Búðu þig undir frelsun inn í nýjan heim
„Minnist konu Lots.“ — LÚKAS 17:32.
1. Hvaða sannsögulegt dæmi um frelsun Guðs er dregið fram í námsefni dagsins og hvernig getur það verið okkur til gagns?
EFTIR að hafa sagt frá því með hve stórkostlegum hætti Jehóva frelsaði Nóa og fjölskyldu hans nefndi hann annað sannsögulegt dæmi. Hann vakti athygli á björgun hins réttláta Lots er Sódómu og Gómorru var gereytt, eins og við lesum um í 2. Pétursbréfi 2:6-8. Söguatriðin eru varðveitt okkur til gagns. (Rómverjabréfið 15:4) Ef við tökum til íhugunar það sem gerðist í sambandi við þá frelsun getur það stuðlað að því að tryggja okkur vernd inn í nýjan heim Guðs.
Viðbrögð okkar við lífsháttum heimsins
2. Hvaða lifnaður Sódómu- og Gómorrubúa leiddi til þess að Guð eyddi þeim?
2 Fyrir hvað var þessum borgum og íbúum þeirra eytt? Pétur minnist á ‚svívirðilegan lifnað.‘ (2. Pétursbréf 2:7) Samkvæmt merkingu gríska orðsins, sem svo er þýtt, voru Sódómu- og Gómorrubúar sekir um rangsleitni sem lýsti óskammfeilinni lítilsvirðingu eða fyrirlitningu á lögum og yfirvaldi. Júdasarbréfið 7. vers segir að borgarbúar hafi ‚drýgt saurlifnað‘ og ‚stundað óleyfilegar lystisemdir.‘ Hin grófa siðspilling þeirra kom berlega í ljós þegar „mennirnir í Sódómu . . . bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva,“ umkringdi hús Lots og heimtaði að hann framseldi þeim gesti sína til að Sódómumenn gætu fullnægt á þeim rangsnúinni fýsn sinni. Og þeir hrópuðu fúkyrði að Lot þegar hann neitaði að verða við kröfu þeirra. — 1. Mósebók 13:13; 19:4, 5, 9.
3. (a) Hvernig bar það til að Lot og fjölskylda hans bjuggu í jafnspilltu umhverfi sem Sódóma var? (b) Hver voru viðbrögð Lots við siðspillingu Sódómubúa?
3 Lot hafði upphaflega flust til héraðsins í grennd við Sódómu þar eð landið bauð upp á efnalega velmegun. Síðar settist hann að í borginni sjálfri. (1. Mósebók 13:8-12; 14:12; 19:1) En Lot var ekki hlynntur lostafullu líferni karlmannanna í borginni, og þeir litu ekki á hann sem einn úr sínum hópi, trúlega sökum þess að hann og fjölskylda hans tóku ekki þátt í félagslífi þeirra. Eins og 2. Pétursbréf 2:7, 8 segir: „Lot . . . mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu. Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.“ Þetta ástand var erfið prófraun fyrir Lot, því að sem réttlátur maður hafði hann viðurstyggð á slíku hátterni.
4. (a) Hvað er líkt með aðstæðum nú og í Sódómu til forna? (b) Hver eru viðbrögð okkar við siðspillingu samtíðarinnar ef við líkjumst hinum réttláta Lot?
4 Siðferði mannlegs samfélags er einnig á mjög lágu stigi nú til dags. Víða um lönd stunda sífellt fleiri kynlíf fyrir hjónaband eða utan hjónabands. Jafnvel ungt fólk á skólaaldri er oft djúpt sokkið í þetta líferni og gerir gys að þeim sem ekki tekur þátt í því. Kynvillingar ganga fram fyrir opnum tjöldum og fara í kröfugöngur um götur stórborga til að krefjast viðurkenningar. Klerkar hafa einnig tekið þátt í siðspillingunni. Opinberlega eru þær kirkjur fáar sem veita kynvillingum og saurlífismönnum prestvígslu. Í reyndinni er hins vegar alls ekkert erfitt að finna kynvillinga, saurlífismenn og hjúskaparbrotsmenn meðal klerkastéttarinnar, eins og fréttir fjölmiðla hafa oftsinnis sagt frá. Kunnir trúarleiðtogar hafa meira að segja verið fluttir til annarra staða eða jafnvel verið neyddir til að segja af sér vegna kynlífshneykslismála. Unnendur réttlætisins eru ekki hlynntir slíkum óguðleik; þeir ‚hafa andstyggð á hinu vonda.‘ (Rómverjabréfið 12:9) Sérstaklega hryggir það þá þegar breytni manna, sem segjast þjóna Guði, varpar skugga á nafn hans og kemur óupplýstu fólki til að snúa með óbeit baki við öllum trúarbrögðum. — Rómverjabréfið 2:24.
5. Hvaða spurningu svarar eyðing Sódómu og Gómorru?
5 Ástandið versnar ár frá ári. Tekur það einhvern tíma enda? Já, það mun gera það! Örlög Sódómu og Gómorru til forna sýna berlega að á tilsettum tíma mun Jehóva Guð fullnægja dómi. Hann mun gjöreyða hinum óguðlegu og frelsa drottinholla þjóna sína.
Hver eða hvað kemur fyrst í lífinu?
6. (a) Hvaða tímabær lexía er fólgin í frásögunni af ungu mönnunum sem ætluðu að kvænast dætrum Lots? (b) Hvernig voru viðhorf væntanlegra eiginmanna prófraun fyrir dætur Lots?
6 Þeim einum verður þyrmt sem sýna sanna guðrækni. Við skulum í þessu sambandi íhuga það sem englar Jehóva sögðu við Lot áður en Sódómu og Gómorru var eytt. „Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan, því að við munum eyða þennan stað.“ Lot gekk þá út til að tala við ungu mennina sem ætluðu að kvænast dætrum hans. Hann hvatti þá margsinnis: „Standið upp skjótt og farið úr þessum stað, því að [Jehóva] mun eyða borgina.“ Samband þeirra við fjölskyldu Lots bauð þeim upp á sérstakt tækifæri til frelsunar, en þeir urðu þó sjálfir að gera eitthvað. Þeir urðu að sýna áþreifanlega að þeir hlýddu Jehóva. En þeir „hugðu, að [Lot] væri að gjöra að gamni sínu.“ (1. Mósebók 19:12-14) Þú getur ímyndað þér hvernig dætrum Lots hefur verið innanbrjósts þegar þær komust að raun um hvað gerst hafði. Það reyndi sannarlega á hollustu þeirra við Guð.
7, 8. (a) Hvernig brást Lot við er englarnir hvöttu hann til að flýja með fjölskyldu sína og hvers vegna var það óviturlegt? (b) Hvað þurftu Lot og fjölskylda hans að gera til að bjargast?
7 Í dögun næsta morgun ráku englarnir á eftir Lot. Þeir sögðu: „Statt þú upp skjótt! Tak þú konu þína og báðar dætur þínar, sem hjá þér eru, svo þú fyrirfarist ekki vegna synda borgarinnar.“ En hann „hikaði við.“ (1. Mósebók 19:15, 16) Hvers vegna? Hvað tafði hann? Voru það efnislegir hagsmunir hans í Sódómu — hið sama og hafði freistað hans til að setjast að á þessu svæði í byrjun? Ef hann vildi ekki yfirgefa þetta myndi hann farast með Sódómu.
8 Englarnir tóku þá í hönd honum, konu hans og dætrum og leiddu þau í flýti út úr borginni. Við borgarmörkin fyrirskipaði engill Jehóva: „Forða þér, líf þitt liggur við! Lít ekki aftur fyrir þig og nem hvergi staðar á öllu sléttlendinu, forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi.“ Enn hikaði Lot. Loks féllust englarnir á að hann gæti flúið til staðar sem ekki var svo fjarri og þá lagði hann og fjölskyldan á flótta. (1. Mósebók 19:17-22) Þau máttu ekki tefja frekar; líf þeirra lá við að þau hlýddu.
9, 10. (a) Hvers vegna tryggði það konu Lots ekki björgun þótt hún væri með manni sínum? (b) Hvaða prófraun var það fyrir Lot og dætur hans er kona Lots dó?
9 Þau voru þó ekki endanlega hólpin er þau voru komin burt frá Sódómu. Fyrsta Mósebók 19:23-25 segir okkur: „Sólin var runnin upp yfir jörðina, er Lot kom til Sóar. Og [Jehóva] lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi frá [Jehóva], af himni. Og hann gjöreyddi þessar borgir og allt sléttlendið og alla íbúa borganna og gróður jarðarinnar.“ En hvar var kona Lots?
10 Hún hafði flúið með manni sínum. En var hún fyllilega samþykk því sem hann var að gera? Ekkert bendir til þess að hún hafi á nokkurn hátt haft velþóknun á siðleysi Sódómubúa. En var kærleikur hennar til Guðs sterkari en ást hennar á heimili sínu og þeim efnislegu hlutum sem hún átti þar? (Samanber Lúkas 17:31, 32.) Þegar á reyndi kom í ljós hvað bjó í hjarta hennar. Þau voru líklega komin í grennd við Sóar, og voru kannski í þann mund að fara inn í borgina, þegar hún óhlýðnaðist og leit um öxl. Og eins og Biblían segir ‚varð hún að saltstöpli.‘ (1. Mósebók 19:26) Nú reyndi enn frekar á hollustu Lots og dætra hans. Var tryggð Lots við konu sína eða tryggð stúlknanna við móður sína sterkari kærleika þeirra til Jehóva sem var valdur að þessari ógæfu? Myndu þau halda áfram að hlýðnast Guði jafnvel þótt einhver þeim mjög nákominn reyndist honum ótrúr? Þau treystu algerlega á Jehóva og litu ekki um öxl.
11. Hvað höfum við lært hér um frelsun sem Jehóva veitir?
11 Já, Jehóva veit hvernig hann á að frelsa guðrækna menn úr freistingu og þrengingum. Hann veit hvernig hann á að frelsa heilar fjölskyldur sem eru sameinaðar í hreinni guðsdýrkun, og hann veit líka hvernig hann á að frelsa einstaklinga. Þegar þeir elska hann í sannleika er hann mjög tillitssamur í samskiptum við þá. „Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:13, 14) En frelsun hans er aðeins handa guðræknum mönnum, þeim sem eru guðræknir í sannleika og hlýða honum vegna hollustu við hann.
Kærleiksríkur undirbúningur undir meiri frelsun
12. Hvaða kærleiksríka ráðstöfun ætlaði Jehóva að gera áður en hann veitti þá frelsun sem við hlökkum svo til?
12 Jehóva útrýmdi ekki allri illsku að eilífu með því sem hann gerði á dögum Nóa og Lots. Eins og Ritningin segir var þetta eingöngu ‚viðvörun‘ um það sem koma skyldi. Áður en það gerðist ætlaði Jehóva að gera miklu meira í þágu þeirra manna sem elskuðu hann. Hann ætlaði að senda eingetinn son sinn, Jesú Krist, til jarðar. Þar myndi Jesús hreinsa nafn Guðs af röngum áburði með því að sýna þess konar hollustu sem hinn fullkomni Adam hefði getað sýnt Guði, en Jesús myndi gera það við langtum erfiðari skilyrði. Jesús myndi leggja fullkomið mannslíf sitt í sölurnar sem fórn, þannig að afkomendur Adams, sem iðkuðu trú á hann, gætu eignast það sem Adam glataði. Þá myndi Guð útvelja „litla hjörð“ trúfastra manna til að fara með völd ásamt Kristi í hinu himneska ríki, og síðan yrði safnað ‚miklum múgi‘ út úr öllum þjóðum til að mynda grundvöll nýs mannfélags. (Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 7:9) Þegar þeim áfanga væri náð myndi Guð veita þá stórfenglegu frelsun sem atburðirnir í tengslum við flóðið og eyðingu Sódómu og Gómorru voru viðvörun eða fyrirmynd um.
Hvers vegna ótvíræðar aðgerðir eru áríðandi
13, 14. Hvað getum við lært af því að Pétur skyldi nota eyðingu óguðlegra manna á dögum Lots og Nóa sem dæmi?
13 Nemendur orðs Guðs vita að Jehóva hefur við mörg tækifæri unnið máttarverk til að frelsa þjóna sína. Sjaldnast segir þó Biblían: ‚Eins og var á þeim tíma, þannig mun verða koma Mannsonarins.‘ Hvers vegna skyldi Pétur þá, vegna áhrifa heilags anda, einangra þessi tvö dæmi? Hvað er svona sérstakt við það sem gerðist á dögum Lots og Nóa?
14 Við finnum skýra vísbendingu í Júdasarbréfinu 7. versi þar sem við lesum að „Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær . . . liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.“ Já, tortíming hinna grófu syndara í þessum borgum var eilíf, líkt og tortímingin við endalok hinnar núverandi illu heimsskipunar verður. (Matteus 25:46) Flóðið á dögum Nóa er með sama hætti nefnt í því samhengi að verið er að ræða um eilífan dóm. (2. Pétursbréf 2:4, 5, 9-12; 3:5-7) Jehóva sýndi þannig fram á, með eyðingu óguðlegra manna á dögum Nóa og Lots, að hann muni frelsa þjóna sína með því að tortíma eilíflega þeim sem iðka ranglætið. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-10.
15. (a) Hvaða áríðandi aðvörun fá þeir sem ástunda óguðlega breytni? (b) Hvers vegna verður réttvísinni fullnægt á öllum þeim sem iðka ranglæti?
15 Jehóva hefur enga ánægju af eyðingu hinna óguðlegu og það hafa þjónar hans ekki heldur. Fyrir milligöngu votta sinna hvetur Jehóva fólk: „Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja?“ (Esekíel 33:11) Þegar menn eigi að síður láta ekki í ljós nokkra löngun til að hlýða ástríku kalli hans, heldur halda þverúðugir áfram sínum eigingjörnu lífsháttum, þá útheimtir virðing Jehóva fyrir heilögu nafni sínu og kærleikur hans til drottinhollra þjóna sinna, sem þjást af hendi óguðlegra manna, að hann fullnægi réttvísinni.
16. (a) Hvers vegna megum við treysta að frelsunin, sem spáð er, sé mjög nálæg? (b) Undan hverju er frelsunin og hvað tekur við?
16 Tími Guðs til að veita guðræknum mönnum frelsun er mjög nálægur! Þau viðhorf og þeir atburðir, er Jesús sagði fyrir sem tákn nærveru sinnar og endaloka heimskerfisins, eru auðsæir. Fyrstu þættir þessa tákns tóku að sjást fyrir nálega 75 árum og Jesús sagði að „þessi kynslóð“ myndi alls ekki líða undir lok áður en dómi Guðs yfir þessum óguðlega heimi yrði fullnægt. Þegar Jehóva ákveður að boðskapur Guðsríkis hafi verið prédikaður nægilega mikið um alla heimsbyggðina til vitnisburðar öllum þjóðum, þá mun endir þessa óguðlega heims koma og um leið verða guðræknir menn frelsaðir. (Matteus 24:3-34; Lúkas 21:28-33) Frelsaðir frá hverju? Þeim þrengingum og prófraunum sem þeir hafa mátt þola af hendi hinna óguðlegu, og þeim kringumstæðum sem hafa dag hvern þjakað unnendur réttlætisins. Það mun líka hafa í för með sér frelsun inn í nýjan heim þar sem sjúkdómar og dauði munu heyra fortíðinni til.
Hjálp Guðs með frelsun að markmiði
17. (a) Hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur? (b) Hvernig getum við, líkt og Nói, látið í ljós að við séum knúinn af ‚guðsótta‘?
17 Spurningin, sem við þurfum hvert og eitt okkar að íhuga, er sú hvort við séum reiðubúin fyrir þetta verk af hendi Guðs. Ef við treystum á sjálfa okkur eða eigin skilning á því hvað sé réttlæti, þá erum við ekki reiðubúin. En ef við erum, líkt og Nói, knúin af ‚ótta við Guð,‘ þá sýnum við með viðbrögðum okkar trú á handleiðslu Jehóva, og það mun verða okkur til frelsunar. — Hebreabréfið 11:7.
18. Hvers vegna er það mikilvægur þáttur í undirbúningi okkar fyrir björgun inn í nýjan heim að læra ósvikna virðingu fyrir guðræðislegri skipan?
18 Nítugasti og fyrsti sálmurinn lýsir fagurlega þeim sem njóta þeirrar verndar er Jehóva veitir jafnvel nú þegar. Vers 1 og 2 segja: „Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka, sá er segir við [Jehóva]: ‚Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!‘“ Hér er lýst hópi manna sem nýtur verndar Guðs líkt og ungar undir sterkum vængjum móður sinnar. Þeir treysta algerlega á Jehóva. Þeir viðurkenna að hann er hinn hæsti, hinn alvaldi. Þar af leiðandi virða þeir guðræðislegt yfirvald og lúta því, hvort sem því er beitt fyrir milligöngu foreldra eða ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Er hægt að segja það um okkur sem einstaklinga? Erum við, líkt og Nói, að læra að gera ‚allt sem Jehóva býður‘ okkur og nota hans aðferðir? (1. Mósebók 6:22) Ef svo er, þá erum við að láta Jehóva undirbúa okkur fyrir frelsun inn í nýjan, réttlátan heim sinn.
19. (a) Hvert er hið táknræna hjarta og hvers vegna er okkur lífsnauðsyn að gefa því gaum? (Orðskviðirnir 4:23) (b) Hvað getum við lært af fordæmi Lots um viðbrögð okkar við fólki heimsins?
19 Þessi undirbúningur felur einnig í sér að hinu táknræna hjarta okkar sé gaumur gefinn. „[Jehóva] prófar hjörtun.“ (Orðskviðirnir 17:3) Hann hjálpar okkur að gera okkur ljóst að það skiptir ekki máli hvað við virðumst vera hið ytra, heldur hinn innri maður, hjartað. Okkur nægir ekki bara að forðast að taka þátt í ofbeldi umheimsins eða siðleysi hans; við verðum líka að varast það að leyfa nokkru af þessu að vera lokkandi fyrir okkur eða finnast það skemmtilegt. Það eitt að slík löglaus verk skuli vera til ætti að vera þjakandi fyrir okkur, líkt og það var fyrir Lot. Þeir sem hata hið illa munu ekki leita færis á að taka þátt í því; en þeir sem ekki hata það veigra sér kannski við beinni þátttöku í því enda þótt þeir óski þess í huganum að þeir gætu tekið þátt í því. „[Jehóva] elskar þá er hata hið illa.“ — Sálmur 97:10.
20. (a) Á hvaða vegu varar Biblían okkur við efnishyggju? (b) Hvernig getum við gengið úr skugga um hvort hinar þýðingarmiklu lexíur Biblíunnar um efnishyggju hafi náð til hjartna okkar?
20 Í kærleika sínum er Jehóva að fræða okkur til að forðast ekki aðeins siðlausa breytni heldur líka lífshætti efnishyggjunnar. Orð hans ráðleggur okkur að ‚láta okkur nægja fæði og klæði.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:8) Nói og synir hans urðu að yfirgefa heimili sín þegar þeir gengu inn í örkina. Lot og fjölskylda hans urðu líka að yfirgefa heimili sitt og eigur til að bjarga lífi sínu. Hvað látum við okkur þykja vænst um? „Minnist konu Lots.“ (Lúkas 17:32) Jesús hvatti: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis.“ (Matteus 6:33) Gerum við það? Ef réttlátir staðlar Jehóva eru leiðarljós okkar, og ef boðun fagnaðarerindisins um ríkið er fremsta hugðarefni lífs okkar, þá erum við í sannleika að láta Jehóva undirbúa okkur fyrir frelsun inn í nýjan heim sinn.
21. Hvers vegna getum við réttilega vænst þess að fyrirheit Jehóva um frelsun rætist brátt?
21 Jesús sagði við guðrækna menn sem áttu að sjá uppfyllast táknið um nærveru hans sem konungur Guðsríkis: „Réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ (Lúkas 21:28) Hefur þú séð þetta tákn er það hefur verið að fullmótast í öllum smáatriðum? Þá skaltu treysta því að uppfylling fyrirheits Jehóva um frelsun sé mjög nálæg! Vertu algerlega sannfærður um að ‚Jehóva viti hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr þrengingu!‘ — 2. Pétursbréf 2:9.
Hvað hefur þú lært?
◻ Hvernig ættum við að bregðast við líferni heimsins, líkt og Lot?
◻ Hvernig var Lot og fjölskylda hans prófreynd jafnvel meðan flóttinn frá Sódómu stóð yfir?
◻ Hvernig undirstrika þau dæmi, sem Pétur notar, hversu áríðandi það er að taka skýra afstöðu með Jehóva núna?
◻ Hvaða mikilvæga lexíu er Jehóva að kenna um leið og hann býr þjóna sína undir frelsun?
Guð verndar þjóna sína líkt og fugl verndar unga undir sterkum vængjum sínum.