Hvað er sáttmálsörkin?
Svar Biblíunnar
Sáttmálsörkin var heilög kista sem Ísraelsmenn til forna gerðu í samræmi þau fyrirmæli og fyrirmynd sem Guð gaf. Í henni var ‚vitnisburðurinn‘ geymdur, boðorðin tíu sem letruð voru á steintöflur. – 2. Mósebók 25:8–10, 16; 31:18.
Smíðin. Örkin mældist 2,5 álnir á lengd, 1,5 alin á breidd og 1,5 alin á hæð (111 × 67 × 67 cm). Hún var gerð úr akasíuviði og lögð gulli að utan og innan og með skrautlista. Lokið var úr hreinu gulli og á því voru tveir gullkerúbar, hvor á sínum enda loksins. Þeir sneru hvor að öðrum og andlit þeirra sneru að lokinu með vængina þanda út svo að þeir skyggðu á lokið. Á örkina voru steyptir fjórir hringir úr gulli fyrir ofan fætur hennar. Stöngum úr akasíuviði lögðum gulli var rennt í gegnum hringina og þær notaðar til að bera örkina. – 2. Mósebók 25:10–21; 37:6–9.
Staðsetning. Örkin var upphaflega geymd í hinu allra helgasta í tjaldbúðinni, tilbeiðslutjaldi sem hægt var að færa úr stað og var gert á sama tíma og örkin. Hið allra helgasta var stúkað af svo að hvorki prestarnir né fólkið sæju þangað inn. (2. Mósebók 40:3, 21) Aðeins æðsti presturinn mátti fara inn í þetta rými og sjá örkina en aðeins einu sinni á ári, á friðþægingardeginum. (3. Mósebók 16:2; Hebreabréfið 9:7) Síðar var örkin flutt inn í hið allra helgasta í musteri Salómons. – 1. Konungabók 6:14, 19.
Hlutverk. Örkin var skjalahirsla undir helgigripi sem áttu að minna Ísraelsmenn á sáttmálann eða samninginn sem Guð hafði gert við þá við Sínaífjall. Hún gegndi líka lykilhlutverki á friðþægingardeginum. – 3. Mósebók 16:3, 13–17.
Innihald. Það fyrsta sem var komið fyrir í örkinni voru steintöflurnar sem á voru letruð boðorðin tíu. (2. Mósebók 40:20) Gullker með manna í og „stafur Arons sem brumaði“ voru seinna lögð í hana. (Hebreabréfið 9:4; 2. Mósebók 16:33, 34; 4. Mósebók 17:10) Kerið og stafurinn voru greinilega fjarlægð á einhverjum tímapunkti þar sem þau voru ekki í örkinni þegar hún var flutt inn í musterið. – 1. Konungabók 8:9.
Flutningur milli staða. Levítarnir áttu að bera örkina á öxlunum með burðarstöngunum úr akasíuviði. (4. Mósebók 7:9; 1. Kroníkubók 15:15) Stangirnar voru á örkinni öllum stundum svo að Levítarnir þurftu aldrei að snerta örkina sjálfa. (2. Mósebók 25:12–16) „Fortjaldið“ sem skildi að hið heilaga og hið allra helgasta var breitt yfir örkina til að hylja hana þegar hún var borin. – 4. Mósebók 4:5, 6.a
Táknmynd. Örkin táknaði nærveru Guðs. Skýið sem birtist yfir örkinni í hinu allra helgasta og í herbúðum Ísraelsmanna var til dæmis merki um nærveru og blessun Jehóva. (3. Mósebók 16:2; 4. Mósebók 10:33–36) Biblían segir líka að Jehóva hafi „[setið] í hásæti sínu yfir kerúbunum“ og vísar þá til kerúbanna tveggja á loki arkarinnar. (1. Samúelsbók 4:4; Sálmur 80:1) Kerúbarnir voru því „táknmynd vagnsins“ eða vagns Jehóva. (1. Kroníkubók 28:18) Davíð konungur gat þess vegna skrifað að Jehóva ‚byggi á Síon‘ eftir að örkin var flutt þangað. – Sálmur 9:11.
Heiti. Biblían notar ýmis heiti yfir þessa heilögu kistu eins og örk vitnisburðarins, sáttmálsörkin, örk Jehóva og örk máttar Jehóva. – 4. Mósebók 7:89; Jósúabók 3:6, 13; 2. Kroníkubók 6:41.
Lok arkarinnar var kallað ‚friðþægingarlokið‘ eða „hásæti náðarinnar“. (1. Kroníkubók 28:11; Biblían 2010) Þetta heiti lýsir vel táknrænni merkingu loksins á friðþægingardeginum þegar æðsti prestur Ísraels sletti blóði fórnardýra í átt að lokinu og fyrir framan það. Það sem æðsti presturinn gerði friðþægði fyrir eða huldi ‚syndir hans, ættar hans og alls safnaðar Ísraels‘. – 3. Mósebók 16:14–17.
Er sáttmálsörkin til í dag?
Það eru engar sannanir fyrir því. Biblían sýnir að hennar er ekki lengur þörf. Sáttmálinn sem tengdist henni hefur verið felldur úr gildi og ‚nýr sáttmáli‘ hefur tekið gildi sem er byggður á lausnarfórn Jesú. (Jeremía 31:31–33; Hebreabréfið 8:13; 12:24) Biblían segir fyrir tíma þegar sáttmálsörkin yrði ekki til lengur og fólk Guðs myndi ekki heldur sakna hennar. – Jeremía 3:16.
Eftir að nýi sáttmálinn tók gildi sá Jóhannes postuli sýn. Í henni birtist sáttmálsörkin á himni. (Opinberunarbókin 11:15, 19) Þessi táknræna örk stendur fyrir nærveru Guðs og blessun hans yfir nýja sáttmálanum.
Var örkin heillagripur?
Nei. Örkin var í herbúðum Ísraelsmanna þegar þeir börðust við borgina Aí. Samt biðu þeir ósigur af því að einn úr þeirra hópi var svikari. Hún var því engin trygging fyrir velgengni. (Jósúabók 7:1–6) Seinna biðu þeir aftur ósigur fyrir Filisteum þótt þeir hefðu tekið örkina með sér út á vígvöllinn. Prestarnir Hofní og Pínehas höfðu stundað illskuverk sem ollu þessum ósigri. (1. Samúelsbók 2:12; 4:1–11) Filistearnir tóku örkina herfangi í þessari orrustu en Guð laust þá plágum svo að þeir skiluðu henni aftur til Ísraelsmanna. – 1. Samúelsbók 5:11–6:5.
Ártal (f.Kr.) |
Atburður |
---|---|
1513 |
Besalel og aðstoðarmenn hans gera örkina úr efniviði sem Ísraelsmenn láta af hendi rakna. – 2. Mósebók 25:1, 2; 37:1. |
1512 |
Móse vígir örkina og einnig tjaldbúðina og prestana. – 2. Mósebók 40:1–3, 9, 20, 21. |
1512–eftir 1070 |
Örkin flutt á ýmsa staði. – Jósúabók 18:1; Dómarabókin 20:26, 27; 1. Samúelsbók 1:24; 3:3; 6:11–14; 7:1, 2. |
Eftir 1070 |
Davíð konungur flytur örkina til Jerúsalem. – 2. Samúelsbók 6:12. |
1026 |
Örkin flutt inn í musteri Salómons í Jerúsalem. – 1. Konungabók 8:1, 6. |
642 |
Jósía konungur lætur fara með örkina á sinn stað í musterinu. – 2. Kroníkubók 35:3.b |
Fyrir 607 |
Að því er virðist hafði örkin verið fjarlægð úr musterinu. Hún er hvorki nefnd á meðal þeirra gripa sem voru fluttir til Babýlonar þegar musterið var lagt í rúst árið 607 f.Kr. né á meðal þeirra gripa sem var skilað aftur til Jerúsalem síðar. – 2. Konungabók 25:13–17; Esrabók 1:7–11. |
63 |
Rómverski hershöfðinginn Pompejus lýsir yfir að örkin sé týnd þegar hann sigrar Jerúsalem og leitar í hinu allra helgasta í musterinu.c |
a Það hafði alvarlegar afleiðingar fyrir Ísraelsmenn ef þeir óhlýðnuðust lögum Guðs varðandi flutning arkarinnar og einnig ef þeir huldu hana ekki.
b Biblían greinir ekki frá hvenær, hvers vegna og af hverjum örkin var fjarlægð úr musterinu.
c Sjá The Histories eftir Tacitus, 5. bindi, gr. 9.