SAGA 65
Ester bjargar þjóð sinni
Ester var Gyðingur sem bjó í borginni Súsa í Persíu. Nebúkadnesar tók ættingja hennar frá Jerúsalem mörgum árum áður en hún fæddist. Mordekaí frændi hennar ól hana upp. Hann þjónaði Ahasverusi Persakonungi.
Ahasverus konungur vildi fá nýja drottningu. Þjónar hans komu með fallegustu konurnar í landinu til hans, þar á meðal var Ester. Af öllum þessum konum valdi konungurinn Ester til að vera drottning. Mordekaí sagði Ester að segja engum frá því að hún væri Gyðingur.
Stoltur maður sem hét Haman var yfir öllum höfðingjunum. Hann vildi að allir beygðu sig fyrir honum. Mordekaí neitaði að gera það og þá varð Haman svo reiður að hann vildi drepa hann. Þegar Haman komst að því að Mordekaí var Gyðingur gerði hann áætlun um að drepa alla Gyðingana í landinu. Hann sagði við konunginn: ‚Gyðingarnir eru hættulegir. Þú þarft að losa þig við þá.‘ Ahasverus sagði: ‚Gerðu það sem þú vilt við þá,‘ og síðan gaf hann honum vald til að búa til lög. Haman bjó til lög um að fólkið ætti að drepa alla Gyðingana á 13. deginum í adarmánuði. En Jehóva sá allt sem var að gerast.
Ester vissi ekki af þessum lögum. Mordekaí sendi henni afrit af þeim og sagði: ‚Farðu og talaðu við konunginn.‘ Ester sagði: ‚Allir sem fara til konungsins án þess að vera boðnir eru drepnir. Konungurinn hefur ekki boðið mér í 30 daga. En ég skal fara. Ef hann réttir fram sprotann sinn fæ ég að lifa, en ef hann gerir það ekki dey ég.‘
Ester fór inn í garðinn hjá höll konungsins. Þegar konungurinn sá hana rétti hann fram sprotann sinn. Hún fór til hans og hann spurði: ‚Ester, hvað get ég gert fyrir þig?‘ Hún sagði: ‚Mig langar að bjóða ykkur Haman í veislu.‘ Þegar þeir voru í veislunni bauð Ester þeim í aðra veislu. Í seinni veislunni spurði konungurinn aftur: ‚Hvað get ég gert fyrir þig?‘ Hún sagði: ‚Einhver ætlar að drepa mig og þjóð mína. Viltu vera svo góður að bjarga okkur?‘ Þá spurði konungurinn: ‚Hver ætlar að drepa ykkur?‘ Hún svaraði: ‚Það er þessi vondi maður, Haman.‘ Ahasverus varð svo reiður að hann lét drepa Haman eins og skot.
En það gat enginn tekið lög Hamans til baka, ekki einu sinni konungurinn. Konungurinn setti Mordekaí þess vegna yfir höfðingjana og gaf honum vald til að búa til ný lög. Mordekaí gerði lög sem leyfðu Gyðingunum að verja sig þegar ráðist var á þá. Á 13. deginum í adarmánuði sigruðu Gyðingarnir óvini sína. Og þaðan í frá héldu þeir upp á þennan sigur á hverju ári.
„Þið verðið leiddir fyrir landstjóra og konunga vegna mín til að bera vitni fyrir þeim og þjóðunum.“ – Matteus 10:18.