Sunnudagur 9. nóvember
„Vertu ekki hræddur.“ – Dan. 10:19.
Hvað þurfum við að gera til að verða hugrökk? Foreldrar okkar hvetja okkur kannski til að vera hugrökk en við erfum ekki hugrekki eins og einhvern erfðagrip. Að öðlast hugrekki er eins og að læra eitthvað nýtt. Ein leið til að læra er að fylgjast vandlega með því sem leiðbeinandinn gerir og gera síðan eins og hann. Við getum líka lært að vera hugrökk með því að fylgjast með öðrum sem sýna þennan eiginleika og fylgja fordæmi þeirra. Eins og Daníel verðum við að þekkja orð Guðs vel. Við þurfum að byggja upp náið samband við Jehóva með því að tala oft og frjálslega við hann. Og við verðum að treysta Jehóva og vera sannfærð um að hann styðji okkur. Þá verðum við hugrökk þegar reynir á trú okkar. Hugrakkt fólk ávinnur sér oft virðingu annarra. Það getur líka laðað einlægt fólk að Jehóva. Við höfum sannarlega ástæðu til að þroska með okkur hugrekki. w23.08 2 gr. 2; 4 gr. 8, 9
Mánudagur 10. nóvember
„Sannreynið allt.“ – 1. Þess. 5:21.
Gríska orðið sem er þýtt „sannreynið“ var notað í tengslum við að prófa dýrmæta málma. Við þurfum því að meta hvort það sem við heyrum og lesum sé ekta, eða rétt. Þetta verður jafnvel enn mikilvægara fyrir okkur eftir því sem þrengingin mikla nálgast. Í stað þess að trúa öllu sem aðrir segja beitum við dómgreind til að bera það sem við lesum og heyrum saman við það sem Biblían og söfnuður Jehóva segja. Þannig látum við ekki blekkjast af áróðri illra anda. (Orðskv. 14:15; 1. Tím. 4:1) Sem hópur munu þjónar Jehóva komast í gegnum þrenginguna miklu. Sem einstaklingar vitum við ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. (Jak. 4:14) En hvort sem við lifum í gegnum þrenginguna miklu eða deyjum áður verður okkur umbunað með eilífu lífi ef við höldum áfram að vera trúföst. Við skulum öll horfa til dásamlegrar framtíðar okkar og vera viðbúin degi Jehóva! w23.06 13 gr. 15, 16
Þriðjudagur 11. nóvember
Hann hefur opinberað þjónum sínum áform sín. – Amos 3:7.
Við vitum ekki hvernig sumir spádómar Biblíunnar uppfyllast. (Dan. 12:8, 9) En þótt við skiljum ekki fyllilega hvernig spádómur á eftir að rætast þýðir það samt ekki að hann geri það ekki. Við getum verið viss um að Jehóva hjálpar okkur að skilja á nákvæmlega réttum tíma það sem er nauðsynlegt að skilja, rétt eins og hann gerði áður fyrr. Yfirlýsing um ‚frið og öryggi‘ á eftir að koma. (1. Þess. 5:3) Þá munu stjórnmálaöfl heimsins snúast gegn fölskum trúarbrögðum og eyða þeim. (Opinb. 17:16, 17) Eftir það ráðast þau á þjóna Guðs. (Esek. 38:18, 19) Stríðið við Harmagedón skellur á í kjölfar þessara atburða. (Opinb. 16:14, 16) Við getum verið viss um að þess er ekki langt að bíða. Þangað til skulum við halda áfram að sýna kærleiksríkum föður okkar á himnum þakklæti með því að gefa biblíuspádómunum gaum og hjálpa öðrum að gera það líka. w23.08 13 gr. 19, 20