Sunnudagur 27. júlí
Hann á að geta bæði uppörvað og áminnt. – Tít. 1:9.
Þú þarft að afla þér hagnýtrar færni til að verða þroskaður kristinn karlmaður. Hún gerir þér kleift að axla ábyrgð í söfnuðinum, finna og halda vinnu til að sjá fyrir þér og fjölskyldu og að hafa gott samband við aðra. Lærðu til dæmis að lesa og skrifa. Biblían segir að hamingjusamur og farsæll maður lesi og hugleiði orð Guðs daglega. (Sálm. 1:1–3) Þegar hann gerir það kynnist hann því hvernig Jehóva hugsar og það hjálpar honum að hugsa skýrt og heimfæra meginreglur Biblíunnar. (Orðskv. 1:3, 4) Bræður okkar og systur þurfa á hjálp þeirra að halda sem geta gefið leiðbeiningar og ráð byggð á Biblíunni. Ef þú ert vel læs og skrifandi geturðu tekið að þér að flytja ræður og svarað spurningum sem styrkja trú annarra. Þú getur líka skrifað gagnlega minnispunkta. Þannig geturðu byggt upp trú þína og veitt öðrum hvatningu. w23.12 26–27 gr. 9–11
Mánudagur 28. júlí
„Sá sem er sameinaður ykkur er meiri en sá sem er sameinaður heiminum.“ – 1. Jóh. 4:4.
Þegar þú verður óttasleginn skaltu hugleiða það sem Jehóva mun gera í framtíðinni þegar Satan er horfinn. Á umdæmismótinu 2014 var sýnidæmi þar sem faðir ræddi við fjölskylduna sína um það hvernig 2. Tímóteusarbréf 3:1–5 gæti verið orðað ef það lýsti því hvernig ástandið verður í paradís: „Í nýja heiminum verða miklir gleðitímar. Menn verða kærleiksríkir og elska sannleikann. Þeir verða hógværir, auðmjúkir, tilbiðjendur Guðs, hlýðnir foreldrum sínum, þakklátir, trúir og elska fjölskyldur sínar innilega. Þeir verða sáttfúsir, tala alltaf vel um aðra, hafa sjálfstjórn, elska hið góða, verða mildir og traustir, sveigjanlegir og lítillátir, elska Guð meira en nautnir og láta trúna hafa áhrif á líf sitt. Haltu þig nálægt slíku fólki.“ Spjallar þú við fjölskylduna og trúsystkini þín um hvernig lífið verður í nýja heiminum? w24.01 6 gr. 13, 14
Þriðjudagur 29. júlí
„Ég hef velþóknun á þér.“ – Lúk. 3:22.
Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva hefur velþóknun á fólki sínu sem hópi. Biblían segir: „Jehóva hefur yndi af fólki sínu.“ (Sálm. 149:4) En sumir efast stundum um að Jehóva hafi velþóknun á þeim sem einstaklingum. Margir af þjónum Jehóva sem minnst er á í Biblíunni glímdu við slíkar tilfinningar. (1. Sam. 1:6–10; Job. 29:2, 4; Sálm. 51:11) Biblían sýnir skýrt að ófullkomnir menn geti öðlast velþóknun Jehóva. Hvernig? Með því að trúa á Jesú og láta skírast. (Jóh. 3:16) Þannig sýnum við opinberlega að við höfum iðrast synda okkar og lofað Guði að gera vilja hans. (Post. 2:38; 3:19) Jehóva gleðst þegar við stígum þessi skref til að eignast nána vináttu við hann. Hann hefur velþóknun á okkur og lítur á okkur sem nána vini sína svo framarlega sem við gerum okkar besta til að lifa í samræmi við vígsluheit okkar. – Sálm. 25:14 w24.03 26 gr. 1, 2