Námskafli 3
Réttur framburður
KRISTNIR menn hafa mislanga menntun að baki sér. Postularnir Pétur og Jóhannes voru til dæmis kallaðir „ólærðir leikmenn.“ (Post. 4:13) En hvað sem menntun líður er mikilvægt að spilla ekki fyrir kynningu sinni á boðskap Biblíunnar með röngum framburði.
Um framburðarreglur. Engar reglur eru til sem ná yfir framburð allra tungumála í heimi. Mörg tungumál eru skrifuð með stafrófsletri. Auk latínuletursins má nefna arabískt letur, grískt, hebreskt og kyrillískt. Kínversk tákn eru gjarnan samsett úr nokkrum einingum og hvert tákn stendur yfirleitt fyrir eitt orð eða orðhluta. Kínverskt táknletur er notað í japönsku og kóresku en táknin geta haft allt önnur hljóðgildi og aðra merkingu en í kínversku.
Í þeim tungumálum, sem rituð eru með stafrófsletri, þarf að nota rétt hljóð fyrir hvern staf eða samstöfu. Þetta er tiltölulega auðvelt í tungumálum sem fylgja föstum reglum, svo sem grísku, spænsku og súlú. Stundum hefur erlendur uppruni orða hins vegar áhrif á framburð með þeim afleiðingum að ákveðinn stafur eða samstafa hefur breytilegan framburð eða fellur niður í framburði, og þetta getur málnotandinn þurft að æfa og leggja á minnið. Í kínversku þurfa málnotendur að læra þúsundir tákna og framburð þeirra. Í sumum tungumálum er merking orðs breytileg eftir tónhæð þannig að merkingin brenglast ef tónhæðin er ekki rétt.
Þegar orð hafa fleiri en eitt atkvæði þarf að gæta þess að aðaláherslan falli á rétt atkvæði. Í mörgum tungumálum eru áherslur mjög reglulegar. Séu undantekningar frá reglunni er stundum bætt inn áherslumerki til að auðvelda framburð. Málið vandast ef áherslur eru mjög óreglulegar og þá getur verið nauðsynlegt að leggja þær á minnið. Í íslensku fellur aðaláherslan langoftast á fyrsta atkvæðið og í samsettum orðum kemur aukaáhersla á upphaf síðari samsetningarliða. Oftast er hægt að átta sig á samsetningu orða með hjálp orðabókar.
Ýmislegt þarf að varast í framburði. Ofvöndun getur virkað tilgerðarleg eða jafnvel snobbuð og hið sama má segja um fornan eða úreltan framburð. Með slíkum framburði dregur mælandinn einungis athyglina að sjálfum sér. Hins vegar ber einnig að forðast hinar öfgarnar, óvandaðan og óskýran framburð eða latmæli. Um sumt af þessu er fjallað í kaflanum á undan, „Skýr framsögn.“
Það getur verið eilítið breytilegt eftir landshlutum hvað telst boðlegur framburður. Búast má við að aðflutt manneskja frá öðru málsvæði tali heimamálið með ákveðnum hreim. Sá sem er óviss um framburð einstakra orða og þeir sem eiga annað móðurmál en talað er á staðnum geta lært mikið af því að hlusta vandlega á þá sem tala heimamálið vel og reyna að líkja sem best eftir framburði þess. Við, vottar Jehóva, viljum prédika boðskapinn þannig að við göfgum hann og viljum gera hann sem skiljanlegastan fyrir þá sem búa á sama svæði og við.
Í daglegu tali er að jafnaði best að nota orð sem maður kann vel að fara með. Yfirleitt er framburður ekki til vandræða í daglegum samræðum. En í upplestri máttu búast við að rekast á orð sem þú notar ekki í daglegu tali. Og vottar Jehóva lesa oft upphátt. Við lesum upp úr Biblíunni þegar við vitnum fyrir fólki. Sumir bræður eru beðnir að lesa upp námsefnið í Varðturnsnámi eða bóknámi safnaðarins. Þá er mikilvægt að lesa rétt og nákvæmlega og draga ekki athygli frá boðskapnum með slæmum framburði.
Áttu erfitt með að bera fram sum af sérnöfnunum í Biblíunni? Reyndu þá að skipta nafninu niður í búta eða atkvæði og lestu það síðan hægt. Berðu öll atkvæðin fram. Lestu það svo aftur og auktu hraðann. Reyndu að ná eðlilegri hrynjandi í lestrinum og hafðu hugfast að aðaláherslan á næstum undantekningarlaust að falla á fyrsta atkvæðið. Ef tveir sérhljóðar standa saman á alltaf að bera þá báða fram, eins og til dæmis í borgarnafninu Aí. Tvöfaldir sérhljóðar tákna stundum langt sérhljóð, til dæmis í nafninu Kanaan, en stundum á að bera þá fram sem tvö sérhljóð. Það er til dæmis algengt þar sem orðliðurinn -el kemur fyrir, eins og í nafninu Jesreel. Tvíhljóðana au, ei og ey á alltaf að bera fram í einu atkvæði, en í sumum tilvikum getur átt að bera samstöfuna -au- fram sem tvö sérhljóð, eins og í nafninu Kapernaum.
Leiðir til úrbóta. Margir sem eru með framburðargalla vita ekki af því. Ef umsjónarmaður skólans gefur þér ábendingar um framburð skaltu taka þeim vel og gera þitt besta til að bæta þig. En hvað geturðu gert til úrbóta eftir að þér hefur verið bent á framburðargalla?
Þegar þér er úthlutað upplestrarverkefni geturðu byrjað á því að fletta upp orðum, sem þú þekkir ekki, í orðabók. Ef þú ert ekki vanur að nota orðabók geturðu fundið skýringu fremst í henni á þeim merkjum og skammstöfunum sem notuð eru í bókinni eða beðið einhvern að leiðbeina þér. Orðabækur sýna í mörgum tilfellum hvernig orð er samsett ef um samsett orð er að ræða og þannig er hægt að átta sig á aukaáherslum. Í sumum tilfellum eru orð hljóðrituð. Tvö eins orð geta haft ólíkan framburð eftir merkingu og þess er þá að jafnaði getið í orðabókinni. Ef þú flettir upp á orði til að kanna merkingu og framburð er gott að segja það nokkrum sinnum upphátt áður en bókinni er lokað.
Annað ráð til að bæta framburðinn er að fá einhvern, sem er vel heima í góðum framburði, til að hlusta á þig lesa og leiðrétta þig þegar þú gerir villur.
Þriðja ráðið til að bæta framburðinn er það að hlusta vel á fólk sem hefur góða framsögn og skýran framburð. Taktu eftir orðum sem það ber öðruvísi fram en þú myndir gera. Punktaðu þau hjá þér og æfðu þau. Þannig geturðu smám saman losað þig við framburðarlýti og bætt mál þitt.