Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 16 bls. 135-bls. 138 gr. 4
  • Öryggi og jafnvægi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Öryggi og jafnvægi
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Öryggi, jafnvægi og útlit
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Þú getur talað frammi fyrir áheyrendahópi
    Vaknið! – 1993
  • Fræðandi efni, skýrt og greinilegt
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Inngangur sem vekur áhuga
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 16 bls. 135-bls. 138 gr. 4

Námskafli 16

Öryggi og jafnvægi

Hvað þarftu að gera?

Sýndu ró og stillingu með tali, fasi, limaburði og stellingum.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Ef þú ert rólegur og öruggur í fasi einbeita áheyrendur sér frekar að því sem þú segir en að þér sjálfum.

ÞAÐ er ekkert óvenjulegt að ræðumaður sé taugaspenntur þegar hann stendur upp til að tala, einkum ef hann gerir það sjaldan. Boðberi getur verið með fiðring í maganum í nokkrum fyrstu heimsóknum dagsins í boðunarstarfinu. Þegar Jeremía var kallaður til spámennsku svaraði hann: „Ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.“ (Jer. 1:5, 6) Jehóva hjálpaði Jeremía og hann hjálpar þér líka. Smám saman nærðu öryggi og jafnvægi.

Öruggur ræðumaður er jafnframt yfirvegaður og það sýnir sig í fasi hans. Stellingarnar eru eðlilegar og hæfa tilefninu. Hann hreyfir hendurnar eðlilega og markvisst. Röddin er tjáningarrík og hann hefur fulla stjórn á henni.

Kannski finnst þér þessi lýsing ekki eiga við þig en þú getur bætt þig. Hvernig? Við skulum byrja á því að kanna hvers vegna ræðumaður er taugaóstyrkur og óöruggur. Orsakirnar geta verið líkamlegar.

Það er eðlilegt að vera kvíðinn ef manni er falið verkefni en maður er efins um að geta leyst það vel af hendi. Heilinn fyrirskipar þá líkamanum að framleiða meira adrenalín. Þetta getur haft ýmiss konar áhrif. Hjartslátturinn og öndunin verður örari, maður svitnar og verður skjálfraddaður, skjálfhentur og jafnvel titrandi í hnjánum. Líkaminn reynir hvað hann getur til að bregðast við ástandinu með því að auka þér orku. Vandinn er fólginn í því að nýta sér orkuskotið til að hugsa uppbyggilega og flytja ræðuna með eldmóði.

Að draga úr kvíðanum. Mundu að það er eðlilegt að vera örlítið kvíðinn. En til að halda öryggi og jafnvægi þarftu að draga úr kvíðanum og bregðast við stöðunni með ró og reisn. Hvernig áttu að fara að því?

Undirbúðu þig vel. Taktu þér góðan tíma til að undirbúa ræðuna. Fullvissaðu þig um að þú skiljir efnið vel. Ef ræðan er þess eðlis að þú velur sjálfur hvað þú ferð yfir skaltu taka mið af því hvað áheyrendur vita fyrir fram um efnið og hugleiða hverju þú vilt koma til leiðar. Þetta auðveldar þér að velja úr efni sem á mest erindi til þeirra. Ræddu málið við reyndan ræðumann ef þér finnst þetta erfitt í byrjun. Hann getur hjálpað þér að brjóta efnið til mergjar með hliðsjón af þekkingu áheyrenda. Þegar þú ert sannfærður um að þú sért með efni sem áheyrendur hafa gagn af, og það er orðið skýrt í huga þér, þá fer löngunin til að koma því á framfæri að yfirgnæfa kvíðann sem þú berð af flutningi ræðunnar.

Hugaðu sérstaklega að inngangsorðunum. Vertu öruggur um hvernig þú ætlar að hefja mál þitt. Um leið og þú ert kominn af stað með ræðuna er líklegt að taugaspennan dvíni.

Í meginatriðum geturðu notað sömu aðferð við að búa þig undir boðunarstarfið. Hugleiddu bæði hvað þú ætlar að ræða um og hvers konar fólk þú átt eftir að hitta. Undirbúðu inngangsorðin vel. Nýttu þér reynslu þroskaðra boðbera.

Þú heldur kannski að þér verði rórra ef þú hefur útskrifað handrit þegar þú átt að flytja ræðu en sannleikurinn er sá að það getur aukið á kvíðann. Vissulega er misjafnt hve mikið ræðumenn hafa útskrifað en það eru ekki orðin á pappírnum sem draga úr kvíðanum. Sértu sannfærður um að það sem þú hefur undirbúið sé virkilega gagnlegt fyrir áheyrendur áttu auðveldara með að beina hugsuninni frá sjálfum þér og einbeita þér að efninu.

Æfðu þig að flytja ræðuna upphátt. Með æfingunni sannfærist þú um að þú getir komið orðum að hugsun þinni. Æfingin myndar minnisbrautir sem þú getur hæglega virkjað þegar þú flytur ræðuna. Gerðu æfinguna raunhæfa. Sjáðu áheyrendur fyrir þér. Sittu við borð eða stattu eins og þú átt eftir að gera þegar þú flytur ræðuna.

Biddu Jehóva um hjálp. Svarar hann þess konar bæn? „Þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss.“ (1. Jóh. 5:14) Ef þig langar til að heiðra Guð og hjálpa fólki að njóta góðs af orði hans er öruggt að hann svarar slíkri bæn. Þetta traust getur styrkt þig mjög til að gera verkefni þínu skil. Og þegar þú þroskar með þér ávöxt andans — kærleika, gleði, frið, hógværð og sjálfstjórn — þroskarðu jafnframt það hugarfar sem þarf til að sýna öryggi og jafnvægi. — Gal. 5:22, 23.

Aflaðu þér reynslu. Því oftar sem þú ferð í boðunarstarfið, þeim mun minni verður taugaspennan. Því oftar sem þú svarar á safnaðarsamkomum, þeim mun auðveldara verður fyrir þig að tala í áheyrn fjölda. Því oftar sem þú flytur ræður í söfnuðinum, þeim mun minni verður sennilega kvíðinn fyrir hverja ræðu. Viltu fá fleiri tækifæri til að flytja ræður? Þá skaltu bjóða þig fram til að hlaupa í skarðið í skólanum þegar einhver forfallast.

Eftir að þú hefur gert það sem á undan greinir væri gott fyrir þig að skoða nokkur einkenni sem benda eindregið til þess að þig skorti öryggi og jafnvægi. Með því að þekkja einkennin og læra að bregðast rétt við þeim auðveldarðu þér að tala með öryggi og jafnvægi. Einkennin geta birst bæði í fasi manns og heyrst á röddinni.

Líkamleg einkenni. Ein fyrstu merki öryggis og jafnvægis, eða hins gagnstæða, birtast í limaburði og handahreyfingum. Lítum fyrst á hendurnar. Þú heldur höndunum fyrir aftan bak eða stífum með hliðunum, rígheldur í ræðupúltið, ýmist stingur höndunum í vasana og dregur þær upp aftur, hneppir jakkanum ýmist að eða frá og fitlar fálmandi við hökuna, nefið, gleraugun, úrið, pennann, hringinn eða minnisblöðin; handatilburðir eru rykkjóttir eða ófullkomnir. Allt eru þetta merki um óöryggi og ójafnvægi.

Óöryggi getur líka birst þannig að þú tvístígur eða vaggar til hliðanna, stendur stífur í baki eða hokinn, ert sífellt að væta varirnar og kyngja eða ert andstuttur.

Með meðvituðu átaki er hægt að hafa hemil á þessari taugaspennu. Taktu aðeins eitt fyrir í einu. Komdu auga á vandann og hugleiddu fyrir fram hvað þú þurfir að gera til að ná tökum á honum eða draga úr honum. Ef þú leggur þig fram við þetta verður þú öruggur í fasi.

Einkenni sem heyrast á röddinni. Taugaspenna getur líka komið fram í óeðlilega skrækri eða titrandi rödd, stöðugum ræskingum eða hraðmæli. Með góðri ástundun er einnig hægt að sigrast á þessu og ná tökum á röddinni.

Ef þú ert taugaóstyrkur skaltu draga andann djúpt nokkrum sinnum áður en þú stígur upp á sviðið. Reyndu að slaka á öllum líkamanum. Hættu að hugsa um taugaspennuna og einbeittu þér að því hvers vegna þig langi til að koma efninu, sem þú hefur tekið saman, á framfæri við áheyrendur. Áður en þú tekur til máls skaltu renna augunum yfir áheyrendahópinn, finna vingjarnlegt andlit og brosa. Talaðu hægt þegar þú ferð með inngangsorðin og sökktu þér síðan niður í efnið.

Hvers máttu vænta? Þú skalt ekki búast við að taugaspennan hverfi alveg. Margir ræðumenn með áralanga reynslu að baki eru taugaspenntir áður en þeir ganga fram fyrir áheyrendahóp. En þeir hafa lært að hafa hemil á taugaspennunni.

Ef þú leggur þig eindregið fram um að vinna bug á hinum ytri einkennum taugaspennunnar finnst áheyrendum þú vera öruggur í fasi. Þú ert kannski enn með fiðring í maganum en þeir taka sennilega ekki eftir því.

Mundu að adrenalínbylgjan, sem veldur taugaspennunni, eykur þér líka kraft. Notaðu hann til að tala með tilfinningu.

Bíddu ekki með að æfa þetta allt uns þú stígur upp á ræðupallinn. Þjálfaðu með þér öryggi og jafnvægi dags daglega og temdu þér að tala með viðeigandi tilfinningu. Þá ertu kominn langleiðina með að vera öruggur í fasi á ræðupallinum og í boðunarstarfinu þar sem það skiptir mestu máli.

AÐ VERÐA ÖRUGGUR Í FASI

  • Undirbúðu þig vel.

  • Æfðu þig upphátt.

  • ‚Varpaðu áhyggjum þínum á Drottin‘ í bæn. — Sálm. 55:23.

  • Taktu reglulega þátt í boðunarstarfinu, svaraðu oft á samkomum og bjóddu þig fram til að taka aukaverkefni í skólanum.

  • Komdu auga á einkenni taugaspennu og lærðu að hafa hemil á þeim eða hindra að þau komi fram.

ÆFING: Reyndu um mánaðarskeið að svara oftar en einu sinni í Varðturnsnámi og bóknámi safnaðarins í hverri viku. Taktu eftir hvernig taugaspennan dvínar með öðru eða þriðja svarinu á sömu samkomu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila