Námskafli 6
Merkingaráherslur
Í MÆLTU máli og upplestri er ekki nóg að segja einstök orð rétt. Það er ekki síður mikilvægt að leggja áherslu á aðalorð, orðasambönd og setningarliði sem fela í sér meginhugsunina, þannig að hún komist greinilega til skila.
Rétt merkingaráhersla er fólgin í því að leggja áherslu á réttu orðin, ekki aðeins á fáein orð á stangli eða allmörg orð ef því er að skipta. Ef áhersla fellur á röng orð getur merking þess sem þú segir orðið óljós með þeim afleiðingum að áheyrendur láta hugann reika. Sé ekki lögð áhersla á réttu orðin getur svo farið að annars ágætt efni nái ekki að hvetja áheyrendur sem skyldi.
Það eru ýmsar leiðir til að ná fram áherslu og þær eru oft notaðar hver með annarri. Nefna má að hækka róminn, tala af meiri tilfinningu, tala hægt og yfirvegað, gera málhvíld á undan eða eftir (eða hvort tveggja), auk svipbrigða og tilburða. Í sumum tungumálum er hægt að ná fram áherslu með því að lækka róminn eða hækka tóninn. Taka þarf mið af efni og aðstæðum þegar ákveðið er hvaða áhersluaðferð sé heppilegust.
Athugaðu eftirfarandi til að ákvarða hvaða orð, setningar eða setningaliðir eigi að fá áherslu: (1) Áhersla innan setningar ræðst bæði af setningunni í heild og samhenginu. (2) Gera má merkingaráherslu við upphaf nýrrar hugmyndar, hvort heldur um er að ræða aðalatriði eða einfaldlega nýja rökleiðslu, eða þá til að vekja athygli á að ákveðin rökleiðsla sé á enda. (3) Mælandi getur beitt áherslu til að láta í ljós afstöðu sína í ákveðnu máli. (4) Rétt áhersla getur dregið fram aðalatriði í ræðu.
Til að beita áherslu eins og hér er lýst þarf ræðumaður eða upplesari að hafa góðan skilning á efninu og vera áfram um að áheyrendur meðtaki það. Nehemíabók 8:8 segir um fræðslu sem veitt var á dögum Esra: „Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.“ Ljóst er að þeir sem lásu og skýrðu lögmál Guðs við þetta tækifæri gerðu sér grein fyrir því að þeir þurftu að hjálpa áheyrendum að skilja merkingu hins upplesna, tileinka sér það og fara eftir því.
Ýmis vandkvæði. Flestir eiga auðvelt með að tjá sig skilmerkilega í eðlilegum, daglegum samræðum. En þegar þeir lesa upp efni, sem skrifað er af öðrum, vandast málið. Til að glöggva sig á því hvaða orð eða orðasambönd eigi að fá áherslu er nauðsynlegt að skilja efnið, það er að segja að setja sig vel inn í það sem ritað er. Þú ættir því að undirbúa þig vel ef þú ert beðinn að lesa eitthvað upp á safnaðarsamkomu.
Sumir hafa vanið sig á að tala með reglubundinni áherslu innan setningar. Hún kemur með nokkuð föstu millibili, án tillits til þess hvort hún er til skilningsauka eða ekki. Sumir leggja áherslu á smáorð, til dæmis forsetningar og samtengingar. Þess konar áhersla stuðlar ekki að skýrleika en getur hæglega orðið að truflandi kæk.
Einstaka mælandi hækkar róminn svo mjög í áhersluskyni að áheyrendur geta fengið á tilfinninguna að verið sé að skamma þá. Það skilar auðvitað sjaldnast góðum árangri. Ef áhersla innan setningar er óeðlileg getur áheyrendum fundist að verið sé að tala niður til sín. Það er miklum mun betra að mælandi höfði til þeirra með kærleika og sýni þeim fram á að orð sín séu bæði biblíuleg og skynsamleg.
Að bæta sig. Þeir sem hafa ekki gott vald á merkingaráherslum vita sjaldan af því. Einhver annar þarf að benda þeim á það. Umsjónarmaður skólans gefur þér góð ráð ef þú þarft að beita merkingaráherslum betur. Þú getur líka leitað ráða hjá einhverjum öðrum góðum ræðumanni. Biddu hann að hlusta vandlega á hvernig þú lest og talar og benda þér síðan á leiðir til úrbóta.
Í byrjun kann leiðbeinandinn að stinga upp á því að þú notir grein í Varðturninum sem æfingarefni. Trúlega bendir hann þér á að brjóta hverja málsgrein til mergjar til að kanna hvaða orð, orðasambönd eða setningarliði þurfi að leggja áherslu á til að koma merkingunni skýrt til skila. Kannski minnir hann þig á að leggja sérstaka áherslu á skáletruð orð. Hafðu hugfast að orð innan setningar vinna saman. Oft þarf að leggja áherslu á nokkur orð saman en ekki aðeins stök orð. Í sumum tungumálum þarf að gefa gaum að áherslutáknum til að merkingaráherslur verði réttar.
Þessu næst kann leiðbeinandinn að benda þér á að líta ekki aðeins á einstakar málsgreinar heldur sjá textann í víðara samhengi. Hver er meginhugmyndin í allri efnisgreininni? Hvaða áhrif ætti það að hafa á áhersluorðin í einstökum málsgreinum? Líttu á titil greinarinnar og feitletruðu millifyrirsögnina á undan textanum. Hvaða áhrif hefur það á áhersluorðin sem þú velur þér? Allt skiptir þetta máli. En gættu þess að leggja ekki þunga áherslu á of mörg orð.
Vera má að leiðbeinandinn minni þig á að láta rökfærsluna hafa áhrif á áherslurnar, hvort heldur þú talar eftir minnispunktum eða lest upp texta. Þú þarft að vera vakandi fyrir því hvar ákveðinni rökleiðslu lýkur og hvar ein meginhugmynd endar og önnur tekur við. Áheyrendum þykir það gott ef þú vekur athygli þeirra á því með flutningi þínum. Þetta má gera með því að leggja áherslu á orð eins og í fyrsta lagi, því næst, auk þess, að síðustu, þannig, þar af leiðandi og svo framvegis.
Leiðbeinandinn bendir þér einnig á hugmyndir þar sem ástæða gæti verið til að ná fram sérstakri tilfinningu. Þú gætir gert það með því að leggja áherslu á orð eins og afar, mjög, fullkomlega, óhugsandi, mikilvægt, alltaf og önnur slík. Þannig geturðu haft áhrif á afstöðu áheyrenda til þess sem þú segir. Meira verður fjallað um þetta í 11. námskafla sem heitir „Hlýja og tilfinning.“
Þegar þú vinnur að því að bæta merkingaráherslur er einnig gott fyrir þig að hafa skýrt í huga hvaða aðalatriði þú vilt að áheyrendur muni eftir. Fjallað verður nánar um það frá sjónarhóli upplestrar í 7. námskafla, „Áhersla á meginhugmyndir,“ og frá sjónarhóli ræðumennsku og málflutnings í 37. námskafla sem heitir „Aðalatriðin dregin fram.“
Ef þú ert að leitast við að bæta þig í boðunarstarfinu skaltu huga sérstaklega að því hvernig þú lest ritningarstaði. Vendu þig á að spyrja sjálfan þig: ‚Hvers vegna les ég þennan texta?‘ Það er ekki alltaf nóg að kennari segi orðin rétt. Það dugir ekki einu sinni alltaf að lesa textann með tilfinningu. Sértu til dæmis að svara spurningu einhvers eða kenna ákveðin grunnsannindi er gott að leggja áherslu á þau orð eða orðasambönd í ritningarstaðnum sem styðja umræðuefnið. Að öðrum kosti gæti hinn lesni texti misst marks.
Merkingaráhersla er fólgin í því að leggja áherslu á ákveðin orð og setningarliði og óreyndur mælandi gæti átt það til að hafa áhersluna of þunga. Útkoman minnir svolítið á tónana hjá nemanda sem er nýbyrjaður að læra á hljóðfæri. En með æfingunni verða einstakir „tónar“ einfaldlega hluti af fallegri og áhrifamikilli „tónlist.“
Þegar þú ert búinn að tileinka þér helstu grundvallaratriðin hefurðu meira gagn af því að fylgjast með hvernig reyndir mælendur fara að. Þú uppgötvar fljótt hverju hægt er að ná fram með missterkum áherslum, og þú áttar þig á því hvaða þýðingu það hefur að beita ýmiss konar áhersluaðferðum til að skýra merkingu hins talaða orðs. Með því að þjálfa þig í að beita merkingaráherslum skilarðu betur af hendi bæði upplestri og mæltu máli almennt.
Láttu þér ekki nægja að ná tökum á grundvallaratriðunum heldur haltu áfram að æfa þig og þjálfa uns þú hefur náð góðu valdi á því að beita merkingaráherslum og getur gert það þannig að það hljómi eðlilega í eyrum annarra.