Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w23 október bls. 12-17
  • ‚Hann mun styrkja ykkur‘ – hvernig?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • ‚Hann mun styrkja ykkur‘ – hvernig?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HLJÓTUM STYRK MEÐ BÆN OG SJÁLFSNÁMI
  • FÁUM STYRK FRÁ BRÆÐRUM OG SYSTRUM
  • FRAMTÍÐARVONIN GETUR GEFIÐ OKKUR STYRK
  • Reyndu að líta aðra sömu augum og Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Jónas og stórfiskurinn
    Biblíusögubókin mín
  • Jónas – yfirlit
    Biblían – Nýheimsþýðingin
  • Jehóva veitir þér styrk
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
w23 október bls. 12-17

NÁMSGREIN 43

‚Hann mun styrkja ykkur‘ – hvernig?

“[Jehóva] mun efla ykkur, styrkja og gera óhagganleg.“ – 1. PÉT. 5:10.

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

YFIRLITa

1. Hvernig veitti Guð trúföstum þjónum sínum styrk áður fyrr?

ORÐ GUÐS lýsir trúföstum mönnum oft sem öflugum. En þeir upplifðu sig ekki alltaf sterka. Til dæmis fannst Davíð konungi hann stundum „óhaggandi eins og fjall“ en hann var líka stundum „óttasleginn“. (Sálm. 30:7) Samson var einstaklega sterkur þegar andi Guðs knúði hann. En hann viðurkenndi að án kraftsins frá Guði yrði hann ‚máttlítill og eins og allir aðrir menn‘. (Dóm. 14:5, 6; 16:17) Þessir trúföstu menn voru öflugir aðeins vegna þess að Jehóva gaf þeim styrk.

2. Hvers vegna sagði Páll að hann væri bæði veikburða og sterkur? (2. Korintubréf 12:9, 10)

2 Páll postuli viðurkenndi líka að hann þyrfti að fá styrk frá Jehóva. (Lestu 2. Korintubréf 12:9, 10.) Páll átti við heilsuvandamál að glíma, rétt eins og mörg okkar. (Gal. 4:13, 14) Honum fannst líka stundum erfitt að gera rétt. (Rómv. 7:18, 19) Og hann var stundum kvíðinn og óöruggur. (2. Kor. 1:8, 9) En þegar Páll var veikburða varð hann sterkur. Jehóva gaf honum kraftinn sem hann vantaði. Hann gerði Pál sterkan.

3. Hvaða spurningum verður svarað í þessari námsgrein?

3 Jehóva lofar líka að gefa okkur styrk. (1. Pét. 5:10) En við getum ekki vænst þess að fá þennan kraft án þess að leggja eitthvað af mörkum sjálf. Tökum dæmi. Vél getur knúið bíl áfram. En ökumaðurinn kemst ekki neitt nema hann stígi á bensíngjöfina. Á svipaðan hátt er Jehóva tilbúinn að gefa okkur þann kraft sem við þurfum en við þurfum að leggja eitthvað á okkur. Hverju hefur Jehóva séð okkur fyrir til að gera okkur sterk? Og hvað þurfum við að gera til að fá þennan kraft? Við fáum svör við þessum spurningum með því að sjá hvernig Jehóva styrkti þrjár biblíupersónur – Jónas spámann, Maríu móður Jesú og Pál postula. Við skoðum líka hvernig Jehóva styrkir þjóna sína nú á dögum á svipaðan hátt.

HLJÓTUM STYRK MEÐ BÆN OG SJÁLFSNÁMI

4. Hvernig getum við fengið kraft frá Jehóva?

4 Við getum fengið styrk frá Jehóva með því að leita til hans í bæn. Jehóva getur svarað slíkum bænum með því að gefa okkur kraftinn „sem er ofar mannlegum mætti“. (2. Kor. 4:7) Við styrkjumst líka þegar við lesum orð Jehóva og hugleiðum efni þess. (Sálm. 86:11) Boðskapur hans til okkar í Biblíunni er kraftmikill. (Hebr. 4:12) Þegar þú biður til Jehóva og lest í orði hans færðu styrkinn sem þú þarft til að halda út, viðhalda gleðinni og til að leysa erfitt verkefni. Skoðum hvernig Jehóva styrkti Jónas spámann.

5. Hvers vegna þurfti Jónas spámaður á styrk að halda?

5 Jónas spámaður þurfti á styrk að halda. Hann hafði hlaupist undan krefjandi verkefni sem Jehóva hafði gefið honum. Fyrir vikið týndi hann næstum því lífi í gríðarlegum stormi og stofnaði lífi skipsfélaga sinna í hættu. Þegar honum var varpað fyrir borð lenti hann á stað sem hann hafði aldrei verið á áður – í myrkum kviði á stórum fiski. Hvernig ætli Jónasi hafi liðið? Hélt hann að hann myndi deyja? Óttaðist hann kannski að Jehóva hefði hafnað sér? Jónas hlýtur að hafa verið óttasleginn.

 Myndir: 1. Jónas biður ákaft til Jehóva í kviði fisks. 2. Bróðir biður ákaft til Jehóva í svefnherberginu sínu. Biblía og snjallsími með heyrnatólum eru á rúminu við hliðina á honum.

Hvernig getum við fengið styrk í prófraunum eins og Jónas spámaður? (Sjá 6.–9. grein.)

6. Hvað gaf Jónasi styrk þegar hann var í kviði fisksins eins og sjá má af Jónasi 2:1, 2, 7?

6 Hvað gerði Jónas til að fá styrk þar sem hann lá einn og innilokaður? Hann leitaði til Jehóva í bæn. (Lestu Jónas 2:1, 2, 7.) Jónas var viss um að Jehóva myndi hlusta á auðmjúka og iðrunarfulla bæn hans þótt hann hefði óhlýðnast. Jónas hugleiddi líka Ritningarnar. Hvernig vitum við það? Bæn hans í Jónasi kafla 2 inniheldur hugmyndir sem má líka finna í Sálmunum. (Berðu til dæmis saman Jónas 2:2, 5 og Sálm 69:1; 86:7.) Það er greinilegt að Jónas þekkti þessi vers vel. Hann hugleiddi þessi vers í raunum sínum og sannfærðist um að Jehóva myndi hjálpa sér. Jónas komst seinna upp á þurrt land og var nú tilbúinn að takast á við næsta verkefni. – Jónas 2:10–3:4.

7, 8. Hvernig hefur bróðir einn á Taívan fengið styrk í prófraunum sínum?

7 Fordæmi Jónasar getur hjálpað okkur þegar við göngum í gegnum mismunandi erfiðleika. Zhimingb er bróðir á Taívan. Hann glímir við alvarlegt heilsuvandamál. Þar að auki hefur hann þurft að þola ofsafengna andstöðu fjölskyldu sinnar vegna trúar sinnar á Jehóva. Hann fær styrk frá Jehóva með því að biðja til hans og rannsaka Biblíuna. „Stundum þegar vandamál kemur upp verð ég svo óttasleginn að ég á erfitt með að róa mig niður og lesa í Biblíunni,“ viðurkennir hann. En hann gefst ekki upp. „Fyrst fer ég með bæn til Jehóva,“ segir hann. „Síðan set ég heyrnartólin á mig og hlusta á ríkissöngvana okkar. Stundum syng ég þá jafnvel lágum rómi þangað til ég róast. Síðan byrja ég að rannsaka Biblíuna.“

8 Sjálfsnám hefur styrkt Zhiming með óvæntum hætti. Þegar hann var til dæmis að jafna sig eftir stóra skurðaðgerð sagði hjúkrunarfræðingur honum að hann þyrfti að fá blóðgjöf því að blóðrauðinn væri orðinn of lágur. Kvöldið fyrir aðgerðina las Zhiming um systur sem hafði farið í sams konar aðgerð. Blóðrauðinn hjá henni hafði jafnvel farið lægra en hún afþakkaði blóðgjöf og náði sér. Þessi frásaga gaf Zhiming styrk til að vera trúfastur.

9. Hvað geturðu gert ef prófraunir hafa dregið úr þér kraft? (Sjá einnig myndir.)

9 Ertu stundum svo kvíðinn þegar þú glímir við erfiðleika að þú átt erfitt með að tjá þig í bæn? Eða hefurðu stundum ekki orku til að rannsaka Biblíuna? Mundu að Jehóva skilur aðstæður þínar fullkomlega. Þú getur verið viss um að hann gefur þér nákvæmlega það sem þú þarft, jafnvel þótt bæn þín sé einföld. (Ef. 3:20) Ef þér líður það illa líkamlega eða tilfinningalega að þú átt erfitt með að lesa og rannsaka Biblíuna gætirðu prófað að hlusta á hljóðupptökur af lestri á Biblíunni eða biblíutengdum ritum. Þú gætir líka hlustað á eitt af lögunum okkar eða horft á myndband á jw.org. Með því að leita til Jehóva í bæn og leita svara í andlegu fæðunni sem hann sér okkur fyrir ertu að biðja hann um að styrkja þig.

FÁUM STYRK FRÁ BRÆÐRUM OG SYSTRUM

10. Hvernig styrkja trúsystkini okkur?

10 Jehóva getur veitt okkur styrk fyrir atbeina bræðra okkar og systra. Þau geta verið okkur til „mikillar hughreystingar“ þegar við stöndum frammi fyrir prófraun eða eigum fullt í fangi með að sinna erfiðu verkefni. (Kól. 4:10, 11) Við þurfum sérstaklega á vinum að halda „á raunastund“. (Orðskv. 17:17) Þegar við erum veikburða geta trúsystkini okkar hjálpað okkur líkamlega, tilfinningalega og andlega. Skoðum hvernig María móðir Jesú fékk styrk frá öðrum.

11. Hvers vegna þurfti María á styrk að halda?

11 María þurfti á styrk að halda. Ímyndaðu þér hvað það hefur verið yfirþyrmandi fyrir hana þegar engillinn Gabríel sagði henni að hún myndi verða ófrísk jafnvel þótt hún væri ekki gift. Hún hafði enga reynslu af því að ala upp börn en hún átti að annast dreng sem myndi verða Messías. Og hvernig myndi María útskýra þetta fyrir Jósef unnusta sínum þar sem hún hafði aldrei haft kynmök? – Lúk. 1:26–33.

12. Hvernig fékk María þann styrk sem hún þurfti samkvæmt Lúkasi 1:39–45?

12 Hvernig fékk María styrk til að standa undir þessari einstöku og miklu ábyrgð? Hún leitaði hjálpar hjá öðrum. Hún bað til dæmis Gabríel um meiri upplýsingar varðandi málið. (Lúk. 1:34) Stuttu síðar ferðaðist hún alla leið til ‚fjalllendis Júda‘ til að heimsækja Elísabetu frænku sína. Það kom sér vel. Elísabet hrósaði Maríu og Jehóva innblés henni að bera fram hvetjandi spádóm um ófætt barn Maríu. (Lestu Lúkas 1:39–45.) María sagði að Jehóva hefði „unnið máttarverk með armi sínum“. (Lúkas 1:46–51) Hann notaði Gabríel og Elísabetu til að styrkja Maríu.

13. Hvað gerðist þegar systir í Bólivíu bað bræður og systur um hjálp?

13 Þú getur fengið styrk frá trúsystkinum þínum eins og María. Dasuri er systir í Bólivíu sem þurfti á slíkum styrk að halda. Pabbi hennar var greindur með ólæknandi sjúkdóm og var lagður inn á spítala. Hún vildi annast hann eins vel og hún mögulega gat. (1. Tím. 5:4) Það var ekki alltaf auðvelt. „Oft fannst mér ég ekki geta meir,“ viðurkennir hún. Bað hún um hjálp? Ekki til að byrja með. „Ég vildi ekki íþyngja bræðrum og systrum,“ segir hún. „Ég hugsaði með mér: ‚Það er Jehóva sem veitir mér þá hjálp sem ég þarf.‘ En síðan áttaði ég mig á því að ég einangraði mig frá öðrum. Ég var að reyna að takast ein á við vandamálin.“ (Orðskv. 18:1) Dasuri ákvað að skrifa fáeinum vinum sínum og útskýra aðstæður sínar. „Ég get ekki lýst því hvað ég fékk mikinn styrk frá kærum trúsystkinum mínum,“ segir hún. „Þau komu með mat á spítalann og deildu með mér hughreystandi biblíuversum. Það er yndislegt að finna að við erum ekki ein. Við erum hluti af stórri fjölskyldu Jehóva – fjölskyldu sem er fús að hjálpa manni, gráta með manni og berjast með manni.“

14. Hvers vegna ættum við að þiggja hjálp öldunganna?

14 Jehóva getur gefið okkur kraft fyrir tilstilli öldunganna. Þeir eru gjafir sem hann notar til að styrkja og endurnæra okkur. (Jes. 32:1, 2) Segðu öldungunum frá áhyggjum þínum þegar þér líður illa. Ekki hika við að þiggja hjálp þeirra. Með þeirra hjálp getur Jehóva gert þig sterkan.

FRAMTÍÐARVONIN GETUR GEFIÐ OKKUR STYRK

15. Hvaða von meta allir þjónar Jehóva mikils?

15 Vonin sem Biblían gefur okkur getur fyllt okkur krafti. (Rómv. 4:3, 18–20) Sem þjónar Guðs eigum við þá ómetanlegu von að geta lifað að eilífu – í endurreistri paradís á jörð eða í ríki hans á himnum. Von okkar gefur okkur styrk til að halda út í prófraunum, boða fagnaðarboðskapinn og sinna ýmsum verkefnum í söfnuðinum. (1. Þess. 1:3) Þessi sama von gaf Páli postula styrk.

16. Hvers vegna þurfti Páll postuli á styrk að halda?

16 Páll þurfti á styrk að halda. Hann líkti sjálfum sér við viðkvæmt leirker í bréfi sínu til Korintumanna. Hann var ‚aðþrengdur‘, ‚ráðvilltur‘, ‚ofsóttur‘ og ‚sleginn niður‘. Hann lenti jafnvel í lífshættu. (2. Kor. 4:8–10) Páll skrifaði þetta þegar hann var í þriðju trúboðsferð sinni. Og eftir að hann hafði skrifað þetta bréf lenti hann í meiri erfiðleikum. Hann átti eftir að lenda í múgárás, handtöku, skipbroti og fangelsun.

17. Hvað gaf Páli styrk til að halda út í prófraunum, samanber 2. Korintubréf 4:16–18?

17 Páll fékk styrk til að halda út með því að beina athyglinni að von sinni. (Lestu 2. Korintubréf 4:16–18.) Hann sagði Korintumönnum að jafnvel þótt líkami hans hrörnaði léti hann það ekki draga úr sér kjark. Hann einbeitti sér að framtíð sinni. Von hans um eilíft líf á himnum ‚var engu lík‘. Það var þess virði að halda út í öllum þeim erfiðleikum sem hann hafði mátt þola. Páll hugleiddi þessa von og ‚endurnýjaðist dag frá degi‘ fyrir vikið.

18. Hvernig hefur vonin gefið Tihomir og fjölskyldu hans styrk?

18 Tihomir er bróðir sem býr í Búlgaríu. Framtíðarvonin veitir honum mikinn styrk. Fyrir fáeinum árum missti hann yngri bróður sinn, Zdravko, í slysi. Eftir það glímdi hann um tíma við mikla sorg. Til að takast á við sorgina hafa hann og fjölskylda hans ímyndað sér hvernig upprisan verður. Hann segir: „Við tölum til dæmis saman um það hvar við munum hitta Zdravko, hvað við gefum honum að borða, hverjum við bjóðum í fyrstu veisluna þegar hann kemur aftur og hvað við segjum honum um síðustu daga.“ Tihomir og fjölskylda hans beina þannig athyglinni að voninni. Tihomir segir að það styrki þau til að halda út og bíða þess tíma þegar Jehóva reisir bróður hans aftur til lífs.

Heyrnarlaus systir horfir á tónlistarmyndbandið „The New World to Come“ á táknmáli og hugleiðir hvernig lífið verði í nýjum heimi. Hún sér sjálfa sig fyrir sér spila á selló með öðrum hljóðfæraleikurum.

Hvernig sérðu fyrir þér lífið í nýja heiminum? (Sjá 19. grein.)c

19. Hvað geturðu gert til að styrkja von þína? (Sjá einnig mynd.)

19 Hvernig geturðu styrkt von þína? Ef það er von þín að lifa að eilífu á jörðinni geturðu lesið lýsingu Biblíunnar á paradís og hugleitt hana. (Jes. 25:8; 32:16–18) Ímyndaðu þér hvernig lífið verður í nýjum heimi. Sjáðu sjálfan þig fyrir þér þar. Hvern sérðu? Hvað heyrirðu? Hvernig líður þér? Til að örva ímyndunaraflið geturðu skoðað myndir af paradís í ritum okkar eða horft á tónlistarmyndbönd eins og Loksins friður á jörð!, Paradís á næsta leiti eða Brátt kemur sú stund. Ef við tökum okkur tíma reglulega til að ímynda okkur lífið í nýja heiminum standa erfiðleikar okkar „stutt og eru léttbærir“. (2. Kor. 4:17) Vonin sem Jehóva hefur gefið þér getur veitt þér styrk til að halda út í erfiðleikum.

20. Hvernig getum við fengið kraft jafnvel þegar við erum veikburða?

20 Jafnvel þegar okkur finnst við veikburða ‚veitir Guð okkur kraft‘. (Sálm. 108:13) Jehóva hefur þegar séð til þess að þú hafir það sem þú þarft til að fá styrk frá honum. Þegar þú þarft hjálp til að vinna verkefni, halda út í prófraun eða viðhalda gleðinni skaltu leita til Jehóva í einlægri bæn og leita leiðsagnar hans með því að rannsaka orð hans. Þiggðu uppörvun bræðra þinna og systra. Taktu þér reglulega tíma til að hugsa um framtíðarvon þína. Þá mun ‚dýrlegur kraftur Guðs gefa þér þann styrk sem þú þarft til að halda út í öllu með þolinmæði og gleði‘. – Kól. 1:11.

HVERNIG GETURÐU FENGIÐ STYRK ...

  • með bæn og sjálfsnámi?

  • frá trúsystkinum?

  • með því að hugsa um framtíðarvonina?

SÖNGUR 33 Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva

a Þessi námsgrein getur veitt þeim hjálp sem finnst verkefni eða erfiðleikar yfirþyrmandi. Við komumst að því hvernig Jehóva styrkir okkur og hvað við getum gert til að fá hjálp frá honum.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c MYND: Heyrnarlaus systir hugleiðir loforð Biblíunnar og spilar tónlistarmyndband sem hjálpar henni að ímynda sér hvernig lífið verður í nýja heiminum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila