Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be bls. 62-bls. 65 gr. 4
  • Samræðuleikni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Samræðuleikni
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Byrjaðu heima hjá þér
  • Að ræða við ókunnuga
  • Að halda samræðum áfram
  • Með trúsystkinum
  • Tökum framförum í boðunarstarfinu – hefjum samræður til að boða trúna óformlega
    Ríkisþjónusta okkar – 2014
  • Samræður eru list
    Vaknið! – 1995
  • Hvernig get ég orðið færari í að tala við aðra?
    Ungt fólk spyr
  • Ættirðu að binda enda á samtalið?
    Elskum fólk og gerum það að lærisveinum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be bls. 62-bls. 65 gr. 4

Samræðuleikni

ÁTTU að jafnaði auðvelt með að ræða við aðra? Marga óar við tilhugsuninni um að taka þátt í samræðum, ekki síst við ókunnuga. Sumir eru feimnir og spyrja sig: ‚Um hvað á ég að tala? Hvernig get ég hafið samræðurnar? Og hvernig á ég að halda þeim áfram?‘ Þeim sem eru sjálfsöruggir og mannblendnir hættir til að tala svo mikið að aðrir komist varla að. Þeir þurfa að reyna að fá aðra til að tjá sig og læra að hlusta á það sem þeir segja. Við þurfum því öll að æfa okkur í samræðuleikni, og gildir þá einu hvort við erum feimin eða félagslynd.

Byrjaðu heima hjá þér

Gott er að byrja að æfa sig í samræðuleikni heima hjá sér. Uppbyggilegar samræður geta átt drjúgan þátt í ánægjulegu heimilislífi.

Einlæg umhyggja fyrir öðrum er meginforsenda þess konar samræðna sem hér er um að ræða. (5. Mós. 6:6, 7; Orðskv. 4:1-4) Við tölum við þá sem okkur er annt um og hlustum þegar þeir vilja leggja eitthvað til málanna. Einnig er mikilvægt að hafa eitthvað markvert að segja. Ef við lesum reglulega í Biblíunni og biblíunámsritum höfum við margt fram að færa. Bæklingurinn Rannsökum daglega ritningarnar getur verið samræðuhvetjandi. Ánægjuleg atvik í boðunarstarfinu geta einnig verið tilefni samræðna. Og kannski lesum við eitthvað fróðlegt eða spaugilegt. Allt getur þetta verið efni í ánægjulegar samræður í fjölskyldunni og auðveldað okkur að ræða við aðra utan hennar.

Að ræða við ókunnuga

Margir veigra sér við að hefja samræður við ókunnuga. En vottar Jehóva elska Guð og náungann og leggja sig því fram um að læra að ræða við aðra til að koma sannleika Biblíunnar á framfæri við þá. Hvernig er hægt að þjálfa sig í samræðuleikni?

Hér kemur meginreglan í Filippíbréfinu 2:4 að góðum notum. Þar erum við hvött til að ‚líta ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.‘ Horfðu á málið frá þessum sjónarhóli: Ef þú hefur aldrei hitt manneskjuna áður lítur hún á þig sem ókunnugan. Hvernig geturðu hjálpað henni að slaka á gagnvart þér? Hlýlegt bros og vingjarnleg kveðja stuðlar mjög að því, en fleira þarf til.

Kannski var viðmælandinn niðursokkinn í hugsanir sínar og þú truflaðir hann. Hvernig ætli hann bregðist við þegar þú reynir að vekja áhuga hans á því sem þú ert að hugsa án þess að taka tillit til þess sem hann er að hugsa? Hvað gerði Jesús þegar hann hitti konu við brunn í Samaríu? Hún var með hugann við það að sækja vatn og Jesús tók mið af því þegar hann hóf samræður við hana. En fljótlega beindi hann samræðunum að andlegu málunum. — Jóh. 4:7-26.

Ef þú ert athugull geturðu kannski líka áttað þig á því hvað fólk er að hugsa um. Er viðmælandinn ánægður að sjá eða dapur? Er hann aldraður, kannski hrumur? Sérðu merki um að börn séu á heimilinu? Virðist þér viðmælandi þinn vera í góðum efnum eða hefur hann rétt til hnífs og skeiðar? Gefa skrautmunir eða skartgripir til kynna að hann sé trúarlega sinnaður? Ef þú tekur mið af slíku þegar þú heilsar er hugsanlegt að viðmælandi þinn telji áhugamál ykkar fara saman.

Hvaða ályktun geturðu dregið ef þú hittir ekki húsráðanda augliti til auglitis heldur talar við hann gegnum lokaðar dyr eða dyrasíma? Hugsanlega óttast hann um öryggi sitt. Gætirðu notfært þér það til að hefja samræður við hann?

Sums staðar er hægt að draga aðra manneskju inn í samræður með því að segja henni eitthvað frá sjálfum sér, til dæmis um uppruna sinn og ástæðuna fyrir komunni. Þú gætir nefnt hvers vegna þú trúir á Guð, af hverju þú byrjaðir að kynna þér Biblíuna og hvaða gagn þú hefur haft af henni. (Post. 26:4-23) Þetta þarf þó auðvitað að gera af varfærni og með skýrt markmið í huga, en það getur komið húsráðanda til að segja þér frá sjálfum sér og viðhorfum sínum.

Í sumum menningarsamfélögum er venja að vera gestrisinn við ókunnuga. Gestum og gangandi er gjarnan boðið inn og til sætis. Ef spurt er kurteislega um vellíðan fjölskyldunnar og hlustað einlæglega á svarið hlýðir húsráðandi með jafnmikilli athygli á það sem gesturinn hefur fram að færa. Sums staðar er gestum tekið með kostum og kynjum og þá þarf að gefa sér enn betra tóm til að spjalla áður en erindið er borið upp. Í leiðinni uppgötva húsráðendur kannski að þeir eiga ýmislegt sameiginlegt með gestinum og það getur verið kveikja gagnlegra samræðna um trúarleg efni.

Sums staðar búa fjölmennir hópar sem tala önnur tungumál en þú. Hvað er þá til ráða? Hvernig geturðu náð til þessa fólks? Oft er gott að læra einföld kveðjuorð á einhverju þessara tungumála því að það sýnir fólki að þú hafir áhuga á því og það getur síðan stuðlað að frekari tjáskiptum.

Að halda samræðum áfram

Til að halda samræðum áfram þarftu að sýna áhuga á skoðunum viðmælanda þíns. Hvettu hann til að tjá sig ef hann er fús til þess. Vel valdar spurningar geta hjálpað. Heppilegast er að spyrja um viðhorf og skoðanir því að slíkum spurningum er yfirleitt ekki svarað með jái eða neii. Þú gætir til dæmis minnst á vandamál, sem er mönnum hugleikið þar um slóðir, og síðan spurt: „Hver heldurðu að sé orsök þessa ástands?“ eða: „Hver heldurðu að sé lausn vandans?“

Eftir að þú spyrð spurningar skaltu hlusta með athygli á svarið. Láttu í ljós ósvikinn áhuga með látbragði, með því að skjóta inn orði eða kinka kolli, en gríptu ekki fram í. Vertu opinn fyrir skoðunum viðmælanda þíns. Vertu ‚fljótur til að heyra og seinn til að tala.‘ (Jak. 1:19) Láttu viðbrögð þín bera með sér að þú hafir raunverulega hlustað á það sem sagt var.

En mundu að það svara ekki allir spurningum þínum. Sumir gera ekki annað en að lyfta brúnum eða brosa en aðrir segja einungis já eða nei. Láttu það ekki slá þig út af laginu. Vertu þolinmóður en reyndu ekki að þvinga fram svar hjá hinum. Ef hann er fús til að hlusta á þig skaltu nota tækifærið til að koma einhverju uppbyggilegu á framfæri frá Biblíunni. Hugsanlega eignast þú trúnað hans með tímanum og þá er hann kannski tilbúinn til að tjá sig meira.

Hugsaðu fram í tímann þegar þú talar við fólk. Ef viðmælandi þinn spyr margra spurninga skaltu svara sumum en láta einni eða tveim ósvarað þangað til þið hittist næst. Þú getur boðist til að kanna málið og segja honum síðan frá því sem þú finnur. Ef hann spyr einskis gætirðu lokið samtalinu með því að varpa sjálfur fram spurningu sem þú telur vekja áhuga hans og boðist til að svara henni næst þegar þú kemur. Í bókinni Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókinni), bæklingnum Hvers krefst Guð af okkur? og nýjustu tölublöðum Varðturnsins og Vaknið! er margt að finna sem getur kveikt góðar hugmyndir.

Með trúsystkinum

Hvað gerirðu þegar þú hittir annan vott Jehóva í fyrsta sinn? Tekurðu hann tali til að kynnast honum eða stendurðu bara þögull? Bróðurkærleikurinn ætti að hvetja okkur til að vilja kynnast hvert öðru. (Jóh. 13:35) Hvernig geturðu hafið samræðurnar? Þú gætir byrjað á því að kynna þig og spyrja hinn hvað hann heiti. Yfirleitt er það kveikja góðra samræðna að inna viðmælandann eftir því hvernig hann hafi kynnst sannleikanum og það er góð leið til að stofna til kynna. Jafnvel þótt þér finnist orðin koma öfug út úr þér er viðleitnin vísbending til hins um að þér sé annt um hann og það er aðalatriðið.

Þú getur stuðlað að innihaldsríkum samræðum við einhvern annan í söfnuðinum með því að sýna ósvikinn áhuga á honum og fjölskyldu hans. Er samkomunni nýlokið? Nefndu þá eitthvað af dagskránni sem vakti sérstakan áhuga þinn. Það getur verið gagnlegt fyrir ykkur báða. Þú gætir líka nefnt áhugavert atriði úr nýlegu tölublaði Varðturnsins eða Vaknið! Það má þó ekki koma út eins og þú sért að monta þig eða prófa þekkingu hins. Hafðu heldur orð á einhverju sem þér fannst sérstaklega ánægjulegt. Þú gætir minnst á næsta verkefni þitt í Boðunarskólanum og þið gætuð skipst á hugmyndum um það hvernig hægt væri að fjalla um efnið. Eins gætirðu sagt frásögu úr boðunarstarfinu.

Áhugi okkar á fólki leiðir auðvitað oft til þess að rætt er um annað fólk, orð þess og athafnir. Og stundum sláum við á létta strengi. En er það uppbyggilegt sem við segjum? Ef við förum eftir leiðbeiningum Biblíunnar og látum kærleikann ráða ferðinni, þá er mál okkar örugglega uppbyggjandi. — Orðskv. 16:27, 28; Ef. 4:25, 29; 5:3, 4; Jak. 1:26.

Við undirbúum okkur áður en við förum út í boðunarstarfið. Hví ekki að undirbúa sig til að koma skemmtilegum fróðleiksmola á framfæri í samræðum við vini? Leggðu á minnið áhugaverð atriði sem þú heyrir eða lest um og vilt koma á framfæri við aðra. Smám saman byggirðu upp góðan sjóð til að ausa úr og þú hefur margt annað til málanna að leggja en fáein orð um vanagang lífsins. En umfram allt skaltu láta mál þitt bera þess merki að orð Guðs sé þér mikils virði. — Sálm. 139:17.

AÐ HEFJA SAMRÆÐUR

  • Fylgdu siðvenjum staðarins.

  • Hrósaðu.

  • Nefndu sameiginlegt áhugamál.

  • Spyrðu um viðhorf hins.

GAGNLEGIR EIGINLEIKAR

  • Glaðlegt viðmót.

  • Hlýja og einlægni.

  • Viðeigandi áhugi á öðrum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila