Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 maí bls. 26-31
  • Hvaða gildi ætti nafn Jehóva að hafa fyrir okkur?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvaða gildi ætti nafn Jehóva að hafa fyrir okkur?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „FÓLK SEM BER NAFN HANS“
  • „ÞIÐ ERUÐ VOTTAR MÍNIR“
  • HVAÐA GILDI HEFUR NAFN JEHÓVA FYRIR OKKUR?
  • Hvaða gildi hefur nafn Jehóva fyrir Jesú?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • „Lofið nafn Jehóva“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Hvers vegna við verðum að þekkja nafn Guðs?
    Nafn Guðs sem vara mun að eilífu
  • Veljið hverjum þið viljið þjóna
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 maí bls. 26-31

NÁMSGREIN 23

SÖNGUR 2 Þú heitir Jehóva

Hvaða gildi ætti nafn Jehóva að hafa fyrir okkur?

„‚Þið eruð vottar mínir,‘ segir Jehóva.“ – JES. 43:10.

Í HNOTSKURN

Það sem við getum gert til að helga nafn Jehóva og hreinsa það af ásökunum Satans.

1, 2. Hvernig vitum við að nafn Jehóva er Jesú mikilvægt?

EKKERT er Jesú eins mikilvægt og nafn Jehóva. Enginn hefur gert meira en Jesús til að kunngera það. Eins og við ræddum í námsgreininni á undan var hann tilbúinn til að deyja fyrir nafn Jehóva og allt sem það stendur fyrir. (Mark. 14:36; Hebr. 10:7–9) Og eftir þúsundáraríkið afsalar Jesús fúslega allt vald í hendur Jehóva af því að hann vill gefa honum allan heiður. (1. Kor. 15:26–28) Það segir líka mikið um samband Jesú við föður sinn hversu dýrmætt nafnið er honum og sýnir svo ekki verður um villst að hann elskar þann sem ber þetta nafn.

2 Jesús kom til jarðar í nafni föður síns. (Jóh. 5:43; 12:13) Hann kunngerði fylgjendum sínum nafn hans. (Jóh. 17:6, 26) Hann kenndi fólki og vann kraftaverk í nafni Jehóva. (Jóh. 10:25) Jesús bað Jehóva að gæta lærisveinanna „vegna nafns [hans]“. (Jóh. 17:11) Nafn Jehóva skipti Jesú greinilega mjög miklu máli. Hvernig getur þá einhver sem hvorki þekkir nafnið né notar það sagst vera sannur fylgjandi Jesú?

3. Hvað er rætt í þessari námsgrein?

3 Sannkristnir menn reyna að feta í fótspor Jesú með því að elska og virða nafn Jehóva. (1. Pét. 2:21) Í þessari námsgrein ræðum við hvernig þeir sem boða ‚fagnaðarboðskapinn um ríkið‘ þekkjast á því að þeir nota nafn Jehóva. (Matt. 24:14) Við ræðum líka hvaða gildi nafn Jehóva ætti að hafa fyrir hvert og eitt okkar.

„FÓLK SEM BER NAFN HANS“

4. (a) Hvaða umboð gaf Jesús lærisveinum sínum áður en hann sneri aftur til himna? (b) Hvaða spurning vaknar í því sambandi?

4 Jesús sagði lærisveinum sínum rétt áður en hann sneri aftur til himna: „Þið fáið kraft þegar heilagur andi kemur yfir ykkur og þið verðið vottar mínir í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar.“ (Post. 1:8) Fagnaðarboðskapurinn yrði ekki aðeins boðaður í Ísrael heldur um alla jörð. Þegar fram liðu stundir fengi fólk af öllum þjóðum tækifæri til að verða fylgjendur Jesú. (Matt. 28:19, 20) En af hverju sagði Jesús: „Þið verðið vottar mínir“? Myndu þessir nýju lærisveinar aðeins vitna um Jesú eða líka um Jehóva? Frásagan í Postulasögunni kafla 15 hjálpar okkur að komast að því.

5. Hvernig sýndu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem fram á mikilvægi þess að þekkja nafn Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

5 Árið 49 hittust postularnir og öldungarnir í Jerúsalem til að ræða hvort menn af þjóðunum þyrftu að umskerast til að gerast kristnir. Umræðunum lauk á því að Jakob hálfbróðir Jesú sagði: „[Pétur] hefur greint ítarlega frá hvernig Guð sneri sér að þjóðunum í fyrsta sinn og valdi úr hópi þeirra fólk til að bera nafn sitt.“ Hann vitnaði líka í Amos spámann og sagði: „Þannig að þeir sem eftir eru geti leitað Jehóva af heilum hug ásamt fólki af öllum þjóðum, fólki sem ber nafn mitt, segir Jehóva.“ (Post. 15:14–18) Þessir nýju lærisveinar myndu auk þess að kynnast Jehóva ‚bera nafn hans‘. Það fæli í sér að þeir myndu kunngera nafn Guðs og fólk myndi tengja þá við nafnið.

Jakob ræðir við nokkra af postulunum og öldungunum í Jerúsalem. Tveir bræðranna opna bókrollur meðan þeir hlusta.

Trúfastir menn á fundi stjórnandi ráðs á fyrstu öld komust að þeirri niðurstöðu að kristnir menn ættu að bera nafn Guðs. (Sjá 5. grein.)


6, 7. (a) Hvers vegna kom Jesús til jarðar? (b) Af hvaða annarri ástæðu kom hann til jarðar sem var enn þýðingarmeiri?

6 Nafn Jesú merkir ‚Jehóva er hjálpræði‘ og hann reyndist vera leið Jehóva til að bjarga þeim sem trúa. Jesús kom til jarðar til að fórna lífi sínu í þágu mannkynsins. (Matt. 20:28) Með lausnargjaldinu greiddi hann fyrir syndir mannkyns og gerði því kleift að hljóta eilíft líf. – Jóh. 3:16.

7 En hvers vegna þurfti mannkynið á lausnargjaldi að halda? Vegna þess sem gerðist í Edengarðinum. Eins og fjallað var um í námsgreininni á undan gerðu Adam og Eva, foreldrar mannkyns, uppreisn gegn Jehóva og misstu þar með möguleikann á að lifa að eilífu. Afleiðingin var sú að allir afkomendur þeirra fengu synd og dauða í arf. (1. Mós. 3:6, 24) En Jesús kom til jarðar til að gera nokkuð sem er enn mikilvægara en að bjarga mannkyninu. Nafn Jehóva hafði verið svert. (1. Mós. 3:4, 5) Frelsun afkomenda Adams og Evu tengdist því stærra máli – helgun nafns Jehóva. Jesús gegndi lykilhlutverki í því að helga nafn Jehóva þar sem hann var fulltrúi hans og kenndur við nafn hans.

Hvernig getur einhver sem þekkir hvorki nafn Jehóva né notar það sagst vera sannur fylgjandi Krists?

8. Hvað þurfa allir fylgjendur Jesú að skilja?

8 Allir sem tryðu á Jesú, bæði Gyðingar og fólk af þjóðunum, þyrftu að viðurkenna að þeir ættu björgun sína föður Jesú að þakka, Jehóva Guði. (Jóh. 17:3) Fólk myndi auk þess tengja þá við nafn Jehóva líkt og Jesús var tengdur við það. Þeir yrðu líka að skilja hversu mikilvægt það væri að helga nafn hans. Björgun þeirra var háð því. (Post. 2:21, 22) Allir trúfastir fylgjendur Jesú þurftu því ekki einungis að læra um Jesú heldur líka Jehóva. Það kemur heim og saman við það hvernig Jesús lauk bæn sinni í Jóhannesarguðspjalli 17. kafla. Þar segir: „Ég hef kunngert þeim nafn þitt og mun kunngera það svo að þeir sýni sama kærleika og þú sýndir mér og ég sé sameinaður þeim.“ – Jóh. 17, 26.

„ÞIÐ ERUÐ VOTTAR MÍNIR“

9. Hvernig getum við sýnt að nafn Jehóva er okkur mikilvægt?

9 Allir sannir fylgjendur Jesú þurfa þess vegna að hafa áhuga á að helga nafn Jehóva. (Matt. 6:9, 10) Við verðum að álíta nafn Jehóva mikilvægasta nafnið sem við þekkjum. Verk okkar þurfa að sýna það. En hvernig getum við átt þátt í að helga nafn Jehóva, það er að segja hrakið lygarnar sem Satan hefur breitt út um hann?

10. Hverju er lýst í köflum 42 til 44 í Jesaja? (Jesaja 43:9; 44:7–9) (Sjá einnig mynd.)

10 Í köflum 42 til 44 í Jesaja fáum við að vita hvað við getum gert til að helga nafn Jehóva. Í þessum köflum er lýst táknrænu dómsmáli þar sem deilt er um guðdóminn. Jehóva skorar á alla sem halda því fram að þeir séu guðir að sanna það. Hann fer líka fram á að vitni sanni það. En það eru engin vitni! – Lestu Jesaja 43:9; 44:7–9.

Samsett mynd: Englar fljúga yfir jörðinni og bræður og systur um allan heim eiga þátt í að helga nafn Jehóva. 1. Hjón taka þátt í trillustarfinu. 2. Ung systir réttir skólafélaga sínum jw.org nafnspjald. 3. Bróðir vitnar fyrir manni í almenningsfarartæki. 4. Bróðir er leiddur burt í handjárnum af grímuklæddum lögreglumönnum. 5. Systir sem liggur inni á spítala útskýrir fyrir lækni afstöðu sína varðandi blóðið.

Við eigum þátt í táknrænu dómsmáli með margvíslegum hætti. (Sjá 10. og 11. grein.)


11. Hvað segir Jehóva við fólk sitt í Jesaja 43:10–12?

11 Lestu Jesaja 43:10–12. Jehóva segir við fólk sitt: „Þið eruð vottar mínir … og ég er Guð.“ Hann biður það að svara spurningunni: „Er nokkur Guð til nema ég?“ (Jes. 44:8) Það er einstakur heiður að fá að svara þeirri spurningu. Með orðum okkar og verkum vitnum við um að Jehóva er hinn eini sanni Guð og að nafn hans er æðra öllum öðrum nöfnum. Við sönnum með lífsstefnu okkar að við elskum Jehóva og að við erum honum trúföst – hvaða þrýstingi sem Satan kann að beita okkur. Þannig höfum við tækifæri til að helga nafn hans.

12. Hvernig uppfylltist spádómurinn í Jesaja 40:3, 5?

12 Jesaja sagði líka fyrir að sendiboði myndi greiða veg Jehóva. (Jes. 40:3) Hvernig uppfylltist sá spádómur? Jóhannes skírari greiddi veginn fyrir Jesú sem kom í nafni Jehóva og talaði í nafni hans. (Matt. 3:3; Mark. 1:2–4; Lúk. 3:3–6) Sami spádómur segir: „Dýrð Jehóva opinberast.“ (Jes. 40:5) Hvað þýðir það? Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns svo fullkomlega þegar hann kom til jarðar að það var eins og Jehóva sjálfur hefði komið. – Jóh. 12:45.

13. Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

13 Við líkjum eftir Jesú Kristi þegar við verjum nafn Jehóva, eða orðspor. Við erum vottar Jehóva eins og Jesús. Við berum nafn Jehóva og segjum öllum sem við hittum frá stórkostlegum verkum hans. En til að gera verkefni okkar góð skil verðum við líka að segja frá mikilvægu hlutverki Jesú í að helga nafn Jehóva. (Post. 1:8) Jesús er fremstur allra votta Jehóva og við fylgjum forystu hans. (Opinb. 1:5) En hvaða gildi ætti nafn Jehóva að hafa fyrir hvert og eitt okkar?

HVAÐA GILDI HEFUR NAFN JEHÓVA FYRIR OKKUR?

14. Hvaða gildi hefur nafn Jehóva fyrir okkur eins og kemur fram í Sálmi 105:3?

14 Við erum stolt af nafni Jehóva. (Lestu Sálm 105:3.) Það gleður Jehóva innilega þegar við erum stolt af nafni hans. (Jer. 9:23, 24; 1. Kor. 1:31; 2. Kor. 10:17) Við erum stolt af því að Jehóva skuli vera Guð okkar. Við lítum á það sem mikinn heiður að fá að upphefja nafn hans og verja orðstír hans. Við ættum aldrei að skammast okkar fyrir að segja vinnufélögum, bekkjarfélögum, nágrönnum eða öðrum að við séum vottar Jehóva. Djöfullinn vill að við hættum að tala við aðra um nafn Jehóva. (Jer. 11:21; Opinb. 12:17) Satan og þeir sem breiða út lygar hans vilja reyndar að fólk gleymi nafni Jehóva. (Jer. 23:26, 27) En við gleðjumst yfir nafni hans „allan liðlangan daginn“ af því að við elskum það. – Sálm. 5:11; 89:16.

15. Hvað merkir það að ákalla nafn Jehóva?

15 Við höldum áfram að ákalla nafn Jehóva. (Jóel 2:32; Rómv. 10:13, 14) Að ákalla nafn Jehóva felur meira í sér en að þekkja það og nota. Við kynnumst persónunni á bak við nafnið, lærum að treysta á Guð og leita til hans eftir leiðsögn og hjálp. (Sálm. 20:7; 99:6; 116:4; 145:18) Við segjum líka öðrum frá nafni Jehóva og eiginleikum og hvetjum þá til að iðrast og breyta lífi sínu svo að þeir geti öðlast velþóknun hans. – Jes. 12:4; Post. 2:21, 38.

16. Hvernig sönnum við Satan lygara?

16 Við erum tilbúin til að þjást vegna nafns Jehóva. (Jak. 5:10, 11) Þegar við erum trúföst Jehóva jafnvel þótt það kosti okkur þjáningar sönnum við Satan lygara. Á dögum Jobs sagði Satan um þá sem þjóna Jehóva: „Maðurinn gefur allt sem hann á fyrir líf sitt.“ (Job. 2:4) Satan fullyrti að fólk þjónaði Jehóva aðeins þegar lífið væri auðvelt og yfirgæfi hann þegar það mætti erfiðleikum. Job sýndi hins vegar fram á að þetta er alrangt. Við getum sömuleiðis sýnt að við munum aldrei snúa baki við Jehóva sama hversu erfitt lífið verður og sama hvað Satan reynir til að draga úr okkur kjarkinn. Við getum verið handviss um að Jehóva gæti okkar vegna nafns síns. – Jóh. 17:11.

17. Hvernig getum við lofað nafn Jehóva eins og kemur fram í 1. Pétursbréfi 2:12?

17 Við heiðrum nafn Jehóva. (Orðskv. 30:9; Jer. 7:8–11) Þar sem við erum fulltrúar Jehóva og berum nafn hans getum við annaðhvort heiðrað það eða vanvirt. (Lestu 1. Pétursbréf 2:12.) Við viljum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að heiðra Jehóva með því sem við segjum og gerum. Þegar við gerum það lofum við nafn Jehóva þótt við séum ófullkomin.

18. Hvaða aðra leið höfum við til að sýna að nafn Jehóva er okkur mikilvægt? (Sjá einnig neðanmáls.)

18 Nafn Jehóva skiptir okkur meira máli en eigið orðspor. (Sálmur 138:2) Hvers vegna skiptir þetta máli? Þegar við reynum að gera það sem gleður Jehóva sköpum við okkur oft óvinsældir annarra.a Jesús var tilbúinn til að deyja smánarfullum dauða sem dæmdur glæpamaður til að heiðra nafn Jehóva. Hann „lét smánina ekki á sig fá“ í þeim skilningi að hann hafði ekki of miklar áhyggjur af því hvað öðrum fyndist um sig. (Heb. 12:2-4) Hann einbeitti sér að því að gera vilja Guðs. – Matt. 26:39.

19. Hvaða gildi hefur nafn Jehóva fyrir þig og hvers vegna?

19 Nafn Jehóva fyllir okkur stolti og við erum hreykin af því að bera nafnið vottar Jehóva. Þess vegna látum við það ekki á okkur fá þótt aðrir líti niður á okkur. Nafn Jehóva er okkur mikilvægara en hvaða álit aðrir hafa á okkur. Við skulum því vera ákveðin í að halda áfram að lofa nafn Jehóva, sama hvaða brögðum Satan beitir. Þannig sýnum við að nafn Jehóva skiptir okkur mestu máli, rétt eins og það gerir fyrir Jesú.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna er nafn Jehóva mikilvægt fylgjendum Jesú?

  • Í hvaða máli þurfum við að bera vitni?

  • Hvernig getum við sýnt að nafn Jehóva er okkur mikilvægt?

SÖNGUR 10 Lofum Jehóva

a Jafnvel hinn trúfasti Job fór að hugsa of mikið um hvaða álit aðrir hefðu á honum þegar félagar hans þrír sögðu að hann hefði gert eitthvað rangt. Upphaflega, þegar hann missti börnin sín og allar eigur sínar, „syndgaði Job ekki né ásakaði Guð um að gera nokkuð rangt“. (Job. 1:22; 2:10) En þegar Job var sakaður um að hafa gert rangt fór hann að verja sig og ‚tala í hugsunarleysi‘. Hans eigin orðstír var honum mikilvægari en nafn Guðs. – Job. 6:3; 13:4, 5; 32:2; 34:5.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila