Spurningar frá lesendum
Hvað ‚leggur Jehóva þjóðunum í brjóst að gera‘ í náinni framtíð?
Opinberunarbókin 17:16, 17 segir varðandi það hvernig þrengingin mikla hefst: „Hornin tíu sem þú sást og villidýrið munu hata vændiskonuna, ræna hana öllu og skilja hana eftir nakta. Þau munu éta hold hennar og brenna hana í eldi því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gera það sem hann hefur áformað, já, að láta þau ná sameiginlegu markmiði sínu með því að gefa villidýrinu ríki sitt.“ Í ritum okkar kom áður fram að það sem Jehóva mun ‚leggja þjóðunum í brjóst að gera‘ sé að eyða fölskum trúarbrögðum.
En hér höfum við breyttan skilning. Það sem Jehóva leggur þjóðunum í brjóst að gera er að „gefa villidýrinu ríki sitt“. Til að skilja hvernig þetta uppfyllist leitum við svara við eftirfarandi spurningum.
Hverjir koma við sögu í spádóminum? ‚Vændiskonan‘ er líka kölluð ‚Babýlon hin mikla‘. Hún táknar heimsveldi falskra trúarbragða. ‚Skarlatsrauða villidýrið‘ táknar friðarsamtökin sem komu fram á sjónarsviðið árið 1919 undir heitinu Þjóðabandalagið en bera núna heitið Sameinuðu þjóðirnar. (Opinb. 17:3–5) ‚Hornin tíu‘ tákna allar ríkisstjórnir sem styðja villidýrið.
Hvaða samband er milli vændiskonunnar og skarlatsrauða villidýrsins? Vændiskonan hefur ‚setið á‘ villidýrinu, gefið því blessun sína og reynt að hafa áhrif á það og jafnvel stjórna því.
Hvað verður um vændiskonuna? Villidýrið ásamt hornunum tíu sem styðja það „munu hata vændiskonuna“ svo mikið að þau taka allan auð hennar og afhjúpa illsku hennar. Og þau munu fullnægja dómi Jehóva yfir henni og eyða henni algerlega. (Opinb. 17:1; 18:8) Þá verða engin fölsk trúarbrögð lengur til. En áður en það verður mun Jehóva blása þjóðunum í brjóst að gera nokkuð sem er fordæmalaust í sögu stjórna manna.
Hvað fær Jehóva þjóðirnar til að gera? Hann mun leggja hornunum tíu í brjóst að „gefa [skarlatsrauða] villidýrinu“ – Sameinuðu þjóðunum – „mátt sinn og vald“. (Opinb. 17:13) Veltu fyrir þér hvað það merkir. Munu ríkisstjórnir manna ákveða upp á eigin spýtur að afhenda villidýrinu yfirráð sín og völd? Nei. Spádómurinn sýnir að Guð sjálfur blæs þeim í brjóst að gera það. (Orðskv. 21:1, samanber Jesaja 44:28.) Þetta mun ekki gerast smátt og smátt. Þessi breyting verður skyndileg! Þá mun villidýrið beita nýfengnum völdum sínum til að eyða öllum fölskum trúarbrögðum endanlega.
Hverju getum við búist við? Við ættum ekki að búast við fréttum af því að ríkisstjórnir byrji að sýna Sameinuðu þjóðunum stuðning smám saman. Það sem við megum vænta er þetta: Mjög skyndilega mun Jehóva leggja þjóðunum í brjóst að afhenda villidýrinu völd sín. Þegar það gerist vitum við að þrengingin mikla er við það að hefjast. Þangað til skulum við ‚vaka og hugsa skýrt‘ því skyndilegar breytingar eru á næsta leiti! – 1. Þess. 5:6.