Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 október bls. 6-11
  • Jehóva er okkar „mesta gleði“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva er okkar „mesta gleði“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • UPPSPRETTA SANNRAR HAMINGJU
  • LÁTTU EKKERT RÆNA ÞIG GLEÐINNI
  • Gleði – eiginleiki sem við fáum frá Guði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Hvernig getum við aukið gleðina í boðuninni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Njóttu ánægjunnar sem fylgir því að gefa
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 október bls. 6-11

NÁMSGREIN 40

SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum

Jehóva er okkar „mesta gleði“

„Ég geng … til Guðs sem er mín mesta gleði.“ – SÁLM. 43:4.

Í HNOTSKURN

Við fáum hjálp til að koma auga á hvað getur rænt okkur gleði og hvernig við getum endurheimt hana ef við missum hana.

1, 2. (a) Hvernig líður mörgum nú á dögum? (b) Hvað er til umfjöllunar í þessari námsgrein?

MARGIR nú á dögum reyna allt til að öðlast hamingju en eru samt ekki hamingjusamir. Tómleiki og depurð hrjáir marga. Vottar Jehóva eru ekki ónæmir fyrir slíkum tilfinningum. En það kemur okkur ekki á óvart að við þurfum að takast á við erfiðar aðstæður og tilfinningar þar sem við lifum á „síðustu dögum“ sem eru „erfiðir tímar“. – 2. Tím. 3:1.

2 Í þessari námsgrein ræðum við hvað rænir okkur gjarnan gleðinni og hvernig við getum endurheimt hana ef við missum hana. En fyrst þurfum við að koma auga á uppsprettu sannrar gleði og hamingju.

UPPSPRETTA SANNRAR HAMINGJU

3. Hvað kennir sköpunarverkið okkur um Jehóva? (Sjá einnig myndir.)

3 Jehóva er hamingjusamur og hefur alltaf verið það. Hann vill að við séum hamingjusöm líka. Það er því engin furða að sköpunarverkið skuli endurspegla gleði hans, eins og til dæmis okkar fallega og litríka jörð, skemmtileg uppátæki dýranna og gómsætur og fjölbreyttur matur. Guð elskar okkur greinilega og vill að við njótum lífsins.

Myndir: Uppátæki ýmissa dýra. 1. Gáskafullur leikur fílsunga í vatni. 2. Mörgæsaungar vagga um í snjónum. 3. Kiðlingar hoppa og skoppa úti á engi. 4. Höfrungar stökkva upp úr sjónum.

Fílsungi: Image © Romi Gamit/Shutterstock; mörgæsaungar: Vladimir Seliverstov/500px via Getty Images; kiðlingar: Rita Kochmarjova/stock.adobe.com; tveir höfrungar: georgeclerk/E+ via Getty Images

Uppátæki dýranna endurspegla gleðina sem einkennir Jehóva. (Sjá 3. grein.)


4. (a) Hvernig getur Jehóva verið hamingjusamur þótt hann horfi upp á þjáningarnar í heiminum? (b) Hvaða gjöf hefur Jehóva gefið okkur? (Sálmur 16:11)

4 Þótt Jehóva horfi upp á sorgir og þjáningar manna er hann samt „hinn hamingjusami Guð“. (1. Tím. 1:11) Hann leyfir þessari vitneskju ekki að ræna sig gleðinni. Hann veit að þjáningarnar í heiminum eru tímabundnar og hann sjálfur hefur ákveðið daginn þegar bundinn verður endi á þær fyrir fullt og allt. Jehóva veit hvað við göngum í gegnum og vill hjálpa okkur að halda út. Hvernig gerir hann það? Eitt af því sem hann gefur okkur er gleði. (Lestu Sálm 16:11.) Skoðum núna hvernig hann gaf Jesú syni sínum gleði.

5, 6. Hvers vegna er Jesús glaður?

5 Enginn er hamingjusamari en Jesús af öllum sköpunarverum Jehóva. Skoðum tvær ástæður fyrir því. (1) „Hann er eftirmynd hins ósýnilega Guðs“ og endurspeglar persónuleika föður síns á allan hátt. (Kól. 1:15; sjá skýringu við „happy“ í 1. Tímóteusarbréfi 6:15 í námsbiblíu á tungumáli sem þú skilur.) (2) Jesús hefur varið meiri tíma en nokkur annar með föður sínum, uppsprettu hamingjunnar.

6 Það hefur alltaf glatt Jesú að gera vilja föður síns. (Orðskv. 8:30, 31; Jóh. 8:29) Fyrir vikið er Jehóva mjög ánægður með hann og stoltur af honum. – Matt. 3:17.

7. Hvernig finnum við sanna hamingju?

7 Við getum á sama hátt fundið sanna hamingju með því að nálgast Jehóva, uppsprettu hamingjunnar. Því meiri tíma sem við notum til að kynnast honum betur og líkja eftir honum því hamingjusamari verðum við. Það veitir okkur líka gleði að gera vilja Guðs og vita að hann er ánægður með okkur.a (Sálm. 33:12) En hvað ef þú finnur stundum til depurðar eða hefur jafnvel misst gleðina alveg? Þýðir það að Jehóva sé ekki ánægður með þig? Alls ekki! Við erum ófullkomin og finnum stundum til sársauka, depurðar eða þunglyndis. Jehóva skilur það. (Sálm. 103:14) Ræðum nú sumt sem getur rænt okkur gleðinni og hvernig við getum endurheimt hana.

Leitaðu til Jehóva til að finna gleði

Biddu um heilagan anda Jehóva. þurfum að reiða okkur á Jehóva til að finna gleði vegna þess að hún er hluti af ávexti andans. (Gal. 5:22) Með hjálp heilags anda getum við ‚haldið út í öllu með þolinmæði og gleði‘, jafnvel í erfiðustu raunum. – Kól. 1:11.

Láttu tilbeiðsluna á Jehóva vera það mikilvægasta í lífinu. Rannsakaðu orð Guðs og ritin okkar reglulega. Notaðu hvert tækifæri sem gefst til að boða fagnaðarboðskapinn. (Lúk. 2:10) Þeir sem setja tilbeiðsluna á Jehóva í fyrsta sætið í lífinu eru hamingjusamastir. – Sálm. 65:4.

Vertu Jehóva alltaf hlýðinn. Mundu að lög Jehóva eru þér til góðs. Hlýðni við hann skerðir ekki frelsi þitt heldur færir þér hamingju. – Lúk. 11:28.

LÁTTU EKKERT RÆNA ÞIG GLEÐINNI

8. Hvernig geta vandamál lífsins haft áhrif á okkur?

8 Þjófur nr. 1: Vandamál lífsins. Ertu að glíma við aðstæður eins og ofsóknir, hamfarir, fátækt, veikindi eða elli? Við getum auðveldlega verið svipt gleðinni þegar við stöndum frammi fyrir slíkum vandamálum, sérstaklega ef við höfum litla sem enga stjórn á aðstæðunum. Biblían lýsir þessu á raunsæjan hátt: „Hryggð í hjarta veldur sálarkvöl.“ (Orðskv. 15:13) Öldungur að nafni Babis missti bróður sinn og báða foreldra á fjögurra ára tímabili. Hann segir: „Mér leið stundum mjög illa yfir því að geta ekki vegna anna varið meiri tíma með foreldrum mínum og bróður áður en þau dóu. Ég var einmana og mér fannst enginn geta hjálpað mér.“ Vandamál lífsins geta dregið úr okkur allan þrótt tilfinningalega og líkamlega.

9. Hvernig getum við endurheimt gleðina? (Jeremía 29:4–7, 10)

9 Hvernig getum við endurheimt gleðina? Við getum það með því að vera raunsæ og þakklát. Heimurinn vill telja okkur trú um að líf okkar þurfi að vera fullkomið til að við getum verið hamingjusöm. En það er ekki satt. Jehóva hvatti til dæmis Gyðingana sem voru í útlegð í Babýlon til að gera það besta úr erfiðum aðstæðum sem þeir bjuggu nú við. (Lestu Jeremía 29:4–7, 10.) Hvað lærum við af því? Reyndu að koma auga á það sem er gott í lífi þínu og vera þakklátur fyrir það. Mundu að þú getur reitt þig á Jehóva og hann hjálpar þér. (Sálm. 63:7; 146:5) Effie, systir sem lamaðist í slysi, segir: „Ég fékk mikla hjálp og stuðning frá Jehóva, fjölskyldu minni og söfnuðinum. Það hefði verið vanþakklæti að gefast bara upp. Ég vil sýna Jehóva og bræðrum mínum og systrum þakklæti fyrir alla þá hjálp sem þau veittu mér.“

10. Af hverju getum við verið glöð þrátt fyrir erfiðleika?

10 Þótt líf okkar sé langt frá því að vera dans á rósum og við verðum fyrir ýmsum áföllum í lífinu getum við varðveitt gleðina.b (Sálm. 126:5) Gleði okkar er ekki undir aðstæðum okkar komin. Maria, sem er brautryðjandi, segir: „Að varðveita gleðina þrátt fyrir erfiðleika þýðir ekki að maður bæli niður tilfinningar sínar. Það sýnir miklu frekar að loforð Jehóva eru okkur ofarlega í huga. Faðir okkar hjálpar okkur að missa ekki gleðina.“ Sama hversu erfitt lífið er núna eru öll vandamál okkar aðeins tímabundin, rétt eins og fótspor í sandi. Fyrr en varir skolast þau burt og það sjást engin ummerki um þau.

11. Af hverju er hvetjandi að skoða fordæmi Páls postula?

11 Stundum gætum við ályktað sem svo að vandamál okkar séu merki um að Jehóva sé ekki ánægður með okkur. Ef okkur líður þannig gæti verið gagnlegt að rifja upp fordæmi trúfastra þjóna Jehóva sem glímdu við mikla erfiðleika, eins og til dæmis Páls postula. Jesús valdi hann til að fara með fagnaðarboðskapinn „til þjóðanna, til konunga og til Ísraelsmanna“. (Post. 9:15) Það var mikill heiður! En líf Páls var langt frá því að vera auðvelt. (2. Kor. 11:23–27) Voru vandamál hans, sem virtust engan enda ætla að taka, merki um að Jehóva væri ekki lengur ánægður með hann? Að sjálfsögðu ekki! Þolgæði hans sýndi að hann naut einmitt blessunar Jehóva. (Rómv. 5:3–5) En hvað með þig? Þú heldur áfram að þjóna Jehóva trúfastlega þrátt fyrir vandamálin sem þú glímir við. Þú getur því líka verið viss um að Jehóva hjálpi þér og sé ánægður með þig.

12. Hvernig gætu óuppfylltar væntingar rænt okkur gleðinni?

12 Þjófur nr. 2: Óuppfylltar væntingar. (Orðskv. 13:12) Kærleikur okkar og þakklæti til Jehóva knýr okkur til að setja okkur markmið í þjónustu hans. En ef þessi markmið eru óraunhæf miðað við aðstæður okkar gætum við orðið niðurdregin. (Orðskv. 17:22) Brautryðjandi, sem heitir Holly, segir: „Mig langaði til að fara í Skólann fyrir boðbera Guðsríkis, starfa erlendis eða vinna við byggingarverkefnið í Ramapo. En aðstæður mínar breyttust og þessi markmið voru ekki lengur raunhæf. Ég var vonsvikin. Það er mjög svekkjandi þegar mann langar til að gera hluti en getur það ekki.“ Margir kannast við þá tilfinningu.

13. Hvaða raunhæf markmið getum við sett okkur hverjar svo sem aðstæður okkar eru?

13 Hvernig getum við endurheimt gleðina? Mundu að Jehóva er ekki kröfuharður og væntir ekki of mikils af okkur. Hann metur okkur ekki eftir því hversu miklu við áorkum í þjónustu hans. Jehóva vill að við séum hógvær og trú. (Míka 6:8; 1. Kor. 4:2) Það skiptir hann meira máli hvaða mann við höfum að geyma en hverju við áorkum. Ættum við að gera meiri kröfur til okkar en Jehóva gerir?c Auðvitað ekki. Ef aðstæður þínar takmarka það sem þú getur gert í þjónustu Jehóva reyndu þá að einbeita þér að því sem þú getur gert. Gætirðu hjálpað hinum yngri að taka framförum eða uppörvað hina eldri á meðal okkar? Gætirðu sett þér það markmið að heimsækja einhvern, hringja í hann eða senda SMS til að uppörva hann? Jehóva er ánægður með þig ef þú setur þér raunhæf og góð markmið og hann gefur þér gleði. Og hafðu í huga að í nýja heiminum getum við þjónað Jehóva á þann hátt sem okkur órar ekki fyrir. Holly, sem áður er minnst á, komst að eftirfarandi niðurstöðu: „Ég get verið róleg af því að ég hef eilífðina fyrir mér. Ég get náð sumum af markmiðum mínum í nýja heiminum með hjálp Jehóva.“

14. Hvað annað getur rænt okkur gleðinni?

14 Þjófur nr. 3: Sjálfsdekur. Sumir nota samfélagsmiðla til að koma á framfæri þeirri hugmynd að sönn hamingja og lífsfylling sé fólgin í því að gera gott við sjálfan sig. Fólki er talið trú um að það verði hamingjusamara með því að gera það sem því finnst skemmtilegt að gera, kaupa það sem það langar í eða ferðast um heiminn. Það er ekkert rangt í sjálfu sér að gera það sem við höfum ánægju af. Jehóva vill að við njótum þess sem hann hefur skapað. En margir hafa komist að raun um að það sem þeir héldu að færðu þeim hamingju gerði hið gagnstæða. Eva, brautryðjandasystir, segir: „Þegar lífið snýst um að þóknast sjálfum sér er eins og maður fái aldrei nóg.“ Sjálfsdekur getur á endanum orsakað tómleika og vonbrigði.

15. Hvað getum við lært af reynslu Salómons konungs?

15 Reynsla Salómons konungs kennir okkur hvaða dapurlegu afleiðingar sjálfsdekur getur haft. Hann reyndi að finna hamingju með því að uppfylla langanir sínar, eins og að borða góðan mat, hlusta á fallega tónlist og kaupa allt sem hugurinn girntist. En hann varð fyrir miklum vonbrigðum. Hann sagði: „Augað sér en fær aldrei nóg, eyrað heyrir en seðst aldrei.“ (Préd. 1:8; 2:1–11) Hugmyndir fólks í heiminum um hvað færir sanna hamingju eru eins og falsaðir peningar. Þær virðast eftirsóknarverðar en eru innistæðulausar.

16. Hvernig endurheimtum við gleðina með því að gera eitthvað fyrir aðra? (Sjá einnig myndir.)

16 Hvernig getum við endurheimt gleðina? Jesús sagði: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ (Post. 20:35) Öldungur, sem heitir Alekos, segir: „Ég reyni að gera eitthvað lítilræði fyrir aðra. Þegar ég hjálpa öðrum er ég ekki eins upptekinn af sjálfum mér.“ Hvað getur þú gert fyrir aðra? Ef þú sérð að einhver á erfitt reyndu þá að uppörva hann. Þú leysir kannski ekki vandamál hans en þú getur sýnt honum samkennd með því að hlusta vel á hann þegar hann tjáir sig og minna hann á að varpa byrðinni á Jehóva. (Sálm. 55:22; 68:19) Minntu hann líka á að Jehóva hefur ekki yfirgefið hann. (Sálm. 37:28; Jes. 59:1) Þú gætir líka gert eitthvað gott fyrir hann eins og að elda mat eða bjóða honum í göngutúr. Það gæti verið upplífgandi fyrir hann að fara með þér í boðunina. Þannig geturðu verið verkfæri í höndum Jehóva. Það fyllir okkur gleði þegar við beinum athyglinni að öðrum en sjálfum okkur. – Orðskv. 11:25.

Myndir: 1. Systir situr ein á kaffihúsi og skoðar símann sinn. Á gólfinu eru fullt af innkaupapokum. 2. Hún heimsækir eldri systur og færir henni blómvönd glöð í bragði.

Einbeittu þér að þörfum annarra frekar en að því að uppfylla eigin langanir. (Sjá 16. grein.)d


17. Hvernig er gleði okkar nátengd sambandinu við Jehóva? (Sálmur 43:4)

17 Það færir okkur hamingju að tengjast himneskum föður okkar nánari böndum. Biblían fullvissar okkur um að Jehóva sé okkar „mesta gleði“. (Lestu Sálm 43:4.) Við getum því verið róleg hvað svo sem við erum að glíma við í lífinu. Leggjum traust okkar á Jehóva, uppsprettu gleði okkar, sem aldrei bregst. – Sálm. 144:15.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna eru Jehóva og Jesús hamingjusamir?

  • Hvað getur rænt okkur gleðinni?

  • Hvernig getum við endurheimt gleðina ef við missum hana?

SÖNGUR 155 Gleðigjafi minn

a Sjá rammagreinina „Leitaðu til Jehóva til að finna gleði“.

b Sjá viðtal við Dennis og Irinu Christensen í Skilaboðum frá stjórnandi ráði nr. 5 2023 á jw.org.

c Sjá greinina „Gerðu sanngjarnar kröfur til sjálfs þín og haltu gleðinni í þjónustu Jehóva“ í Varðturninum 15. júlí 2008.

d MYNDIR: Systir fer á útsölu til að kaupa sér eitthvað en finnur meiri gleði í að kaupa blóm handa eldri systur sem þarfnast uppörvunar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila