Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • es25 bls. 98-108
  • Október

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Október
  • Rannsökum Ritningarnar daglega – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Miðvikudagur 1. október
  • Fimmtudagur 2. október
  • Föstudagur 3. október
  • Laugardagur 4. október
  • Sunnudagur 5. október
  • Mánudagur 6. október
  • Þriðjudagur 7. október
  • Miðvikudagur 8. október
  • Fimmtudagur 9. október
  • Föstudagur 10. október
  • Laugardagur 11. október
  • Sunnudagur 12. október
  • Mánudagur 13. október
  • Þriðjudagur 14. október
  • Miðvikudagur 15. október
  • Fimmtudagur 16. október
  • Föstudagur 17. október
  • Laugardagur 18. október
  • Sunnudagur 19. október
  • Mánudagur 20. október
  • Þriðjudagur 21. október
  • Miðvikudagur 22. október
  • Fimmtudagur 23. október
  • Föstudagur 24. október
  • Laugardagur 25. október
  • Sunnudagur 26. október
  • Mánudagur 27. október
  • Þriðjudagur 28. október
  • Miðvikudagur 29. október
  • Fimmtudagur 30. október
  • Föstudagur 31. október
Rannsökum Ritningarnar daglega – 2025
es25 bls. 98-108

Október

Miðvikudagur 1. október

Viskan sem kemur ofan að er fús til að hlýða. – Jak. 3:17.

Finnst þér stundum erfitt að vera hlýðinn? Davíð konungi fannst það og bað til Guðs: „Vektu með mér löngun til að hlýða þér.“ (Sálm. 51:12) Davíð elskaði Jehóva. En samt átti hann stundum erfitt með að hlýða, rétt eins og við. Hvers vegna er þetta svona erfitt? Í fyrsta lagi höfum við erft tilhneiginguna til að óhlýðnast. Í öðru lagi reynir Satan stanslaust að fá okkur til að rísa gegn Jehóva eins og hann gerði sjálfur. (2. Kor. 11:3) Í þriðja lagi er alls staðar í kringum okkur uppreisnarandi, ‚andi sem starfar nú í þeim sem eru óhlýðnir‘. (Ef. 2:2) Djöfullinn og heimur hans beita okkur þrýstingi til að óhlýðnast. Við þurfum þess vegna að leggja hart að okkur til að berjast gegn syndugum tilhneigingum. Við verðum að leggja okkur fram við að hlýða Jehóva og þeim sem hann hefur veitt visst vald. w23.10 6 gr. 1

Fimmtudagur 2. október

„Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ – Jóh. 2:10.

Hvað lærum við af kraftaverki Jesú þegar hann breytti vatni í vín? Við lærum að vera auðmjúk. Jesús gortaði ekki af kraftaverkinu. Hann gortaði reyndar aldrei af afrekum sínum. Þess í stað var hann auðmjúkur og gaf föður sínum alltaf heiðurinn. (Jóh. 5:19, 30; 8:28) Ef við líkjum eftir Jesú og lítum ekki of stórt á okkur sjálf gortum við ekki af því sem við áorkum. Stærum okkur aldrei af því sem við gerum í þjónustu Jehóva. Stærum okkur þess í stað af því að fá að þjóna okkar dásamlega Guði. (Jer. 9:23, 24) Gefum honum þann heiður sem hann á skilið. Við gætum hvort sem er aldrei áorkað neinu án hjálpar Jehóva. (1. Kor. 1:26–31) Þegar við erum auðmjúk þurfum við ekki að eigna okkur heiðurinn af því góða sem við gerum fyrir aðra. Okkur nægir að vita að Jehóva sér og kann að meta það sem við gerum. (Samanber Matteus 6:2–4; Hebr. 13:16.) Við gleðjum Jehóva þegar við erum auðmjúk eins og Jesús. – 1. Pét. 5:6. w23.04 4 gr. 9; 5 gr. 11, 12

Föstudagur 3. október

„Hugsið ekki aðeins um ykkar eigin hag heldur einnig hag annarra.“ – Fil. 2:4.

Undir innblæstri hvatti Páll postuli kristna menn til að hugsa um hag annarra. Hvernig getum við gert það á samkomum? Með því að muna að aðrir vilja líka svara rétt eins og við. Tökum dæmi. Þegar við tölum við vini okkar, myndum við þá tala það mikið að þeir kæmust lítið að? Auðvitað ekki. Við viljum að þeir taki þátt í samtalinu. Á svipaðan hátt viljum við að eins margir og hægt er fái tækifæri til að svara. Að gefa öðrum tækifæri til að tjá trú sína er reyndar ein besta leiðin til að hvetja þá. (1. Kor. 10:24) Höfum svör okkar stutt og leyfum öðrum þannig að komast að. Forðastu að nefna of margar hugmyndir, jafnvel þegar svarið er stutt. Ef farið er yfir allt í tölugreininni í einu svari er lítið eftir fyrir aðra til að tjá sig um. w23.04 22–23 gr. 11–13

Laugardagur 4. október

„Ég geri allt vegna fagnaðarboðskaparins svo að ég geti miðlað honum til annarra.“ – 1. Kor. 9:23.

Við megum ekki gleyma mikilvægi þess að hjálpa öðrum, sérstaklega með því að boða trúna. Við þurfum að vera sveigjanleg í boðuninni. Við hittum fólk sem hefur mismunandi trú, viðhorf og bakgrunn. Páll postuli var sveigjanlegur og við getum lært af honum. Jesús útnefndi Pál til að vera „postuli meðal þjóðanna“. (Rómv. 11:13) Hann boðaði trúna Gyðingum, Grikkjum, menntuðu fólki, verkafólki, tignarfólki og konungum. Páll varð „öllum allt“ til að ná til hjarta alls konar fólks. (1. Kor. 9:19–22) Hann veitti athygli menningu, bakgrunni og trúarskoðunum áheyrenda sinna og lagaði mál sitt að því. Við getum líka náð betri árangri í þjónustu okkar ef við erum útsjónarsöm og lögum boðun okkar að þörfum áheyrenda okkar. w23.07 23 gr. 11, 12

Sunnudagur 5. október

„Þjónn Drottins á ekki að rífast heldur á hann að vera ljúfur við alla.“ – 2. Tím. 2:24.

Mildi er styrkleiki, ekki veikleiki. Það þarf innri styrk til að halda ró sinni í erfiðum aðstæðum. Mildi er hluti af ‚ávexti andans‘. (Gal. 5:22, 23) Ein mynd gríska orðsins sem er þýtt „mildi“ var stundum notuð til að lýsa tömdum hesti. Sjáum fyrir okkur ótaminn og villtan hest sem verður síðan ljúfur og þægilegur. Hann er samt jafn sterkur og áður. Hvernig getum við ræktað með okkur mildi og verið á sama tíma sterk? Það þarf fleira en viljastyrk. Við þurfum að biðja Jehóva um anda hans og hjálp til að þroska með okkur þennan fallega eiginleika. Reynslan sýnir að þetta er hægt. Margir vottar hafa svarað mildilega þegar þeir hafa staðið andspænis andstæðingum. Það hefur oft haft jákvæð áhrif á skoðun fólks á þjónum Jehóva. – 2. Tím. 2:24, 25, neðanmáls í versi 25. w23.09 14 gr. 3

Mánudagur 6. október

Ég bað og Jehóva veitti mér það sem ég bað hann um. – 1. Sam. 1:27.

Í stórkostlegri sýn sá Jóhannes postuli 24 öldunga á himnum tilbiðja Jehóva. Þeir lofuðu Guð og sögðu að hann væri þess verður að fá „dýrðina, heiðurinn og máttinn“. (Opinb. 4:10, 11) Trúfastir englar hafa líka fjölmargar ástæður til að lofa Jehóva og heiðra hann. Þeir eru með honum á himnum og hafa kynnst honum vel. Þeir sjá eiginleika hans endurspeglast í því sem hann gerir. Þegar þeir fylgjast með Jehóva að störfum finna þeir sig knúna til að lofa hann. (Job. 38:4–7) Við viljum líka lofa Jehóva í bænum okkar með því að segja honum hvað við kunnum að meta í fari hans og hvers vegna við dáum hann. Þegar þú lest og rannsakar Biblíuna skaltu reyna að koma auga á eiginleika Jehóva sem höfða sérstaklega til þín. (Job. 37:23; Rómv. 11:33) Segðu honum síðan hvað þér finnst um þessa eiginleika. Við getum líka lofað Jehóva fyrir að hjálpa okkur og öllum bræðrum okkar og systrum. – 1. Sam. 2:1, 2. w23.05 3–4 gr. 6, 7

Þriðjudagur 7. október

Lifið eins og Jehóva er samboðið. – Kól. 1:10.

Árið 1919 missti Babýlon hin mikla hald sitt á þjónum Guðs. Þá kom „hinn trúi og skynsami þjónn“ fram á sjónarsviðið, á hárréttum tíma til að bjóða einlægt fólk velkomið á ‚Veginn heilaga‘ sem var þá nýlega opnaður. (Matt. 24:45–47; Jes. 35:8) Það er að hluta til trúföstum „vegavinnumönnum“ fortíðar að þakka að fólk sem fór að ferðast á veginum byrjaði að læra um Jehóva og fyrirætlun hans. (Orðskv. 4:18) Það gat líka fært líf sitt til samræmis við kröfur Jehóva. Jehóva ætlaðist ekki til að fólk hans gerði nauðsynlegar breytingar allar undireins. Hann hefur fágað fólk sitt smám saman. Það á eftir að veita okkur ótrúlega mikla gleði að geta glatt Jehóva með öllu sem við gerum! Allir vegir þurfa reglulegt viðhald. Frá árinu 1919 hefur vegavinna á ‚Veginum heilaga‘ haldið áfram til að gera þeim sem vilja kleift að yfirgefa Babýlon hina miklu. w23.05 17 gr. 15; 19 gr. 16

Miðvikudagur 8. október

„Ég mun aldrei snúa baki við þér.“ – Hebr. 13:5.

Stjórnandi ráð hefur líka þjálfað aðstoðarmenn ýmissa nefnda stjórnandi ráðs. Þessir aðstoðarmenn axla nú þegar umtalsverða ábyrgð. Þeir eru vel undir það búnir að halda áfram að annast sauði Krists. Sönn tilbeiðsla heldur óslitið áfram á jörðinni þegar síðasti andasmurði einstaklingurinn er farinn til himna undir lok þrengingarinnar miklu. Þjónar Guðs munu aldrei missa dampinn í tilbeiðslunni, þökk sér forystu Jesú Krists. Við vitum að á þeim tíma ræðst bandalag þjóða, sem Biblían kallar Góg í Magóg, á þjóna Guðs. (Esek. 38:18–20) En sú stutta árás mistekst, hún stöðvar ekki þjóna Guðs í að tilbiðja Jehóva. Hann mun vissulega bjarga þeim. Jóhannes postuli sá í sýn „mikinn múg“ koma út úr „þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:9, 14) Við vitum að Jehóva mun bjarga þjónum sínum. w24.02 5–6 gr. 13, 14

Fimmtudagur 9. október

„Slökkvið ekki eld andans.“ – 1. Þess. 5:19.

Hvað getum við gert til að fá heilagan anda? Við getum beðið Jehóva um hann, rannsakað innblásið orð Guðs og starfað með söfnuði hans sem er undir leiðsögn andans. Þannig fáum við hjálp til að rækta ‚ávöxt andans‘. (Gal. 5:22, 23). Guð gefur aðeins þeim anda sinn sem halda áfram að hugsa og breyta rétt. Hann heldur ekki áfram að gefa okkur anda sinn ef við nærum óhreinar hugsanir og breytum í samræmi við þær. (1. Þess. 4:7, 8) Til að halda áfram að fá heilagan anda megum við ekki heldur ‚fyrirlíta spádóma‘. (1. Þess. 5:20) „Spádómar“ vísa hér til boðskapar sem við fáum fyrir milligöngu heilags anda eins og til dæmis þess sem varðar dag Jehóva og mikilvægi tímanna sem við lifum. Við ýtum deginum ekki á undan okkur og hugsum sem svo að Harmagedón verði ekki meðan við lifum. Nei, við höfum hann skýrt í huga með því að breyta rétt og vera upptekin og með því að vera „guðrækin og heilög í hegðun“. – 2. Pét. 3:11, 12. w23.06 12 gr. 13, 14

Föstudagur 10. október

„Að óttast Jehóva er upphaf viskunnar.“ – Orðskv. 9:10, neðanmáls.

Hvað ættum við sem þjónum Jehóva að gera ef klám birtist á skjánum hjá okkur? Við ættum tafarlaust að líta undan. Það getur verið hjálplegt að minna okkur á að samband okkar við Jehóva er það dýrmætasta sem við eigum. Jafnvel myndir sem eru ekki álitnar klámfengnar geta kveikt siðlausar langanir. Hvers vegna ættum við að forðast þær? Við viljum ekki einu sinni stíga lítið skref í áttina að því að fremja hjúskaparbrot í hjarta okkar. (Matt. 5:28, 29) Öldungur í Taílandi sem heitir David segir: „Ég spyr sjálfan mig: ‚Verður Jehóva ánægður ef ég horfi á myndirnar, þótt þær séu kannski ekki klámfengnar?‘ Að hugsa þannig hjálpar mér að breyta viturlega.“ Að rækta með okkur heilnæman ótta við að vera Jehóva vanþóknanleg hjálpar okkur að breyta viturlega. Að óttast Jehóva er „upphaf“, eða grunnur „viskunnar“. w23.06 23 gr. 12, 13

Laugardagur 11. október

„Farðu, þjóð mín, inn í innstu herbergi þín.“ – Jes. 26:20.

Með orðunum „innstu herbergi“ gæti verið átt við söfnuðina okkar. Í þrengingunni miklu munum við finna þá vernd sem Jehóva lofar þegar við höldum áfram að þjóna honum ásamt bræðrum okkar og systrum. Við þurfum þess vegna að leggja okkur fram við að elska bræður okkar og systur en ekki bara umbera þau. Björgun okkar gæti verið undir því komin! „Hinn mikli dagur Jehóva“ verður öllu mannkyni mjög erfiður tími. (Sef. 1:14, 15) Þjónar Jehóva munu líka ganga í gegnum erfiðleika. En ef við undirbúum okkur núna getum við haldið ró okkar og komið öðrum til hjálpar. Við munum sýna þolgæði í hverri raun. Þegar trúsystkini okkar þjást gerum við okkar besta til að hjálpa þeim með því að sýna samkennd og sjá fyrir þörfum þeirra. Og við verðum í nánum samskiptum við bræður okkar og systur vegna þess að við berum nú þegar kærleika til þeirra. Jehóva umbunar okkur síðan með eilífu lífi í heimi þar sem hamfara og erfiðleika verður ekki minnst framar. – Jes. 65:17. w23.07 7 gr. 16, 17

Sunnudagur 12. október

Jehóva mun efla ykkur, styrkja og gera óhagganleg. – 1. Pét. 5:10.

Orð Guðs lýsir trúföstum mönnum oft sem öflugum. En þeir upplifðu sig ekki alltaf sterka. Til dæmis fannst Davíð konungi hann stundum „óhaggandi eins og fjall“ en hann var líka stundum „óttasleginn“. (Sálm. 30:7) Samson var einstaklega sterkur þegar andi Guðs knúði hann. En hann viðurkenndi að án kraftsins frá Guði yrði hann ‚máttlítill og eins og allir aðrir menn‘. (Dóm. 14:5, 6; 16:17) Þessir trúföstu menn voru öflugir aðeins vegna þess að Jehóva gaf þeim styrk. Páll postuli viðurkenndi líka að hann þyrfti að fá styrk frá Jehóva. (2. Kor. 12:9, 10) Hann átti við heilsuvandamál að glíma. (Gal. 4:13, 14) Honum fannst líka stundum erfitt að gera rétt. (Rómv. 7:18, 19) Og hann var stundum kvíðinn og óöruggur. (2. Kor. 1:8, 9) En þegar Páll var veikburða varð hann sterkur. Jehóva gaf honum kraftinn sem hann vantaði. Hann gerði Pál sterkan. w23.10 12 gr. 1, 2

Mánudagur 13. október

„Jehóva sér hvað býr í hjartanu.“ – 1. Sam. 16:7.

Ef við glímum stundum við þá tilfinningu að við séum einskis virði getum við minnt okkur á að Jehóva sjálfur dró okkur til sín. (Jóh. 6:44) Hann sér það góða í okkur sem við sjáum kannski ekki sjálf og hann þekkir hjarta okkar. (2. Kron. 6:30) Við getum þess vegna treyst honum þegar hann segir að við séum dýrmæt. (1. Jóh. 3:19, 20) Sum okkar gerðu ýmislegt áður en við kynntumst sannleikanum sem fyllir okkur ef til vill enn sektarkennd. (1. Pét. 4:3) Aðrir sem þjóna Jehóva trúfastlega glíma við syndugar tilhneigingar. Hvað með þig? Dæmir hjarta þitt þig? Ef svo er getur verið hughreystandi að vita að aðrir trúfastir þjónar Jehóva hafa glímt við sams konar tilfinningar. Páli postula leið illa þegar hann hugsaði um ófullkomleika sinn. (Rómv. 7:24) Hann hafði iðrast og látið skírast. En hann sagðist samt vera „sístur postulanna“ og „verstur“ meðal syndara. – 1. Kor. 15:9; 1. Tím. 1:15. w24.03 27 gr. 5, 6

Þriðjudagur 14. október

„Fólkið vanrækti hús Jehóva.“ – 2. Kron. 24:18.

Eitt sem við getum lært af vondri ákvörðun Jóasar konungs er að við þurfum að velja félagsskap sem hefur góð áhrif á okkur – vini sem elska Jehóva og vilja gleðja hann. Við þurfum ekki að takmarka vinahópinn við þá sem eru á sama aldri og við. Jóas var miklu yngri en Jójada vinur hans. Spyrðu sjálfan þig varðandi val þitt á vinum: Hjálpa þeir mér að styrkja trú mína á Jehóva? Hvetja þeir mig til að breyta í samræmi við mælikvarða hans? Tala þeir um Jehóva og dýrmæt sannindi hans? Sýna þeir í verki að þeir virði mælikvarða hans? Segja þeir mér það sem ég vil heyra eða hafa þeir hugrekki til að leiðrétta mig þegar þörf er á? (Orðskv. 27:5, 6, 17) Ef vinir þínir elska ekki Jehóva þarftu í sannleika sagt ekki á þeim að halda. En það er gagnlegt fyrir þig að rækta vináttu við þá sem elska hann. – Orðskv. 13:20. w23.09 9–10 gr. 6, 7

Miðvikudagur 15. október

„Ég er alfa og ómega.“ – Opinb. 1:8.

Alfa er fyrsti bókstafurinn í gríska stafrófinu og ómega sá síðasti. Með því að segjast vera „alfa og ómega“ gefur Jehóva til kynna að þegar hann byrjar á einhverju ljúki hann því. Eftir að Jehóva skapaði Adam og Evu sagði hann við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina. Leggið hana undir ykkur.“ (1. Mós. 1:28) Á því augnabliki sagði Jehóva í raun „alfa“. Hann opinberaði skýrt fyrirætlun sína: Sá tími kæmi þegar fullkomnir, hlýðnir afkomendur Adams og Evu fylltu jörðina og breyttu henni í paradís. Þegar sá tími kemur má segja að Jehóva segi „ómega“. Eftir að hafa fullgert ‚himinn og jörð og allt sem tilheyrir þeim‘ sagði hann nokkuð sem sýnir að tilgangur hans verður sannarlega að veruleika. Jehóva tryggir að ekkert geti komið í veg fyrir að fyrirætlun hans með mannkynið og jörðina verði að veruleika í lok sjöunda dagsins. – 1. Mós. 2:1–3. w23.11 4–5 gr. 13, 14

Fimmtudagur 16. október

„Greiðið veg Jehóva! Ryðjið beina braut um eyðimörkina handa Guði okkar.“ – Jes. 40:3.

Ferðin frá Babýlon til Ísraels var erfið og gat tekið fjóra mánuði. En Jehóva lofaði því að sérhverri hindrun sem virtist geta komið í veg fyrir að Gyðingar kæmust til Ísraels yrði rutt úr vegi. Í huga trúfastra Gyðinga voru kostirnir við að snúa aftur til Ísraels miklu þyngri á metunum en fórnirnar sem þeir þyrftu að færa. Mikilvægasta umbunin snerti tilbeiðslu þeirra. Í Babýlon var ekkert musteri helgað Jehóva. Þar var ekkert altari sem Ísraelsmenn gátu fært fórnir á eins og farið var fram á í Móselögunum og ekkert fyrirkomulag um að prestar bæru þær fram. Þar að auki var fólk Jehóva miklu færra en heiðið fólk sem skeytti ekkert um Jehóva og mælikvarða hans. Tugþúsundir Gyðinga sem elskuðu Jehóva hlökkuðu þess vegna til að snúa aftur til heimalandsins þar sem þeir gætu endurreist hreina tilbeiðslu. w23.05 14–15 gr. 3, 4

Föstudagur 17. október

„Hegðið ykkur áfram sem börn ljóssins.“ – Ef. 5:8.

Við þurfum á hjálp heilags anda Guðs að halda til þess að haga okkur eins og „börn ljóssins“. Hvers vegna? Það er meira en að segja það að vera hreinn í þessum siðlausa heimi. (1. Þess. 4:3–5, 7, 8) Heilagur andi getur hjálpað okkur að berjast gegn hugsun heimsins, þar á meðal heimspekihugmyndum og viðhorfum sem stríða gegn hugsun Guðs. Heilagur andi getur líka hjálpað okkur að þroska með okkur ‚hvers kyns góðvild og réttlæti‘. (Ef. 5:9) Ein leið til að fá heilagan anda er að biðja Guð um hann í bæn. Jesús sagði að Jehóva ‚gæfi þeim heilagan anda sem bæðu hann‘. (Lúk. 11:13) Og þegar við lofum Jehóva saman á samkomum fáum við líka heilagan anda. (Ef. 5:19, 20) Heilnæm áhrif heilags anda Guðs hjálpa okkur að lifa lífinu þannig að við gleðjum Guð. w24.03 23–24 gr. 13–15

Laugardagur 18. október

„Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur.“ – Lúk. 11:9.

Skortir þig þolinmæði? Þá skaltu biðja Jehóva um hana. Þolinmæði er hluti af ávexti andans. (Gal. 5:22, 23) Við getum því beðið Jehóva um heilagan anda og hjálp til að rækta ávöxt hans. Ef við stöndum frammi fyrir aðstæðum sem reyna á þolinmæði okkar ‚höldum við áfram að biðja‘ um heilagan anda til að vera þolinmóð. (Lúk. 11:13) Við getum beðið Jehóva um hjálp til að sjá málin frá hans sjónarhorni. Síðan verðum við að gera okkar besta til að vera þolinmóð. Því meira sem við biðjum um þennan eiginleika og leggjum okkur fram um að sýna hann í verki því betur festir hann rætur í hjarta okkar og verður hluti af persónuleika okkar. Það hjálpar líka að hugleiða frásögur úr Biblíunni. Í Biblíunni er að finna frásögur af fólki sem sýndi þolinmæði. Með því að hugleiða þær getum við lært að sýna þolinmæði við mismunandi aðstæður. w23.08 22 gr. 10, 11

Sunnudagur 19. október

„Leggið netin.“ – Lúk. 5:4.

Jesús fullvissaði Pétur postula um stuðning Jehóva. Hinn upprisni Jesús sá Pétri og postulunum aftur fyrir undraverðum fiskafla. (Jóh. 21:4–6) Þetta kraftaverk fullvissaði Pétur örugglega um að það væri hægur vandi fyrir Jehóva að sjá fyrir efnislegum þörfum hans. Kannski hefur hann þá rifjað upp orð Jesú um að Jehóva sæi fyrir þörfum þeirra sem ‚einbeittu sér fyrst og fremst að ríki Guðs‘. (Matt. 6:33) Í samræmi við þetta setti Pétur þjónustuna í fyrsta sætið í lífinu í stað fiskveiðanna. Hann boðaði trúna af hugrekki á hvítasunnu árið 33 og þúsundir tóku við fagnaðarboðskapnum fyrir vikið. (Post. 2:14, 37–41) Því næst hjálpaði hann íbúum Samaríu og fólki af þjóðunum að taka á móti Kristi. (Post. 8:14–17; 10:44–48) Pétur var sannarlega öflugt verkfæri í höndum Jehóva til að leiða alls konar fólk til safnaðarins. w23.09 20 gr. 1; 23 gr. 11

Mánudagur 20. október

„Ef þið segið mér ekki drauminn og merkingu hans verðið þið aflimaðir.“ – Dan. 2:5.

Um tveim árum eftir að Babýloníumenn eyddu Jerúsalem dreymdi Nebúkadnesar konung Babýlonar draum um risastórt líkneski sem kom honum í mikið uppnám. Hann hótaði að drepa alla vitringana, þar á meðal Daníel, ef þeir gætu ekki sagt honum hvað hann hafði dreymt og merkingu draumsins. (Dan. 2:3–5) Daníel þurfti að bregðast skjótt við, annars myndu margir missa lífið. Hann gekk „inn til konungs og bað hann um frest til að ráða drauminn fyrir hann“. (Dan. 2:16) Það kostaði hugrekki og trú. Það er ekkert sem gefur til kynna að Daníel hafi ráðið drauma áður. Hann bað félaga sína „að biðja Guð himinsins að vera miskunnsamur og opinbera þennan leyndardóm“. (Dan. 2:18) Jehóva svaraði bænunum. Með hjálp Guðs réð Daníel draum Nebúkadnesars og lífi hans og félaga hans var þyrmt. w23.08 2 gr. 4

Þriðjudagur 21. október

„Sá sem er þolgóður allt til enda mun bjargast.“ – Matt. 24:13.

Hugleiddu kosti þess að vera þolinmóður. Við erum ánægðari og rólegri þegar við erum þolinmóð. Það stuðlar að góðri andlegri og líkamlegri heilsu. Það stuðlar líka að góðum samskiptum við aðra og meiri einingu í söfnuðinum okkar. Ef við erum sein til reiði kemur það í veg fyrir að ástandið versni þegar einhver skapraunar okkur. (Sálm. 37:8; Orðskv. 14:29) En það sem mestu máli skiptir er að við líkjum eftir föður okkar á himnum og eigum jafnvel enn nánara samband við hann. Þolinmæði er aðlaðandi og gagnlegur eiginleiki. Þótt það sé ekki alltaf auðvelt að sýna þolinmæði getum við með hjálp Jehóva haldið áfram að þroska með okkur þennan eiginleika. Og ef við bíðum þolinmóð eftir nýja heiminum getum við verið viss um að „augu Jehóva vaka yfir þeim sem óttast hann, þeim sem vona á tryggan kærleika hans“. (Sálm. 33:18) Verum ákveðin í að íklæðast þolinmæði. w23.08 22 gr. 7; 25 gr. 16, 17

Miðvikudagur 22. október

Trúin ein og sér er dauð ef verkin vantar. – Jak. 2:17.

Jakob bendir á að maður gæti fullyrt að hann hefði trú en verk hans afhjúpuðu að svo væri ekki. (Jak. 2:1–5, 9) Jakob talar líka um trúsystkini sem sér bróður eða systur vanta föt eða mat en veitir enga hjálp. Trúsystkinið gæti sagst hafa trú en hefði samt ekki verk sem sýndu trúna í verki. Slík trú væri gagnslaus. (Jak. 2:14–16) Jakob nefnir Rahab sem dæmi um manneskju sem sýndi trú sína í verki. (Jak. 2:25, 26) Hún hafði heyrt um Jehóva og skildi að Ísraelsmenn hefðu stuðning hans. (Jós. 2:9–11) Hún sýndi trú í verki þegar hún verndaði tvo ísraelska njósnara sem voru í lífshættu. Þessi kona var ófullkomin og hélt ekki Móselögin en var samt lýst réttlát, rétt eins og Abraham. Fordæmi hennar undirstrikar hversu mikilvægt sé að sýna trú í verki. w23.12 5 gr. 12, 13

Fimmtudagur 23. október

„Megið þið vera rótföst og standa á traustum grunni.“ – Ef. 3:17.

Sem þjónar Guðs látum við okkur ekki nægja aðeins yfirborðslega þekkingu á Biblíunni. Með hjálp heilags anda Guðs erum við áköf að læra „jafnvel hið djúpa sem býr í Guði“. (1. Kor. 2:9, 10) Hvernig væri að taka fyrir verkefni í sjálfsnámi þínu sem gæti hjálpað þér að nálægja þig Jehóva? Þú gætir til dæmis athugað hvernig hann sýndi þjónum sínum til forna kærleika sinn og hvernig það sýnir fram á að hann elskar þig líka. Þú gætir líka athugað hvernig Jehóva vildi að Ísraelsmenn tilbæðu sig og borið það saman við það hvernig hann vill að við tilbiðjum sig nú á dögum. Eða þú gætir skoðað vandlega spádómana sem Jesús uppfyllti meðan á þjónustu hans stóð á jörðinni. Það getur verið mjög ánægjulegt að rannsaka þessi viðfangsefni með hjálp Efnislykils að ritum Votta Jehóva og Watch Tower Publications Index. Ítarlegt biblíunám getur styrkt trú þína og hjálpað þér að ‚kynnast Guði‘. – Orðskv. 2:4, 5. w23.10 18–19 gr. 3–5

Föstudagur 24. október

„Berið umfram allt brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.“ – 1. Pét. 4:8.

Orðið sem Pétur postuli notaði fyrir „brennandi“ merkir bókstaflega ‚teygður‘. Seinni hluti versins lýsir áhrifunum sem slíkur kærleikur hefur. Hann hylur syndir trúsystkina okkar. Við getum lýst þessu þannig: Við grípum kærleika okkar með báðum höndum eins og hann væri teygjanlegur efnisbútur og teygjum hann meira og meira þangað til hann hylur, ekki eina og ekki tvær heldur „fjölda synda“. Að „hylja“ felur í sér að fyrirgefa. Kærleikur getur hulið veikleika og ófullkomleika annarra eins og efnisbútur getur hulið blett. Kærleikur okkar til annarra ætti að vera það sterkur að við getum fyrirgefið ófullkomleika trúsystkina okkar – jafnvel þótt það geti stundum verið mjög erfitt. (Kól. 3:13) Þegar okkur tekst að fyrirgefa öðrum sýnum við að kærleikur okkar er sterkur og að við viljum gleðja Jehóva. w23.11 11–12 gr. 13–15

Laugardagur 25. október

„Safan las úr henni fyrir konunginn.“ – 2. Kron. 34:18.

Þegar Jósía konungur var 26 ára hófst hann handa við að láta gera við musterið. Meðan á framkvæmdinni stóð fannst „lögbók Jehóva sem hafði verið gefin fyrir milligöngu Móse“. Þegar Jósía heyrði það sem sagði í bókinni brást hann tafarlaust við og fór eftir því. (2. Kron. 34:14, 19–21) Reynir þú að lesa reglulega í Biblíunni? Hvernig gengur? Safnarðu biblíuversum sem þú getur sérstaklega haft gagn af? Þegar Jósía var um 39 ára gerði hann mistök sem kostuðu hann lífið. Hann treysti á sjálfan sig í stað þess að leita leiðsagnar Jehóva. (2. Kron. 35:20–25) Í þessu felst mikilvægur lærdómur. Óháð því hversu gömul við erum eða hve lengi við höfum lesið Biblíuna þurfum við að halda áfram að leita Jehóva. Það felur í sér að biðja reglulega um leiðsögn hans, rannsaka orð hans og nýta okkur ráðleggingar þroskaðra trúsystkina. Þá eru minni líkur á að við gerum alvarleg mistök og líklegra að við séum hamingjusöm. – Jak. 1:25. w23.09 12 gr. 15, 16

Sunnudagur 26. október

„Guð stendur gegn hrokafullum en sýnir auðmjúkum einstaka góðvild.“ – Jak. 4:6.

Í Biblíunni er minnst á margar einstakar konur sem elskuðu Jehóva og þjónuðu honum. Þær voru „hófsamar og trúar í öllu“. (1. Tím. 3:11) Auk þess geta systur fundið konur í sínum eigin söfnuði sem elska Jehóva og þær geta lært margt af. Þekkið þið, ungu systur, þroskaðar systur sem þið gætuð líkt eftir? Takið eftir dýrmætum eiginleikum þeirra. Hugleiðið síðan hvernig þið getið tileinkað ykkur þá. Til að ná þroska í trúnni er nauðsynlegt að hafa auðmýkt til að bera. Auðmjúk kona hefur gott samband við Jehóva og við aðra. Kona sem elskar Jehóva velur auðmjúk að styðja fyrirkomulag hans varðandi forystu sem himneskur faðir hennar hefur sett. (1. Kor. 11:3) Meginreglan um forystu gildir í söfnuðinum og í fjölskyldunni. w23.12 18–19 gr. 3–5

Mánudagur 27. október

Eiginmaður á að elska konu sína eins og eigin líkama. – Ef. 5:28.

Jehóva væntir þess að eiginmaður elski eiginkonu sína, annist hana líkamlega og tilfinningalega og hjálpi henni að eiga náið samband við föður sinn á himni. Að þroska með þér skarpskyggni, bera virðingu fyrir konum og vera áreiðanlegur mun hjálpa þér að vera góður eiginmaður. Eftir að þú hefur gengið í hjónaband eignastu kannski börn. Hvað getum við lært af Jehóva um að vera góður faðir? (Ef. 6:4) Jehóva sagði Jesú syni sínum að hann elskaði hann og hefði velþóknun á honum. (Matt. 3:17) Ef þú eignast börn skaltu fullvissa þau reglulega um að þú elskir þau. Vertu duglegur að hrósa þeim fyrir það góða sem þau gera. Feður sem líkja eftir Jehóva hjálpa börnunum sínum að verða þroskaðir kristnir karlar og konur. Þú getur búið þig undir þetta hlutverk með því að annast af kærleika aðra í fjölskyldu þinni og söfnuðinum og með því að temja þér að segja þeim að þú kunnir að meta þá og elskir þá. – Jóh. 15:9. w23.12 28–29 gr. 17, 18

Þriðjudagur 28. október

Jehóva veitir þér stöðugleika. – Jes. 33:6.

Við göngum í gegnum erfiðleika og veikindi eins og annað fólk þótt við séum trúfastir þjónar Jehóva. Við gætum auk þess þurft að þola andstöðu eða ofsóknir af hálfu þeirra sem hata fólk Guðs. Enda þótt Jehóva komi ekki í veg fyrir slíka erfiðleika lofar hann að hjálpa okkur. (Jes. 41:10) Með hans hjálp getum við haldið gleði okkar, tekið góðar ákvarðanir og verið honum trúföst jafnvel við erfiðustu aðstæður. Jehóva lofar að gefa okkur það sem Biblían nefnir ‚frið Guðs‘. (Fil. 4:6, 7) Þessi friður vísar til þeirrar stillingar og rósemi sem maður getur aðeins öðlast vegna vináttu við hann. Friðurinn er „æðri öllum skilningi“ sem þýðir að hann er dásamlegri en við getum ímyndað okkur. Hefur þú einhvern tíma fundið fyrir ótrúlegri ró eftir að hafa beðið heitt til Jehóva? Þá hefurðu fundið fyrir ‚friði Guðs‘. w24.01 20 gr. 2; 21 gr. 4

Miðvikudagur 29. október

„Ég vil lofa Jehóva, allt sem í mér býr lofi heilagt nafn hans.“ – Sálm. 103:1.

Trúfastir menn sem elska Jehóva vilja lofa nafn hans af öllu hjarta. Davíð konungur skildi að þegar við lofum nafn Jehóva lofum við hann sjálfan. Nafn Jehóva felur í sér orðstír hans og kallar fram í hugann alla þá fögru eiginleika sem hann býr yfir og stórkostleg verk hans. Davíð áleit nafn föður síns heilagt og vildi lofa það með ‚öllu sem í honum bjó‘ – það er að segja af öllu hjarta. Það var líka hjartans mál hjá Levítunum að lofa nafn Jehóva. Þeir viðurkenndu auðmjúkir að orð þeirra gætu aldrei túlkað það lof sem heilagt nafn Jehóva verðskuldaði. (Neh. 9:5) Það hefur án efa yljað hjarta Jehóva að heyra þá lofa hann með þessum hætti. w24.02 9 gr. 6

Fimmtudagur 30. október

Við skulum halda áfram á sömu braut og við erum á, óháð því hvaða framförum við höfum tekið. – Fil. 3:16.

Jehóva álítur ekki að þér hafi mistekist ef þú nærð ekki markmiði sem var óraunhæft fyrir þig. (2. Kor. 8:12) Reyndu að læra af bakslaginu. Mundu eftir því sem þú hefur þegar áorkað. Biblían segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar.“ (Hebr. 6:10) Þú ættir ekki heldur að gera það. Rifjaðu upp það sem þú hefur nú þegar áorkað, eins og að eignast vináttusamband við Jehóva, segja öðrum frá honum eða láta skírast. Þú getur haldið áfram að vinna að núverandi markmiði þínu rétt eins og þú hefur unnið að og náð andlegum markmiðum hingað til. Með hjálp Jehóva geturðu náð markmiði þínu. Reyndu alltaf að sjá hvernig Jehóva hjálpar þér. Það veitir þér meiri ánægju þegar þú vinnur að markmiði þínu. (2. Kor. 4:7) Ef þú gefst ekki upp muntu njóta enn meiri blessunar. – Gal. 6:9. w23.05 31 gr. 16–18

Föstudagur 31. október

„Faðirinn sjálfur elskar ykkur því að þið hafið elskað mig og trúið að ég hafi komið sem fulltrúi Guðs.“ – Jóh. 16:27.

Jehóva hefur unun af því að tjá kærleika sinn og velþóknun í garð þjóna sinna. Í Biblíunni eru tvö dæmi um að hann sagði Jesú að hann væri elskaður sonur sinn sem hann hefði velþóknun á. (Matt. 3:17; 17:5) Myndir þú vilja heyra Jehóva tjá þér velþóknun sína? Hann talar ekki til okkar frá himni en hann gerir það á síðum Biblíunnar. Við getum „heyrt“ Jehóva tjá velþóknun sína þegar við lesum það sem Jesús sagði við lærisveina sína. Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns fullkomlega. Þegar við lesum að hann sagði ófullkomnum en trúföstum lærisveinum sínum að hann hefði velþóknun á þeim getum við ímyndað okkur hvernig Jehóva segir þetta við okkur. (Jóh. 15:9, 15) Ef við lendum í prófraunum eru þær ekki merki um að við höfum glatað velþóknun Jehóva. Þær gefa okkur öllu heldur tækifæri til að sýna hversu djúpt kærleikur okkar til Guðs ristir og hversu vel við treystum honum. – Jak. 1:12. w24.03 28 gr. 10, 11

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila