Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 34 bls. 202-bls. 205 gr. 4
  • Vertu jákvæður og uppbyggjandi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vertu jákvæður og uppbyggjandi
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Samræðuleikni
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Verum uppbyggjandi
    Ríkisþjónusta okkar – 1995
  • Vertu jákvæður og uppbyggjandi
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
  • Stuðlar þú að uppbyggilegum samkomum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 34 bls. 202-bls. 205 gr. 4

Námskafli 34

Vertu jákvæður og uppbyggjandi

Hvað þarftu að gera?

Vertu ekki langmáll um það sem er neikvætt og letjandi. Vertu heldur uppörvandi og talaðu um hvernig ástandið geti batnað.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Umheimurinn er kærleikslaus og lýjandi. Margir eiga við alvarleg vandamál að etja. En boðskapur Biblíunnar eykur hjartahreinum mönnum bjartsýni, ef hann er borinn rétt á borð.

OKKUR er falið að flytja gleðifréttir, boða fagnaðarerindi. „Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið,“ sagði Jesús. (Mark. 13:10) Hann setti sjálfur gott fordæmi með því að ‚flytja fagnaðarerindið um Guðs ríki.‘ (Lúk. 4:43) Það sem postularnir prédikuðu er sömuleiðis kallað „fagnaðarerindi Guðs“ og „fagnaðarerindið um Krist.“ (1. Þess. 2:2; 2. Kor. 2:12) Slíkur boðskapur er uppbyggjandi og jákvæður.

Við hvetjum fólk til að ‚óttast Guð og gefa honum dýrð,‘ líkt og engillinn sem flýgur um „háhvolf himins“ og flytur ‚eilífan fagnaðarboðskap.‘ (Opinb. 14:6, 7) Við segjum fólki alls staðar frá hinum sanna Guði, nafni hans og eiginleikum, stórvirkjum, kærleiksríkum ásetningi, ábyrgð okkar gagnvart honum og þeim kröfum sem hann gerir til okkar. Fagnaðarerindið fjallar einnig um að Jehóva Guð muni eyða óguðlegum mönnum sem óvirða hann og spilla tilveru annarra manna. En það er ekki okkar hlutverk að dæma fólkið sem við prédikum fyrir. Við vonum í einlægni að sem flestir taki við boðskap Biblíunnar þannig að hann verði raunverulegt fagnaðarerindi fyrir þá. — Orðskv. 2:20-22; Jóh. 5:22.

Takmarkaðu neikvætt efni. Lífið á sér auðvitað skuggahliðar og við lokum ekki augunum fyrir því. Þú gætir komið af stað samræðum með því að vekja máls á vandamáli sem er ofarlega á baugi á svæðinu og rætt það stuttlega. En yfirleitt gerir maður lítið gagn með því að vera margorður um vandamálin. Fólk heyrir meira en nóg af ótíðindum þannig að það gæti lokað á okkur eða hætt að hlusta ef okkur verður tíðrætt um þau. Reyndu að beina talinu fljótlega að hinum upplífgandi sannleika í orði Guðs. (Opinb. 22:17) Þá hefurðu skilið eitthvað jákvætt eftir hjá húsráðanda sem hann getur hugsað um, þó að hann vilji ekki halda samtalinu áfram. Kannski verður hann þá fúsari til að hlusta síðar.

Eins skaltu gæta þess þegar þér er boðið að flytja ræðu að drekkja ekki áheyrendum í neikvæðu efni, aðeins af því að það er yfrið nóg til af því. Það getur verið niðurdrepandi fyrir áheyrendur ef ræðumaður gerist langorður um hvernig stjórnir manna hafa brugðist, um fréttir af glæpum og ofbeldi og um hið útbreidda siðleysi. Það er óþarfi að minnast á neikvæðu hliðarnar nema það þjóni jákvæðum tilgangi. Hæfilega lítill skammtur af slíku getur undirstrikað að efnið, sem þú hefur fram að færa, sé tímabært. Þannig er einnig hægt að benda á ýmislegt sem stuðlar að ákveðnu ástandi og nota það til að sýna fram á að lausn Biblíunnar sé raunhæf. Vertu nákvæmur ef hægt er án þess að vera mjög langmáll um vandamálin.

Að jafnaði er hvorki hægt né heppilegt í ræðu að sleppa með öllu að fjalla um eitthvað neikvætt. Vandinn er sá að blanda jákvæðu og neikvæðu þannig að heildaráhrifin séu jákvæð. Til þess þarftu að velja og hafna og ákveða hvar áherslan eigi að liggja. Í fjallræðunni hvatti Jesús áheyrendur sína til að forðast sérhagsmunastefnu fræðimanna og farísea og nefndi fáein dæmi máli sínu til stuðnings. (Matt. 6:1, 2, 5, 16) En Jesús eyddi ekki mörgum orðum í slæmt fordæmi trúarleiðtoganna heldur lagði áherslu á hve mikilvægt væri að skilja hvað væri Guði að skapi og lifa samkvæmt því. (Matt. 6:3, 4, 6-15, 17-34) Áhrifin voru yfirgnæfandi jákvæð.

Haltu þig á jákvæðum nótum. Reyndu að vera uppbyggjandi frekar en gagnrýninn ef þér er falið að flytja ræðu í söfnuðinum um einhvern þátt kristinnar starfsemi. Gerðu örugglega sjálfur það sem þú hvetur aðra til að gera. (Rómv. 2:21, 22; Hebr. 13:7) Láttu orðin spretta af kærleika en ekki gremju. (2. Kor. 2:4) Ef þú treystir því að trúsystkini þín vilji þóknast Jehóva skín það í gegn og það sem þú segir hefur góð áhrif. Taktu eftir hvernig Páll postuli lýsir yfir slíku trausti í 1. Þessaloníkubréfi 4:1-12; 2. Þessaloníkubréfi 3:4, 5 og Fílemonsbréfinu 4, 8-14, 21.

Stöku sinnum þurfa öldungarnir að vara við óskynsamlegri hegðun. En auðmjúkt hugarfar hjálpar þeim að vera mildir við bræður sína. (Gal. 6:1) Þeir ættu að orða hlutina þannig að það vitni um virðingu fyrir safnaðarmönnum. (1. Pét. 5:2, 3) Biblían bendir ungum mönnum sérstaklega á að hafa þetta í huga. (1. Tím. 4:12; 5:1, 2; 1. Pét. 5:5) Ef nauðsynlegt er að áminna, aga og leiðrétta ætti að gera það á grundvelli þess sem Biblían segir. (2. Tím. 3:16) Aldrei ætti að sveigja eða teygja orð Biblíunnar til að styðja einhverja hugmynd sem mælandinn hefur mjög ákveðna skoðun á. Jafnvel þegar leiðréttingar er þörf verður árangurinn jákvæður ef aðaláherslan er lögð á hvernig forðast megi ranga breytni, leysa vandamál, sigrast á erfiðleikum og leiðrétta ranga stefnu, og bent er á hvernig það sé okkur til verndar að fylgja kröfum Jehóva. — Sálm. 119:1, 9-16.

Þegar þú semur og undirbýrð ræðuna skaltu hugsa sérstaklega um hvernig þú ætlar að ljúka hverju aðalatriði og svo ræðunni sjálfri. Oft muna menn best það sem sagt er síðast. Og spurningin er: Verður það jákvætt?

Í samræðum við trúsystkini. Þjónum Jehóva þykir verðmætt að geta hist á samkomum. Þær eru andlega auðgandi. Biblían hvetur okkur til að ‚uppörva hvert annað‘ þegar við hittumst í tilbeiðsluskyni. (Hebr. 10:25) Það er ekki aðeins gert í ræðum og svörum á samkomum heldur einnig með því að rabba hvert við annað fyrir og eftir samkomurnar.

Við ræðum saman um hversdaglega hluti eins og eðlilegt er en mesta uppörvunin er fólgin í því að ræða andlegu málin, þar á meðal það sem við ber í boðunarstarfinu. Heilbrigður áhugi á öðrum er einnig uppbyggilegur.

Engu að síður þurfum við að sýna aðgát vegna þeirra áhrifa sem gætir frá umheiminum. Páll sagði í bréfi til kristinna manna í Efesus: „Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga.“ (Ef. 4:25) Að tala sannleika í stað lygi er meðal annars fólgið í því að dásama ekki þá hluti og það fólk sem heimurinn dýrkar. Jesús varaði einnig við ‚táli auðæfanna.‘ (Matt. 13:22) Við verðum að gæta þess, þegar við tölum saman, að viðhalda ekki þessu táli með því að láta eins og það sé eitthvað sérstakt að eiga efnislega hluti. — 1. Tím. 6:9, 10.

Í leiðbeiningum, sem Páll postuli gaf um nauðsyn þess að vera uppbyggjandi, hvetur hann okkur til að dæma ekki eða gera lítið úr bróður sem forðast eitthvað ákveðið af því að hann er ‚óstyrkur í trúnni,‘ það er að segja skilur ekki til fulls hvaða svigrúm hið kristna frelsi veitir. Til að við séum uppbyggjandi í tali verðum við að taka tillit til uppruna fólks og þess þroska sem það hefur náð í trúnni. Það væri dapurlegt ef við yrðum ‚bróður eða systur til ásteytingar eða falls‘! — Rómv. 14:1-4, 13, 19.

Þeir sem eiga við alvarlega erfiðleika að etja, til dæmis langvinn veikindi, kunna vel að meta uppbyggjandi samræður. Oft leggja þeir mikið á sig til að geta sótt samkomur. Þeir sem til þekkja spyrja ef til vill um líðan þeirra. Slík umhyggja er eflaust mikils metin. En kannski finnst þeim heilsufarið ekki skemmtilegasta umræðuefnið. Oft er hrós betur til þess fallið að ylja þeim um hjartarætur. Eru þeir staðfastir í kærleikanum til Jehóva og þolgóðir miðað við erfiðar aðstæður? Finnst þér uppörvandi að heyra þá tjá sig og svara á samkomum? Ætli þeim finnist ekki meiri uppörvun í því að heyra minnst á styrk sinn og verðmæti í söfnuðinum en takmörk sín? — 1. Þess. 5:11.

Til að samræður séu uppbyggilegar skiptir sérstaklega miklu máli að hafa hliðsjón af skoðun Jehóva á umræðuefninu. Þeir sem kvörtuðu undan fulltrúum Jehóva í Forn-Ísrael og mögluðu yfir himnabrauðinu manna bökuðu sér megna vanþóknun Guðs. (4. Mós. 12:1-16; 21:5, 6) Við sýnum þess merki að við lærum af þessum dæmum þegar við virðum öldungana og erum þakklát fyrir andlegu fæðuna sem hinn trúi og hyggni þjónn lætur í té. — 1. Tím. 5:17.

Okkur ætti sjaldan að skorta eitthvað jákvætt til að ræða um við trúsystkini okkar. En ef einhver er óhóflega gagnrýninn skaltu beina umræðunum inn á uppbyggilegri brautir.

Hvort sem við erum að vitna fyrir öðrum, flytja ræðu í ríkissalnum eða rabba við trúsystkini skulum við alltaf sýna góða dómgreind þannig að við berum fram úr sjóðum hjartans „það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ — Ef. 4:29.

ÞANNIG FERÐU AÐ

  • Hafðu í huga að markmið okkar er að prédika fagnaðarerindið.

  • Vertu uppbyggjandi en ekki gagnrýninn.

  • Vertu jákvæður gagnvart þeim sem þú talar við.

  • Hugleiddu hvaða áhrif orð þín hafa á viðmælanda þinn.

ÆFING: Áður en þú heimsækir einhvern sem er fatlaður eða á ekki heimangengt skaltu hugleiða hvernig best sé að brydda upp á uppbyggjandi samræðum. Sýndu honum samúð og skilning en talaðu á jákvæðum nótum. Búðu þig sérstaklega undir þetta fyrir heimsóknina.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila