Þriðjudagur 28. október
Jehóva veitir þér stöðugleika. – Jes. 33:6.
Við göngum í gegnum erfiðleika og veikindi eins og annað fólk þótt við séum trúfastir þjónar Jehóva. Við gætum auk þess þurft að þola andstöðu eða ofsóknir af hálfu þeirra sem hata fólk Guðs. Enda þótt Jehóva komi ekki í veg fyrir slíka erfiðleika lofar hann að hjálpa okkur. (Jes. 41:10) Með hans hjálp getum við haldið gleði okkar, tekið góðar ákvarðanir og verið honum trúföst jafnvel við erfiðustu aðstæður. Jehóva lofar að gefa okkur það sem Biblían nefnir ‚frið Guðs‘. (Fil. 4:6, 7) Þessi friður vísar til þeirrar stillingar og rósemi sem maður getur aðeins öðlast vegna vináttu við hann. Friðurinn er „æðri öllum skilningi“ sem þýðir að hann er dásamlegri en við getum ímyndað okkur. Hefur þú einhvern tíma fundið fyrir ótrúlegri ró eftir að hafa beðið heitt til Jehóva? Þá hefurðu fundið fyrir ‚friði Guðs‘. w24.01 20 gr. 2; 21 gr. 4
Miðvikudagur 29. október
„Ég vil lofa Jehóva, allt sem í mér býr lofi heilagt nafn hans.“ – Sálm. 103:1.
Trúfastir menn sem elska Jehóva vilja lofa nafn hans af öllu hjarta. Davíð konungur skildi að þegar við lofum nafn Jehóva lofum við hann sjálfan. Nafn Jehóva felur í sér orðstír hans og kallar fram í hugann alla þá fögru eiginleika sem hann býr yfir og stórkostleg verk hans. Davíð áleit nafn föður síns heilagt og vildi lofa það með ‚öllu sem í honum bjó‘ – það er að segja af öllu hjarta. Það var líka hjartans mál hjá Levítunum að lofa nafn Jehóva. Þeir viðurkenndu auðmjúkir að orð þeirra gætu aldrei túlkað það lof sem heilagt nafn Jehóva verðskuldaði. (Neh. 9:5) Það hefur án efa yljað hjarta Jehóva að heyra þá lofa hann með þessum hætti. w24.02 9 gr. 6
Fimmtudagur 30. október
Við skulum halda áfram á sömu braut og við erum á, óháð því hvaða framförum við höfum tekið. – Fil. 3:16.
Jehóva álítur ekki að þér hafi mistekist ef þú nærð ekki markmiði sem var óraunhæft fyrir þig. (2. Kor. 8:12) Reyndu að læra af bakslaginu. Mundu eftir því sem þú hefur þegar áorkað. Biblían segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar.“ (Hebr. 6:10) Þú ættir ekki heldur að gera það. Rifjaðu upp það sem þú hefur nú þegar áorkað, eins og að eignast vináttusamband við Jehóva, segja öðrum frá honum eða láta skírast. Þú getur haldið áfram að vinna að núverandi markmiði þínu rétt eins og þú hefur unnið að og náð andlegum markmiðum hingað til. Með hjálp Jehóva geturðu náð markmiði þínu. Reyndu alltaf að sjá hvernig Jehóva hjálpar þér. Það veitir þér meiri ánægju þegar þú vinnur að markmiði þínu. (2. Kor. 4:7) Ef þú gefst ekki upp muntu njóta enn meiri blessunar. – Gal. 6:9. w23.05 31 gr. 16–18