SAGA 66
Esra kenndi fólkinu lög Guðs
Það voru um 70 ár síðan Ísraelsmennirnir fengu að fara aftur til Jerúsalem. En sumir bjuggu enn þá á ýmsum stöðum í persneska heimsveldinu. Einn af þeim var prestur sem hét Esra. Hann kenndi lög Jehóva. Esra frétti að fólkið í Jerúsalem væri ekki að fylgja lögunum og hann langaði til að fara og hjálpa því. Artaxerxes Persakonungur sagði við hann: ‚Guð hefur gefið þér visku svo að þú getir kennt fólkinu lögin hans. Þú mátt fara og taka með þér alla sem vilja fara.‘ Esra kallaði saman alla sem vildu fara til Jerúsalem. Þeir báðu Jehóva um að passa þá á þessari löngu leið. Síðan lögðu þeir af stað.
Hópurinn kom til Jerúsalem fjórum mánuðum seinna. Höfðingjarnir þar sögðu við Esra: ‚Ísraelsmennirnir hafa óhlýðnast Jehóva og gifst konum sem tilbiðja falsguði.‘ Hvað gerði Esra? Hann kraup fyrir framan fólkið og fór með bæn: ‚Jehóva, þú hefur gert svo margt fyrir okkur en við höfum syndgað gegn þér.‘ Fólkið sá eftir að hafa syndgað, en það þurfti hjálp til að gera það sem var rétt. Esra valdi öldunga og dómara til að skoða málið. Þeir sem tilbáðu ekki Jehóva voru sendir í burtu á næstu þrem mánuðum.
Tólf ár liðu og á þeim tíma voru múrar Jerúsalem endurreistir. Eftir það safnaði Esra fólkinu saman á torginu til að lesa lög Guðs fyrir það. Þegar Esra opnaði bókina stóð fólkið upp. Hann lofaði Jehóva og fólkið lyfti höndunum til að sýna að það var sammála því sem hann sagði. Síðan las Esra lögin og útskýrði þau og fólkið hlustaði vel. Fólkið viðurkenndi að það hafði óhlýðnast Jehóva aftur og það grét. Næsta dag las Esra meira úr lögunum fyrir fólkið. Það skildi að bráðum átti að halda laufskálahátíðina. Það byrjaði strax að undirbúa hátíðina.
Hátíðin var í sjö daga og fólkið gladdist og þakkaði Jehóva fyrir góða uppskeru. Það hafði ekki verið haldin laufskálahátíð eins og þessi síðan Jósúa var á lífi. Eftir hátíðina safnaðist fólkið saman og bað: ‚Jehóva, þú bjargaðir okkur úr þrælkun, gafst okkur að borða í eyðimörkinni og gafst okkur þetta fallega land. En við vorum óhlýðin aftur og aftur. Þú sendir spámenn til að vara okkur við en við hlustuðum ekki. En þú varst þolinmóður. Þú stóðst við loforðið sem þú gafst Abraham. Núna lofum við að hlýða þér.‘ Fólkið skrifaði niður loforðið og höfðingjarnir, Levítarnir og prestarnir settu innsigli sitt á það.
„Þeir sem heyra orð Guðs og fara eftir því, þeir eru hamingjusamir.“ – Lúkas 11:28.