Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.10. bls. 28-32
  • Agi sem getur gefið friðsælan ávöxt

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Agi sem getur gefið friðsælan ávöxt
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna svona hörð afstaða?
  • Skorið á öll tengsl?
  • Hvað um ættingja?
  • Úrskurður dómstólsins
  • Aginn er gagnlegur á marga vegu
  • Sýndu kristna hollustu þegar ættingja er vikið úr söfnuðinum
    Ríkisþjónusta okkar – 2002
  • Hvernig á að koma fram við þá sem er vikið úr söfnuðinum?
    „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
  • Hvers vegna er kærleiksríkt að víkja brotlegum úr söfnuðinum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Þegar ástvinur yfirgefur Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.10. bls. 28-32

Agi sem getur gefið friðsælan ávöxt

„Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:11.

1, 2. (a) Hvað veitir Guð í kærleika sínum samkvæmt Hebreabréfinu 12:9-11? (b) Í hvaða mynd getur aginn birst og hvaða gagnlegar afleiðingar getur það haft?

LEIDDU hugann aftur til æskudaga þinna. Manst þú eftir að foreldrar þínir hafi agað þig? Flest okkar gera það. Páll postuli notaði það sem dæmi þegar hann ræddi um aga frá Guði, eins og lesa má í Hebreabréfinu 12:9-11.

2 Föðurlegur agi Guðs, sem getur haft áhrif á líf okkar sem þjóna hans, getur birst í mörgum myndum. Ein er sú ráðstöfun hans að útiloka frá kristna söfnuðinum einstakling sem langar ekki lengur til að lifa eftir stöðlum Guðs eða neitar að gera það. Sá sem fær slíka harða hirtingu eða aga getur hugsanlega iðrast og snúið við. Samtímis fær söfnuður hinna trúföstu einnig aga í þeirri mynd að hann er minntur á mikilvægi þess að halda sér við hina háu staðla Guðs. — 1. Tímóteusarbréf 1:20.

3. Hver eru viðbrögð sumra við þeirri hugmynd að gera menn ræka?

3 En er það ekki harðneskjulegt að gera mann rækan úr söfnuðinum og neita síðan að tala við hann? Slíkt viðhorf kom fram nýverið við réttarhöld þar sem hlut átti að máli kona er hafði verið alin upp sem vottur Jehóva. Foreldrar hennar höfðu verið gerðir rækir. Hún var ekki gerð ræk en sagði sig sjálfviljug úr söfnuðinum bréflega. Söfnuðinum var þá einfaldlega tilkynnt að hún teldist ekki lengur einn votta Jehóva. Hún fluttist burt, en allmörgum árum síðar fluttist hún aftur á sömu slóðir og uppgötvaði þá að vottarnir vildu ekki tala við hana. Hún höfðaði þá mál fyrir dómstóli (í Bandaríkjunum). Hver varð dómsniðurstaðan og hvernig gæti hún snert þig? Til að skilja málið réttilega skulum við athuga hvað Biblían segir um brottrekstur úr söfnuðinum sem er skylt fyrirbæri.

Hvers vegna svona hörð afstaða?

4. Hvað gerist stundum í söfnuðinum? (Galatabréfið 6:1; Júdasarbréfið 23)

4 Flestir sannkristnir menn styðja drottinhollir Guð og réttlát lög hans. (1. Þessaloníkubréf 1:2-7; Hebreabréfið 6:10) Af og til kemur þó fyrir að einstaklingur víkur út af braut sannleikans. Vera kann að hann brjóti iðrunarlaust lög Guðs þrátt fyrir hjálp kristinna öldunga. Eins gæti hent að hann hafnaði trúnni með því að kenna falskar kenningar eða segði sig úr tengslum við söfnuðinn. Hvað ætti þá að gera? Slík atvik áttu sér stað jafnvel meðan postularnir voru á lífi og því skulum við athuga hvað þeir skrifuðu um málið.

5, 6. (a) Hvaða viturleg ráð eru okkur gefin um samskipti við þá sem drýgja alvarlega synd og iðrast ekki? (Matteus 18:17) (b) Hvaða spurningum stöndum við frammi fyrir?

5 Þegar maður í Korintu lifðu siðlausu lífi og iðraðist ekki sagði Páll söfnuðinum: „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ (1. Korintubréf 5:11-13) Frávillingar frá trúnni, svo sem Hýmeneus, áttu að fá sömu meðferð. „Ef einhver veldur klofningi á meðal ykkar skal hann áminntur einu sinni eða tvisvar ef þörf er á. Ef það dugar ekki skuluð þið ekkert hafa saman við hann að sælda eftir það, því að slíkur maður metur hlutina ranglega og syndgar af ásettu ráði.“ (Títusarbréfið 3:10, 11, Lifandi orð; 1. Tímóteusarbréf 1:19, 20) Rétt væri að sneiða einnig hjá hverjum þeim sem hafnaði söfnuðinum: „Þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss. En þetta varð til þess að augljóst yrði, að enginn þeirra heyrði oss til.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19.

6 Vonandi á slíkur einstaklingur eftir að iðrast svo að hægt sé að taka hann inn í söfnuðinn á ný. (Postulasagan 3:19) En mega kristnir menn, þar til það gerist, hafa einhvern takmarkaðan félagsskap við hann eða er nauðsynlegt að sniðganga hann algerlega? Ef svo er, hvers vegna?

Skorið á öll tengsl?

7. Hvaða tveim hópum syndara gerum við greinarmun á?

7 Kristnir menn eru ekki fálegir og kuldalegir við fólk. Við höfum eðlileg tengsl við nágranna okkar, vinnufélaga, skólafélaga og aðra og berum vitni fyrir þeim jafnvel þótt sumir séu ‚saurlífismenn, ágjarnir, ræningjar eða skurðgoðadýrkarar.‘ Páll sagði að við gætum ekki forðast þá algerlega ‚því að þá yrðum við að fara út úr heiminum.‘ En samkvæmt fyrirmælum hans gegndi öðru máli með „bróður“ sem hegðaði sér þannig. „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður en [hefur snúið aftur út á slíka vegu]. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ — 1. Korintubréf 5:9-11; Markús 2:13-17.

8. Hvað ráðlagði Jóhannes postuli í samband við burtræka?

8 Í ritum Jóhannesar postula finnum við svipuð ráð sem undirstrika hve rækilega kristnir menn eiga að forðast slíka einstaklinga: „Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. . . . Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn. Því að sá, sem biður hann vera velkominn [á grísku khairo], verður hluttakandi í hans vondu verkum.“a — 2. Jóhannesarbréf 9-11.

9, 10. (a) Hvað var gert við iðrunarlausa lögbrjóta í Ísrael og hvers vegna? (b) Hvað ættum við að láta okkur finnast um núgildandi samskiptareglur við burtræka syndara? (2. Pétursbréf 2:20-22)

9 Hvers vegna er svona einarðleg afstaða viðeigandi enn þann dag í dag? Til að fá svar við því skulum við íhuga hversu alvarlegar aðgerðir var kveðið á um í lögmáli Guðs til Ísraels. Þeir sem gerðust að yfirlögðu ráði sekir um ýmis alvarleg brot voru líflátnir. (3. Mósebók 20:10; 4. Mósebók 15:30, 31) Þegar það gerðist gat enginn, ekki einu sinni ættingjar, talað framar við hinn látna lögbrjót. (3. Mósebók 19:1-4; 5. Mósebók 13:1-5; 17:1-7) Þótt hinir drottinhollu Ísraelsmenn á þeim tíma hafi verið ósköp venjulegir menn með tilfinningar eins og við, vissu þeir að Guð er réttvís og kærleiksríkur og að lögmál hans verndaði siðferðilegan og andlegan hreinleika þeirra. Þeir gátu því viðurkennt að sú ráðstöfun hans að taka lögbrjóta af lífi væri góð og rétt grundvallarregla. — Jobsbók 34:10-12.

10 Við megum vera jafnviss um að sú ráðstöfun Guðs að kristnir menn skuli ekkert samneyti eiga við þann sem gerður hefur verið rækur fyrir syndir sínar og iðrunarleysi sé viturleg og vernd fyrir okkur. „Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir.“ (1. Korintubréf 5:7) Með því einnig að forðast menn sem hafa af ásettu ráði sagt sig úr félagi við söfnuðinn eru kristnir menn verndaðir fyrir gagnrýnum og vanþakklátum viðhorfum eða jafnvel fráhvarfshugmyndum sem ella gætu stofnað þeim í hættu. — Hebreabréfið 12:15, 16.

Hvað um ættingja?

11, 12. (a) Hvernig snerti það ættingja syndara í Ísrael til forna þegar hann var líflátinn? (b) Nefndu dæmi um þá blessun sem er hlýðni samfara.

11 Guð gerir sér vissulega ljóst að skyldfólk og ættingjar eiga oft hlut að máli er framfylgja þarf hinum réttlátu lögum hans að eiga engin mök við syndara. Eins og getið var hér á undan voru engin fjölskyldutengsl möguleg framar eftir að lögbrjótur í Ísrael hafði verið líflátinn. Meira að segja ef sonur var svallari og drykkjurútur áttu foreldrar hans að leiða hann fyrir dómarana, og ef hann iðraðist ekki áttu foreldrarnir að taka þátt í lífláti hans til að ‚útrýma hinu illa úr Ísrael.‘ (5. Mósebók 21:18-21) Þú getur rétt ímyndað þér að slíkt hefur ekki verið auðvelt fyrir foreldrana. Gerðu þér líka í hugarlund hvernig bræðrum, systrum, öfum eða ömmum syndarans hefur verið innanbrjósts. Samt sem áður gat það verið lífi þeirra til bjargar að láta hollustu sína við hinn réttláta Guð vera fjölskylduböndunum sterkari.

12 Tökum sem dæmi manninn Kóra sem var forsprakki uppreisnar gegn forystu Jehóva fyrir milligöngu Móse. Í sinni fullkomnu réttvísi sá Jehóva að Kóra þurfti að deyja. En öllum drottinhollum mönnum var ráðlagt þetta: „Víkið burt frá tjöldum þessara óguðlegu manna, og komið ekki nærri neinu því, er þeir eiga, að þér farist eigi vegna allra synda þeirra.“ Ættingjar, sem gátu ekki sætt sig við aðvörun Guðs, dóu með uppreisnarmönnunum. En sumir af ættingjum Kóra tóku þá viturlegu ákvörðun að vera drottinhollir Jehóva. Það bjargaði lífi þeirra og leiddi til blessunar síðar meir. — 4. Mósebók 16:16-33; 26:9-11; 2. Kroníkubók 20:19.

13. Hvað munu drottinhollir kristnir menn gera ef nákominn ættingi er gerður rækur eða aðgreinir sig frá söfnuðinum?

13 Þegar einhver er gerður rækur úr kristna söfnuðinum deyr hann ekki þegar í stað og þess vegna haldast fjölskylduböndin. Maður, sem gerður er rækur eða segir sig úr félagi við söfnuðinn, kann því að búa áfram með kristinni eiginkonu sinni og trúföstum börnum. Virðing fyrir dómum Guðs og aðgerðum safnaðarins fær konuna og börnin til að viðurkenna að með stefnu sinni hefur hann breytt þeim andlegu böndum sem voru milli þeirra. En þótt hann hafi verið gerður rækur rofna ekki við það fjölskyldu- eða hjúskaparböndin og því geta eðlileg samskipti haldið áfram og ástúð innan veggja heimilisins fengið að blómgast sem fyrr.

14. Hvaða boð frá Guði ætti að hafa áhrif á samskipti okkar við burtrækan eða aðgreindan ættingja sem ekki býr undir sama þaki og við?

14 Aðstaðan er önnur ef ættingi, sem hefur verið gerður rækur eða hefur aðgreint sig, býr ekki í innsta hring fjölskyldunnar og á heimilinu. Þá kann að vera hægt að hafa svo til engin samskipti við hann. Jafnvel þótt einhver fjölskyldumál krefjist vissra samskipta ætti svo sannarlega að halda þeim í lágmarki í samræmi við meginreglur Guðs: „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn [eða sekur um aðra grófa synd], . . . þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ — 1. Korintubréf 5:11.

15. Hvernig geta ættingjarnir haft stjórn á tilfinningum sínum í slíkum tilvikum? (Sálmur 15:1-5; Markús 10:29, 30)

15 Skiljanlegt er að þetta kunni að vera erfitt vegna fjölskyldubanda og tilfinninga, svo sem ástar afa og ömmu til barnabarna sinna. En hér reynir á hollustu við Guð eins og fram kemur í orðum systurinnar sem vitnað er í á bls. 28. Sá sem finnur til hryggðar og sársauka, er hinn burtræki ættingi hefur valdið, getur leitað hughreystingar og hvatningar í því fordæmi sem sumir af ættingjum Kóra settu. — Sálmur 84:11-13.b

Úrskurður dómstólsins

16-18. Hver var niðurstaða dómsmálsins, sem áður er getið, og hvað benti rétturinn enn fremur á?

16 Þér kann að leika forvitni á að vita hvernig dómsmálinu lyktaði sem konan höfðaði er fyrrverandi kunningjar hennar vildu ekki ræða við hana eftir að hún hafði kosið að afneita trú sinni og segja sig úr félagi við söfnuðinn.

17 Áður en réttarhöldin hófust úrskurðaði héraðsdómstóll henni umsvifalaust í óhag. Dómurinn byggðist á þeirri forsendu að dómstólar blandi sér ekki í ögunarmál kirkjufélaga. Hún áfrýjaði dóminum. Dómur áfrýjunardómstólsins var samhljóða og byggði á breiðari grunni, réttindum sem tryggð eru í fyrstu breytingargrein bandarísku stjórnarskrárinnar. Í dómsorðinu sagði: „Með því að sú venja að sniðganga brottræka er þáttur í trúariðkun votta Jehóva teljum við ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar um ‚frjálsa trúariðkun‘ . . . útiloka að [málshöfðandi] fái dæmt sér í vil. Ákærðu er samkvæmt stjórnarskrá tryggður réttur til að sniðganga einstakling. Því staðfestum við“ fyrri dóm héraðsdómstólsins.

18 Í dómsorði réttarins var haldið áfram: „Þegar vottar Jehóva neita að umgangast einstakling byggja þeir það á túlkun sinni á Biblíunni. Okkur er ekki heimilt að breyta þeirri túlkun. . . . Ákærðu er heimilt að iðka trú sína óhindrað. . . . Dómstólar rannsaka yfirleitt ekki ítarlega samband milli núverandi (eða fyrrverandi) meðlima kirkjufélaga. Kirkjufélög njóta mikils frjálsræðis í að aga meðlimi sína eða fyrrverandi meðlimi. Við tökum undir sjónarmið Jacksons dómara [fyrrum hæstaréttardómara] að ‚trúarathafnir, sem varða aðeins meðlimi trúarinnar, eigi að vera frjálsar — svo frjálsar sem frekast er unnt.‘ . . . Meðlimir þess kirkjufélags, sem [málshöfðandi] kaus að yfirgefa, hafa ákveðið að þeir vilji ekkert frekara samneyti eiga við hann. Við álítum þeim frjálst að taka slíka ákvörðun.“

19, 20. Hvers vegna getur sá sem er útilokaður frá söfnuðinum ekki krafist fébóta fyrir dómstóli?

19 Áfrýjunardómstóllinn féllst á að jafnvel þótt það hafi valdið konunni óþægindum að fyrrverandi félagar hennar hafi ekki viljað tala við hana, „þá myndi það að dæma henni bætur fyrir óáþreifanlegt eða tilfinningalegt tjón skerða rétt votta Jehóva til frjálsrar trúariðkunar sem stjórnarskráin kveður á um . . . Stjórnarskráin tryggir frelsi til trúariðkana og því fylgir sú krafa að samfélagið umberi þess konar tjón, sem [málshöfðandi] hefur þolað, sem gjald er sé vel þess virði að greiða til að standa vörð um rétt allra þjóðfélagsþegna til skoðanafrelsis í trúmálum.“ Þessi úrskurður hefur nú í vissum skilningi hlotið enn frekari staðfestingu. Konan lagði síðar fram beiðni um að æðsti dómstóll landsins tæki málið fyrir og hnekkti hugsanlega úrskurðinum gegn henni. Í nóvember árið 1987 neitaði hæstaréttur Bandaríkjanna að taka málið fyrir.

20 Í þessum mikilvæga dómsúrskurði hefur þess vegna verið staðfest að burtrækir einstaklingar eða þeir sem hafa aðgreint sig geta ekki krafist skaðabóta af vottum Jehóva fyrir að sniðganga sig.c Þar eð söfnuðurinn fylgir ófrávíkjanlega hinum fullkomnu fyrirmælum, sem við öll getum lesið í orði Guðs og farið eftir, á hinn brotlegi við engan að sakast nema sjálfan sig fyrir það tjón sem hann hefur með hátterni sínu kallað yfir sig.

Aginn er gagnlegur á marga vegu

21. Hvers vegna þarf að gæta jafnvægis í viðhorfum til brottrekstrar?

21 Þeir sem standa fyrir utan hafa stundum samúð með misgjörðamanni sem getur ekki lengur talað við meðlimi kristna safnaðarins. En er slík samúð ekki veitt óverðugum? Hugleiðum það gagn sem misgjörðamaðurinn og aðrir geta haft af afstöðu safnaðarins.

22, 23. Nefndu dæmi um gildi þess að hlýða Guði í viðhorfum okkar til burtrækra.

22 Sem dæmi þá tókum við eftir á blaðsíðu 28 athugasemd konu að nafni Lynette um þá ákvörðun að „hætta algerlega öllu samneyti“ við burtræka systur sína, Margaret. Hún og kristnir ættingjar hennar voru sannfærðir um að ‚aðferð Jehóva væri sú besta.‘ Og það er hún!

23 Systir Lynette sagði henni síðar: ‚Ef þið hefðuð gert lítið úr brottrekstrinum veit ég að ég hefði ekki gert jafnsnemma ráðstafanir til að verða aftur tekin inn í söfnuðinn og ég gerði. Það að vera algerlega útilokuð frá ástvinum mínum og nánu sambandi við söfnuðinn vakti með mér sterka löngun til að iðrast. Það rann upp fyrir mér hversu röng stefna mín væri og hve alvarlegt það væri að snúa baki við Jehóva.‘

24. Hvaða áhrif hafði afstaða systur einnar til brottrekstrar á hana og aðra?

24 Í öðru tilviki voru foreldrar konu að nafni Laurie gerðir rækir. Hún segir: ‚Samskipti mín við þá hættu aldrei heldur jukust. Er tíminn leið varð ég sífellt óvirkari. Að síðustu hætti ég meira að segja að sækja samkomur.‘ Síðan las hún efnið í Varðturninum þann 1. janúar 1982 sem lagði áherslu á heilræðin í 1. Korintubréfi 5:11-13 og 2. Jóhannesarbréfi 9-11. ‚Það var eins og kviknaði á peru hjá mér,‘ segir hún. ‚Ég vissi að ég yrði að gera breytingar. Ég skildi núna betur merkingu Matteusar 10:34-36. Foreldrar mínir áttu erfitt með að kyngja ákvörðun minni, því að sonur minn, fimm ára, er eina barnabarnið þeirra og þau halda mikið upp á hann.‘ Vonandi mun missir slíkra tengsla snerta hjörtu foreldranna eins og þau snertu hjarta Margaret. En þessi agi var Laurie til hjálpar. ‚Ég er aftur komin út í þjónustuna á akrinum. Hjónaband mitt er sterkara og fjölskyldulífið betra vegna breytingarinnar, og sjálfri líður mér betur.‘

25. Hvernig leit einstaklingur, sem hefur fengið inngöngu í söfnuðinn á ný, á aga Guðs?

25 Lítum að síðustu á tilfinningar einstaklings sem var gerður rækur en síðan tekinn inn í söfnuðinn aftur: ‚Ég vil þakka ykkur fyrir hinar gagnlegu og lærdómsríku greinar [nefndar hér á undan] um áminningu og burtrekstur. Ég er þakklát fyrir að Jehóva skuli elska þjóna sína nógu heitt til að sjá um að skipulaginu sé haldið hreinu. Það sem fólki fyrir utan kann að þykja harkalegt er bæði nauðsynlegt og í rauninni kærleiksríkt. Ég er þakklát fyrir að okkar himneski faðir er kærleiksríkur Guð og fús til að fyrirgefa.‘

26. Hvaða ávöxt réttlætis getum við uppskorið við það að þiggja aga? (Sálmur 94:10, 12)

26 Guð okkar, sem krefst þess að iðrunarlausum syndurum sé vikið úr söfnuðinum, er líka nógu kærleiksríkur til að leyfa að syndari fái að tilheyra söfnuðinum á nýjan leik ef hann iðrast og snýr við. (Sá sem hefur sjálfur aðgreint sig getur á sama hátt farið fram á að verða hluti af söfnuðinum á ný.) Eftir það getur hann notið hughreystingar kristinna manna sem munu staðfesta kærleika sinn til hans. (2. Korintubréf 2:5-11; 7:8-13) Eins og Páll postuli skrifaði: „Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ — Hebreabréfið 12:11.

[Neðanmáls]

a Jóhannes notar hér orðið khairo sem var kveðjuorð líkt og „góðan daginn“ eða „sæll.“ (Postulasagan 15:23; Matteus 28:9) Hann notaði ekki aspasomai (eins og í versi 13) sem merkir að „faðma í kveðjuskyni, bjóða velkominn“ og kann að hafa falið í sér mjög innilega kveðju, jafnvel faðmlög. (Lúkas 10:4; 11:43; Postulasagan 20:1, 37; 1. Þessaloníkubréf 5:26) Leiðbeiningarnar í 2. Jóhannesarbréfi 11 geta því merkt að ekki skuli einu sinni kasta stuttri kveðju á slíkan einstakling. — Sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. júlí 1985, bls. 31.

b Nánar er fjallað um afstöðu til burtrækra ættingja í Varðturninum þann 1. janúar 1982, bls. 26-31.

c Þótt fleiri hafi höfðað mál gegn vottum Jehóva af sama tilefni hefur enginn dómstóll dæmt vottum Jehóva í óhag vegna þeirrar afstöðu þeirra að sniðganga burtræka.

Minnisatriði

◻ Á hvaða vegu getur brottrekstur verið ein tegund aga?

◻ Hvers vegna er afstaða kristins manns til brottræks einstaklings önnur en afstaða hans til syndara í heiminum?

◻ Hvaða fyrirmæli Biblíunnar ætti að hafa í huga jafnvel ef ættingi er brottrækur?

◻ Hvaða úrskurð felldi áfrýjunardómstóll í máli sem aðgreindur einstaklingur höfðaði?

◻ Hvað má læra af athugasemdum ýmissa einstaklinga um brottrekstur?

[Innskot á blaðsíðu 28]

„Það að hætta algerlega öllu samneyti við [burtræka systur mína] Margaret var prófraun á hollustu okkar við fyrirkomulag Jehóva. Það gaf fjölskyldu okkar tækifæri til að sýna að við trúum því í raun að aðferð Jehóva sé best.“ — Lynette.

[Rammi á blaðsíðu 32]

Bannfæring — hver eru áhrif hennar?

Enski sagnfræðingurinn Edward Gibbon sagði um réttmæti og áhrif brottrekstrar í nánd við postulatímann:

„Það er óvéfengjanlegur réttur hvers samfélags að útiloka þá frá samfélagi sínu og gæðum sem hafna eða brjóta þær reglur sem settar hafa verið með almennu samþykki. . . . Afleiðingar bannfæringar voru bæði jarðneskar og andlegar að eðli. Kristinn maður, sem var bannfærður, var útilokaður frá allri hlutdeild í sakramenti hinna trúuðu. Bæði trúarleg og persónuleg vináttubönd voru rofin.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila