Jeremía
34 Orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva þegar Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur herjaði á Jerúsalem og allar borgirnar í kring ásamt öllum her sínum, öllum ríkjum jarðar undir hans stjórn og öllum þjóðum:+
2 „Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Farðu og talaðu við Sedekía+ Júdakonung og segðu við hann: „Jehóva segir: ‚Ég gef þessa borg í hendur Babýlonarkonungs og hann mun brenna hana til grunna.+ 3 Þú munt ekki ganga honum úr greipum. Þú verður handsamaður og framseldur í hendur hans.+ Þú munt horfast í augu við Babýlonarkonung og hann mun tala við þig augliti til auglitis, og þú verður fluttur til Babýlonar.‘+ 4 En heyrðu orð Jehóva, Sedekía Júdakonungur: ‚Jehóva segir um þig: „Þú fellur ekki fyrir sverði. 5 Þú munt deyja í friði+ og reykelsi verður brennt þér til heiðurs eins og gert var fyrir feður þína, konungana sem voru á undan þér, og menn munu syrgja þig og segja: ‚Æ, herra!‘ því að ‚ég hef talað‘, segir Jehóva.“‘“‘“
6 Jeremía spámaður flutti Sedekía Júdakonungi öll þessi orð í Jerúsalem 7 þegar hersveitir Babýlonarkonungs herjuðu á Jerúsalem og borgir Júda sem enn voru eftir,+ Lakís+ og Aseka.+ Það voru einu víggirtu borgirnar sem voru eftir í Júda.
8 Orð kom frá Jehóva til Jeremía eftir að Sedekía konungur hafði gert sáttmála við alla íbúa Jerúsalem um að boða þrælum frelsi.+ 9 Allir áttu að láta hebreska þræla sína lausa, bæði karla og konur. Enginn Gyðingur mátti hafa landa sinn sem þræl. 10 Allir höfðingjarnir og íbúarnir hlýddu. Þeir gengust undir sáttmálann um að hver og einn skyldi gefa þrælum sínum og ambáttum frelsi og ekki halda þeim lengur í þrældómi. Þeir hlýddu og létu þau laus. 11 En seinna sóttu þeir þrælana og ambáttirnar sem þeir höfðu gefið frelsi og hnepptu þau aftur í þrældóm. 12 Þá kom orð Jehóva til Jeremía. Jehóva sagði við hann:
13 „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels: ‚Ég gerði sáttmála við forfeður ykkar+ daginn sem ég leiddi þá út úr Egyptalandi, úr þrælahúsinu.+ Ég sagði: 14 „Að sjö árum liðnum á hver og einn ykkar að láta lausan hebreskan bróður sinn sem seldi sig ykkur og hefur þjónað ykkur í sex ár. Þið skuluð gefa honum frelsi.“+ En forfeður ykkar lokuðu eyrunum og hlustuðu ekki á mig. 15 Nýlega* breyttuð þið um stefnu og gerðuð það sem var rétt í augum mínum með því að boða löndum ykkar frelsi. Þið gerðuð sáttmála frammi fyrir mér í húsinu sem er kennt við nafn mitt. 16 En síðan snerist ykkur hugur og þið köstuðuð rýrð á nafn mitt+ með því að sækja aftur þræla ykkar og ambáttir sem þið höfðuð gefið frelsi svo að þau gætu farið frjáls ferða sinna. Þið hnepptuð þau aftur í þrældóm.‘
17 Þess vegna segir Jehóva: ‚Þið hafið ekki hlýtt mér. Enginn ykkar hefur boðað bróður sínum og landa frelsi.+ Ég ætla því að boða ykkur frelsi,‘ segir Jehóva, ‚svo að þið fallið fyrir sverði, drepsótt* og hungursneyð.+ Ég læt öll ríki jarðar hrylla við ykkur.+ 18 Svona fer fyrir þeim sem rufu sáttmála minn og héldu ekki orð sáttmálans sem þeir gerðu frammi fyrir mér þegar þeir skáru kálfinn í tvennt og gengu á milli helminganna,+ 19 já, svona fer fyrir höfðingjum Júda, höfðingjum Jerúsalem, hirðmönnunum, prestunum og öllum íbúum í landinu sem gengu á milli kálfshelminganna: 20 Ég framsel þá óvinum þeirra og þeim sem vilja drepa þá. Lík þeirra verða æti handa fuglum himins og dýrum jarðar.+ 21 Ég gef Sedekía Júdakonung og höfðingja hans í hendur óvinanna og þeirra sem vilja drepa þá og í hendur hersveita Babýlonarkonungs+ sem hörfa nú frá ykkur.‘+
22 ‚Ég gef þeim skipun,‘ segir Jehóva, ‚og læt þá snúa aftur til þessarar borgar. Þeir munu herja á hana, vinna hana og brenna til grunna.+ Og borgirnar í Júda geri ég að mannlausri auðn.‘“+