Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • es25 bls. 108-118
  • Nóvember

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Nóvember
  • Rannsökum Ritningarnar daglega – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Laugardagur 1. nóvember
  • Sunnudagur 2. nóvember
  • Mánudagur 3. nóvember
  • Þriðjudagur 4. nóvember
  • Miðvikudagur 5. nóvember
  • Fimmtudagur 6. nóvember
  • Föstudagur 7. nóvember
  • Laugardagur 8. nóvember
  • Sunnudagur 9. nóvember
  • Mánudagur 10. nóvember
  • Þriðjudagur 11. nóvember
  • Miðvikudagur 12. nóvember
  • Fimmtudagur 13. nóvember
  • Föstudagur 14. nóvember
  • Laugardagur 15. nóvember
  • Sunnudagur 16. nóvember
  • Mánudagur 17. nóvember
  • Þriðjudagur 18. nóvember
  • Miðvikudagur 19. nóvember
  • Fimmtudagur 20. nóvember
  • Föstudagur 21. nóvember
  • Laugardagur 22. nóvember
  • Sunnudagur 23. nóvember
  • Mánudagur 24. nóvember
  • Þriðjudagur 25. nóvember
  • Miðvikudagur 26. nóvember
  • Fimmtudagur 27. nóvember
  • Föstudagur 28. nóvember
  • Laugardagur 29. nóvember
  • Sunnudagur 30. nóvember
Rannsökum Ritningarnar daglega – 2025
es25 bls. 108-118

Nóvember

Laugardagur 1. nóvember

„Af munni barna og ungbarna kallarðu fram lof.“ – Matt. 21:16.

Ef þú ert foreldri geturðu hjálpað börnunum þínum að undirbúa svör sem hæfa aldri þeirra. Stundum eru alvarleg mál til umræðu en líklega er hægt að finna eina eða tvær tölugreinar sem barn getur tjáð sig um. Hjálpaðu líka börnunum þínum að skilja hvers vegna þau fái líklega ekki tækifæri til að svara í hvert skipti sem þau rétta upp hönd. Það getur komið í veg fyrir að þau verði svekkt þegar aðrir fá að svara í staðinn fyrir þau. (1. Tím. 6:18) Við getum öll undirbúið uppbyggjandi svör sem heiðra Jehóva og uppörva trúsystkini okkar. (Orðskv. 25:11) Við segjum kannski stundum frá eigin reynslu en við ættum að forðast að tala of mikið um okkur sjálf. (Orðskv. 27:2; 2. Kor. 10:18) Við reynum öllu heldur að beina athyglinni að Jehóva, orði hans og fólki hans í heild. – Opinb. 4:11. w23.04 24–25 gr. 17, 18

Sunnudagur 2. nóvember

„Sofum því ekki eins og aðrir heldur vökum og hugsum skýrt.“ – 1. Þess. 5:6.

Kærleikur er nauðsynlegur til að halda okkur vakandi og hugsa skýrt. (Matt. 22:37–39) Kærleikur til Guðs hjálpar okkur að halda áfram að boða trúna þrátt fyrir erfiðleikana sem það gæti þýtt fyrir okkur. (2. Tím. 1:7, 8) Kærleikur okkar nær til þeirra sem þjóna ekki Jehóva og þess vegna höldum við áfram að boða trúna, líka með því að hringja í fólk eða skrifa því bréf. Við gefum ekki upp vonina um að dag einn breytist fólk og fari að gera það sem er rétt. (Esek. 18:27, 28) Okkur þykir líka vænt um bræður okkar og systur. Við sýnum það með því að „uppörva og styrkja hvert annað“. (1. Þess. 5:11) Við hvetjum hvert annað eins og hermenn sem berjast hlið við hlið. Við myndum aldrei særa bróður eða systur viljandi eða gjalda illt með illu. (1. Þess. 5:13, 15) Við sýnum líka kærleika okkar með því að virða bræður sem veita söfnuðinum forystu. – 1. Þess. 5:12. w23.06 10 gr. 6; 11 gr. 10, 11

Mánudagur 3. nóvember

Gerir Jehóva ekki það sem hann segir? – 4. Mós. 23:19.

Það er trústyrkjandi að hugleiða lausnargjaldið. Lausnargjaldið er trygging fyrir því að loforð Guðs rætist. Þegar við hugleiðum vandlega hvers vegna Jehóva sá okkur fyrir því og hversu miklu hann kostaði til styrkjum við trú okkar á að loforð hans um endalaust líf í betri heimi verði uppfyllt. Hvers vegna getum við sagt það? Hvað felur lausnargjaldið í sér? Jehóva sendi einkason sinn, nánasta vin sinn, frá himni til að fæðast sem fullkominn maður hér á jörðinni. Hér þurfti hann að þola margs konar raunir. Hann þurfti að þjást og dó að lokum kvalafullum dauða. Þetta var Jehóva dýrkeypt! Kærleiksríkur Guð okkar hefði aldrei leyft að sonur sinn þjáðist og dæi aðeins til að bæta líf okkar í skamman tíma. (Jóh. 3:16; 1. Pét. 1:18, 19) Hann greiddi hátt gjald og mun sjá til þess að eilíft líf í nýjum heimi verði að veruleika. w23.04 27 gr. 8, 9

Þriðjudagur 4. nóvember

„Hvar eru broddar þínir, dauði?“ – Hós. 13:14.

Hefur Jehóva löngun til að reisa hina dánu til lífs ný? Það hefur hann sannarlega. Hann innblés mörgum biblíuriturum að skrifa um upprisuna í framtíðinni. (Jes. 26:19; Opinb. 20:11–13) Og þegar Jehóva gefur loforð stendur hann alltaf við það. (Jós. 23:14) Hann hlakkar reyndar til að reisa hina dánu aftur til lífs. Skoðum það sem Job sagði. Hann var viss um að ef hann dæi myndi Jehóva þrá að sjá hann á lífi aftur. (Job. 14:14, 15) Jehóva ber sömu tilfinningar til allra tilbiðjenda sinna sem eru dánir. Hann er spenntur að vekja þá aftur til lífs, hrausta og ánægða. Hvað með þá milljarða manna sem hafa dáið án þess að fá tækifæri til að læra sannleikann um Jehóva? Kærleiksríkur Guð okkar vill líka vekja þá til lífs á ný. (Post. 24:15) Hann vill gefa þeim tækifæri til að eignast vináttu við sig og lifa að eilífu á jörðinni. – Jóh. 3:16. w23.04 9 gr. 5, 6

Miðvikudagur 5. nóvember

„Guð veitir okkur kraft.“ – Sálm. 108:13.

Hvernig geturðu styrkt von þína? Ef það er von þín að lifa að eilífu á jörðinni geturðu lesið lýsingu Biblíunnar á paradís og hugleitt hana. (Jes. 25:8; 32:16–18) Ímyndaðu þér hvernig lífið verður í nýjum heimi. Sjáðu sjálfan þig fyrir þér þar. Ef við tökum okkur tíma reglulega til að ímynda okkur lífið í nýja heiminum standa erfiðleikar okkar „stutt og eru léttbærir“. (2. Kor. 4:17) Vonin sem Jehóva hefur gefið þér getur veitt þér styrk til að halda út í erfiðleikum. Hann hefur þegar séð til þess að þú hafir það sem þú þarft til að fá styrk frá honum. Þegar þú þarft hjálp til að vinna verkefni, halda út í prófraun eða viðhalda gleðinni skaltu leita til Jehóva í einlægri bæn og leita leiðsagnar hans með því að rannsaka orð hans. Þiggðu uppörvun bræðra þinna og systra. Taktu þér reglulega tíma til að hugsa um framtíðarvon þína. Þá mun ‚dýrlegur kraftur Guðs gefa þér þann styrk sem þú þarft til að halda út í öllu með þolinmæði og gleði‘. – Kól. 1:11. w23.10 17 gr. 19, 20

Fimmtudagur 6. nóvember

„Þakkið Guði fyrir alla hluti.“ – 1. Þess. 5:18.

Við höfum margar ástæður til að þakka Jehóva í bæn. Við getum þakkað honum allt það góða sem við höfum. Þegar allt kemur til alls kemur sérhver góð og fullkomin gjöf frá honum. (Jak. 1:17) Við getum til dæmis þakkað honum fegurð jarðarinnar og stórkostlegt sköpunarverk hans. Við getum líka sagt honum hversu þakklát við erum fyrir lífið, fjölskyldu okkar og vini, og von okkar. Og við viljum þakka Jehóva fyrir að leyfa okkur að eiga dýrmætt vináttusamband við sig. Við gætum þurft að leggja okkur sérstaklega fram um að koma auga á það sem við getum verið Jehóva þakklát fyrir. Við búum í vanþakklátum heimi. Fólk hugsar gjarnan um það sem það langar í frekar en hvernig það getur sýnt þakklæti fyrir það sem það hefur. Ef við smitumst af þessu viðhorfi gætu bænir okkar orðið eins og óskalisti. Til að koma í veg fyrir það verðum við að halda áfram að rækta með okkur og tjá þakklæti fyrir allt sem Jehóva gerir fyrir okkur. – Lúk. 6:45. w23.05 4 gr. 8, 9

Föstudagur 7. nóvember

Biðjið í trú án þess að efast. – Jak. 1:6.

Jehóva er elskuríkur faðir og vill ekki að við þjáumst. (Jes. 63:9) Hann verndar okkur samt ekki fyrir öllum erfiðleikum sem má líkja við ár eða eld. (Jes. 43:2) En hann lofar að hjálpa okkur að ‚ganga gegnum‘ erfiðleikana. Og hann leyfir ekki að þeir skaði okkur varanlega. Jehóva lofar líka að gefa okkur öflugan heilagan anda sinn svo að við getum haldið út. (Lúk. 11:13; Fil. 4:13) Fyrir vikið getum við verið viss um að við höfum alltaf það sem við þurfum til að standast og vera honum trúföst. Jehóva væntir þess að við treystum á hann. (Hebr. 11:6) Stundum virðast erfileikarnir óyfirstíganlegir. Við förum ef til vill að efast um að Jehóva muni hjálpa okkur. En Biblían fullvissar okkur um að í mætti Guðs getum við „klifið múra“. (Sálm. 18:29) Í stað þess að láta efa skjóta rótum í hjarta okkar ættum við að biðja til Jehóva í fullu trausti þess að hann svari bænum okkar. – Jak. 1:6, 7. w23.11 22 gr. 8, 9

Laugardagur 8. nóvember

Logar ástarinnar eru brennandi bál, logi Jah. Fossandi vatn fær ekki slökkt ástina né fljót skolað henni burt. – Ljóðalj. 8:6, 7.

Þetta er falleg lýsing á sannri ást og uppörvandi að vita fyrir þá sem eru í hjónabandi. Þið getið borið óbrigðula ást hvort til annars. Það krefst viðleitni af hálfu hjóna að elska hvort annað eins lengi og þau lifa. Tökum dæmi. Varðeldur getur brunnið endalaust, en aðeins þegar eldivið er stöðugt bætt á hann. Annars slokknar hann á endanum. Á svipaðan hátt getur ástin milli hjóna verið varanleg og sterk, en bara ef þau rækta sambandið. Stundum gæti hjónum fundist ástin dofna, sérstaklega ef þau eru undir álagi vegna fjárhagserfiðleika, heilsuvandamála eða barnauppeldis. Til að halda ‚loga Jah‘ lifandi þurfa því bæði eiginmaður og eiginkona að vinna að því að eiga náið samband við Jehóva. w23.05 20 gr. 1–3

Sunnudagur 9. nóvember

„Vertu ekki hræddur.“ – Dan. 10:19.

Hvað þurfum við að gera til að verða hugrökk? Foreldrar okkar hvetja okkur kannski til að vera hugrökk en við erfum ekki hugrekki eins og einhvern erfðagrip. Að öðlast hugrekki er eins og að læra eitthvað nýtt. Ein leið til að læra er að fylgjast vandlega með því sem leiðbeinandinn gerir og gera síðan eins og hann. Við getum líka lært að vera hugrökk með því að fylgjast með öðrum sem sýna þennan eiginleika og fylgja fordæmi þeirra. Eins og Daníel verðum við að þekkja orð Guðs vel. Við þurfum að byggja upp náið samband við Jehóva með því að tala oft og frjálslega við hann. Og við verðum að treysta Jehóva og vera sannfærð um að hann styðji okkur. Þá verðum við hugrökk þegar reynir á trú okkar. Hugrakkt fólk ávinnur sér oft virðingu annarra. Það getur líka laðað einlægt fólk að Jehóva. Við höfum sannarlega ástæðu til að þroska með okkur hugrekki. w23.08 2 gr. 2; 4 gr. 8, 9

Mánudagur 10. nóvember

„Sannreynið allt.“ – 1. Þess. 5:21.

Gríska orðið sem er þýtt „sannreynið“ var notað í tengslum við að prófa dýrmæta málma. Við þurfum því að meta hvort það sem við heyrum og lesum sé ekta, eða rétt. Þetta verður jafnvel enn mikilvægara fyrir okkur eftir því sem þrengingin mikla nálgast. Í stað þess að trúa öllu sem aðrir segja beitum við dómgreind til að bera það sem við lesum og heyrum saman við það sem Biblían og söfnuður Jehóva segja. Þannig látum við ekki blekkjast af áróðri illra anda. (Orðskv. 14:15; 1. Tím. 4:1) Sem hópur munu þjónar Jehóva komast í gegnum þrenginguna miklu. Sem einstaklingar vitum við ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. (Jak. 4:14) En hvort sem við lifum í gegnum þrenginguna miklu eða deyjum áður verður okkur umbunað með eilífu lífi ef við höldum áfram að vera trúföst. Við skulum öll horfa til dásamlegrar framtíðar okkar og vera viðbúin degi Jehóva! w23.06 13 gr. 15, 16

Þriðjudagur 11. nóvember

Hann hefur opinberað þjónum sínum áform sín. – Amos 3:7.

Við vitum ekki hvernig sumir spádómar Biblíunnar uppfyllast. (Dan. 12:8, 9) En þótt við skiljum ekki fyllilega hvernig spádómur á eftir að rætast þýðir það samt ekki að hann geri það ekki. Við getum verið viss um að Jehóva hjálpar okkur að skilja á nákvæmlega réttum tíma það sem er nauðsynlegt að skilja, rétt eins og hann gerði áður fyrr. Yfirlýsing um ‚frið og öryggi‘ á eftir að koma. (1. Þess. 5:3) Þá munu stjórnmálaöfl heimsins snúast gegn fölskum trúarbrögðum og eyða þeim. (Opinb. 17:16, 17) Eftir það ráðast þau á þjóna Guðs. (Esek. 38:18, 19) Stríðið við Harmagedón skellur á í kjölfar þessara atburða. (Opinb. 16:14, 16) Við getum verið viss um að þess er ekki langt að bíða. Þangað til skulum við halda áfram að sýna kærleiksríkum föður okkar á himnum þakklæti með því að gefa biblíuspádómunum gaum og hjálpa öðrum að gera það líka. w23.08 13 gr. 19, 20

Miðvikudagur 12. nóvember

„Höldum áfram að elska hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði.“ – 1. Jóh. 4:7.

Þegar Páll postuli fjallaði um trú, von og kærleika sagði hann: „Kærleikurinn er þeirra mestur.“ (1. Kor. 13:13) Hvers vegna sagði hann það? Í framtíðinni þurfum við ekki lengur að hafa trú á loforðum Guðs um nýjan heim eða von um að loforð hans rætist því að þau verða þá orðin að veruleika. En við munum alltaf þurfa að elska Jehóva og fólk. Kærleikur okkar til þeirra mun halda áfram að vaxa um alla eilífð. Kærleikurinn einkennir okkur líka sem sannkristna menn. Jesús sagði postulum sínum: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Og kærleikurinn stuðlar að einingu meðal okkar. Páll kallaði kærleikann „fullkomið einingarband“. (Kól. 3:14) Jóhannes postuli skrifaði trúsystkinum sínum: „Sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.“ (1. Jóh. 4:21) Við sýnum kærleika okkar til Guðs þegar við sýnum hvert öðru kærleika. w23.11 8 gr. 1, 3

Fimmtudagur 13. nóvember

Losum okkur við allar byrðar. – Hebr. 12:1.

Í Biblíunni er lífi þjóna Jehóva líkt við kapphlaup. Hlaupararnir sem klára hlaupið hljóta eilíft líf. (2. Tím. 4:7, 8) Við þurfum að leggja allt kapp á að halda áfram að hlaupa, sérstaklega þar sem við erum svo nálægt endamarkinu. Páll postuli benti á hvað getur hjálpað okkur að sigra í hlaupinu. Hann sagði okkur að ‚losa okkur við allar byrðar og hlaupa þolgóð í hlaupinu sem við eigum fram undan‘. Átti Páll við að þjónar Guðs ættu ekki að bera neinar byrðar? Nei, hann átti ekki við það. Hann var að tala um að við þyrftum að losa okkur við allar óþarfa byrðar. Slíkar byrðar gætu hægt á okkur eða þreytt okkur. Til að halda út þurfum við að átta okkur fljótt á því hvort við séum með óþarfa byrðar sem hægja á okkur. En við viljum samt ekki kasta af okkur byrði sem við ættum að bera. Annars gætum við verið dæmd úr leik í hlaupinu. – 2. Tím. 2:5. w23.08 26 gr. 1, 2

Föstudagur 14. nóvember

„Leggið ekki áherslu á ytra skart.“ – 1. Pét. 3:3.

Sanngirni hjálpar okkur að virða skoðanir annarra. Sumar systur okkar nota til dæmis andlitsfarða en aðrar kjósa að gera það ekki. Sumir þjónar Jehóva njóta þess að drekka vín í hófi en aðrir hafa ákveðið að halda sig alveg frá því. Allir þjónar Guðs vilja hafa góða heilsu en kjósa mismunandi aðferðir til þess. Ef við teldum skoðanir okkar alltaf réttar og reyndum að sannfæra bræður og systur um að gera eins og við, gætum við orðið öðrum til hrösunar og valdið sundrung. (1. Kor. 8:9; 10:23, 24) Jehóva setur til dæmis ekki strangar reglur um klæðaburð heldur hefur hann gefið okkur meginreglur til að fara eftir. Við eigum að klæða okkur á þann hátt sem er viðeigandi fyrir þjóna Guðs, „með hógværð og skynsemi“. (1. Tím. 2:9, 10) Við viljum þess vegna ekki draga óviðeigandi athygli að okkur sjálfum með klæðaburði okkar. Meginreglur Biblíunnar hjálpa líka öldungum að forðast að setja eigin reglur um klæðaval og útlit. w23.07 23–24 gr. 13, 14

Laugardagur 15. nóvember

„Hlustið vel á mig, þá fáið þið góðan mat og gæðið ykkur á úrvalsréttum.“ – Jes. 55:2.

Jehóva sýnir okkur hvernig við getum öðlast hamingjuríka framtíð. Þeir sem þiggja boð háværu og ‚heimsku konunnar‘ reyna að finna ánægju í kynferðislegu siðleysi. Framtíð þeirra er í „djúpum grafarinnar“. (Orðskv. 9:13, 17, 18) Allt annað er uppi á teningnum fyrir þá sem þiggja boð sannrar visku. (Orðskv. 9:1) Við lærum að elska það sem Jehóva elskar og hata það sem hann hatar. (Sálm. 97:10) Og okkur finnst ánægjulegt að geta boðið öðrum að njóta góðs af sannri visku. Það er rétt eins og við ‚hrópum af hæðunum í borginni: „Komið inn til mín, allir þið sem eruð óreyndir.“‘ Við og aðrir sem þiggja boðið höfum ekki aðeins gagn af því hér og nú. Gagnið er varanlegt, við getum öll fengið að ‚ganga á vegi skynseminnar‘ að eilífu. – Orðskv. 9:3, 4, 6. w23.06 24 gr. 17, 18

Sunnudagur 16. nóvember

„Sá sem er seinn til reiði er betri en stríðshetja og sá sem hefur stjórn á skapinu er meiri en sá sem vinnur borgir.“ – Orðskv. 16:32.

Hvernig líður þér þegar vinnufélagi eða skólafélagi spyr þig um trú þína? Finnst þér það stressandi? Það finnst flestum okkar. En slíkar spurningar geta hjálpað okkur að skilja hvernig hann hugsar og auðveldað okkur að segja honum frá fagnaðarboðskapnum. En stundum spyr fólk á ögrandi hátt. Það er oft vegna þess að það hefur fengið rangar upplýsingar um trú okkar. (Post. 28:22) Og við lifum á „síðustu dögum“ þegar margir eru „ósáttfúsir“ og jafnvel „grimmir“. (2. Tím. 3:1, 3) Þú veltir kannski fyrir þér hvernig þú getur verið þægilegur og vingjarnlegur þegar einhver vill deila við þig um trú þína. Mildi getur hjálpað þér. Sá sem er mildur kemst ekki auðveldlega í uppnám en er fær um að hafa stjórn á sjálfum sér þegar honum er ögrað eða hann er óviss um hvernig hann á að svara. w23.09 14 gr. 1, 2

Mánudagur 17. nóvember

„Þú gerir þá að höfðingjum um alla jörð.“ – Sálm. 45:16.

Stundum fáum við leiðbeiningar sem vara okkur við efnishyggju og öðru sem gæti orðið til þess að við brytum lög Guðs. Það er okkur líka til góðs á þessum sviðum að fylgja leiðsögn Jehóva. (Jes. 48:17, 18; 1. Tím. 6:9, 10) Jehóva heldur vafalaust áfram að veita okkur leiðsögn fyrir tilstilli manna í þrengingunni miklu og áfram í þúsundáraríkinu. Munum við halda áfram að fylgja leiðbeiningunum? Það verður auðveldara að gera það þá ef við fylgjum leiðsögn Jehóva núna. Við skulum því alltaf fylgja leiðsögn hans, líka þeim leiðbeiningum sem hann veitir fyrir milligöngu manna sem eru útnefndir til að gæta okkar. (Jes. 32:1, 2; Hebr. 13:17) Og þegar við gerum það getum við algerlega treyst leiðsögumanni okkar, Jehóva, sem forðar okkur frá andlegri hættu alla leið á ákvörðunarstaðinn – eilíft líf í nýjum heimi. w24.02 25 gr. 17, 18

Þriðjudagur 18. nóvember

„Einstök góðvild hans hefur bjargað ykkur.“ – Ef. 2:5.

Páll postuli var ánægður í þjónustu Jehóva en hún var samt ekki alltaf auðveld. Hann ferðaðist langar leiðir og ferðalög voru ekki auðveld í þá daga. Hann var stundum á ferðalögum sínum „í hættu í ám“ og „í hættu af völdum ræningja“. Andstæðingar hans beittu hann stundum líkamlegu ofbeldi. (2. Kor. 11:23–27) Og aðrir bræður voru ekki alltaf þakklátir fyrir það sem Páll lagði á sig til að hjálpa þeim. (2. Kor. 10:10; Fil. 4:15) Hvað hjálpaði Páli að halda áfram í þjónustu Jehóva? Hann kynntist mörgu varðandi persónuleika hans bæði úr Biblíunni og af eigin reynslu. Hann sannfærðist um að Jehóva elskaði hann. (Rómv. 8:38, 39; Ef. 2:4, 5) Og hann fór að elska Jehóva innilega. Páll sýndi kærleika sinn til Jehóva með því að „þjóna hinum heilögu“. – Hebr. 6:10. w23.07 9 gr. 5, 6

Miðvikudagur 19. nóvember

Verið undirgefnir yfirvöldum. – Rómv. 13:1.

Margir eru sammála því að yfirvöld séu nauðsynleg og að við ættum að minnsta kosti að hlýða sumum af þeim lögum sem þau setja. En þá langar kannski ekki að hlýða lögum sem þeim líkar ekki eða finnst ósanngjörn. Í Biblíunni er bent á að stjórnir manna valdi þjáningum, þær séu undir stjórn Satans og að þeim verði brátt eytt. (Sálm. 110:5, 6; Préd. 8:9; Lúk. 4:5, 6) Hún segir einnig að sá sem ‚setur sig upp á móti yfirvöldum standi gegn fyrirkomulagi Guðs‘. Afstæð hlýðni okkar við yfirvöld er hlýðni við tímabundna ráðstöfun Jehóva sem stuðlar að röð og reglu. Þess vegna verðum við að gefa „öllum það sem þeir eiga rétt á“, þar á meðal skatta, virðingu og hlýðni. (Rómv. 13:1–7) Okkur gæti fundist lög óhentug, óréttlát eða íþyngjandi. En við hlýðum Jehóva og hann segir okkur að hlýða þessum yfirvöldum svo framarlega sem þau segja okkur ekki að brjóta lög hans. – Post. 5:29. w23.10 8 gr. 9, 10

Fimmtudagur 20. nóvember

„Andi Jehóva gaf honum kraft.“ – Dóm. 15:14.

Þegar Samson fæddist ríktu Filistear yfir Ísraelsþjóðinni og kúguðu hana. (Dóm. 13:1) Grimmileg yfirráð þeirra ollu Ísraelsmönnum miklum þjáningum. Jehóva fól Samson að „frelsa Ísrael úr höndum Filistea“. (Dóm. 13:5) Samson myndi þurfa að treysta á Jehóva til að leysa þetta erfiða verkefni. Einu sinni hafði herlið Filistea komið til að taka Samson til fanga í Lekí, líklega í Júda. Júdamenn voru hræddir og ákváðu að gefa Samson í hendur óvinarins. Hans eigið fólk batt hann vandlega með tveim nýjum reipum og framseldi hann Filisteum. (Dóm. 15:9–13) „En andi Jehóva gaf honum kraft“ og hann losaði sig úr reipunum. „Hann fann nýtt kjálkabein úr asna“, greip það og drap með því 1.000 menn Filistea. – Dóm. 15:14–16. w23.09 2–3 gr. 3, 4

Föstudagur 21. nóvember

„Þetta er í samræmi við eilífa fyrirætlun Guðs sem tengist Kristi Jesú Drottni okkar.“ – Ef. 3:11.

Jehóva hefur smátt og smátt leitt í ljós „eilífa fyrirætlun“ sína í Biblíunni. Jehóva getur notað mismunandi aðferðir til að koma fyrirætlun sinni til leiðar því að hann „lætur allt þjóna vilja sínum“. (Orðskv. 16:4) Og árangurinn af því sem hann gerir varir að eilífu. Hver er fyrirætlun Jehóva og hvað hefur hann gert til að koma henni til leiðar? Guð sagði Adam og Evu hver fyrirætlun sín væri með mennina. Hann sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina. Leggið hana undir ykkur og ríkið yfir … öllum dýrum“ á jörðinni. (1. Mós. 1:28) Þegar Adam og Eva gerðu uppreisn og ollu því að mannkynið varð syndugt setti það ekki fyrirætlun Jehóva í uppnám. Hann ákvað aðra leið að markinu til að hún næði fram að ganga. Hann ákvað strax að stofnsetja ríki á himnum sem kæmi til leiðar upprunalegri fyrirætlun hans með mannkynið á jörðinni. – Matt. 25:34. w23.10 20 gr. 6, 7

Laugardagur 22. nóvember

„Ef Jehóva hefði ekki hjálpað mér hefði fljótt verið úti um mig.“ – Sálm. 94:17.

Jehóva getur hjálpað okkur að vera þolgóð. Það getur verið erfitt að halda okkar striki, sérstaklega ef við glímum við þrálátan veikleika. Stundum gæti okkur virst veikleikar okkar erfiðari en þeir sem Pétur postuli átti í baráttu við. En Jehóva getur gefið okkur styrk til að gefast ekki upp. (Sálm. 94:18–19) Bróðir einn stundaði líferni samkynhneigðra í mörg ár áður en hann kynntist sannleikanum. Hann breytti algerlega um lífsstíl í samræmi við mælikvarða Biblíunnar. En stundum glímdi hann við rangar langanir. Hvað hjálpaði honum að gefast ekki upp? Hann segir: „Jehóva gefur okkur styrk. Með hjálp hans … hef ég lært að það er hægt að halda áfram á vegi sannleikans … Ég hef getað komið að gagni í þjónustu Jehóva og þrátt fyrir ófullkomleika minn heldur hann áfram að gefa mér styrk.“ w23.09 23 gr. 12

Sunnudagur 23. nóvember

„Auðmýkt og ótti við Jehóva leiðir af sér auð, heiður og líf.“ – Orðskv. 22:4.

Ungu bræður, þið verðið ekki sjálfkrafa þroskaðir kristnir karlmenn. Þið þurfið að velja góðar fyrirmyndir til að líkja eftir, þroska með ykkur skarpskyggni, vera áreiðanlegir, tileinka ykkur hagnýta færni og búa ykkur undir verkefni í framtíðinni. Ykkur gæti stundum fundist yfirþyrmandi að hugsa um allt sem þið þurfið að vinna að. En það er á ykkar færi. Gleymið ekki að Jehóva er fús til að hjálpa ykkur. (Jes. 41:10, 13) Bræður ykkar og systur í söfnuðinum hjálpa ykkur að sjálfsögðu líka. Þegar þið verðið þess konar karlmenn sem Jehóva vill að þið séuð verður líf ykkar innihaldsríkt og ánægjulegt. Við elskum ykkur, ungu bræður! Megi Jehóva blessa ríkulega viðleitni ykkar til að verða þroskaðir kristnir karlmenn. w23.12 29 gr. 19, 20

Mánudagur 24. nóvember

Leiðið hjá ykkur mistök. – Orðskv. 19:11.

Ímyndaðu þér að þú eigir góða stund með nokkrum bræðrum og systrum. Allir skemmta sér vel og þú tekur hópmynd. Þú tekur tvær myndir aukalega ef sú fyrsta skyldi ekki heppnast vel. Þú ert því með þrjár myndir. En þú tekur eftir því að á einni þeirra grettir einn bróðir sig. Þú eyðir henni vegna þess að þú átt tvær aðrar þar sem allir eru brosandi, líka þessi bróðir. Við eigum gjarnan góðar minningar frá þeim tíma sem við vorum með bræðrum okkar og systrum. En segjum að bróðir eða systir hafi við eitt tækifæri sagt eða gert eitthvað sem var óvingjarnlegt. Hvað ættum við að gera? Hvers vegna ekki að reyna að eyða þessari minningu eins og við myndum eyða einni af myndunum? (Ef. 4:32) Við getum það vegna þess að við eigum svo margar góðar minningar með honum eða henni. Við viljum geyma góðu minningarnar og meta þær mikils. w23.11 12–13 gr. 16, 17

Þriðjudagur 25. nóvember

Konurnar eiga að prýða sig viðeigandi klæðnaði eins og sæmir konum sem segjast elska Guð. – 1. Tím. 2:9, 10.

Grísku orðin sem eru þýdd þannig gefa til kynna að klæðnaður kristinnar konu ætti að vera virðulegur og endurspegla tillitssemi við tilfinningar og skoðanir annarra. Við erum stolt af þroskuðum systrum fyrir að sýna hógværð í klæðaburði. Dómgreind er annar eiginleiki sem systur þurfa að tileinka sér til að ná þroska í trúnni. Hvað er dómgreind? Það er hæfileikinn til að greina rétt frá röngu og velja það sem er skynsamlegt. Tökum Abígail sem dæmi. Eiginmaður hennar tók slæma ákvörðun sem hefði getað haft hræðilegar afleiðingar fyrir allt heimilisfólk hans. Abígail brást við þegar í stað. Góð dómgreind hennar bjargaði mannslífum. (1. Sam. 25:14–23, 32–35) Dómgreind hjálpar okkur líka að vita hvenær við ættum að tala og hvenær að þegja. Og hún hjálpar okkur að sýna öðrum áhuga án þess að þeim finnist það vandræðalegt. – 1. Þess. 4:11. w23.12 20 gr. 8, 9

Miðvikudagur 26. nóvember

Gleðjumst yfir voninni um að hljóta dýrð Guðs. – Rómv. 5:2.

Páll postuli skrifaði þetta til safnaðarins í Róm. Bræður og systur þar höfðu lært um Jehóva og Jesú, höfðu iðkað trú og gerst kristin. Guð ‚lýsti þau réttlát vegna trúar‘ og smurði þau heilögum anda. (Rómv. 5:1) Þau eignuðust dásamlega og trausta von. Páll skrifaði síðar til andasmurðra þjóna Guðs í Efesus um vonina sem Guð hafði gefið þeim. Hún fól meðal annars í sér ‚arf til hinna heilögu‘. (Ef. 1:18) Páll tók líka fram hvar von Kólossumanna yrði að veruleika. Hann sagði að hún ‚biði þeirra á himnum‘. (Kól. 1:4, 5) Von andasmurðra þjóna Guðs er því sú að þeir verði reistir upp til eilífs lífs á himni þar sem þeir munu ríkja með Kristi. – 1. Þess. 4:13–17; Opinb. 20:6. w23.12 9 gr. 4, 5

Fimmtudagur 27. nóvember

„Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun þá vernda hjörtu ykkar og huga.“ – Fil. 4:7.

Frummálsorðið sem hér er þýtt „vernda“ var hernaðarlegt hugtak. Það var notað um hermenn sem gættu borgar og komu í veg fyrir að ráðist yrði á hana. Íbúar borgar sem var vel varin gátu sofið rótt, vitandi að hermenn gættu þeirra. Þegar friður Guðs verndar hjarta okkar og huga höfum við hugarró, vitandi að við erum örugg. (Sálm. 4:8) Eins og Hanna getum við fundið vissa ró þótt staða okkar breytist ekki strax. (1. Sam. 1:16–18) Og þegar við höfum hugarró er oft auðveldara að hugsa skýrt og taka skynsamlegar ákvarðanir. Hvað getum við gert? Þegar eitthvað þjakar okkur getum við beðið Jehóva að vernda okkur, rétt eins og íbúar borgar kölluðu eftir vernd. Hvernig? Haltu áfram að biðja þangað til þú finnur frið Guðs. (Lúk. 11:9; 1. Þess. 5:17) Ef þú ert að takast á við yfirþyrmandi erfiðleika skaltu halda áfram að biðja og þá færðu að finna hvernig friður Guðs verndar hjarta þitt og huga. – Rómv. 12:12. w24.01 21 gr. 5, 6

Föstudagur 28. nóvember

„Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“ – Matt. 6:9.

Jesús þoldi hvað sem að höndum bar til að helga nafn föður síns, hvort sem það voru pyntingar, háð eða lygar. Hann vissi að hann hafði hlýtt föður sínum í öllu og þurfti ekki að skammast sín fyrir neitt. (Hebr. 12:2) Honum var líka ljóst að hann þurfti að þola beinar árásir Satans á þessari myrku stund. (Lúk. 22:2–4; 23:33, 34) Satan vonaðist örugglega til að brjóta ráðvendni Jesú á bak aftur en honum mistókst hrapallega. Jesús sannaði svo ekki verður um villst að Satan er grimmur lygari og að Jehóva á sér trúfasta þjóna sem eru ráðvandir í erfiðustu prófraunum. Vilt þú gleðja konung þinn sem ríkir á himnum? Haltu þá áfram að lofa nafn Jehóva með því að hjálpa öðrum að kynnast honum eins og hann í sannleika er. Þannig fetarðu í fótspor Jesú. (1. Pét. 2:21) Eins og Jesús gleður þú líka Jehóva og sannar að andstæðingur hans, Satan, er blygðunarlaus lygari. w24.02 11–12 gr. 11–13

Laugardagur 29. nóvember

„Hvernig á ég að endurgjalda Jehóva allt það góða sem hann hefur gert fyrir mig?“ – Sálm. 116:12.

Síðastliðin fimm ár hefur meira en milljón manns látið skírast sem vottar Jehóva. Þegar þú vígir líf þitt Jehóva velurðu að verða lærisveinn Jesú Krists og gera vilja Guðs að því mikilvægasta í lífi þínu. Hvað felur það í sér? Jesús sagði: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér.“ (Matt. 16:24) Gríska orðasambandið sem er þýtt „afneita sjálfum sér“ getur líka þýtt „hann verður að segja nei við sjálfan sig“. Sem vígður þjónn Jehóva þarftu að segja nei við öllu sem stangast á við vilja hans. (2. Kor. 5:14, 15) Það felur meðal annars í sér að segja nei við ‚verkum holdsins‘ eins og kynferðislegu siðleysi. (Gal. 5:19–21; 1. Kor. 6:18) Eru slíkar hömlur erfiðar? Ekki ef þú elskar Jehóva og ert viss um að lög hans séu þér fyrir bestu. – Sálm. 119:97; Jes. 48:17, 18. w24.03 2 gr. 1; 3 gr. 4

Sunnudagur 30. nóvember

„Ég hef velþóknun á þér.“ – Lúk. 3:22.

Jehóva gefur þeim heilagan anda sem hann hefur velþóknun á. (Matt. 12:18) Við getum spurt okkur: „Hef ég sýnt einhverja eiginleika sem heilagur andi hefur hjálpað mér að rækta?“ Ertu til dæmis þolinmóðari við aðra nú en þegar þú kynntist Jehóva? Því betur sem þú sýnir ávöxt anda Guðs þeim mun augljósara verður að þú hafir velþóknun hans. Jehóva lætur þá sem hann hefur velþóknun á njóta góðs af lausnargjaldinu. (1. Tím. 2:5, 6) En hvað ef hjarta okkar samþykkir ekki að Jehóva hafi velþóknun á okkur, jafnvel þótt við trúum á lausnarfórnina og séum skírð? Gleymum ekki að við getum ekki treyst tilfinningum okkar fullkomlega en við getum treyst Jehóva. Hann álítur þá sem trúa á lausnarfórnina réttláta og lofar að blessa þá. – Sálm. 5:12; Rómv. 3:26. w24.03 30 gr. 15; 31 gr. 17

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila