NÁMSGREIN 31
SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum
Hefur þú „uppgötvað þann leyndardóm“ að vera ánægður?
„Ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef, óháð aðstæðum.“ – FIL. 4:11.
Í HNOTSKURN
Við skoðum hvernig við getum lært að vera ánægð með það sem við höfum þegar við þroskum með okkur þakklæti og auðmýkt, og hugsum um framtíðarvonina.
1. Hvað þýðir að vera þakklátur og hvað þýðir það ekki?
ERT þú þakklátur? Sá sem er þakklátur er ánægður og hefur hugarró því að hann kann að meta það góða sem Jehóva hefur gefið honum. Hann er ekki bitur eða reiður þótt það sé ýmislegt sem hann vantar. En það er ekki þar með sagt að sá sem er þakklátur eigi að vera værukær. Það er til dæmis gott að vilja gera meira í þjónustu Jehóva. (Rómv. 12:1; 1. Tím. 3:1) En þegar við erum þakklát missum við ekki gleðina þótt við höfum ekki enn fengið verkefni sem við þráum.
2. Hvers vegna er hættulegt að vera óánægður með það sem maður hefur?
2 Ef við erum ekki ánægð með það sem við höfum gæti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þeir sem eru aldrei ánægðir með það sem þeir hafa gætu freistast til að vinna mjög mikið til að verða sér úti um efnislega hluti sem þeir þurfa í raun ekki. Því miður hafa fáeinir þjónar Jehóva jafnvel stolið peningum og hlutum sem þá langaði í. Þeir hafa ef til vill talið sjálfum sér trú um að þeir verðskulduðu það, hefðu beðið nógu lengi eftir því eða ætluðu að borga það síðar til baka. En að stela er rangt í augum Jehóva og vanvirðir hann. (Orðskv. 30:9) Aðrir hafa orðið fyrir svo miklum vonbrigðum að fá ekki ákveðin verkefni að þeir hafa hætt að þjóna Jehóva. (Gal. 6:9) Hvernig getur vígður þjónn Jehóva látið sér detta það í hug? Kannski hefur einstaklingurinn hætt að rækta með sér þakklæti fyrir það sem hann hefur.
3. Hvað lærum við af Filippíbréfinu 4:11, 12?
3 Við getum öll þroskað með okkur þakklæti. Páll postuli skrifaði: „Ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef, óháð aðstæðum.“ (Lestu Filippíbréfið 4:11, 12.) Hann skrifaði þetta á meðan hann sat í fangelsi. En hann hafði ekki misst gleðina. Hann hafði „uppgötvað þann leyndardóm“ að vera ánægður með það sem hann hafði. Ef okkur finnst erfitt að vera ánægð með það sem við höfum getur reynsla Páls og það sem hann sagði sýnt okkur fram á að við getum þroskað þennan eiginleika með okkur. Við ættum ekki að búast við því að það komi fyrirhafnarlítið. Við þurfum að læra að vera ánægð með það sem við höfum. Skoðum eiginleika sem koma okkur að gagni til að uppgötva þennan leyndardóm.
ÞROSKUM MEÐ OKKUR ÞAKKLÆTI
4. Hvernig hjálpar þakklæti okkur að vera ánægð með það sem við höfum? (1. Þessaloníkubréf 5:18)
4 Sá sem er þakklátur er líklegri til að vera ánægður með það sem hann hefur. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:18.) Þegar við erum innilega þakklát að eiga fyrir nauðsynjum lífsins eru minni líkur á því að við hugsum of mikið um það sem við höfum ekki. Þegar við rifjum upp það sem við fáum að gera í þjónustu Jehóva hjálpar það okkur að einbeita okkur að því að gera okkar besta í staðinn fyrir að hugsa of mikið um að fá ný verkefni. Jehóva veit hversu mikilvægt það er fyrir okkur að vera þakklát og það er örugglega þess vegna sem hann hvetur okkur til að tjá þakkir okkar í bænum okkar. Þakklæti hjálpar okkur að finna ‚frið Guðs, sem er æðri öllum skilningi‘. – Fil. 4:6, 7.
5. Hvers vegna hefðu Ísraelsmenn átt að vera þakklátir? (Sjá einnig mynd.)
5 Skoðum hvað henti Ísraelsmenn. Þeir kvörtuðu margsinnis vegna þess að þeir söknuðu matarins í Egyptalandi. (4. Mós. 11:4–6) Lífið í óbyggðunum hefur örugglega ekki verið auðvelt. Hvað hefði getað hjálpað þeim að vera sáttir við aðstæður sínar? Þeir hefðu átt að vera þakklátir fyrir allt sem Jehóva hafði gert fyrir þá fram að þessu. Í Egyptalandi var farið grimmilega með þá en Jehóva lagði tíu plágur á kvalara þeirra. Þegar Ísraelsmenn voru frelsaðir „rændu þeir Egypta“ og tóku silfur, gull og fatnað með sér. (2. Mós. 12:35, 36) Þegar þeir voru hraktir að strönd Rauðahafsins opnaði Jehóva hafið með mætti sínum. Á ferðalagi þeirra um óbyggðirnar sá hann þeim daglega fyrir manna. Hvað var eiginlega vandamálið? Ísraelsmenn voru ósáttir, ekki vegna þess að þá skorti mat heldur vegna þess að þá skorti þakklæti fyrir allt það sem þeir höfðu.
Hvers vegna urðu Ísraelsmenn óánægðir? (Sjá 5. grein.)
6. Hvernig förum við að því að rækta með okkur þakklæti?
6 Hvernig getum við ræktað með okkur þakklæti? Taktu þér tíma á hverjum degi til að hugleiða allt það góða sem þú hefur. Þú gætir jafnvel skrifað hjá þér tvennt eða þrennt sem þú ert þakklátur fyrir. (Harmlj. 3:22, 23) Tjáðu líka þakklæti þitt. Taktu frumkvæðið og þakkaðu öðrum fyrir það sem þeir hafa gert fyrir þig. Og umfram allt skaltu þakka Jehóva reglulega. (Sálm. 75:1) Þú getur líka valið þér að vinum þá sem eru þakklátir. Þakklæti er smitandi en það er óánægja og vanþakklæti líka. (5. Mós. 1:26–28; 2. Tím. 3:1, 2, 5) Þegar við temjum okkur að tjá þakklæti eru minni líkur á að óánægja nái tökum á okkur.
7. Hvernig ræktaði Aci með sér þakklæti og með hvaða árangri?
7 Skoðum hvað henti Aci en hún býr í Indónesíu. Hún segir: „Í COVID-19 faraldrinum fór ég að bera aðstæður mínar saman við aðstæður trúsystkina minna. Fyrir vikið varð ég óánægð.“ (Gal. 6:4) Hvað hjálpaði henni að breyta hugsunarhætti sínum? Aci segir: „Ég fór að rifja upp allt það góða sem ég fékk á hverjum degi og þá blessun að fá að vera í söfnuði Jehóva. Síðan tjáði ég Jehóva þakklæti mitt. Það varð til þess að ég varð ánægð með hlutskipti mitt.“ Gætir þú gert eitthvað svipað ef neikvæðar hugsanir hellast yfir þig?
VERUM EINBEITT OG AUÐMJÚK
8. Í hvaða gildru féll Barúk?
8 Barúk ritari Jeremía féll um tíma í gryfju. Barúk fékk ekki auðvelt verkefni. Hann átti að hjálpa Jeremía að flytja vanþakklátri þjóð harðan boðskap. Á ákveðnum tímapunkti missti hann einbeitinguna. Í stað þess að einbeita sér að því sem Jehóva vildi að hann gerði fór hann greinilega að hugsa of mikið um sjálfan sig og það sem hann vildi gera. Jehóva sagði við Barúk fyrir munn Jeremía: „Þú ætlar þér stóra hluti. Hættu því.“ (Jer. 45:3–5) Hann var í raun að segja: Vertu sáttur við aðstæður þínar. Barúk tók leiðréttingunni og hélt áfram að njóta velþóknunar Jehóva.
9. Hvað lærum við um auðmýkt í 1. Korintubréfi 4:6, 7? (Sjá einnig myndir.)
9 Stundum gæti þjóni Jehóva fundist hann eiga það skilið að fá ákveðið verkefni. Hann er kannski hæfileikaríkur, duglegur eða reyndur eða hefur ef til vill allt þetta til að bera. En aðrir fá kannski verkefnið sem hann langar í. Hvað gæti hjálpað honum að hafa rétt viðhorf? Hann gæti rifjað upp það sem segir í 1. Korintubréfi 4:6, 7. (Lestu.) Öll verkefni sem við fáum og allir hæfileikar sem við höfum eru frá Jehóva. Þetta er ekki eitthvað sem við ávinnum okkur eða eigum tilkall til heldur merki um einstaka góðvild Guðs. – Rómv. 12:3, 6; Ef. 2:8, 9.
Allir hæfileikar sem við búum yfir endurspegla óverðskuldaða góðvild Jehóva. (Sjá 9. grein.)b
10. Hvernig getum við ræktað með okkur auðmýkt?
10 Við getum ræktað með okkur auðmýkt með því að hugleiða vandlega fordæmi Jesú. Hugleiddu hvað gerðist kvöldið sem hann þvoði fætur postulanna. Jóhannes postuli skrifaði: „Jesús vissi [1] að faðirinn hafði lagt allt í hendur hans og [2] að hann var kominn frá Guði og [3] var að fara til hans … og fór að þvo fætur lærisveinanna.“ (Jóh. 13:3–5) Jesú hefði getað fundist að postularnir ættu að þvo fætur hans. Meðan Jesús var á jörðinni fannst honum hann aldrei verðskulda meiri lífsgæði og þægindi. (Lúk. 9:58) Jesús var auðmjúkur og ánægður með hlutskipti sitt. Hann gaf okkur hið fullkomna fordæmi. – Jóh. 13:15.
11. Hvernig hefur auðmýkt hjálpað Dennis að vera ánægður með aðstæður sínar?
11 Dennis er frá Hollandi. Hann hefur leitast við að líkja eftir auðmýkt Jesú. En það hefur ekki verið auðvelt. Hann segir: „Stundum finn ég stolt eða óánægju skjóta upp kollinum eins og þegar einhver annar fær verkefni í söfnuðinum. Þegar það gerist les ég mér til um auðmýkt. Ég hef búið til flokkinn ‚auðmýkt‘ í JW Library-appinu til að safna biblíuversum um þennan eiginleika til að vera fljótur að finna þau. Ég hef líka hlaðið niður ræðum um auðmýkt í símann minn og hlusta oft á þær.a Ég hef áttað mig á að allt sem við gerum á að vegsama Jehóva en ekki sjálf okkur. Öll fáum við að gegna svolitlu hlutverki í því sem hann er að áorka.“ Ef þú verður óánægður með hlutskipti þitt skaltu markvisst rækta með þér auðmýkt. Það mun styrkja vináttu þína við Jehóva og hjálpa þér að vera ánægður með það sem þú hefur. – Jak. 4:6, 8.
HUGSAÐU UM VON ÞÍNA
12. Hvaða framtíðarvon hjálpar okkur að vera ánægð? (Jesaja 65:21–25)
12 Við erum ánægðari þegar við hugleiðum dásamlegu vonina sem við eigum. Í Jesjajabók kemur fram að Jehóva skilur hvað lífið getur verið erfitt. En hann lofar líka að fjarlægja öll vandamál. (Lestu Jesaja 65:21–25.) Við munum búa í öruggum og þægilegum húsakynnum. Við munum hafa tilgangsrík verk að vinna og borða hollan og ljúffengan mat. Við þurfum aldrei framar að hafa áhyggjur af hættum sem steðja að okkur eða börnum okkar. (Jes. 32:17, 18; Esek. 34:25) Framtíð okkar er dásamleg og hún er örugg.
13. Við hvaða aðstæður gætum við sérstaklega þurft að beina athyglinni að von okkar?
13 Við þurfum nú meira en nokkru sinni fyrr að hafa von okkar ofarlega í huga. Hvers vegna? Vegna þess að við lifum á „síðustu dögum“ og við glímum öll við erfiðleika vegna þess að það eru „erfiðir tímar“. (2. Tím. 3:1) Jehóva hjálpar okkur að hafa úthald á hverjum degi með því að gefa okkur nauðsynlega leiðsögn, styrk og stuðning. (Sálm. 145:14) Von okkar getur líka gefið okkur styrk á erfiðum tímum. Þú átt kannski fullt í fangi með að sjá fjölskyldu þinni farborða. Þýðir þetta að þú munir alltaf eiga í basli? Alls ekki! Jehóva hefur lofað að gefa þér það sem þú þarfnast – og miklu, miklu meira en það – í pardís. (Sálm. 9:18; 72:12–14) Þú ert kannski með stöðuga verki, þunglyndi eða einhvern hamlandi sjúkdóm. Er þetta bara hlutskipti þitt í lífinu sem mun aldrei nokkurn tíma breytast? Síður en svo! Sjúkdómar og dauði verða úr sögunni í nýjum heimi Guðs. (Opinb. 21:3, 4) Þessi von hjálpar okkur að vera ánægð hér og nú, laus við reiði og biturleika. Við getum verið sátt þótt við glímum við óréttlæti eða missi, tökumst á við veikindi eða aðra erfiðleika. Hvers vegna? Vegna þess að sama hvað aðstæður okkar eru erfiðar þá ‚standa erfiðleikarnir stutt‘ og nýi heimurinn mun veita varanlega lausn. – 2. Kor. 4:17, 18.
14. Hvernig getum við styrkt von okkar?
14 Hvernig getum við styrkt vonina þar sem hún er svo nauðsynleg til að vera ánægð? Rétt eins og við getum þurft að setja upp gleraugu til að geta séð skýrt frá okkur gætum við þurft að styrkja von okkar svo að við sjáum paradísina skýrar. Þegar fjárhagsáhyggjur hellast yfir okkur getum við ímyndað okkur hvernig lífið verður þegar áhyggjur af peningum, skuldum og ójöfnuði verða úr sögunni. Ef við erum vonsvikin af því að við höfum ekki fengið ákveðið verkefni getum við hugleitt hversu lítið vægi það hefur þegar við erum orðin fullkomin og höfum þjónað Jehóva um þúsundir ára. (1. Tím. 6:19) Í fyrstu gæti okkur fundist áskorun að hugsa um framtíðina í stað þess að vera með áhyggjur af nútíðinni. En með tímanum getur það orðið okkur tamt að hugsa til framtíðarinnar sem Jehóva hefur lofað okkur.
15. Hvað geturðu lært af Christu?
15 Skoðum hvernig vonin hefur hjálpað Christu, en hún er eiginkona Dennis sem áður hefur verið vitnað í. Hún segir: „Ég er með vöðvasjúkdóm og þarf að nota hjólastól og vera rúmliggjandi mestan hluta dagsins. Það líður ekki sá dagur að ég sé verkjalaus. Læknirinn minn sagði mér nýlega að mér ætti ekki eftir að batna. En þegar hann sagði þetta hugsaði ég: Hann sér framtíðina öðruvísi en ég. Vonin sem ég einbeiti mér að veitir mér hugarfrið. Eins og er þarf ég að halda út við erfiðar aðstæður en ég mun njóta lífsins til fulls í nýja heiminum.“
„ÞEIR SEM ÓTTAST HANN LÍÐA ENGAN SKORT“
16. Hvers vegna gat Davíð sagt að þeir sem óttast Jehóva líði engan skort?
16 Þjónn Jehóva sem er ánægður með aðstæður sínar er samt ekki laus við vandamál. Davíð konungur missti í það minnsta þrjú af börnum sínum. Hann var ranglega ákærður, svikinn, og var á flótta árum saman. En þrátt fyrir allt þetta sagði hann: „Þeir sem óttast [Jehóva] líða engan skort.“ (Sálm. 34:9, 10) Hvernig gat hann sagt það? Vegna þess að hann vissi að þótt Jehóva kæmi ekki í veg fyrir vandamál mundi hann alltaf veita sér nauðsynlega hjálp. (Sálm. 145:16) Eins og Davíð getum við treyst því að Jehóva styrki okkur í öllum raunum. Við getum verið ánægð.
17. Hvers vegna ertu staðráðinn í uppgötva leyndardóm ánægjunnar?
17 Jehóva vill að þú sért ánægður. (Sálm. 131:1, 2) Reyndu að uppgötva þann leyndardóm að vera ánægður. Ef þú leggur hart að þér við að þroska með þér þakklæti, heldur einbeitingunni og ert auðmjúkur og styrkir von þína geturðu sagt :„Ég er ánægður.“ – Sálm. 16:5, 6.
SÖNGUR 118 Auk okkur trú
a Sjá morgundagskrárnar Auðmjúk eða hrokafull?, Jehovah Cares for the Humble eða Pride Is Before a Crash á jw.org.
b MYNDIR: Bróðir vinnur við viðhald á húsnæði á vegum safnaðarins, systir sem hefur lært táknmál í viðtali á umdæmismóti og bróðir flytur opinberan fyrirlestur.