Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 apríl bls. 2-7
  • Veljið hverjum þið viljið þjóna

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Veljið hverjum þið viljið þjóna
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERS VEGNA KAUS JESÚS AÐ ÞJÓNA JEHÓVA?
  • HVERS VEGNA Á JEHÓVA SKILIÐ TILBEIÐSLU OKKAR?
  • HVERS VEGNA KJÓSUM VIÐ AÐ ÞJÓNA JEHÓVA?
  • HÖLDUM ÁFRAM AÐ ÞJÓNA JEHÓVA
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
  • Mundu að Jehóva er „lifandi Guð“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 apríl bls. 2-7

NÁMSGREIN 14

SÖNGUR 8 Jehóva er hæli okkar

Veljið hverjum þið viljið þjóna

„Ég og fjölskylda mín ætlum að þjóna Jehóva.“ – JÓS. 24:15.

Í HNOTSKURN

Við erum minnt á ástæðurnar fyrir því að við höfum kosið að þjóna Jehóva.

1. Hvað þurfum við að gera til að vera hamingjusöm og hvers vegna? (Jesaja 48:17, 18)

FAÐIR okkar á himnum elskar okkur mjög mikið og vill að við njótum lífsins núna og í framtíðinni. (Préd. 3:12, 13) Hann skapaði okkur með ýmsa framúrskarandi hæfileika en hann gaf okkur ekki hæfni til að stjórna okkur sjálf eða til að ákveða hvað sé rétt og rangt. (Préd. 8:9; Jer. 10:23) Hann veit að við verðum að þjóna honum og lifa í samræmi við mælikvarða hans til að vera raunverulega hamingjusöm. – Lestu Jesaja 48:17, 18.

2. Hverju vill Satan að við trúum og hvernig hefur Jehóva brugðist við því?

2 Satan vill að við trúum því að við getum verið óháð Jehóva og á sama tíma hamingjusöm, að menn geti vel stjórnað sér sjálfir. (1. Mós. 3:4, 5) Jehóva brást við þeirri röngu staðhæfingu með því að leyfa uppreisnargjörnu mannkyni að stjórna sér sjálft um takmarkaðan tíma. Það leynir sér ekki hversu illa það gengur. Biblían greinir á hinn bóginn frá því að sumir menn og konur voru hamingjusöm vegna þess að þau þjónuðu Jehóva. Jesús Kristur er þar fremstur í flokki. Skoðum fyrst hvaða ástæður hann hafði til að ákveða að þjóna Jehóva. Síðan ræðum við hvers vegna faðir okkar á himnum á skilið að við tilbiðjum hann. Að lokum athugum við nokkrar ástæður fyrir því að við kjósum að þjóna Jehóva.

HVERS VEGNA KAUS JESÚS AÐ ÞJÓNA JEHÓVA?

3. Hvaða tilboð fékk Jesús og hvernig brást hann við?

3 Þegar Jesús var á jörðinni þurfti hann að velja hverjum hann vildi þjóna. Stuttu eftir að hann skírðist bauð Satan honum öll ríki heims ef hann tilbæði hann í aðeins eitt skipti. Jesús svaraði: „Farðu burt, Satan! Skrifað stendur: ‚Þú skalt tilbiðja Jehóva Guð þinn og honum einum skaltu veita heilaga þjónustu.‘“ (Matt. 4:8–10) Hvers vegna brást Jesús þannig við? Skoðum nokkrar ástæður fyrir því.

4, 5. Hvers vegna kaus Jesús að þjóna Jehóva?

4 Ástæðan fyrir því að Jesús kaus að þjóna Jehóva var fyrst og fremst sú að hann ber innilegan og órjúfanlegan kærleika til föður síns. (Jóh. 14:31) Auk þess þjónar Jesús Jehóva vegna þess að það er rétt að gera það. (Jóh. 8:28, 29; Opinb. 4:11) Hann veit að Jehóva er uppspretta lífsins og að hann er traustsins verður og örlátur. (Sálm. 33:4; 36:9; Jak. 1:17) Jehóva hafði alltaf talað sannleikann við Jesú og hafði gefið honum allt sem hann átti. (Jóh. 1:14) Satan hafði á hinn bóginn valdið dauða með uppreisn sinni. Hann er lygari sem er knúinn af græðgi og eigingirni. (Jóh. 8:44) Vitandi þetta hvarflaði ekki einu sinni að Jesú að feta í fótspor hans og gera uppreisn gegn Jehóva. – Fil. 2:5–8.

5 Önnur ástæða fyrir því að Jesús kaus að þjóna Jehóva er að hann hugsaði um það góða sem trúföst þjónusta hans myndi hafa í för með sér. (Hebr. 12:2) Hann vissi að með því að vera trúfastur myndi hann helga nafn föður síns og gera að engu syndina og dauðann sem Satan olli.

HVERS VEGNA Á JEHÓVA SKILIÐ TILBEIÐSLU OKKAR?

6, 7. Hvers vegna þjóna margir ekki Jehóva en hvers vegna á hann skilið tilbeiðslu okkar?

6 Margir nú á dögum þjóna ekki Jehóva vegna þess að þeir hafa ekki kynnst aðlaðandi eiginleikum hans og þeim er ókunnugt um allt sem hann hefur gert fyrir þá. Þeir eru í svipuðum aðstæðum og þeir sem Páll postuli boðaði trúna í Aþenu. – Post. 17:19, 20, 30, 34.

7 Páll útskýrði fyrir áheyrendum sínum að hinn sanni Guð væri sá sem ‚gefur öllum líf og andardrátt og alla hluti‘. Hann bætti við: „Það er honum að þakka að við lifum, hreyfum okkur og erum til.“ Guð er skaparinn, sá sem „gerði af einum manni allar þjóðir“, og hann er því sá eini sem við ættum að tilbiðja. – Post. 17:25, 26, 28.

8. Hvað myndi Jehóva aldrei gera? Skýrðu svarið.

8 Jehóva gæti neytt fólk til að þjóna sér vegna þess að hann er skapari og drottinvaldur alheims. Jehóva myndi samt aldrei gera það. Hann hefur þvert á móti sýnt það og sannað að hann er til og að hann elskar hvert og eitt okkar innilega. Hann vill að eins margir og mögulegt er verði vinir hans um alla eilífð. (1. Tím. 2:3, 4) Jehóva hefur því þjálfað okkur til að fræða aðra um það góða sem hann ætlar að gera fyrir mannkynið og hvernig hann fer að því. (Matt. 10:11–13; 28:19, 20) Og hann hefur gefið okkur söfnuð þar sem við getum tilbeðið hann og fengið hjálp frá kærleiksríkum öldungum. – Post. 20:28.

9. Með hvaða hætti hefur Jehóva sýnt kærleika sinn til allra?

9 Einstakur kærleikur Jehóva sést greinilega á því hvernig hann kemur fram við þá sem vilja ekki trúa á tilvist hans. Hugleiddu eftirfarandi: Milljarðar manna hafa í gegnum aldirnar kosið að gera það sem þeir álíta rétt og rangt í stað þess að hlýða Jehóva. Hann hefur samt sem áður gefið þeim það sem þeir þurfa til að viðhalda lífi sínu og njóta þess. (Matt. 5:44, 45; Post. 14:16, 17) Hann hefur gefið þeim hæfileikann til að eiga kærleiksrík samskipti við aðra, eiga fjölskyldu og njóta árangurs af erfiði sínu. (Sálm. 127:3; Préd. 2:24) Það er augljóst að faðir okkar á himnum elskar allt fólk. (2. Mós. 34:6) Rifjum nú upp hvers vegna við kjósum að þjóna Jehóva og hvernig hann blessar þá sem þjóna honum.

HVERS VEGNA KJÓSUM VIÐ AÐ ÞJÓNA JEHÓVA?

10. (a) Hver er meginástæðan fyrir því að við þjónum Jehóva? (Matteus 22:37) (b) Hvernig hefur þolinmæði Jehóva verið þér til góðs? (Sálmur 103:13, 14)

10 Við þjónum Jehóva fyrst og fremst vegna þess að við elskum hann innilega. (Lestu Matteus 22:37.) Við löðumst að honum þegar við lærum um eiginleika hans. Hugleiddu til dæmis hversu þolinmóður hann er við okkur. Þegar Ísraelsmenn voru honum óhlýðnir bað hann þá: „Snúið af ykkar vondu braut.“ (Jer. 18:11) Jehóva veit að við erum ófullkomin. (Lestu Sálm 103:13, 14.) Langar þig ekki að þjóna Jehóva að eilífu þegar þú hugsar um þolinmæði hans og aðra aðlaðandi eiginleika hans?

11. Hvaða fleiri ástæður höfum við til að vilja þjóna föður okkar á himnum?

11 Við viljum líka þjóna Jehóva vegna þess að það er rétt að gera það. (Matt. 4:10) Og við vitum hverju trúföst þjónusta okkar kemur til leiðar. Þegar við þjónum Jehóva af hollustu helgum við nafn hans, sönnum Djöfulinn lygara og gleðjum hjarta föður okkar. Ef við veljum að þjóna Jehóva núna höfum við þann möguleika að gera það um alla eilífð. – Jóh. 17:3.

12, 13. Hver er reynsla Jane og Pam og hvað lærum við af því?

12 Við getum ræktað djúpan kærleika til Jehóva á unga aldri, kærleika sem heldur áfram að dafna þegar við eldumst. Þetta er tilfellið hjá systrunum Jane og Pam.a Þær voru 10 og 11 ára þegar þær byrjuðu að rannsaka Biblíuna með vottum Jehóva. Þótt foreldrar þeirra hefðu ekki sjálfir áhuga á því gáfu þeir Jane og Pam leyfi til að hitta vottana svo framarlega sem þær mættu í messu í kirkjunni um helgar með fjölskyldunni. „Það sem vottarnir kenndu mér frá Biblíunni,“ segir Jane, „gerði mér kleift að standast þrýstinginn frá jafnöldrunum til að neyta eiturlyfja og taka þátt í siðleysi.“

13 Fáeinum árum síðar urðu báðar stelpurnar boðberar. Síðar gerðust þær brautryðjendur á meðan þær önnuðust aldraða foreldra sína. Jane lítur um öxl og segir: „Ég komst að raun um að Jehóva annast vini sína af trúfesti og að hann ‚þekkir þá sem tilheyra honum,‘ eins og segir í 2. Tímóteusarbréfi 2:19.“ Það leikur ekki nokkur vafi á því að Jehóva sér vel um þá sem kjósa að elska hann og þjóna honum.

14. Hvernig stuðla orð okkar og verk að því að nafn Jehóva sé hreinsað af ásökunum? (Sjá einnig myndir.)

14 Við viljum leggja okkar af mörkum til að hreinsa nafn Jehóva af öllum ásökunum. Segjum að þú eigir vin sem er góðviljaður, örlátur og fús til að fyrirgefa. Dag einn heyrirðu einhvern ásaka vin þinn um að hann sé grimmur og óheiðarlegur. Hvað gerirðu? Þú kemur honum til varnar. Sömuleiðis hikum við ekki við að verja nafn Jehóva og segjum sannleikann um hann þegar Satan og þeir sem eru undir hans áhrifum reyna að sverta orðstír Jehóva með því að dreifa um hann lygum. (Sálm. 34:1; Jes. 43:10) Við sýnum með orðum okkar og verkum að við viljum þjóna Jehóva heils hugar.

Myndir: 1. Kona fylgist með hópi fráhvarfsmanna sem mótmæla fyrir utan mótsstað. 2. Síðar spjallar konan við hjón sem standa við ritatrillu.

Munt þú leggja þitt af mörkum til að verja nafn Jehóva? (Sjá 14. grein.)b


15. Hvað upplifði Páll eftir að hann gerði miklar breytingar í lífi sínu? (Filippíbréfið 3:7, 8)

15 Við erum fús til að gera breytingar í lífi okkar til að þóknast Jehóva eða til að leggja meira af mörkum í þjónustu hans. Páll postuli kaus til dæmis að yfirgefa virðulega stöðu í samfélaginu til að gerast fylgjandi Krists og þjóna Jehóva. (Gal. 1:14) Fyrir vikið upplifði hann margt einstakt í þjónustu Jehóva og öðlaðist tækifæri til að ríkja með Kristi á himnum. Hann sá aldrei eftir ákvörðuninni um að þjóna Jehóva og við munum ekki gera það heldur. – Lestu Filippíbréfið 3:7, 8.

16. Hvað getum við lært af Juliu? (Sjá einnig myndir.)

16 Við getum notið blessunar Jehóva núna og í framtíðinni ef við setjum það í fyrsta sæti í lífinu að þjóna honum. Skoðum reynslu systur sem heitir Julia. Hún söng í kirkjukór frá því að hún var stelpa áður en hún kynntist sannleikanum. Atvinnuóperusöngvari kom auga á hæfileika hennar og fór að kenna henni. Julia var álitin undrabarn og kom fram í virtum tónlistarhúsum. Meðan hún sótti frægan tónlistarskóla fór bekkjarfélagi hennar að tala við hana um Guð og sagði henni að hann héti Jehóva. Fyrr en varði var Julia farin að rannsaka Biblíuna tvisvar í viku. Þar að kom að hún ákvað að einbeita sér að því að þjóna Jehóva í stað þess að halda áfram á framabraut í tónlistarheiminum. Þetta var ekki auðveld ákvörðun. „Margir sögðu að ég væri að kasta hæfileikum mínum á glæ,“ segir hún, „en ég vildi nota líf mitt til fulls í þjónustu Jehóva.“ Hvað finnst henni núna um þessa ákvörðun sem hún tók fyrir meira en 30 árum? „Ég hef hugarfrið og treysti því að Jehóva uppfylli í framtíðinni allt sem hjarta mitt þráir.“ – Sálm. 145:16.

Sviðsettar myndir sem sýna ákvörðun Juliu. 1. Hún stendur á sviði og syngur fyrir áheyrendur. 2. Hún syngur ásamt eiginmanni sínum á safnaðarsamkomu.

Við njótum lífsins best þegar þjónustan við Jehóva er það mikilvægasta í lífinu. (Sjá 16. grein.)c


HÖLDUM ÁFRAM AÐ ÞJÓNA JEHÓVA

17. Hvernig snertir það þjóna Guðs og þá sem hafa ekki enn kosið að þjóna honum að tíminn er orðinn naumur?

17 Endir þessarar heimskipanar er mjög nálægur. Páll postuli skrifaði: „Eftir ‚stutta stund‘ þá ‚kemur sá sem á að koma og honum seinkar ekki.‘“ (Hebr. 10:37) Hvernig snertir þetta okkur? Tíminn er orðinn naumur fyrir fólk til að velja að þjóna Jehóva. (1. Kor. 7:29) Og ef við höfum þegar kosið að þjóna Guði vitum við að þótt við þurfum að þola prófraunir standa þær aðeins um „stutta stund“.

18. Hvað vilja Jesús og Jehóva að við gerum?

18 Jesús hvatti lærisveina sína til að fylgja sér. (Matt. 16:24) Ef við höfum þjónað Jehóva í mörg ár þurfum við að vera ákveðin í að gefast ekki upp. Við þurfum að leggja hart að okkur til standa við ákvörðun okkar um að þjóna honum. Það er ekki alltaf auðvelt en það hefur mikla blessun og lífsfyllingu í för með sér, líka í þeim heimi sem við lifum í núna. – Sálm. 35:27.

19. Hvað lærum við af Gene?

19 Sumum finnst að það krefjist of mikilla fórna að þjóna Jehóva. Ef þú ert ung manneskja finnst þér þá að þú missir kannski af einhverju ef þú þjónar Jehóva? Ungur bróðir sem heitir Gene segir: „Mér fannst það setja mér hömlur að vera vottur Jehóva. Það virtist svo gaman hjá krökkum sem fóru í partí, voru á föstu eða spiluðu ofbeldisfulla tölvuleiki en ég þurfti að fara á samkomur og í boðunina.“ Hvaða áhrif hafði þessi hugsunarháttur á Gene? „Ég fór að lifa tvöföldu lífi,“ segir hann, „og í fyrstu var það skemmtilegt. En ánægjan entist ekki. Ég fór að velta því fyrir mér hversu gagnlegt það væri að hlýða því sem segir í Biblíunni og ákvað að þjóna Jehóva heils hugar. Síðan þá virðist sem Jehóva hafi svarað öllum bænum mínum.“

20. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

20 Sálmaskáldið lofaði Jehóva í söng: „Sá er hamingjusamur sem þú velur og lætur nálgast þig, hann fær að búa í forgörðum þínum.“ (Sálm. 65:4) Verum ákveðin í að halda áfram að þjóna Jehóva og segjum eins og Jósúa: „Ég og fjölskylda mín ætlum að þjóna Jehóva.“ – Jós. 24:15.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna kaus Jesús að þjóna Jehóva?

  • Hvers vegna verðskuldar Jehóva tilbeiðslu okkar?

  • Hvers vegna velur þú að þjóna Jehóva?

SÖNGUR 28 Hver er þinn vinur, Guð?

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

b MYND: Kona kemur að ritatrillu og fær að heyra sannleikann frá Biblíunni eftir að hafa tekið eftir andstæðingum okkar fyrir utan mótsstað.

c MYND: Sviðsettar myndir sem sýna hvaða ákvörðun Julia tók til að hafa þjónustuna við Jehóva í fyrsta sæti í lífinu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila