Föstudagur 24. október
„Berið umfram allt brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.“ – 1. Pét. 4:8.
Orðið sem Pétur postuli notaði fyrir „brennandi“ merkir bókstaflega ‚teygður‘. Seinni hluti versins lýsir áhrifunum sem slíkur kærleikur hefur. Hann hylur syndir trúsystkina okkar. Við getum lýst þessu þannig: Við grípum kærleika okkar með báðum höndum eins og hann væri teygjanlegur efnisbútur og teygjum hann meira og meira þangað til hann hylur, ekki eina og ekki tvær heldur „fjölda synda“. Að „hylja“ felur í sér að fyrirgefa. Kærleikur getur hulið veikleika og ófullkomleika annarra eins og efnisbútur getur hulið blett. Kærleikur okkar til annarra ætti að vera það sterkur að við getum fyrirgefið ófullkomleika trúsystkina okkar – jafnvel þótt það geti stundum verið mjög erfitt. (Kól. 3:13) Þegar okkur tekst að fyrirgefa öðrum sýnum við að kærleikur okkar er sterkur og að við viljum gleðja Jehóva. w23.11 11–12 gr. 13–15
Laugardagur 25. október
„Safan las úr henni fyrir konunginn.“ – 2. Kron. 34:18.
Þegar Jósía konungur var 26 ára hófst hann handa við að láta gera við musterið. Meðan á framkvæmdinni stóð fannst „lögbók Jehóva sem hafði verið gefin fyrir milligöngu Móse“. Þegar Jósía heyrði það sem sagði í bókinni brást hann tafarlaust við og fór eftir því. (2. Kron. 34:14, 19–21) Reynir þú að lesa reglulega í Biblíunni? Hvernig gengur? Safnarðu biblíuversum sem þú getur sérstaklega haft gagn af? Þegar Jósía var um 39 ára gerði hann mistök sem kostuðu hann lífið. Hann treysti á sjálfan sig í stað þess að leita leiðsagnar Jehóva. (2. Kron. 35:20–25) Í þessu felst mikilvægur lærdómur. Óháð því hversu gömul við erum eða hve lengi við höfum lesið Biblíuna þurfum við að halda áfram að leita Jehóva. Það felur í sér að biðja reglulega um leiðsögn hans, rannsaka orð hans og nýta okkur ráðleggingar þroskaðra trúsystkina. Þá eru minni líkur á að við gerum alvarleg mistök og líklegra að við séum hamingjusöm. – Jak. 1:25. w23.09 12 gr. 15, 16
Sunnudagur 26. október
„Guð stendur gegn hrokafullum en sýnir auðmjúkum einstaka góðvild.“ – Jak. 4:6.
Í Biblíunni er minnst á margar einstakar konur sem elskuðu Jehóva og þjónuðu honum. Þær voru „hófsamar og trúar í öllu“. (1. Tím. 3:11) Auk þess geta systur fundið konur í sínum eigin söfnuði sem elska Jehóva og þær geta lært margt af. Þekkið þið, ungu systur, þroskaðar systur sem þið gætuð líkt eftir? Takið eftir dýrmætum eiginleikum þeirra. Hugleiðið síðan hvernig þið getið tileinkað ykkur þá. Til að ná þroska í trúnni er nauðsynlegt að hafa auðmýkt til að bera. Auðmjúk kona hefur gott samband við Jehóva og við aðra. Kona sem elskar Jehóva velur auðmjúk að styðja fyrirkomulag hans varðandi forystu sem himneskur faðir hennar hefur sett. (1. Kor. 11:3) Meginreglan um forystu gildir í söfnuðinum og í fjölskyldunni. w23.12 18–19 gr. 3–5