Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 50 bls. 258-bls. 262 gr. 4
  • Náðu til hjartans

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Náðu til hjartans
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Náðu til hjartans
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
  • Hvernig náum við til hjarta þeirra sem við kennum?
    Ríkisþjónusta okkar – 2015
  • Þjálfaðu þig sem kennari
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Boðskapurinn sem við eigum að boða
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 50 bls. 258-bls. 262 gr. 4

Námskafli 50

Náðu til hjartans

Hvað þarftu að gera?

Taktu tillit til skoðana fólks á því sem er til umræðu. Höfðaðu til þess þannig að það langi til að eiga náið samband við Guð og verða vinir hans.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Fólk þarf að láta orð Guðs festa rætur í hjörtum sér til að hljóta velþóknun hans.

ÞAÐ er verkefni þitt að reyna að snerta hjörtu fólks, ekki aðeins að vitna fyrir því. Hjartað er oft notað í Biblíunni sem andstæða þess sem maður virðist vera á yfirborðinu. Hið óeiginlega hjarta táknar hinn innri mann — tilfinningar hans og skoðanir, allt sem hann hugsar um, ástæður þess að hann hugsar þannig og áhrif þessara hugsana á verk hans. Það er í þetta óeiginlega hjarta sem þarf að sá sæði sannleikans. (Matt. 13:19) Og það er hjartað sem þarf að vera hvati þess að fólk hlýði Guði. — Orðskv. 3:1; Rómv. 6:17.

Til að kennsla þín hafi svona djúpstæð áhrif þarftu að einbeita þér að eftirfarandi markmiðum: (1) Áttaðu þig á hvað hefur haft áhrif á hjarta áheyrandans fram til þessa. (2) Hlúðu að góðum eiginleikum hans, svo sem kærleika og guðsótta. (3) Hvettu hann til að grannskoða innstu hvatir sínar þannig að hann geti þóknast Jehóva sem best.

Sýndu hyggindi. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að fólk er ekki enn þá búið að taka við sannleikanum. Þegar þú heldur biblíunámskeið í heimahúsi þarftu kannski að uppræta fordóma og benda á staðreyndir til að hrekja rangar hugmyndir hjá nemandanum, eða einfaldlega að benda á sannanir. Spyrðu þig: ‚Gerir nemandinn sér grein fyrir því að hann hefur andlegar þarfir eins og allir aðrir? Hve miklu trúir hann? Hverju trúir hann ekki? Hvers vegna hefur hann komist að þessari niðurstöðu? Þarf hann hjálp til að sigrast á löngunum sem gætu hindrað hann í að axla þá ábyrgð sem fylgir því að þekkja sannleikann?‘

Það er ekki alltaf auðvelt að glöggva sig á því hvers vegna fólk trúir eins og það trúir. „Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn,“ segja Orðskviðirnir 20:5, „og hygginn maður eys þar af.“ Hyggindi eru meðal annars það að vera skynugur og geta áttað sig á því sem liggur ekki í augum uppi. Þetta kallar á eftirtektarsemi og umhyggju.

Tjáskipti geta verið orðalaus. Hugsanlegt er, þegar ákveðið viðfangsefni ber á góma, að nemandinn sýni einhver svipbrigði eða raddblærinn breytist. Foreldrar vita mætavel að breyting á hegðun barns getur verið merki um ný áhrif í lífi þess. Vertu vakandi fyrir slíkum merkjum því að þau gefa vísbendingu um það sem býr innra með manninum.

Með vel völdum spurningum er hægt að laða fram hvað býr í hjarta annarrar manneskju. Þú gætir spurt: „Hvað finnst þér um . . . ?“ „Hvað sannfærði þig um að . . . ?“ „Hvernig myndirðu bregðast við ef . . . ?“ En láttu spurningunum ekki rigna yfir fólk. Þú gætir byrjað á því að spyrja háttvíslega: „Mætti ég spyrja þig . . . ?“ Það er enginn hægðarleikur að finna út hvað býr í hjarta annars manns og það er ekki hægt að hespa það af í flýti. Yfirleitt tekur það sinn tíma að byggja upp það traust sem þarf að vera fyrir hendi áður en fólk vill tjá innstu tilfinningar sínar. Og þó að því stigi sé náð þarf að gæta varúðar til að viðmælandanum finnist þú ekki vera að spyrja um hluti sem koma þér ekki við. — 1. Pét. 4:15.

Þú þarft líka að bregðast hyggilega við því sem þú heyrir. Mundu að það er markmið þitt að skilja fólk þannig að þú getir glöggvað þig á hvaða biblíuefni höfðar helst til þess. Ef þú finnur fyrir löngun til að leiðrétta röng sjónarmið skaltu bæla hana niður tafarlaust. Reyndu heldur að koma auga á þær tilfinningar eða skoðanir sem búa að baki orðunum. Þá veistu hvernig þú átt að bregðast við og nemandinn finnur að þú skilur hann og hugsar þá frekar alvarlega um það sem þú segir. — Orðskv. 16:23.

Að vissu marki geturðu höfðað til einstaklinga þó að þú sért að ávarpa fjölmennan hóp. Ef þú fylgist vel með áheyrendum, tekur eftir svipbrigðum þeirra og varpar fram spurningum sem vekja þá til umhugsunar geturðu sennilega farið nærri um hvað þeim finnst um það sem þú segir. Ef þú ert vel kunnugur áheyrendum skaltu sýna að þú takir tillit til aðstæðna þeirra. Taktu mið af almennri afstöðu safnaðarins þegar þú rökræðir við hann með vísun í orð Guðs. — Gal. 6:18.

Að skapa jákvæða afstöðu. Þegar þú ert búinn að fá einhverja hugmynd um hverju viðmælandinn trúir, hverju hann trúir ekki og hvers vegna, geturðu notað það sem grunn til að byggja á. Eftir að Jesús var risinn upp frá dauðum snart hann hjörtu lærisveinanna með því að ‚ljúka ritningunum upp fyrir þeim‘ með hliðsjón af nýliðnum atburðum. (Lúk. 24:32) Þú ættir líka að leggja þig fram um að tengja reynsluheim og langanir viðmælandans við það sem hann les í orði Guðs. Þegar það rennur upp fyrir honum að ‚þetta sé SANNLEIKURINN‘ er óhjákvæmilegt að það snerti hjarta hans.

Þeir sem þú kennir læra að elska Jehóva þegar þú leggur áherslu á góðvild hans, kærleika, óverðskuldaða gæsku og réttláta vegi. Gefðu þér tíma til að benda áheyrendum þínum á þá góðu eiginleika sem Guð sér í fari þeirra. Þannig gefurðu þeim ástæðu til að trúa að þeir geti eignast persónulegt samband við hann. Þetta er hægt að gera með því að vísa í ritningarstaði eins og Sálm 139:1-3; Lúkas 21:1-4 og Jóhannes 6:44, og með því að sýna áheyrendum fram á hve vænt Jehóva þykir um trúfasta þjóna sína. (Rómv. 8:38, 39) Leiddu þeim fyrir sjónir að Jehóva sér ekki aðeins mistök okkar heldur lífsstefnu í heild, kostgæfni okkar í sannri tilbeiðslu og ástina sem við höfum á nafni hans. (2. Kron. 19:2, 3; Hebr. 6:10) Hann man jafnvel í smáatriðum hvernig við erum gerð og á eftir að vinna það kraftaverk að reisa upp frá dauðum ‚alla þá sem í gröfunum eru.‘ (Jóh. 5:28, 29; Lúk. 12:6, 7) Þar sem mennirnir eru gerðir í Guðs mynd getum við höfðað mjög sterkt til fólks með því að lýsa eiginleikum hans. — 1. Mós. 1:27.

Það getur líka snortið hjarta fólks þegar það lærir að líta aðra sömu augum og Jehóva gerir. Það segir sig sjálft að fyrst Guð lætur sér annt um okkur sem einstaklinga hlýtur honum líka að vera annt um aðra, óháð uppruna þeirra, þjóðerni eða kynþætti. (Post. 10:34, 35) Jafnskjótt og maður kemst að þessari niðurstöðu er hann búinn að fá sterk, biblíuleg rök fyrir því að uppræta hatur og fordóma úr hjarta sér. Með því að gera það og læra að gera vilja Guðs getur hann átt friðsamleg samskipti við aðra.

Þú ættir líka að kenna öðrum að óttast Guð. (Sálm. 111:10; Opinb. 14:6, 7) Djúp lotning fyrir Guði getur verið fólki sterk hvöt til að fá áorkað því sem það gæti ekki gert í eigin krafti. Með því að ræða um mikilfengleg verk Jehóva og einstæða ástúð hans og umhyggju geturðu hjálpað öðrum að óttast á heilbrigðan hátt að misþóknast honum. — Sálm. 66:5; Jer. 32:40.

Gakktu úr skugga um að áheyrendur skilji að breytni þeirra skiptir Jehóva máli. Hann hefur tilfinningar og viðbrögð okkar við leiðsögn hans geta annaðhvort hryggt hann eða glatt. (Sálm. 78:40-42) Bentu fólki á hvers vegna breytni þess geti gefið Guði svar við ögrun Satans. — Orðskv. 27:11.

Sýndu áheyrendum líka fram á að það sé þeim til góðs að fylgja kröfum Guðs. (Jes. 48:17) Þetta er meðal annars hægt að gera með því að benda á líkamlegar og tilfinningalegar afleiðingar þess að hafna visku Guðs, jafnvel stutta stund. Útskýrðu hvernig syndin gerir okkur fjarlæg Guði, spillir fyrir því að aðrir kynnist sannleikanum með hjálp okkar og gengur á rétt þeirra með ýmsum öðrum hætti. (1. Þess. 4:6) Leiddu áheyrendum fyrir sjónir hvaða gæfu þeir hafi hlotið nú þegar með því að hlýða lögum Guðs. Minntu þá á hve mörg vandamál þeir umflýi af því að þeir ganga á réttlátum vegum Jehóva og styrktu þakklæti þeirra fyrir það. Sá sem trúir að það sé viturlegt að ganga á vegum Guðs lætur sér ekki til hugar koma að velja nokkra aðra lífsstefnu. (Sálm. 119:104) Hann lítur ekki á það sem byrði að hlýða Guði heldur sem leið til að sýna honum ást og hollustu.

Hjálpaðu öðrum að líta í eigin barm. Fólk þarf að vera næmt fyrir því sem býr í hjartanu til að halda áfram að vaxa andlega. Bentu á hvernig Biblían getur hjálpað því til þess.

Sýndu áheyrendum fram á að Biblían er annað og meira en samsafn af boðorðum, ráðleggingum, sögulegum upplýsingum og spádómum. Hún gefur okkur einnig innsýn í hugarheim Guðs. Jakobsbréfið 1:22-25 líkir orði Guðs við spegil. Viðbrögð okkar við orðum Biblíunnar og við því hvernig Jehóva hrindir vilja sínum í framkvæmd opinbera hvað býr í hjörtum okkar. Þannig sýnir Biblían hvernig Guð, sem „prófar hjörtun,“ sér okkur. (Orðskv. 17:3) Hvettu áheyrendur til að hafa þetta í huga. Brýndu fyrir þeim að ígrunda það sem Guð hefur varðveitt í Biblíunni fram á okkar daga og velta fyrir sér hverju þeir þurfi að breyta í lífi sínu til að þóknast honum betur. Sýndu þeim hvernig biblíulestur getur gefið þeim vísbendingar um álit Jehóva á ‚hugsunum og hugrenningum hjartans‘ þannig að þeir geti gert nauðsynlegar breytingar með hjálp hans. — Hebr. 4:12; Rómv. 15:4.

Sumir biblíunemendur vilja gjarnan fara eftir því sem þeir læra en kvíða viðbrögðum annarra. Kannski eiga þeir í baráttu við sterkar langanir holdsins eða reyna að telja sér trú um að þeir geti þjónað Guði en samt lifað veraldlegu líferni. Bentu þeim á hve hættulegt það sé að tvístíga. (1. Kon. 18:21) Hvettu þá til að biðja Guð um að rannsaka og hreinsa hjarta þeirra. — Sálm. 26:2; 139:23, 24.

Vektu athygli þeirra á því að Jehóva skilur baráttuna sem þeir eiga í og að Biblían varpar ljósi á það sem er að gerast. (Rómv. 7:22, 23) Hjálpaðu þeim að halda vöku sinni þannig að þeir láti ekki tilhneigingar hins ófullkomna hjarta ná yfirhöndinni. — Orðskv. 3:5, 6; 28:26; Jer. 17:9, 10.

Brýndu fyrir hverjum og einum að grannskoða þær hvatir sem búa að baki því sem hann gerir. Kenndu honum að spyrja sig: ‚Af hverju langar mig til að gera þetta? Sýni ég Jehóva með þessu að ég sé innilega þakklátur fyrir það sem hann hefur gert fyrir mig?‘ Leggðu þig fram við að sannfæra hann um að velþóknun Jehóva og gott samband við hann sé það verðmætasta sem nokkur maður geti átt.

Komdu nemendum þínum í skilning um hvað það merki að þjóna Jehóva af „öllu hjarta.“ (Lúk. 10:27) Það merkir að þeir þurfa að laga allar tilfinningar sínar, langanir og hvatir að vegum Jehóva. Kenndu því áheyrendum að grannskoða hvað þeir gera en ekki síður hvað þeim finnst um kröfur Jehóva og af hvaða hvötum þeir þjóna honum. (Sálm. 37:4) Þegar nemendur þínir koma auga á hvar þeir þurfa að bæta sig skaltu hvetja þá til að biðja til Jehóva: „Gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ — Sálm. 86:11.

Þegar nemandi byggir upp einkasamband við Jehóva hlýðir hann honum vegna trúar en ekki aðeins vegna þess að þú hvetur hann til þess. Þá byrjar hann að ‚rannsaka sjálfur hvað Drottni er þóknanlegt.‘ (Ef. 5:10, Biblían 1912; Fil. 2:12) Einlæg hlýðni gleður Jehóva. — Orðskv. 23:15.

Hafðu hugfast að það er Jehóva sem rannsakar hjörtun og dregur fólk til sín. (Orðskv. 21:2; Jóh. 6:44) Það er okkar hlutverk að vinna með honum að því. (1. Kor. 3:9) Það er rétt ‚eins og það sé Guð sem áminnir þegar við áminnum.‘ (2. Kor. 5:20; Post. 16:14) Jehóva þvingar engan til að taka við sannleikanum, en þegar við látum Biblíuna tala getur hann látið viðmælendur okkar átta sig á því að það sem þeir heyra er svar við spurningum þeirra eða bænum. Hafðu þetta alltaf hugfast þegar þú færð tækifæri til að kenna, og biddu Jehóva einlæglega um hjálp og leiðsögn. — 1. Kron. 29:18, 19; Ef. 1:16-18.

HVERNIG GETURÐU BÆTT ÞIG?

  • Sýndu ósvikinn kærleika.

  • Áttaðu þig á hvað hafi haft áhrif á hjarta áheyrandans.

  • Leggðu áherslu á einstaka eiginleika Jehóva.

  • Kenndu áheyrendum að grannskoða og göfga hvatir sínar.

ÆFINGAR: (1) Lestu Matteus 6:21 og hugleiddu hvernig textinn á við þig. Lestu einnig vers 19 og 20 og veltu fyrir þér hvað hjartað hvetur þig til að leiðrétta. (2) Hugleiddu af hvaða hvötum þú byrjaðir að þjóna Jehóva. Hvers vegna þjónarðu honum núna? Hvaða hvatir, sem eru Jehóva þóknanlegar, langar þig til að styrkja?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila