Miðvikudagur 22. október
Trúin ein og sér er dauð ef verkin vantar. – Jak. 2:17.
Jakob bendir á að maður gæti fullyrt að hann hefði trú en verk hans afhjúpuðu að svo væri ekki. (Jak. 2:1–5, 9) Jakob talar líka um trúsystkini sem sér bróður eða systur vanta föt eða mat en veitir enga hjálp. Trúsystkinið gæti sagst hafa trú en hefði samt ekki verk sem sýndu trúna í verki. Slík trú væri gagnslaus. (Jak. 2:14–16) Jakob nefnir Rahab sem dæmi um manneskju sem sýndi trú sína í verki. (Jak. 2:25, 26) Hún hafði heyrt um Jehóva og skildi að Ísraelsmenn hefðu stuðning hans. (Jós. 2:9–11) Hún sýndi trú í verki þegar hún verndaði tvo ísraelska njósnara sem voru í lífshættu. Þessi kona var ófullkomin og hélt ekki Móselögin en var samt lýst réttlát, rétt eins og Abraham. Fordæmi hennar undirstrikar hversu mikilvægt sé að sýna trú í verki. w23.12 5 gr. 12, 13
Fimmtudagur 23. október
„Megið þið vera rótföst og standa á traustum grunni.“ – Ef. 3:17.
Sem þjónar Guðs látum við okkur ekki nægja aðeins yfirborðslega þekkingu á Biblíunni. Með hjálp heilags anda Guðs erum við áköf að læra „jafnvel hið djúpa sem býr í Guði“. (1. Kor. 2:9, 10) Hvernig væri að taka fyrir verkefni í sjálfsnámi þínu sem gæti hjálpað þér að nálægja þig Jehóva? Þú gætir til dæmis athugað hvernig hann sýndi þjónum sínum til forna kærleika sinn og hvernig það sýnir fram á að hann elskar þig líka. Þú gætir líka athugað hvernig Jehóva vildi að Ísraelsmenn tilbæðu sig og borið það saman við það hvernig hann vill að við tilbiðjum sig nú á dögum. Eða þú gætir skoðað vandlega spádómana sem Jesús uppfyllti meðan á þjónustu hans stóð á jörðinni. Það getur verið mjög ánægjulegt að rannsaka þessi viðfangsefni með hjálp Efnislykils að ritum Votta Jehóva og Watch Tower Publications Index. Ítarlegt biblíunám getur styrkt trú þína og hjálpað þér að ‚kynnast Guði‘. – Orðskv. 2:4, 5. w23.10 18–19 gr. 3–5
Föstudagur 24. október
„Berið umfram allt brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.“ – 1. Pét. 4:8.
Orðið sem Pétur postuli notaði fyrir „brennandi“ merkir bókstaflega ‚teygður‘. Seinni hluti versins lýsir áhrifunum sem slíkur kærleikur hefur. Hann hylur syndir trúsystkina okkar. Við getum lýst þessu þannig: Við grípum kærleika okkar með báðum höndum eins og hann væri teygjanlegur efnisbútur og teygjum hann meira og meira þangað til hann hylur, ekki eina og ekki tvær heldur „fjölda synda“. Að „hylja“ felur í sér að fyrirgefa. Kærleikur getur hulið veikleika og ófullkomleika annarra eins og efnisbútur getur hulið blett. Kærleikur okkar til annarra ætti að vera það sterkur að við getum fyrirgefið ófullkomleika trúsystkina okkar – jafnvel þótt það geti stundum verið mjög erfitt. (Kól. 3:13) Þegar okkur tekst að fyrirgefa öðrum sýnum við að kærleikur okkar er sterkur og að við viljum gleðja Jehóva. w23.11 11–12 gr. 13–15