NÁMSGREIN 15
SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir
„Að vera nálægt Guði“ gerir okkur gott
„Það gerir mér gott að vera nálægt Guði.“ – SÁLM. 73:28.
Í HNOTSKURN
Við skoðum hvernig við getum nálgast Jehóva og hvernig það gerir okkur gott.
1, 2. (a) Hvað þurfum við að gera til að eiga náinn vin? (b) Hvað er til umfjöllunar í þessari námsgrein?
ÁTT þú náinn vin? Hvað gerðirðu til að samband ykkar yrði náið? Trúlega hefurðu eytt tíma með honum, kynnst því sem á daga hans hefur drifið, hverju hann hefur áhuga á og hvað honum mislíkar. Þú hefur uppgötvað dýrmæta eiginleika í fari hans sem þig langar að líkja eftir. Og þú elskar vin þinn.
2 Það krefst tíma og viðleitni að rækta vináttu. Það sama á við þegar við ræktum vináttu við Jehóva Guð. Í þessari námsgrein er fjallað um það hvernig við getum nálgast Guð og hvað gott það hefur í för með sér. Fyrst skoðum við hvers vegna það er gott að vera nálægt besta vini okkar, Jehóva.
3. Hvers vegna ættum við að hugsa um blessunina sem það veitir að vera nálægt Jehóva? Lýstu með dæmi.
3 Þú ert örugglega sammála því að það sé gott að vera nálægt Jehóva. En ef við hugleiðum hversu gott það er fyrir okkur getur það verið hvöt til að nálgast hann enn meira. (Sálm. 63:6–8) Við vitum til dæmis hversu gott það er fyrir okkur að borða hollan mat, hreyfa okkur, fá næga hvíld og drekka nóg af vatni. Margir leiða samt ekki hugann að því og fara ekki vel með heilsuna. En því oftar sem við hugsum um heilsusamlegar venjur þeim mun líklegra er að við tileinkum okkur þær. Eins vitum við að það gerir okkur gott að nálgast Jehóva. En með því að hugleiða hvers vegna það er gott fyrir okkur fáum við hvatningu til að halda áfram að nálgast vin okkar. – Sálm. 119:27–30.
4. Hvað sagði sálmaskáldið í Sálmi 73:28?
4 Lestu Sálm 73:28. Levítinn sem orti Sálm 73 var tónlistarmaður í musteri Jehóva. Hann hafði að öllum líkindum tilbeðið Jehóva trúfastur um árabil. En honum fannst nauðsynlegt að minna sjálfan sig og aðra á að það væri gott „að vera nálægt Guði“. Hvers vegna er gott að styrkja vináttuna við Jehóva?
„AÐ VERA NÁLÆGT GUÐI“ VEITIR HAMINGJU
5. (a) Hvers vegna verðum við hamingjusöm þegar við nálgumst Jehóva? (b) Hvernig veitir viska Jehóva þér hjálp og vernd samkvæmt Orðskviðunum 2:6–16?
5 Því meir sem við nálgumst Jehóva þeim mun hamingjusamari verðum við. (Sálm. 65:4) Fyrir því eru margar ástæður. Við öðlumst visku þegar við lesum og hlýðum því sem hann kennir okkur í Biblíunni. Þessi viska verndar okkur fyrir því sem getur skaðað okkur og hún forðar okkur frá því að gera alvarleg mistök. (Lestu Orðskviðina 2:6–16.) Þess vegna segir í Biblíunni: „Sá er hamingjusamur sem finnur visku og aflar sér hygginda.“ – Orðskv. 3:13.
6. Hvers vegna missti sálmaskáldið gleðina?
6 Vinir Jehóva eru að sjálfsögðu stundum daprir. Sá sem orti Sálm 73 missti gleðina þegar hann fór að hugsa um það sem honum fannst ósanngjarnt. Hann fylltist gremju og öfund þegar hann hugsaði um það hversu gott vondir menn hefðu það þótt þeim stæði á sama um Guð og mælikvarða hans. Hann ályktaði ranglega að hrokafullt og ofbeldisfullt fólk fengi allt sem það vildi og væri heilsuhraustara og jafnvel laust við þjáningar. (Sálm. 73:3–7, 12) Þetta truflaði sálmaskáldið sem hugsaði meira að segja að það væri ekki erfiðisins virði að þjóna Jehóva. Hann var svo dapur að hann sagði: „Til einskis hef ég haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi.“ – Sálm. 73:13.
7. Hvað getum við gert þegar við verðum döpur? (Sjá einnig mynd.)
7 Sálmaskáldið lét ekki depurð lama sig. Hann gerði eitthvað í málinu. Hann „gekk inn í stórfenglegan helgidóm Guðs“ þar sem Guð leiðrétti hugsunarhátt hans. (Sálm. 73:17–19) Þegar við erum döpur veit Jehóva, besti vinur okkar, af því. Ef við biðjum hann um leiðsögn og þiggjum hjálpina í orði hans og frá söfnuðinum fáum við innri styrk til að halda áfram að þjóna honum þótt við séum döpur. Jehóva huggar okkur og róar jafnvel þegar okkur finnst áhyggjurnar yfirþyrmandi. – Sálm. 94:19.a
Levítinn sem orti Sálm 73 frammi fyrir ‚stórfenglegum helgidómi Guðs‘. (Sjá 7. grein.)
AÐ NÁLGAST GUÐ GEFUR OKKUR TILGANG OG VON
8. Á hvaða fleiri vegu gerir það okkur gott að nálgast Guð?
8 Að nálgast Guð gerir okkur gott á fleiri vegu. Það gefur okkur tilgang í lífinu og veitir trausta von fyrir framtíðina. (Jer. 29:11) Skoðum þetta aðeins nánar.
9. Hvernig gefur það lífi okkar tilgang að vera nálægt Jehóva?
9 Líf okkar öðlast tilgang þegar Jehóva er náinn vinur okkar. Mörgum sem trúa ekki á tilvist Guðs finnst lífið ekki hafa neinn tilgang og þeir sjá ekki fram á annað en að mannkynið deyi að lokum út. En það sem við höfum lesið í Biblíunni hefur sannfært okkur um að Guð „sé til og að hann launi þeim sem leita hans í einlægni“. (Hebr. 11:6) Okkur er ásköpuð þörf til að þjóna Jehóva og það stuðlar að hamingju okkar þegar við mætum þessari þörf. – 5. Mós. 10:12, 13.
10. Hver er framtíð þeirra sem leggja traust sitt á Jehóva samkvæmt Sálmi 37:29?
10 Í hugum margra snýst lífið um vinnuna, að eignast fjölskyldu og safna til efri áranna og Guð er ekki inni í myndinni. Þjónar Jehóva leggja á hinn bóginn traust sitt á hann. (Sálm. 25:3–5; 1. Tím. 6:17) Við treystum á Guð sem við höfum nálgast og við treystum loforðum hans. Þau fela meðal annars í sér að við fáum að tilbiðja hann að eilífu í paradís. – Lestu Sálm 37:29.
11. Hvaða áhrif hefur það á okkur að nálgast Guð og hvaða áhrif hefur það á hann?
11 Það er gott fyrir okkur á marga fleiri vegu að nálgast Guð. Jehóva lofar til dæmis að fyrirgefa syndir okkar þegar við iðrumst. (Jes. 1:18) Fyrir vikið þurfum við ekki að burðast með vonda samvisku vegna fyrri synda. (Sálm. 32:1–5) Og það veitir okkur ánægju að gleðja Jehóva. (Orðskv. 23:15) Þér dettur örugglega fleira gott í hug sem náin vinátta við Guð hefur í för með sér. En hvernig geturðu haldið áfram að nálgast Guð?
HVERNIG GETUM VIÐ HALDIÐ ÁFRAM AÐ NÁLGAST GUÐ?
12. Hvað hefurðu gert til að nálgast Guð?
12 Ef þú ert skírður hefurðu þegar gert margt til að vera nálægt Jehóva. Þú hefur lært margt um Jehóva Guð og Jesú Krist, iðrast fyrri synda, sýnt sterka trú á Guð og lagt þig fram við að gera vilja hans. Til að nálgast Guð enn frekar verðurðu að halda áfram að gera þetta. – Kól. 2:6.
13. Hvað þrennt getur hjálpað okkur að nálgast Jehóva enn frekar?
13 Hvað hjálpar okkur að nálgast Jehóva enn frekar? (1) Við þurfum að halda áfram að lesa og rannsaka Biblíuna. Markmið okkar ætti að vera meira en að læra grundvallarsannindi um Guð. Við ættum að reyna að skilja hver vilji hans er með okkur og láta meginreglurnar í orði hans hafa áhrif á líf okkar. (Ef. 5:15–17) (2) Við þurfum að styrkja trúna með því að hugleiða hvernig hann sýnir á margvíslegan hátt að hann elskar okkur. (3) Við verðum að halda áfram að hata það sem særir Jehóva og forðast að mynda vináttutengsl við þá sem leggja stund á vond verk. – Sálm. 1:1; 101:3.
14. Hvernig gleðjum við Jehóva dags daglega samkvæmt 1. Korintubréfi 10:31? (Sjá einnig myndir.)
14 Lestu 1. Korintubréf 10:31. Það er mikilvægt að gera það sem við vitum að gleður Jehóva. Það felur meira í sér en að fara í boðunina og mæta á safnaðarsamkomur. Það sem við gerum dags daglega ætti að gleðja hann. Við gerum það til dæmis ef við erum heiðarleg á allan hátt og sýnum öðrum örlæti. (2. Kor. 8:21; 9:7) Jehóva vill líka að við séum þakklát fyrir lífið sem hann gaf okkur. Við gætum því hófs í mat og drykk og hugsum vel um heilsuna að öðru leyti. Þegar Jehóva sér að við reynum að gleðja hann í öllu sem við gerum, jafnvel því smæsta, elskar hann okkur enn meira. – Lúk. 16:10.
Að gæta öryggis í umferðinni, sýna gestrisni og hugsa um heilsuna með því að hreyfa sig og borða hollan mat eru nokkrar leiðir til að gleðja Jehóva. (Sjá 14. grein.)
15. Hvernig væntir Jehóva þess að við komum fram við aðra?
15 Jehóva er góður bæði við réttláta og rangláta. (Matt. 5:45) Hann ætlast til þess að við séum það líka. Við eigum til dæmis ‚ekki að tala illa um neinn, ekki vera þrætugjörn heldur alltaf mild í viðmóti við alla‘. (Tít. 3:2) Af þeim sökum lítum við ekki niður á þá sem eru annarrar trúar en við. (2. Tím. 2:23–25) Við nálgumst Jehóva með því að sýna öllum góðvild og tillitssemi.
NÁLGUMST GUÐ JAFNVEL ÞEGAR VIÐ GERUM MISTÖK
16. Hvernig leið þeim sem orti Sálm 73 eftir að hafa þjónað Jehóva um tíma?
16 En hvað ef þú upplifðir að þér fyndist þú ekki verðugur þess að Jehóva elski þig? Eitthvað svipað gerðist hjá sálmaskáldinu. Hann sagði: „Við lá að ég villtist, minnstu munaði að ég hrasaði.“ (Sálm. 73:2) Hann viðurkenndi að hann varð „bitur“, „hugsaði ekki skýrt“ og var „eins og skynlaus skepna“ frammi fyrir Jehóva. (Sálm. 73:21, 22) Dró hann þá ályktun að honum væri ekki viðbjargandi vegna þess að hann hafði rangt viðhorfog ætti ekki ást Jehóva skilið?
17. (a) Hvað gerði sálmaskáldið jafnvel þegar honum leið sem verst? (b) Hvað getum við lært af honum? (Sjá einnig myndir.)
17 Ef sálmaskáldinu hefur fundist að Jehóva hafi yfirgefið sig hlýtur það að hafa varað aðeins um stuttan tíma. Þegar honum leið sem verst virðist hann hafa áttað sig á að hann þyrfti að nálgast Guð. Hann sagði: „En nú er ég alltaf hjá þér [Jehóva], þú heldur í hægri hönd mína. Þú leiðbeinir mér með ráðum þínum og leiðir mig síðan til dýrðar.“ (Sálm. 73:23, 24) Við ættum líka að biðja Jehóva að styrkja okkur þegar við finnum að trúin veikist eða þegar við erum niðurdregin vegna mistaka okkar. (Sálm. 73:26; 94:18) Jafnvel þótt við förum tímabundið út af sporinu getum við snúið aftur til Jehóva, viss um að hann sé „fús til að fyrirgefa“. (Sálm. 86:5) Við ættum að nálgast Jehóva, ekki síst þegar okkur líður sem verst. – Sálm. 103:13, 14.
Þegar okkur finnst trú okkar ekki nægilega sterk ættum við að nálgast Jehóva með því að leggja meiri rækt við tilbeiðsluna. (Sjá 17. grein.)
NÁLGUMST GUÐ UM ALLA EILÍFÐ
18. Hvers vegna getum við nálgast Jehóva um alla eilífð?
18 Við getum endalaust haldið áfram að nálgast Jehóva og læra um hann. Biblían talar um hversu djúpstæð viska Jehóva og þekking er og hversu „órekjandi“ vegir hans eru. – Rómv. 11:33.
19. Hvað fullvissa Sálmarnir okkur um?
19 Í Sálmi 79:13 segir: „Þá munum við, fólk þitt og hjörð á beitilandi þínu, þakka þér að eilífu og lofa þig frá kynslóð til kynslóðar.“ Þegar þú nálgast Guð geturðu líka verið viss um að þú getir notið blessunar hans að eilífu og sagt af öryggi: „Guð [er] klettur hjarta míns og hlutskipti að eilífu.“ – Sálm. 73:26.
SÖNGUR 32 Fylgdu Jehóva
a Sumir sem glíma við langvarandi kvíða eða depurð gætu þurft að leita sér sérfræðiaðstoðar. Hægt er að fá frekari upplýsingar í Varðturninum nr. 1 2023.