Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.9. bls. 23-28
  • Til viðhalds lífi á hungurtímum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Til viðhalds lífi á hungurtímum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Útbýting andlegrar fæðu
  • Hefnd, refsing eða miskunn?
  • Gnóttir andlegrar fæðu
  • „Ekki kem ég í Guðs stað“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Jehóva gleymdi ekki Jósef
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • Banvæn hungursneyð á nægtatímum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • „Heyrið nú hvað mig dreymdi“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.9. bls. 23-28

Til viðhalds lífi á hungurtímum

1. Hvaða viturlegar ráðstafanir gerði Jósef á nægtaárunum og með hvaða árangri?

STRAX og Jósef hafði verið skipaður matvælaráðherra fór hann hringferð um Egyptaland. Hann sá um að allt væri til reiðu þegar nægtaárin sjö gengu í garð. Nú gaf landið stórkostlega uppskeru! Jósef safnaði umframuppskeru af ökrunum umhverfis hverja borg í korngeymslur í borginni. Hann „hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströndu, ákaflega miklu, þar til hann hætti að telja, því að tölu varð eigi á komið.“ — 1. Mósebók 41:46-49.

2. Hverju þurfti fólk að fórna til að fá mat?

2 Nægtaárunum sjö lauk og hungursneyðin gekk í garð eins og Jehóva hafði sagt fyrir — hungursneyð ekki aðeins í Egyptalandi heldur „yfir allan heiminn.“ Þegar Egyptar tóku að svelta og heimtuðu brauð af Faraó svaraði hann: „Farið til Jósefs, gjörið það, sem hann segir yður.“ Jósef seldi Egyptum korn þar til fé þeirra þraut. Þá tók hann fénað þeirra fyrir greiðslu. Að lokum komu landsmenn til Jósefs og sögðu: „Kaup þú oss og ekrur vorar fyrir brauð, þá viljum vér með ekrum vorum vera þrælar Faraós.“ Þannig keypti Jósef allt landið af Egyptum handa Faraó. — 1. Mósebók 41:53-57; 47:13-20.

Útbýting andlegrar fæðu

3. Hver átti að sögn Jesús að miðla mat á réttum tíma?

3 Alveg eins og kornið, sem Jósef dreifði, var Egyptum til lífs, eins er hin sanna andlega fæða kristnum mönnum lífsnauðsynleg, en þeir eru orðnir þrælar Jehóva með því að vígjast honum fyrir milligöngu hins meiri Jósefs, Jesú Krists. Meðan jarðvistarþjónusta hans stóð sagði hann að smurðir fylgjendur hans myndu bera á því ábyrgð að útbýta þessari andlegu fæðu. Hann spurði: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.“ — Matteus 24:45, 46.

4. Hvernig svarar starf ‚þjónshópsins‘ til þeirra ráðstafana sem gerðar voru á dögum Jósefs?

4 Trúfastar leifar þessa ‚hyggna þjónshóps‘ beita nú á dögum öllum biblíulegum ráðum til að vígðir vottar Jehóva, svo og allt áhugasamt fólk í heiminum, njóti andlegrar fæðu sem viðheldur lífi þeirra. Þeir líta á þetta trúnaðarstarf sem heilaga skyldu og inna það af hendi sem heilaga þjónustu við Jehóva. ‚Þjónninn‘ hefur auk þess stofnað söfnuði og séð þeim fyrir biblíuritum í slíku magni að þeir hafi nóg „sáðkorn“ til að sá í þá akra sem þeir hafa umsjá með. Það svarar til daga Jósefs þegar hann safnaði fólkinu í borgir og sá því fyrir korni, ekki aðeins til viðurværis heldur líka til útsæðis með síðari uppskeru í huga. — 1. Mósebók 47:21-25; Markús 4:14, 20; Matteus 28:19, 20.

5. (a) Hvaða sérstakan gaum gefur ‚þjónninn‘ heimafólkinu á krepputímum? (b) Hvernig er hin andlega fæða ársins 1986 í samanburði við matvælabirgðirnar á dögum Jósefs?

5 Jafnvel þegar hin opinbera prédikun er bönnuð og vottar Jehóva ofsóttir lítur hinn ‚trúi þjónn‘ á þessa miðlun andlegrar fæðu sem heilagt trúnaðarstarf. (Postulasagan 5:29, 41, 42; 14:19-22) Þegar náttúruhamfarir verða, svo sem stormar, flóð og jarðskjálftar, sér ‚þjónninn‘ um að bæði líkamlegum og andlegum þörfum heimamanna Guðs sé fullnægt. Hinu prentaða orði hefur verið komið til þjóna Guðs jafnvel í fangabúðum. Landamæri þjóða í milli fá ekki stöðvað straum andlegrar fæðu til þeirra sem þarfnast hennar. Það að halda straumi andlegrar fæðu gangandi krefst hugrekkis, trúar á Jehóva og oft töluverðrar hugvitssemi. Árið 1986 framleiddi ‚þjónninn‘ um allan heim straum 43.958.303 biblía og innbundinna bóka, auk 550.216.455 tímarita — sannarlega ‚sem sandur á sjávarströndu, ákaflega mikið.‘

Hefnd, refsing eða miskunn?

6, 7. (a) Hvernig varð hungursneyðin til þess að tíu hálfbræður Jósefs féllu fram fyrir honum? (b) Á hvaða vegu var Jósef sjálfur prófreyndur núna?

6 Með tíð og tíma náði hungursneyðin til Kanaanlands. Jakob sendi hina tíu hálfbræður Jósefs niður til Egyptalands til að kaupa korn. Hann lét þó ekki Benjamín, eina albróður Jósefs, fara með, því hann var hræddur við að „honum kynni að vilja eitthvert slys til.“ Þar eð Jósef einn seldi korn komu bræður hans til hans og féllu fram fyrir honum. Þeir þekktu hann ekki en Jósef vissi strax hverjir þeir voru. — 1. Mósebók 42:1-7.

7 Jósef minntist nú draumanna sem hann hafði einu sinni dreymt um þá. En hvað átti hann að gera? Átti hann að koma fram hefndum? Átti hann í neyð þeirra að fyrirgefa þeim það sem þeir höfðu gert á hlut hans? Hvað um sorg og sálarkvöl föður hans? Átti hún að vera gleymd og grafin? Hvernig litu bræður hans núna á það mikla ranglætisverk sem þeir höfðu unnið? Jósef var líka reyndur í þessu máli. Yrðu athafnir hans í samræmi við viðhorf hins meiri Jósefs, Jesús Krists, síðar meir? Þeim er lýst í 1. Pétursbréfi 2:22, 23: „⁠‚Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.‘ Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“

8. Hvað hafði Jósef að leiðarljósi og hvaða hliðstæða er það í sambandi við Jesú og lærisveina hans?

8 Með því að Jósef sá hönd Jehóva að verki í þessum atburðum gætti hann þess vel að halda lög og meginreglur Jehóva. Á sama hátt var Jesús alltaf óðfús að gera vilja föður síns, því að hann ‚gefur eilíft líf hverjum sem trúir á hann.‘ (Jóhannes 6:37-40) Sem „erindrekar Krists“ inna smurðir lærisveinar hans af hendi sitt heilaga trúnaðarstarf að ‚tala til lýðsins öll lífsins orð.‘ — 2. Korintubréf 5:20; Postulasagan 5:20.

9, 10. (a) Hvað gerði Jósef núna og hvers vegna? (b) Hvernig sýndi Jósef umhyggju líkt og Jesús?

9 Jósef gerði ekki uppskátt við bræður sína hver hann væri. Þess í stað talaði hann hranalega við þá í gegnum túlk og sagði: „Þér eruð njósnarmenn.“ Þeir höfðu nefnt að þeir ættu yngri bróður og Jósef heimtaði að þeir sönnuðu heiðarleika sinn með því að koma með hann til Egyptalands. Jósef heyrði þá tala iðrunarfulla hver við annan um að þessi óvæntu umskipti hlytu að vera endurgjald fyrir það að hafa selt hann, Jósef, sem þræl. Jósef vék afsíðis og grét. Síðan lét hann fjötra Símeon sem gísl þangað til þeir kæmu aftur með Benjamín. — 1. Mósebók 42:9-24.

10 Jósef gerði þetta ekki til að hefna sín fyrir það ranglæti sem hann hafði mátt þola af þeirra hendi. Hann vildi einungis ganga úr skugga um að iðrun þeirra væri ósvikin, af öllu hjarta, svo að hann gæti sýnt þeim miskunn. (Malakí 3:7; Jakobsbréfið 4:8) Með umhyggjusemi, sambærilegri við þá sem Jesús átti eftir að sýna, bæði fyllti Jósef sekki þeirra með korni og lét setja peninga þeirra í sekk hvers og eins. Auk þess gaf hann þeim vistir til fararinnar. — 1. Mósebók 42:25-35; samanber Matteus 11:28-30.

11. (a) Hvað neyddist Jakob að lokum til að gera og hvers vegna féllst hann á það? (b) Hvernig gefa Rómverjabréfið 8:32 og 1. Jóhannesarbréf 4:10 okkur viðlíka tryggingu fyrir kærleika Guðs?

11 Tíminn leið og vistirnar, sem þeir höfðu keypt í Egyptalandi, gengu til þurrðar. Jakob bað synina níu um að fara aftur til Egyptalands og kaupa meira. Hann hafði áður sagt þeim um Benjamín: „Ekki skal sonur minn fara með yður, því að bróðir hans er dáinn og hann er einn eftir, og verði hann fyrir slysi á þeirri leið, sem þér farið, þá leiðið þér hærur mínar með harmi niður til heljar.“ Það var ekki fyrr en eftir miklar fortölur og boð Júda um að ganga persónulega í ábyrgð fyrir Benjamín að Jakob félst treglega á að leyfa þeim að taka drenginn með sér. — 1. Mósebók 42:36-43:14.

12, 13. (a) Hvernig reyndi Jósef hjartalag hálfbræðra sinna? (b) Hvernig gaf útkoman Jósef tilefni til að sýna miskunn?

12 Þegar Jósef sá að Benjamín var í för með bræðrum sínum bauð hann þeim í hús sitt og hélt þeim veislu. Hann gaf Benjamín fimmfaldan skammt á við hina. Síðan reyndi hann bræður sína enn á ný. Aftur lét hann alla peninga þeirra í sekk hvers og eins, en auk þess sérstakan silfurbikar sinn í sekk Benjamíns. Þegar þeir voru lagðir af stað sendi Jósef ráðsmann sinn á eftir þeim og lét hann saka þá um þjófnað og leita bikarsins í sekkjunum. Þegar hann fannst í sekk Benjamíns rifu bræðurnir klæði sín. Þeir voru leiddir aftur fram fyrir Jósef. Júda sárbændi hann um miskunn og bauðst til að verða þræll í stað Benjamíns svo að drengurinn kæmist aftur heim til föður síns. — 1. Mósebók 43:15-44:34.

13 Jósef hafði nú sannfærst um að hjartalag bræðra hans hefði breyst og réði ekki lengur við tilfinningar sínar. Eftir að hafa skipað öllum öðrum að yfirgefa salinn sagði Jósef: „Ég er Jósef, bróðir yðar, sem þér selduð til Egyptalands. En látið það nú ekki fá yður hryggðar, og setjið það ekki fyrir yður, að þér hafið selt mig hingað, því að til lífs viðurhalds hefir Guð sent mig hingað á undan yður . . . til þess að halda við kyni yðar á jörðinni og sjá lífi yðar borgið, til mikils hjálpræðis.“ Síðan sagði hann við bræður sína: „Hraðið yður nú og farið heim til föður míns og segið við hann: ‚ . . . Kom þú til mín og tef eigi. Og þú skalt búa í Gósenlandi og . . . ég skal sjá þér þar fyrir viðurværi, — því að enn verður hallæri í fimm ár — , svo að þú komist ekki í örbirgð, þú og þitt hús og allt, sem þitt er.‘⁠“ — 1. Mósebók 45:4-15.

14. Hvaða gleðitíðindi voru Jakob sögð?

14 Þegar Faraó frétti af bræðrum Jósefs sagði hann Jósef að láta taka vagna frá Egyptalandi til að flytja föður hans og alla ætt hans til Egyptalands, því að þeir skyldu fá besta landið til búsetu. Þegar Jakob frétti hvað gerst hefði lifnaði yfir honum og hann sagði: „Mér er það nóg, að Jósef sonur minn er enn á lífi. Ég vil fara og sjá hann áður en ég dey.“ — 1. Mósebók 45:16-28.

Gnóttir andlegrar fæðu

15. Frá hverjum fáum við nú andlega fæðu og hvers vegna getum við treyst að fá hana í ríkum mæli?

15 Hvað þýðir allt þetta fyrir okkur nútímamenn? Minnug andlegra þarfa okkar horfum við til hans sem langtum æðri en hinn góðgjarni Faraó á tímum Jósefs, til hins alvalda Drottins Jehóva sem veitir okkur viðurværi og leiðsögn í gegnum þessa myrku daga heims sem hungrar eftir sannindum Biblíunnar. Við höfum lagt okkur kappsamlega fram í þágu ríkis hans og komið með alla okkar tíund, ef svo má að orði komast, inn í forðabúr hans. Hann hefur örlátlega lokið upp fyrir okkur „flóðgáttum himinsins“ og úthellt yfir okkur „yfirgnæfanlegri blessun“! — Malakí 3:10.

16. (a) Hvar aðeins er andlega fæðu að fá nú á tímum? (b) Hvernig gengur að sá í akrana til gagns hungruðu mannkyni?

16 Við hægri hönd Jehóva situr matvælaráðherra hans og nú krýndur konungur, hinn dýrlega gerði Jesús Kristur. (Postulasagan 2:34-36) Rétt eins og menn þurftu á dögum Jósefs að selja sig í þrælkun til að halda lífi, eins þurfa allir sem nú á dögum vilja halda lífi að koma til Jesú og verða fylgjendur hans, vígðir Guði. (Lúkas 9:23, 24) Eins og Jakob sendi syni sína til Jósefs í fæðuleit, eins beinir Jehóva iðrunarfullum mönnum til ástkærs sonar síns, Jesú Krists. (Jóhannes 6:44, 48-51) Jesús safnar fylgjendum sínum í söfnuði líkum borgum — nú yfir 52.000 í heiminum. Þar er þeim ríkulega séð fyrir andlegri fæðu og gefið meira en nóg „sáðkorn“ til að sá í akrana. (1. Mósebók 47:23, 24; Matteus 13:4-9, 18-23) Þessir vottar um Jehóva eru fúsir verkamenn! Sífellt fleiri bjóða sig fram til þjónustu í fullu starfi sem brautryðjendur. Í einum mánuði á síðasta ári töldust þeir alls 595.896 sem þátt tóku í því starfi. Það samsvarar að meðaltali liðlega ellefu brautryðjendum í hverjum söfnuði!

17. Hvaða önnur spádómsfrásögn minnir á sameiningu Jósefs og hálfbræðra hans tíu?

17 Eftirtektarvert er að allir tíu hálfbræður Jósefs, sem nú höfðu iðrast fyrri viðhorfa og verka, sameinuðust honum í Egyptalandi, sem ásamt Sódómu táknar heiminn sem Jesús var staurfestur í. (Opinberunarbókin 11:8) Það minnir okkur á Sakaría 8:20-23 þar sem lýst er ‚tíu mönnum‘ er segja: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður,“ það er að segja með smurðum þjónum Jehóva sem enn eru leifar af hér á jörðinni.

18. Hverju nú á tímum samsvarar sérstök velvild Jósefs við Benjamín?

18 En hvað um hinn eina albróður Jósefs, Benjamín, sem kostaði ástkæra konu Jakobs, Rakel, lífið að fæða? Benjamín naut sérstakrar hylli Jósefs sem vafalaust fann sig nátengdari honum með því að þeir voru sammæðra. Það var vafalaust þess vegna sem Benjamín fékk fimmfalt stærri skammt en hinir þegar allir bræðurnir tólf voru fyrst saman komnir til veislu í húsi Jósefs. Er ekki Benjamín góð fyrirmynd um leifar smurðra votta nú á tímum, sem flestum hefur verið safnað við hlið Drottins frá 1919? Þessi ‚Benjamínhópur‘ hlýtur greinilega sérstakan hlut frá Jehóva, því að ‚andi hans ber vitni með anda þeirra.‘ (Rómverjabréfið 8:16) Ráðvendni þeirra hefur líka verið prófreynd meðan „sauðir“ Drottins hafa þjónað þeim. — Matteus 25:34-40.

19. Hvaða hliðstæða er með húsi Ísraels, sem flutti til Gósenlands, og fólki Guðs sem nú er safnað saman?

19 Athyglisvert er að þegar Faraó lét flytja Jakob og heimilisfólk hans til Egyptalands settust þar að 70 karlmenn. (1. Mósebók 46:26, 27) Talan 70 er margfelldi af 7 og 10, og báðar þessar tölur hafa sérstaka þýðingu í Biblíunni. Talan 7 táknar oft himneskan fullkomleika en talan 10 jarðneskan. (Opinberunarbókin 1:4, 12, 16; 2:10; 17:12) Þetta er hliðstætt því ástandi, sem nú er, þegar við megum vænta þess að Jehóva safni inn í „land“ sitt, hina andlegu paradís sem við gleðjumst nú yfir, hverri einustu fjölskyldu votta sinna. (Samanber Efesusbréfið 1:10.) „[Jehóva] þekkir sína,“ og jafnvel núna er hann að úthluta dvalarstað „þar sem landkostir eru bestir“ eins og Gósenland var í tíð Faraós. — 1. Mósebók 47:5, 6; 2. Tímóteusarbréf 2:19.

20. Hvers vegna ber okkur að gleðjast þrátt fyrir hungursneyð okkar tíma?

20 Á dögum Jósefs sigldu kreppuár í kjölfar nægtaáranna. Núna ber þau upp samtímis. Ólíkt hinu andlega hungri í landinu utan velvildar Jehóva er gnótt andlegrar fæðu þar sem Jehóva er tilbeðinn. (Jesaja 25:6-9; Opinberunarbókin 7:16, 17) Já, þótt í kristna heiminum ríki hungur eftir að heyra orð Jehóva, eins og Amos sagði fyrir, gengur orð Jehóva út frá hinni himnesku Jerúsalem. Það er okkur mikið fagnaðarefni! — Amos 8:11; Jesaja 2:2, 3; 65:17, 18.

21. (a) Hvaða mikilla sérréttinda njótum við núna? (b) Fyrir hvað ber okkur að vera þakklát og hvernig látum við það í ljós?

21 Undir forystu hins meiri Jósefs, Jesú Krists, höfum við nú þau miklu sérréttindi að láta safna okkur inn í söfnuði sem líkja má við borgir. Þar getum við nært okkur á gnótt andlegrar fæðu. Auk þess getum við sáð frækornum sannleikans og flutt þau gleðitíðindi að hægt sé að fá andlega fæðu. Það gerum við til gagns öllum sem gangast undir skilyrði hins alvalda drottnara, Jehóva, og vilja þiggja kærleiksríkar ráðstafanir hans. Við erum Jehóva þakklátir fyrir þá gjöf, sem hann hefur gefið okkur í syni sínum, hinum meiri Jósef, sem sér um viturlega útbýtingu andlegrar fæðu. Það er hann sem Jehóva hefur falið að vernda líf manna á þessum andlegu hungurtímum. Megum við öll sýnum af okkur kostgæfni í að veita heilaga þjónustu eftir fordæmi hans og undir forystu hans!

Sérð þú hliðstæðurnar?

◻ Hvernig líktist Jósef sem matvælaráðherra Jesú?

◻ Hvað í sjónleiknum um Jósef svarar til þess að vígjast Guði og verða þrælar hans?

◻ Hvaða eiginleiki Jósefs og Jesú eru okkur til eftirbreytni?

◻ Hvernig er matvæladreifing vel skipulögð nú á tímum, líkt og á dögum Jósefs?

◻ Til hvers ætti þessi spádómlegi sjónleikur að hvetja okkur?

[Myndir á blaðsíðu 24]

Í heimi, þar sem ríkir andlegt hungur, sér hinn meiri Jósef öllum sem koma til hans í trú fyrir ríkulegri fæðu.

Líkt og hinir tíu hálfbræður Jósefs sýndu honum undirgefni lætur múgurinn mikli Krist leiða sig.

Líkt og hinar 70 sálir af húsi Jakobs verður full tala ‚sauða‘ Jehóva leidd inn í gott „land“ — hina andlegu paradís sem við nú njótum.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Benjamínhópur nútímans hefur notið sérstakrar velvildar Krists, því að hann hefur fengið gnóttir ‚matar á réttum tíma.‘

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila