MILES NORTHOVER | ÆVISAGA
Jehóva hefur blessað verk handa minna
Foreldrar mínir lögðu sig alltaf fram við að styðja söfnuð Jehóva. Þegar bræður á Betel í London vildu hefja mjólkurframleiðslu fyrir Betelfjölskylduna gaf faðir minn kvígu undan einu Jersey-kúnni okkar. Við grínuðumst oft með það að þessi kvíga hefði verið sú fyrsta í fjölskyldunni til að fara á Betel. Frábært fordæmi foreldra minna kveikti hjá mér löngun til að gefa Jehóva mitt allra besta og ‚láta ekki hendur mínar hvílast‘. (Prédikarinn 11:6) Jehóva opnaði reyndar leið fyrir mig til að nota hendur mínar með óvæntum hætti. Og hann blessaði viðleitni mína. Mig langar að segja þér sögu mína.
Ég ólst upp með eldri systur og bróður í sveit nálægt Bicester í Bretlandi. Foreldrar mínir leigðu þar lítið sveitabýli. Þegar ég var 19 ára fylgdi ég í fótspor systkina minna og gerðist brautryðjandi. Síðar var ég útnefndur til að þjóna sem sérbrautryðjandi í Skotlandi. En árið 1970, þegar ég var 23 ára, var mér boðið að starfa á Betel í London. Á því tímabili kynntist ég táknmáli. Þessi reynsla leiddi líf mitt inn á nýja braut sem hefur reynst mjög gefandi.
Ég læri táknmál
Á Betel var ég beðinn um að tilheyra Mill Hill söfnuðinum. Þar voru margir heyrnarlausir vottar. Ég vildi ekki að þessi gjá á milli tungumála yrði til þess að við yrðum eins og útlendingar gagnvart hvert öðru þannig að ég ákvað að sitja með heyrnarlausu trúsystkinunum á samkomum.
Í þá daga voru engir táknmálssöfnuðir í Bretlandi. Heyrnarlausir mættu á enskumælandi samkomur og heyrandi trúsystkini túlkuðu samkomuna á tákn sem voru byggð á enskri tungu og málfræði nánast orð fyrir orð. En þegar heyrnarlausir bræður og systur kenndu mér táknmál af mikilli þolinmæði áttaði ég mig á því að þeirra tungumál var með sína eigin málfræði og orðaröð. Enskan var í raun og veru útlenska fyrir þeim. Þegar þetta rann upp fyrir mér fór ég að elska og virða heyrnarlausu trúsystkinin mín enn þá meir fyrir það hversu trúföst þau voru að mæta á samkomur. Þetta hvatti mig líka til að leggja mig enn meira fram við að læra táknmál.
Breskt táknmál er hið opinbera tungumál heyrnarlausra í Bretlandi. Þegar fram liðu stundir lærðu túlkarnir okkar að nota þetta þróaða táknmál í stað þess að nota táknaða ensku. Fyrir vikið fóru heyrnarlausir að hafa miklu meira gagn af samkomunum. Þar með var líka gjáin brúuð milli heyrandi og heyrnarlausra bræðra og systra. Þegar ég lít yfir fimm áratuga skeið sé ég svo vel að Jehóva hefur ríkulega blessað táknmálssvæðið. Mig langar að segja frá sumum af þeim breytingum sem Jehóva hefur leyft mér að taka þátt í.
Táknmálssvæðið blómstrar
Árið 1973, um það bili ári eftir að ég var útnefndur sem öldungur, kom heyrnarlaus bróðir að nafni Michael Eagers að máli við mig og stakk upp á að við myndum halda samkomur á bresku táknmáli. Deildarskrifstofan samþykkti að ég og annar öldungur skipulegðum mánaðarlegar samkomur á táknmáli í Deptford í suðausturhluta London.
Árangurinn var ótrúlegur! Heyrnarlausir vottar frá London og öðrum stöðum suðausturhluta Englands mættu á fyrstu samkomuna á bresku táknmáli. Loksins gátu heyrnarlaus trúsystkini og áhugasamir fengið kennslu frá Jehóva á sínu eigin tungumáli. Eftir samkomuna sögðum við hvert öðru frásögur og fengum okkur hressingu. Ég fékk líka tækifæri til að sinna hirðastarfi sem var mikil þörf fyrir.
Þegar fram liðu stundir voru samkomur á táknmáli líka haldnar í borgunum Birmingham og Sheffield. Mörg trúsystkini langaði að læra breskt táknmál og fóru því að sækja samkomurnar. Mörg af þessum fúsu bræðrum og systrum hjálpuðu til við að boða trúna á táknmáli um allt land.
Ég finn lífsförunaut
Á brúðkaupsdaginn okkar.
Árið 1974 hitti ég fallega systur sem heitir Stella Barker og var sérbrautryðjandi í söfnuði nálægt Betel. Við urðum ástfangin og giftum okkur árið 1976 og eftir það þjónuðum við saman sem sérbrautryðjendur. Við tilheyrðum söfnuðinum í Hackney í Norður-London. Stella byrjaði þá líka að styðja við táknmálssvæðið með mér. Þegar ég lít til baka get ég í sannleika sagt að það var frábær byrjun á hjónabandi okkar að vera brautryðjendur saman.
Það leið ekki á löngu áður en okkur Stellu var boðið að þjóna á Betel í hlutastarfi. Það var nóg að gera hjá okkur. Ég var líka farandhirðir í afleysingum, sá um Ríkisþjónustuskólann fyrir öldunga og hjálpaði síðar meir til við að skipuleggja táknmálstúlkun á enskumælandi umdæmismótum. Við vorum oft þreytt í lok dags en glöð og endurnærð. – Matteus 11:28–30.
Árin 1979 og 1982 fæddust synir okkar tveir, Simon og Mark. Þannig bættist gleði foreldrahlutverksins við önnur verkefni. Hvernig fórum við að? Við Stella ákváðum að í hvert skipti sem ég þyrfti að ferðast til að sinna verkefnum safnaðarins myndum við fjölskyldan fara saman og nota tækifærið til að gera eitthvað saman sem fjölskylda. Við vildum að strákarnir upplifðu að þjónustan við Jehóva gæfi okkur hamingju. Hvaða áhrif hafði þetta á þá? Þegar þeir uxu úr grasi lærðu þeir táknmál og byrjuðu sem brautryðjendur. Síðar, eða um 40 árum eftir að foreldrar mínir sendu kvíguna sína í „Betelþjónustu“, hófu Simon og Mark sína þjónustu á Betel. Við vorum í skýjunum!
Með Stellu og sonum okkar árið 1995.
Þörfum heyrnarlausra mætt
Á tíunda áratugnum voru enn engir heyrnarlausir öldungar í Bretlandi, en það voru nokkrir heyrnarlausir safnaðarþjónar. Þar af leiðandi þurftu heyrandi öldungar sem kunnu ekki táknmál að skera úr um hvort þessir bræður væru ‚hæfir kennarar‘ og gætu þjónað sem umsjónarmenn. (1. Tímóteusarbréf 3:2) Einn af þessum heyrnarlausu safnaðarþjónum, bróðir að nafni Bernard Austin, var í enskumælandi söfnuði. Hann var mjög virtur bróðir og lét sér innilega annt um sauði Jehóva. Ég var svo ánægður að heyra að Bernard hefði verið útnefndur sem öldungur. Hann var fyrsti heyrnarlausi öldungurinn í Bretlandi.
Árið 1996 urðu þáttaskil – deildarskrifstofan samþykkti að mynda fyrsta táknmálssöfnuðinn í Bretlandi. Hann var staðsettur í Ealing í vesturhluta London. Fleiri framfarir fylgdu í kjölfarið.
Gagn af öllum samkomum og mótum
Á níunda og tíunda áratugnum vann ég í fjarvinnu á þjónustudeildinni á Betel og svaraði fyrirspurnum varðandi táknmálssvæðið. Ég fékk stundum fyrirspurnir frá bræðrum um hvernig þeir gætu hjálpað heyrnarlausum að skilja ræðurnar á samkomum og mótum á ensku. Í fyrstu voru engar sérstakar ráðstafanir fyrir táknmálstúlkun á mótum og það var ekkert efni gefið út fyrir heyrnarlausa. Ég þurfti því oft að hvetja bræðurna, bæði heyrandi og heyrnarlausa, að vera þolinmóðir og bíða eftir Jehóva.
Þolinmæðin borgaði sig. Það leið ekki á löngu áður en deildarskrifstofan skipulagði táknmálstúlkun á samkomum og mótum sem fóru fram á ensku. Og ekki nóg með það, heldur fengu heyrnarlausir sæti fremst svo að þeir gætu bæði séð ræðumanninn og túlkinn. Heyrnarlausir bræður og systur fundu nú að Jehóva elskar þau sannarlega og að þau eru hluti af fjölskyldu hans.
Þann 1. apríl 1995 var fyrsti sérstaki mótsdagurinn haldinn á táknmáli í mótshöll í Dudley, sem er nálægt Burmingham. Ég aðstoðaði bróður David Merry, fyrrum farandhirði, við skipulagningu mótsins. Sumir heyrnarlausir vottar ferðuðust hundruð kílómetra til að vera viðstaddir dagskrána, allt frá Skotlandi í norðri og Cornwall í suðvestri. Það ríkti gríðarleg tilhlökkun þegar meira en 1.000 manns mættu á þetta sögulega mót.
Með bróður David Merry á fyrsta mótinu á bresku táknmáli árið 1995.
Árið 2001 bað deildarskrifstofan okkur David um að skipuleggja mót á bresku táknmáli á komandi ári. Það krafðist mikillar vinnu. Jehóva blessaði vinnu allra sjálfboðaliðanna og mótið tókst með ágætum og var ógleymanlegt. Upp frá því kom það í minn hlut í mörg ár að skipuleggja mót á táknmáli, eða þar til að Jehóva sá til þess að ungir hæfir bræður tækju við keflinu.
Myndbönd fyrir heyrnarlausa
Við fögnuðum því innilega þegar fyrsti bæklingurinn á bresku táknmáli var gefinn út af söfnuðinum árið 1998. Það var bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? sem kom út á myndbandsspólu. Við stýrðum ótal biblíunámskeiðum með hjálp hans.
Á umdæmismótinu árið 2002 voru ríkissöngvarnir í fyrsta skipti túlkaðir á breskt táknmál. Heyrnarlausu bræðurnir og systurnar gátu nú sungið fallegu söngvana með táknmálstúlkinum og fundið fyrir taktinum í tónlistinni. Ég man enn þá eftir því þegar heyrnarlaus öldungur grét af gleði þegar hann söng með í fyrsta skipti.
Enn ein nýjungin sá dagsins ljós á umdæmismótinu árið 2002. Táknmálssöfnuðurinn í London var beðinn um að búa til kvikmynd. En hvernig áttum við að fara að því? Við höfðum aldrei gert þetta áður. Enn á ný kom Jehóva okkur til hjálpar. Að þessu sinni með því að hjálpa okkur að finna bræður sem kunnu til verka í kvikmyndagerð. Útkoman var glimrandi góð. Auk þess kom reynslan sér vel, því að á árunum 2003 til 2008 var ég beðinn um að hafa umsjón með gerð kvikmynda á Betel sem voru ætlaðar mótum á bresku táknmáli.
Við Stella vorum hæstánægð á Betel með sonum okkar. En vinnuálagið var mikið. Eftir nokkrar vikur af æfingum og tökum voru leikararnir og vinnsluteymið líkamlega og andlega úrvinda. En það var þess virði. Það var ótrúlega hjartnæmt að sjá hvernig frásögur Biblíunnar lifnuðu við fyrir augum heyrnarlausra trúsystkina okkar sem mörg hver grétu af gleði.
Jehóva hélt áfram að gefa okkur gjafir. Árið 2015 fengum við námsútgáfu Varðturnsins á bresku táknmáli á myndbandi. Það var síðan árið 2019 sem Matteusarguðspjall kom út í sama formi. Núna höfum við allar Grísku ritningarnar og Hebresku ritningarnar eru vel á veg komnar. Heyrnarlausir bræður og systur eru Jehóva innilega þakklát.
Sem þjónar Jehóva tilheyrum við andlegri fjölskyldu sem endurspeglar kærleika föður okkar á himnum sem mismunar ekki fólki. (Postulasagan 10:34, 35) Við fjölskyldan dáumst að því hve miklum tíma, kröftum og fjármunum söfnuðurinn ver í að hjálpa alls konar fólki, þar með töldum heyrnarlausum og blindum.a
Öll þessi fyrirhöfn hefur skilað sér því að nú eru nokkrir söfnuðir á bresku táknmáli í Bretlandi. Að fá að taka þátt í vextinum allt frá ‚smávægilegri byrjun‘ hefur gefið mér gríðarlega gleði og lífsfyllingu. (Sakaría 4:10) Jehóva á að sjálfsögðu skilið heiðurinn. Hann stýrir söfnuði sínum. Hann sér til þess að þjónar sínir hafi þau verkfæri sem þarf til að boða fagnaðarboðskapinn alls konar fólki og hann sér til þess að fræ sannleikans vaxi í hjörtum þeirra sem eru verðugir.
Með Stellu árið 2023.
a Sjá greinina „How Your Donations Are Used – Dots That Change Lives“.