkar úr augsýn minni. Hættið að gera það sem er illt.“ (Jes. 1:16–19) Og fyrir milligöngu Esekíels spurði Jehóva: „Hef ég einhverja ánægju af því að vondur maður deyi? … Vil ég ekki frekar að hann snúi baki við líferni sínu og haldi lífi? Ég hef ekki ánægju af dauða nokkurs manns … Snúið því við svo að þið haldið lífi.“ (Esek. 18:23, 32) Það gleður Jehóva að sjá fólk iðrast því að hann vill að það lifi – að eilífu! Jehóva bíður ekki með að bjóða fram hjálp sína þangað til menn eru búnir að breyta um stefnu. Lítum á fleiri dæmi um það.
Jehóva lét oft spámenn sína hvetja óhlýðna þjóð sína til að iðrast. (Sjá 6. og 7. grein.)
7. Hvað kenndi Jehóva þjóð sinni með dæmi úr lífi Hósea spámanns og eiginkonu hans?
7 Skoðum hvað Jehóva kenndi þjóð sinni með dæmi úr lífi Hósea spámanns og Gómer eiginkonu hans. Hún hélt fram hjá Hósea og yfirgaf hann síðan til að vera með öðrum mönnum. Var henni ekki viðbjargandi? Jehóva, sem les hjörtu manna, sagði Hósea: „Farðu aftur og elskaðu konuna sem er elskuð af öðrum manni og fremur hjúskaparbrot, eins og Jehóva elskar Ísraelsmenn þótt þeir snúi sér til annarra guða.“ (Hós. 3:1; Orðskv. 16:2) Tökum eftir að eiginkona Hósea lifði enn þá syndugu líferni. Jehóva sagði Hósea samt að fyrirgefa henni og taka hana aftur til sín.a Jehóva hafði ekki heldur gefist upp á þrjóskri þjóð sinni. Jafnvel þótt hún drýgði hræðilegar syndir elskaði hann hana og reyndi margsinnis að höfða til hennar. Hann vildi hjálpa fólki sínu að iðrast og snúa við blaðinu. Gefur þetta til kynna að Jehóva, sem kannar hjörtun, reyni að hjálpa manneskju sem lifir enn syndugu lífi og hvetji hana til að iðrast? (Orðskv. 17:3) Skoðuml málið.
HVERNIG HVETUR JEHÓVA SYNDARA TIL AÐ IÐRAST?
8. Hvernig hvatti Jehóva Kain til að iðrast? (1. Mósebók 4:3–7) (Sjá einnig mynd.)
8 Kain var fyrsti sonur Adams og Evu. Hann fékk syndugar tilhneigingar í arf frá foreldrum sínum. Biblían segir líka ‚að hans eigin verk hafi verið vond‘. (1. Jóh. 3:12) Kannski skýrir það hvers vegna Jehóva „leit ekki með velþóknun á Kain“ og þá fórn sem hann færði. Í stað þess að bæta ráð sitt varð Kain „ákaflega reiður og bitur“. Hvað gerði Jehóva þá? Hann talaði við Kain. (Lestu 1. Mósebók 4:3–7.) Við tökum eftir að Jehóva ræddi vingjarnlega við Kain, veitti honum von og varaði hann við því að hann ætti á hættu að syndga. En Kain hlustaði því miður ekki. Hann þáði ekki hjálp Jehóva til að iðrast. Hætti Jehóva að hvetja syndara til að iðrast eftir að hafa fengið þessi neikvæðu viðbrögð? Alls ekki!
Jehóva ræddi vingjarnlega við Kain, veitti honum von og varaði hann við því að hann ætti á hættu að syndga. (Sjá 8. grein.)
9. Hvernig hvatti Jehóva Davíð til að iðrast?
9 Jehóva elskaði Davíð konung innilega. Hann kallaði hann ‚mann eftir sínu hjarta‘. (Post. 13:22) En Davíð framdi alvarlegar syndir, þar á meðal hjúskaparbrot og morð. Samkvæmt Móselögunum var Davíð dauðasekur. (3. Mós. 20:10; 4. Mós. 35:31) En Jehóva vildi samt hvetja hann til að iðrast.b Hann sendi Natan spámann til Davíðs þó að hann hefði ekki enn sýnt nein merki um iðrun. Natan sagði dæmisögu sem hjálpaði Davíð að gera sér grein fyrir hve alvarleg synd hans var. Davíð var djúpt snortinn og iðraðist. (2. Sam. 12:1–14) Hann orti hjartnæman sálm sem sýnir hve innileg iðrun hans var. (Sálm. 51, yfirskrift) Þessi sálmur hefur hughreyst ótal syndara og verið þeim hvatning til að iðrast. Erum við ekki þakklát fyrir að Jehóva skuli í kærleika sínum hafa hvatt Davíð þjón sinn til að iðrast?
10. Hvað finnst þér um fyrirgefningu Jehóva og þolinmæði í garð syndugra manna?
10 Jehóva hatar synd í hvaða mynd sem er og horfir ekki fram hjá henni. (Sálm. 5:4, 5) En hann veit að við syndgum öll og vill hjálpa okkur að berjast við syndina af því að hann elskar okkur. Hann reynir jafnvel að hjálpa verstu syndurum að iðrast og eignast samband við sig. Það er mjög hughreystandi til þess að vita. Það er gott að hugleiða þolinmæði og fyrirgefningu Jehóva því að það er okkur hvatning til að vera honum trúföst og fljót til að iðrast þegar við syndgum. Lítum nú á ýmislegt sem kristni söfnuðurinn fékk að læra um iðrun.
HVAÐ LÆRÐU FYLGJENDUR JESÚ UM IÐRUN?
11, 12. Hvernig lýsti Jesús hve fúslega faðir hans fyrirgefur? (Sjá mynd.)
11 Á fyrstu öld okkar tímatals var komið að því að Messías birtist. Eins og fram kom í síðustu grein notaði Jehóva bæði Jóhannes skírara og Jesú Krist til að sýna fólki fram á hversu mikilvægt væri að iðrast. – Matt. 3:1, 2; 4:17.
12 Meðan Jesús þjónaði á jörð fræddi hann áheyrendur sína um hversu fúslega faðir hans fyrirgefur. Eitt sterkasta dæmið um það er dæmisaga hans um týnda soninn. Ungi maðurinn hafði kosið að lifa syndugu lífi um tíma. En að lokum ‚kom hann til sjálfs sín‘ og sneri heim. Hvernig brást faðirinn við? „Faðir hans kom auga á hann meðan hann var enn langt í burtu,“ sagði Jesús. „Hann kenndi í brjósti um hann og hljóp á móti honum, faðmaði hann að sér og kyssti hann blíðlega.“ Sonurinn ætlaði að spyrja föður sinn hvort hann mætti verða þjónn á heimilinu en faðirinn kallaði hann ‚son sinn‘ og lét hann fá sömu stöðu í fjölskyldunni og hann hafði áður haft. „Hann var týndur en er fundinn,“ sagði faðirinn. (Lúk. 15:11–32) Áður en Jesús kom til jarðar hafði hann auðvitað séð föður sinn sýna ótal iðrandi syndurum slíka umhyggju. Það er hjartnæm og hughreystandi mynd sem Jesús dregur upp af miskunnsömum föður okkar, Jehóva.
Faðirinn í dæmisögu Jesú hleypur á móti týnda syninum og faðmar hann þegar hann snýr aftur heim. (Sjá 11. og 12. grein.)
13, 14. Hvað lærði Pétur postuli um iðrun og hvað kenndi hann öðrum varðandi hana? (Sjá einnig mynd.)
13 Pétur postuli lærði mikið af Jesú um iðrun og fyrirgefningu. Hann þurfti oft að fá fyrirgefningu og Jesús veitti hana fúslega. Eftir að Pétur hafði neitað þrisvar að hann þekkti Drottin sinn var hann niðurbrotinn af sektarkennd. (Matt. 26:34, 35, 69–75) En þegar Jesús var risinn upp birtist hann Pétri – greinilega í einrúmi. (Lúk. 24:33, 34; 1. Kor. 15:3–5) Jesús fyrirgaf eflaust iðrandi postula sínum við þetta tækifæri og hughreysti hann.
14 Pétur skildi hvernig tilfinning það var að iðrast og fá fyrirgefningu. Hann gat því kennt öðrum það sem hann hafði lært. Einhvern tíma eftir hvítasunnuhátíðina flutti hann ræðu og sagði hópi Gyðinga sem höfðu ekki tekið kristna trú að þeir hefðu tekið Messías af lífi. Hann hvatti þá samt hlýlega til að ‚iðrast og snúa við til að syndir þeirra yrðu afmáðar. Þá kæmu tímar þar sem Jehóva veitti nýjan kraft‘. (Post. 3:14, 15, 17, 19) Pétur benti á að iðrun fæli í sér að syndari sneri við blaðinu – breytti hugsunarhætti sínum og hætti að gera það sem er rangt. Hann tekur upp nýja lífsstefnu sem er Guði að skapi. Pétur sýndi líka fram á að Jehóva myndi afmá syndir þeirra, láta þær hverfa. Og áratugum síðar skrifaði hann kristnum mönnum: ‚Jehóva er þolinmóður við ykkur því að hann vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast.‘ (2. Pét. 3:9) Þetta er hughreystandi fyrir kristna menn sem hafa syndgað – jafnvel alvarlega.
Jesús fyrirgaf iðrandi postula sínum og hughreysti hann. (Sjá 13. og 14. grein.)
15, 16. (a) Hvernig fékk Páll postuli að kynnast fyrirgefningu? (1. Tímóteusarbréf 1:12–15) (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?
15 Fáir hafa þurft jafn sárlega að iðrast og fá fyrirgefningu og Sál frá Tarsus. Hann ofsótti fylgjendur Krists grimmilega. Flestir kristnir menn hafa líklega talið að honum væri ekki viðbjargandi og að það væri engin von um að hann iðraðist. En hinn upprisni Jesús hugsaði ekki eins og ófullkomnir menn. Hann og faðir hans sáu að það bjó eitthvað gott í Sál. „Ég hef valið þennan mann sem verkfæri,“ sagði Jesús. (Post. 9:15) Jesús vann meira að segja kraftaverk til að snúa Sál til iðrunar. (Post. 7:58–8:3; 9:1–9, 17–20) Sál, síðar þekktur sem Páll postuli, lét oft í ljós hversu þakklátur hann var fyrir þá góðvild og miskunn sem hann hafði notið. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:12–15.) Hann skrifaði trúsystkinum sínum: „Guð reynir í góðvild sinni að leiða þig til iðrunar.“ – Rómv. 2:4.
16 Einhverju sinni frétti Páll af hneykslismáli í söfnuðinum í Korintu. Það var þess eðlis að gróft siðleysi var látið viðgangast. Hvernig tók Páll á málinu? Við lærum heilmikið af því um kærleiksríka ögun Jehóva og mikilvægi þess að sýna miskunn. Við fjöllum nánar um málið sem kom upp í Korintu í næstu grein.
SÖNGUR 33 Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva
a Hér var um sérstakar aðstæður að ræða. Jehóva krefst þess ekki að karl eða kona sé áfram gift maka sínum ef hann hefur haldið fram hjá. Í slíku tilfelli má hinn saklausi skilja við maka sinn ef hann vill, samkvæmt þeim leiðbeiningum sem Jehóva fól syni sínum að gefa. – Matt. 5:32; 19:9.
b Sjá greinina „Hvaða áhrif hefur það á þig að Jehóva skuli fyrirgefa?“ í Varðturninum 15. nóvember 2012, bls. 21–23, gr. 3–10.