Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 apríl bls. 14-19
  • Það er gott að styrkja vináttuböndin hvert við annað

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Það er gott að styrkja vináttuböndin hvert við annað
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ STYRKJA VINÁTTUBÖNDIN HVERT VIÐ ANNAÐ?
  • SÝNUM HVERT ÖÐRU VIRÐINGU
  • FORÐUMST AÐ VALDA SUNDRUNG
  • ELSKUM „Í VERKI OG SANNLEIKA“
  • Jehóva ber innilega umhyggju fyrir þér
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Svaraðu eftirfarandi spurningum
    Dagskrá svæðismóts með farandhirði 2025-2026
  • „Að vera nálægt Guði“ gerir okkur gott
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 apríl bls. 14-19

NÁMSGREIN 16

SÖNGUR 87 Komið og endurnærist

Það er gott að styrkja vináttuböndin hvert við annað

„Það er gott og yndislegt þegar bræður búa saman í einingu.“ – SÁLM. 133:1.

Í HNOTSKURN

Við fáum tillögur um hvernig við getum styrkt vináttuböndin hvert við annað og fjöllum um þá margvíslegu blessun sem vinátta við trúsystkini veitir.

1, 2. Hvað er mikilvægt í augum Jehóva og hvað vill hann að við gerum?

FÁTT er mikilvægara í augum Jehóva en það hvernig við komum fram við náunga okkar. Jesús kenndi að við þyrftum að elska náungann eins og sjálf okkur. (Matt. 22:37–39) Það felur í sér að sýna öðrum góðvild, líka þeim sem eru ekki sömu trúar og við. Þegar við gerum það líkjum við eftir Jehóva Guði sem „lætur sólina skína bæði á vonda og góða og rigna bæði yfir réttláta og rangláta“. – Matt. 5:45.

2 Jehóva elskar allt mannkynið. En honum þykir sérstaklega vænt um þá sem gera vilja hans. (Jóh. 14:21) Hann vill að við líkjum eftir sér. Hann hvetur okkur til að bera „brennandi kærleika“ til bræðra okkar og systra og sýna þeim „ástúð“. (1. Pét. 4:8; Rómv. 12:10) Þess konar kærleikur og ástúð minnir okkur kannski á þær hlýju tilfinningar sem við berum til ættingja eða vinar sem við elskum.

3. Hverju megum við ekki gleyma varðandi kærleikann?

3 Líkt og plöntur þurfa næringu og umhirðu til að dafna þurfum við að hlúa að kærleikanum til að hann vaxi. Páll postuli gaf kristnum mönnum þessa ráðleggingu: „Látið bróðurkærleikann haldast.“ (Hebr. 13:1) Jehóva vill að við höldum áfram að rækta kærleika til annarra. Í þessari námsgrein ræðum við hvers vegna við ættum að styrkja vináttuböndin við trúsystkini og hvernig við getum haldið því áfram.

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ STYRKJA VINÁTTUBÖNDIN HVERT VIÐ ANNAÐ?

4. Hvað er mikilvægt að gera til að vera áfram þakklát fyrir sameinað bræðrafélag okkar eins og lýst er í Sálmi 133:1? (Sjá einnig myndir.)

4 Lestu Sálm 133:1. Við tökum undir orð sálmaskáldsins sem sagði að vinátta við þá sem elska Jehóva sé ‚góð‘ og ‚yndisleg‘. En það er hætta á því að við tökum einingunni sem ríkir á meðal okkar sem sjálfsögðum hlut, rétt eins og sá sem sér stórt og mikið tré á hverjum degi gæti farið að taka því sem sjálfsögðum hlut. Við hittum trúsystkini okkar oft, kannski nokkrum sinnum í viku. Hvað getum við gert til að vera viss um að við höldum áfram að hafa mætur á þeim? Kærleikur okkar til trúsystkina vex þegar við minnum okkur á hversu dýrmætt hvert og eitt þeirra er, okkur persónulega og söfnuðinum í heild.

Myndir: 1. Systir dáist að fallegu tré. 2. Síðar faðmar hún systur á umdæmismóti. Aðrir á mótinu ræða glaðlega saman.

Taktu einingunni í söfnuðinum aldrei sem sjálfsögðum hlut. (Sjá 4. grein.)


5. Hvaða áhrif getur það haft á aðra þegar þeir sjá kærleikann sem ríkir meðal okkar?

5 Það snertir suma djúpt sem koma á samkomu í fyrsta skipti að sjá kærleikann sem við berum hvert til annars. Það eitt og sér getur verið nóg til að þeir átti sig á að þeir hafi fundið sannleikann. Jesús sagði: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Ung kona, Chaithra að nafni, fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Hún þáði boð um að koma á umdæmismót. Eftir fyrsta mótsdaginn sagði hún við biblíukennara sinn: „Foreldrar mínir föðmuðu mig aldrei en á mótinu var ég föðmuð 52 sinnum á einum degi. Ég upplifði kærleika Jehóva í andlegri fjölskyldu hans. Mig langar að vera hluti af þessari fjölskyldu.“ Chaithra hélt áfram að taka framförum í trúnni og lét skírast 2024. Já, þegar nýir sjá góð verk okkar, meðal annars hvernig við sýnum hvert öðru kærleika, finna þeir oft hjá sér hvöt til að þjóna Jehóva. – Matt. 5:16.

6. Hvernig getur það verið okkur til verndar að styrkja vináttuböndin við bræður og systur?

6 Það getur verið mikil vernd í því að styrkja vináttuböndin við bræður og systur. Páll sagði við trúsystkini sín: ‚Uppörvið hvert annað á hverjum degi til að ekkert ykkar forherðist af táli syndarinnar.‘ (Hebr. 3:13) Ef við verðum svo kjarklítil að við byrjum að leiðast af réttri leið getur Jehóva notað umhyggjusamt trúsystkini til að veita okkur þá hjálp sem við þurfum. (Sálm. 73:2, 17, 23) Það væri okkur sannarlega til góðs.

7. Hvaða tengsl eru milli kærleika og einingar? (Kólossubréfið 3:13, 14)

7 Við erum bræður og systur sem leggjum okkur einlæglega fram við að sýna hvert öðru kærleika, og það leiðir af sér ýmislegt gott. (1. Jóh. 4:11) Kærleikurinn fær okkur til dæmis til að „umbera hvert annað“ og það stuðlar að einingu í söfnuðinum. (Lestu Kólossubréfið 3:13, 14; Ef. 4:2–6) Þess vegna er ánægjulegt andrúmsloft á samkomum okkar sem á sér hvergi hliðstæðu.

SÝNUM HVERT ÖÐRU VIRÐINGU

8. Hvaða þátt á Jehóva í einingunni sem ríkir okkar á meðal?

8 Einingin sem ríkir meðal okkar um allan heim er í raun kraftaverk. Hún er möguleg með hjálp Jehóva þótt við séum ófullkomin. (1. Kor. 12:25) Biblían segir að ‚Guð kenni okkur að elska hvert annað‘. (1. Þess. 4:9) Með öðrum orðum segir Jehóva í orði sínu nákvæmlega hvað við þurfum að gera til að styrkja vináttuböndin hvert við annað. Þegar við rannsökum það og fylgjum því erum við í rauninni að leyfa Jehóva að kenna okkur. (Hebr. 4:12; Jak. 1:25) Einmitt þetta kappkosta vottar Jehóva að gera.

9. Hvað lærum við í Rómverjabréfinu 12:9–13 um að sýna hvert öðru virðingu?

9 Hvernig kennir orð Guðs okkur að styrkja vináttubönd okkar? Hugleiddu það sem Páll sagði í Rómverjabréfinu 12:9–13. (Lestu.) Tökum sérstaklega eftir orðalaginu „eigið frumkvæðið að því að sýna hvert öðru virðingu“. Hvað felur það í sér? Við ættum til dæmis að vera fyrri til að sýna öðrum ástúð með því að fyrirgefa, vera gestrisin og sýna örlæti. (Ef. 4:32) Þú ættir ekki að bíða eftir því að aðrir taki fyrsta skrefið. Þú getur átt frumkvæðið. Jesús sagði réttilega: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ – Post. 20:35.

10. Hvernig getum við lagt okkur fram við að sýna hvert öðru virðingu? (Sjá einnig mynd.)

10 Eftir að Páll hvetur okkur til að sýna hvert öðru virðingu segir hann okkur að ‚vera iðin en ekki löt‘. Það er áhugavert. Sá sem er iðinn er kappsamur og duglegur og sinnir vel þeim verkefnum sem honum er treyst fyrir. Í Orðskviðunum 3:27, 28 erum við hvött: „Neitaðu þeim ekki um hjálp sem þarfnast hennar ef það er á þínu færi að gera þeim gott.“ Þegar við sjáum að einhver þarfnast hjálpar gerum við því það sem við getum til að hjálpa honum. Við sláum því hvorki á frest né gerum ráð fyrir að aðrir sjái um málið. – 1. Jóh. 3:17, 18.

Ungur bróðir hreinsar lauf úr þakrennu á húsi eldri bróður.

Við ættum að eiga frumkvæðið að því að hjálpa bræðrum okkar og systrum sem eru hjálparþurfi. (Sjá 10. grein.)


11. Hvað getur hjálpað okkur að styrkja tengslin okkar á milli?

11 Önnur leið til að sýna hvert öðru virðingu er að vera fljót til að fyrirgefa þegar aðrir móðga okkur. Í Efesusbréfinu 4:26 segir: „Ef þið reiðist syndgið þá ekki. Verið ekki reið fram yfir sólsetur.“ Vers 27 sýnir að með því að fylgja því ‚gefum við Djöflinum ekkert tækifæri‘. Í orði sínu segir Jehóva okkur aftur og aftur að fyrirgefa hvert öðru. Kólossubréfið 3:13 hvetur okkur til að halda áfram að „fyrirgefa hvert öðru fúslega“. Að fyrirgefa mistök annarra er ein besta leiðin til að styrkja tengslin við þá. Þannig leggjum við okkar af mörkum „til að varðveita einingu andans í bandi friðarins“. (Ef. 4:3) Með því að fyrirgefa eigum við þannig beinan þátt í því að stuðla að friði og einingu.

12. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að vera tilbúin að fyrirgefa?

12 Okkur gæti fundist erfitt að fyrirgefa þeim sem hafa sært okkur. En með hjálp anda Guðs er það mögulegt. Eftir að hafa sagt okkur að ‚sýna ástúð‘ og ‚vera iðin‘ hvetur Páll okkur til að ‚vera brennandi í andanum‘. Sá sem er „brennandi“ er kappsamur og fullur eldmóðs af því að heilagur andi verkar í honum. Heilagur andi getur þannig hjálpað okkur að sýna ástúð og vera fús að fyrirgefa. Þess vegna ættum við að biðja Jehóva einlæglega að hjálpa okkur. – Lúk. 11:13.

FORÐUMST AÐ VALDA SUNDRUNG

13. Hvað gæti valdið sundrung á meðal okkar?

13 Í söfnuðinum er „alls konar fólk“ með mismunandi bakgrunn. (1. Tím. 2:3, 4) Við verðum að gæta þess að láta ekki þennan mismun valda sundrung þegar kemur að persónulegum málum eins og vali á klæðnaði, snyrtingu, læknismeðferð eða afþreyingu. (Rómv. 14:4; 1. Kor. 1:10) Þar sem Guð hefur kennt okkur að elska hvert annað verðum við að gæta þess að halda því ekki fram að skoðanir okkar séu réttari en annarra. – Fil. 2:3.

14. Hvað ættum við alltaf að leggja okkur fram um og hvers vegna?

14 Við getum líka forðast að valda sundrung í söfnuðinum með því að leggja okkur alltaf fram um að vera jákvæð og uppörvandi við aðra. (1. Þess. 5:11) Á undanförnum árum hafa margir snúið til baka sem voru óvirkir eða var vísað úr söfnuðinum. Við tökum vel á móti þeim. (2. Kor. 2:8) Systir nokkur kom aftur á samkomu eftir að hafa verið óvirk í tíu ár. Hún segir: „Allir tóku brosandi á móti mér og heilsuðu mér.“ Hvaða áhrif hafði þetta á hana? Hún segir: „Mér fannst eins og Jehóva væri að hjálpa mér að öðlast hamingju aftur.“ Með því að reyna að vera uppörvandi við alla getum við verið verkfæri í höndum Krists til að endurnæra þá sem ‚strita og bera þungar byrðar‘. – Matt. 11:28, 29.

15. Á hvaða fleiri vegu getum við stuðlað að einingu? (Sjá einnig mynd.)

15 Önnur leið til að styrkja eininguna er að gæta að því sem við segjum. Í Jobsbók 12:11 stendur: „Prófar eyrað ekki orðin eins og tungan smakkar matinn?“ Rétt eins og góður kokkur smakkar matinn áður en hann ber hann fram íhugum við það sem við ætlum að segja áður en við tölum. (Sálm. 141:3) Við ættum að ganga úr skugga um að það sem við ætlum að segja sé uppbyggilegt og endurnærandi og „að þeir sem heyra hafi gagn af“. – Ef. 4:29.

Bróðir smakkar matinn til áður en hann ber hann á borð fyrir gestina.

Hugsaðu um það sem þú ætlar að segja áður en þú talar. (Sjá 15. grein.)


16. Hverjir ættu sérstaklega að reyna að vera hvetjandi í tali?

16 Eiginmenn og foreldrar ættu sérstaklega að vera vakandi fyrir því að láta tal sitt vera uppbyggilegt. (Kól. 3:19, 21; Tít. 2:4) Öldungar ættu líka að leitast við að hugga og endurnæra hjörð Jehóva. (Jes. 32:1, 2; Gal. 6:1) Einn orðskviður segir: „Hvað er betra en orð á réttum tíma!“ – Orðskv. 15:23.

ELSKUM „Í VERKI OG SANNLEIKA“

17. Hvernig getum við tryggt að kærleikur okkar til bræðra og systra sé einlægur?

17 Jóhannes postuli hvetur okkur til að ‚elska ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika‘. (1. Jóh. 3:18) Við viljum að kærleikur okkar til bræðra og systra sé einlægur. Hvernig getum við tryggt að svo sé? Því meiri tíma sem við verjum með bræðrum og systrum því nánari verður vináttan við þau og kærleiksböndin styrkjast. Leggðu þig fram um að eiga samskipti við aðra, til dæmis á samkomunum og í boðuninni. Gefðu þér tíma til að heimsækja aðra. Þegar við gerum þetta sést að við leyfum Jehóva að kenna okkur að elska hvert annað. (1. Þess. 4:9) Og við upplifum af eigin raun að „það er gott og yndislegt þegar bræður búa saman í einingu“. – Sálm. 133:1.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna er gott fyrir okkur að styrkja vináttuböndin hvert við annað?

  • Hvað er fólgið í því að eiga frumkvæðið að því að sýna öðrum virðingu?

  • Hvernig getum við stuðlað að einingu?

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila