Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.10. bls. 26-31
  • Hvers vegna vottar Jehóva halda vöku sinni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna vottar Jehóva halda vöku sinni
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Lærisveinarnir leituðust við að halda vöku sinni
  • Þeir sem hættu að halda vöku sinni
  • Árangur aukinnar árvekni
  • Hvernig nokkrir reyndust árvakrir
  • Heldur þú vöku þinni?
  • Verið viðbúnir!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Ríki Guðs stofnsett á himnum
    Ríki Guðs stjórnar
  • Líkjum eftir Jesú og vökum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Haltu vöku þinni — stund dómsins er komin!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.10. bls. 26-31

Hvers vegna vottar Jehóva halda vöku sinni

„Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ — MATTEUS 24:42.

1. Við hverja á áminningin um að ‚halda vöku sinni‘?

ÞESSI áminning Biblíunnar á við sérhvern þjón Guðs — hvort sem hann er ungur eða gamall, hvort sem hann er nýlega vígður eða á langa þjónustu að baki: „Vakið.“ (Matteus 24:42) Hvers vegna er það þýðingarmikið?

2, 3. (a) Hvaða tákni lýsti Jesús greinilega og hvað hefur uppfylling spádóma sýnt? (b) Hvaða aðstæður, sem Matteus 24:42 vísar til, reyna á hvort trú okkar sé ekta, og hvernig?

2 Þegar Jesús var um það bil að ljúka þjónustu sinni á jörðinni spáði hann hver yrðu tákn ósýnilegrar nærveru hans sem konungur Guðsríkis. (Matteus, 24. og 25. kafli) Hann lýsti greinilega þessum tíma þegar hann yrði nærverandi sem konungur — og atburðir, sem hafa uppfyllt spádómana, sýna að hann var krýndur sem konungur á himni árið 1914. Hann benti einnig á aðstæður sem myndu reyna á hvort trú okkar væri ekta. Það var í tengslum við þann tíma, er hann myndi láta til skarar skríða sem aftökumaður til að eyða hinu núverandi illa heimskerfi í þrengingunni miklu, sem Jesús sagði: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ Hann var með það í huga þegar hann sagði: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ — Matteus 24:36, 42.

3 Ef við segjumst vera kristnir menn ættum við að lifa sem kristnir menn á hverjum degi af því að við vitum ekki daginn og stundina þegar þrengingin mikla hefst. Notar þú líf þitt þannig að það leiði til velþóknunar Drottins þegar þrengingin mikla kemur? Ef þú deyrð áður en hún kemur mun þá minning hans um þig vera sú að þú hafir þjónað Jehóva af trúfesti allt til þess að lífi þínu lauk? — Matteus 24:13; Opinberunarbókin 2:10.

Lærisveinarnir leituðust við að halda vöku sinni

4. Hvað getum við lært af fordæmi Jesú um að halda andlegri vöku okkar?

4 Jesús Kristur gaf sjálfur besta fordæmið sem maður er hélt andlegri vöku sinni. Hann bað oft og ákaft til föður síns. (Lúkas 6:12; 22:42-44) Þegar hann stóð andspænis prófraunum reiddi hann sig skilyrðislaust á leiðbeiningarnar sem Ritningin inniheldur. (Matteus 4:3-10; 26:52-54) Hann leyfði ekki að athygli hans beindist burt frá því starfi sem Guð hafði falið honum. (Lúkas 4:40-44; Jóhannes 6:15) Myndu þeir sem litu á sig sem fylgjendur Jesú halda vöku sinni jafn vel?

5. (a) Hvers vegna áttu postular Jesú í erfiðleikum með að standa traustum fótum andlega? (b) Hvaða hjálp veitti Jesú postulum sínum eftir upprisu sína?

5 Fyrir kom að jafnvel postular Jesú urðu reikulir í rásinni. Vegna ranghugmynda eða of mikils ákafa þurftu þeir að horfast í augu við vonbrigði. (Lúkas 19:11; Postulasagan 1:6) Áður en þeir lærðu að reiða sig algerlega á Jehóva misstu þeir fótanna þegar prófraunir komu skyndilega yfir þá. Þannig flýðu postular Jesú þegar hann var handtekinn. Seinna þá sömu nótt neitaði Pétur hvað eftir annað jafnvel að þekkja Krist. Postularnir höfðu ekki enn þá tekið til sín ráðleggingu Jesú: „Vakið og biðjið.“ (Matteus 26:41, 55, 56, 69-75) Eftir að Jesús hafði verið reistur upp frá dauðum notaði hann Ritninguna til að styrkja trú þeirra. (Lúkas 24:44-48) Og þegar útlit var fyrir að sumir þeirra kynnu að láta þjónustuna, sem þeim hafði verið treyst fyrir, ekki ganga fyrir öllu öðru styrkti Jesús þá í þeim ásetningi að einbeita sér að verkefninu sem mestu máli skipti. — Jóhannes 21:15-17.

6. Við hvaða tveimur snörum hafði Jesús áður varað lærisveina sína?

6 Jesús hafði áður gefið lærisveinum sínum þá viðvörun að þeir ættu ekki að vera af heiminum. (Jóhannes 15:19) Hann ráðlagði þeim líka að drottna ekki hver yfir öðrum heldur þjóna saman sem bræður. (Matteus 20:25-27; 23:8-12) Fóru þeir eftir ráðleggingum hans? Höfðu þeir í fyrirrúmi það verk sem hann hafði falið þeim?

7, 8. (a) Hvernig sýnir sagan að kristnir menn á fyrstu öldinni tóku til sín áminningu Jesú? (b) Hvers vegna var mikilvægt að halda áfram að vera andlega vakandi?

7 Svo lengi sem postularnir voru á sjónarsviðinu stóðu þeir vörð um söfnuðinn. Sagan ber því vitni að frumkristnir menn hafi ekki blandað sér í stjórnmál Rómaveldis og að þeir hafi ekki haft upphafna klerkastétt. Á hinn bóginn voru þeir ákafir boðbendur Guðsríkis. Við lok fyrstu aldar höfðu þeir borið vitni út um allt Rómaveldi og gert menn að lærisveinum í Asíu, Evrópu og Norður-Afríku. — Kólossubréfið 1:23.

8 En þessi árangur prédikunarstarfsins þýddi ekki að engin þörf væri lengur á því að halda andlegri vöku sinni. Enn var endurkomu Jesú, sem spáð hafði verið, langt að bíða. Og þegar önnur öld okkar tímatals rann upp komu upp aðstæður hjá söfnuðinum sem stofnuðu andlegu hugarfari kristinna manna í hættu. Hvernig þá?

Þeir sem hættu að halda vöku sinni

9, 10. (a) Hvaða framvinda eftir dauða postulanna sýndi að margir sem játuðu kristni héldu ekki vöku sinni? (b) Hvaða ritningarstaðir, sem vísað er til í þessari tölugrein, hefðu getað hjálpað þeim sem játuðu kristna trú að halda áfram að vera andlega sterkir?

9 Sumir, sem komu inn í söfnuðinn, fóru að tjá trúarskoðanir sínar með hugtökum grískrar heimspeki til þess að gera það sem þeir prédikuðu meðtækilegra fyrir fólk í heiminum. Smám saman urðu heiðnar kenningar, svo sem um þrenningu og meðfæddan ódauðleika sálarinnar, hluti af spilltri útgáfu kristninnar. Það varð til þess að menn sneru baki við voninni um þúsundáraríkið. Hvers vegna? Þeir sem tóku að trúa á ódauðleika sálarinnar ályktuðu sem svo að blessun stjórnar Krists myndi öll veitast í andaheiminum þegar sálin lifði líkamsdauðann. Þeir sáu því enga þörf á að vaka eftir nærveru Krists og komu Guðsríkis. — Samanber Galatabréfið 5:7-9; Kólossubréfið 2:8; 1. Þessaloníkubréf 5:21.

10 Ýmis önnur framvinda ýtti undir þetta ástand. Sumir, sem sögðust vera kristnir umsjónarmenn, fóru að nota söfnuði sína sem tæki til upphefðar sjálfum sér. Lævíslega gáfu þeir sínum eigin skoðunum og kenningum sama vægi og Ritningunni, eða jafnvel meira. Þegar tækifærið gafst bauð þessi fráfallna kirkja sig jafnvel fram til að þjóna hagsmunum hins pólitíska ríkis. — Postulasagan 20:30; 2. Pétursbréf 2:1, 3.

Árangur aukinnar árvekni

11, 12. Hvers vegna leiddi siðbót mótmælenda ekki til afturhvarfs til sannrar guðsdýrkunar?

11 Eftir aldalanga valdníðslu rómversk-kaþólsku kirkjunnar létu sumir siðbótarmenn í sér heyra á 16. öld. En það var ekki afturhvarf til sannrar guðsdýrkunar. Hvers vegna ekki?

12 Enda þótt ýmsir mótmælendahópar brytust undan valdi Rómar tóku þeir með sér margar af undirstöðukenningum og iðkunum fráhvarfsins: Þeir héldu í hugmyndina um skiptingu klerka og leikmanna, einnig trúna á þrenninguna, ódauðleika sálarinnar og eilífar kvalir eftir dauðann. Og, líkt og rómversk-kaþólska kirkjan, héldu þeir áfram að vera hluti af heiminum og voru nátengdir stjórnmálaöflunum. Þess vegna höfðu þeir tilhneigingu til að ýta frá sér hvers kyns eftirvæntingu eftir komu Krists sem konungs.

13. (a) Hvað sýnir að sumir mátu Guðs orð sannarlega mikils? (b) Hvaða viðburður vakti sérstakan áhuga nokkurra sem játuðu kristna trú á 19. öldinni? (c) Hvers vegna urðu margir fyrir vonbrigðum?

13 En Jesús hafði spáð að eftir dauða postulanna myndu hinir sönnu erfingjar Guðsríkis (sem hann líkti við hveiti) halda áfram að vaxa við hliðina á gervikristnum mönnum (eða illgresi) fram að uppskerutímanum. (Matteus 13:29, 30) Við getum ekki nú á tímum talið upp með nokkurri vissu alla þá er húsbóndinn leit á sem hveiti. En það er eftirtektarvert að á 14., 15. og 16. öld hættu ýmsir menn lífi sínu og frelsi til að snúa Biblíunni á tungu almennings. Aðrir viðurkenndu ekki aðeins Biblíuna sem orð Guðs heldur höfnuðu líka þrenningarkenningunni sem óbiblíulegri. Sumir höfnuðu trú á ódauðleika sálarinnar og kvalir í helvíti sem algerlega ósamhljóða orði Guðs. Þar að auki, vegna aukinna rannsókna á Biblíunni, byrjuðu á 19. öld hópar í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Englandi og Rússlandi að láta í ljós þá sannfæringu að endurkomutími Krists væri að renna upp. En flestar væntingar þeirra enduðu með vonbrigðum. Hvers vegna? Að töluverðu leyti var það vegna þess að þeir reiddu sig of mikið á menn og of lítið á Ritninguna.

Hvernig nokkrir reyndust árvakrir

14. Lýstu því hvernig C. T. Russell og félagar hans fóru að við biblíunám sitt.

14 Þá, árið 1870, mynduðu Charles Taze Russell og nokkrir félaga hans biblíunámshóp í Allegheny í Pennsylvaníu. Þeir voru ekki hinir fyrstu til að koma auga á mörg biblíusannindi sem þeir tóku upp, en þegar þeir rannsökuðu Biblíuna lögðu þeir í vana sinn að athuga vandlega alla ritningarstaði sem tengdust hverri spurningu.a Markmið þeirra var ekki að finna ritningargreinar til að sanna fyrirfram ákveðna hugmynd heldur að fullvissa sig um að þeir drægju ályktanir sem væru í samræmi við allt sem Biblían sagði um málið.

15. (a) Hvað höfðu aðrir auk Russells gert sér grein fyrir? (b) Hvað greindi biblíunemendurna frá þeim mönnum?

15 Fáeinir aðrir höfðu á undan þeim gert sér grein fyrir að Kristur myndi snúa aftur ósýnilega sem andi. Sumir höfðu gert sér grein fyrir að markmið endurkomu Krists væri ekki að brenna jörðina upp til agna og eyða öllu mannlegu lífi heldur að blessa allar ættir á jörðinni. Fáeinir höfðu jafnvel gert sér grein fyrir að árið 1914 myndi marka endi heiðingjatímanna. En í hugum biblíunemendanna, sem voru í félagi við bróður Russell, voru þetta ekki bara guðfræðileg umræðuatriði. Þeir gerðu þessi sannindi að þungamiðjunni í lífi sínu og kynntu þau á alþjóðavettvangi í stærri mæli en áður hafði þekkst á þeim tíma.

16. Hvers vegna skrifaði bróðir Russell árið 1914: „Við lifum á reynslutíma“?

16 Eigi að síður þurftu þeir að halda vöku sinni. Hvers vegna? Þó að þeir til dæmis vissu að spádómar Biblíunnar bentu á árið 1914 vissu þeir ekki nákvæmlega hvað myndi eiginlega gerast það ár. Það var prófraun fyrir þá. Bróðir Russell skrifaði í Varðturninum þann 1. nóvember 1914: „Við skulum muna að við lifum á reynslutíma. . . . Ef það er nokkur ástæða sem gæti komið nokkrum manni til að láta af trú á Drottin og sannleika hans og hætta að fórna ýmsu fyrir málstað Drottins, þá er það ekki bara kærleikurinn til Guðs í hjartanu sem hefur ýtt undir áhuga á Drottni heldur eitthvað annað; sennilega von um að tíminn væri stuttur; vígslan var aðeins til ákveðins tíma.“

17. Hvernig hélt A. H. Macmillan, og aðrir honum líkir, andlegu jafnvægi sínu?

17 Sumir yfirgáfu þjónustu Jehóva á þeim tíma. En bróðir A. H. Macmillan var ekki einn þeirra. Mörgum árum síðar viðurkenndi hann hreinskilnislega: „Stundum voru væntingar okkar vegna ákveðins dags meiri en Ritningin heimilaði.“ Hvað hjálpaði honum þá að halda andlegu jafnvægi? Hann gerði sér ljóst, eins og hann sagði, að „þegar þessar væntingar uppfylltust ekki þá breytti það ekki tilgangi Guðs.“ Hann bætti einnig við: „Mér lærðist að við ættum að viðurkenna mistök okkar og halda áfram að rannsaka orð Guðs til að upplýsast betur.“b Með auðmýkt létu þessir biblíunemendur í þá daga orð Guðs leiðrétta viðhorf sín. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

18. Hvernig kom árvekni kristinna manna þeim smám saman að gagni hvað það snerti að tilheyra ekki heiminum?

18 Á næstu árum þar á eftir dró ekki úr þörfinni á að þeir héldu vöku sinni. Þeir vissu að sjálfsögðu að kristnir menn áttu ekki að vera af heiminum. (Jóhannes 17:14; Jakobsbréfið 4:4) Í samræmi við það slógust þeir ekki í lið með kristna heiminum í að styðja Þjóðabandalagið sem pólitíska ímynd Guðsríkis. En það var ekki fyrr en árið 1939 sem þeir sáu skýrt um hvað kristið hlutleysi snerist. — Sjá Varðturninn, 1. nóvember 1939.

19. Hvernig hefur það orðið umsjóninni með söfnuðinum til gagns að skipulagið skuli hafa haldið vöku sinni?

19 Þeir höfðu aldrei klerkastétt, þó að sumum kjörnum öldungum hafi fundist að ekki ætti að ætlast til annars af þeim en að prédika í söfnuðinum. En með sterkri löngun til að laga sig eftir Ritningunni rannsakaði skipulagið hlutverk öldunganna á ný í ljósi Ritningarinnar. Efnið var aftur og aftur tekið til umfjöllunar á síðum Varðturnsins. Skipulagsbreytingar voru gerðar í samræmi við það sem Ritningin gaf vísbendingu um.

20-22. Hvernig hefur allt skipulagið verið búið undir það stig af stigi að fullna það verk að prédika Guðsríki um alla jörðina eins og spáð hafði verið?

20 Verið var að undirbúa allt skipulagið til að fullna það verk sem orð Guðs hafði lagt drög að fyrir okkar daga. (Jesaja 61:1, 2) Í hvaða mæli átti að boða fagnaðarerindið á okkar dögum? Jesús sagði: „Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Frá mannlegum sjónarhóli hefur þetta verk oft virst ógerlegt.

21 En í trausti til Krists sem höfuðs safnaðarins hefur hinn trúi og hyggni þjónshópur haldið áfram. (Matteus 24:45) Með trúfesti og ákveðni hefur hann bent fólki Jehóva á það starf sem vinna þarf. Allt frá árinu 1919 hefur verið lögð aukin áhersla á þjónustuna á akrinum. Margir áttu ekki auðvelt með að fara hús úr húsi og tala við ókunnuga. (Postulasagan 20:20) En námsgreinar svo sem „Blessaðir eru hinir óttalausu“ (árið 1919) og „Verið hugrakkir“ (árið 1921) hjálpuðu sumum að koma sér af stað í þessu starfi í trausti til Jehóva.

22 Hvatningin árið 1922 til að „kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans“ veitti þá örvun sem þurfti til að láta þetta starf skipa það öndvegi sem það verðskuldaði. Upp frá árinu 1927 voru öldungar, sem tóku ekki á sig þessa biblíulegu ábyrgð, settir af. Um svipað leyti var farandfulltrúum Félagsins, pílagrímunum, falið að vera svæðisbundnir þjónustustjórar og veita boðberum persónulegar leiðbeiningar í boðunarstarfinu. Það gátu ekki allir verið brautryðjendur, en um helgar notuðu margir heilu dagana til þjónustunnar. Þeir byrjuðu snemma morguns, tóku sér aðeins smáhlé til að borða samloku, og héldu síðan áfram í þjónustunni langt fram eftir degi. Þetta voru merkir tímar í guðræðislegri framvindu og það er mjög gagnlegt fyrir okkur að rifja upp á hvern hátt Jehóva leiddi fólk sitt. Hann heldur áfram að gera það. Með blessun hans mun prédikun fagnaðarerindisins um stofnsett ríki Guðs verða lokið farsællega.

Heldur þú vöku þinni?

23. Hvernig getum við sem einstaklingar sýnt að við höldum vöku okkar hvað snertir kristinn kærleika og aðskilnað frá heiminum?

23 Skipulag Jehóva bregst við handleiðslu hans og heldur áfram að gera okkur viðvart um hátterni og viðhorf er myndi auðkenna okkur sem af heiminum og þar með í þeirri hættu að farast með honum. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Á móti verðum við sem einstaklingar að halda vöku okkar og bregðast við handleiðslu Jehóva. Jehóva leiðbeinir okkur einnig um hvernig við eigum að búa og vinna saman. Skipulag hans hefur hjálpað okkur að læra sífellt betur að meta hvað kristinn kærleikur merkir í raun. (1. Pétursbréf 4:7, 8) Til þess að halda vöku okkar verðum við í einlægni að leggja okkur fram við að fara eftir þessum ráðum þrátt fyrir mannlega galla.

24, 25. Í hvaða mikilvægum efnum ættum við að halda vöku okkar og með hvaða framtíðarvon í huga?

24 Hinn trúi og hyggni þjónn hefur stefnufastur áminnt okkur: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ (Orðskviðirnir 3:5) „Biðjið án afláts.“ (1. Þessaloníkubréf 5:17) Við höfum fengið ráð um hvernig við getum lært að byggja ákvarðanir okkar á orði Guðs, látið orð hans vera ‚lampa fóta okkar og ljós á vegum okkar.‘ (Sálmur 119:105) Af kærleika höfum við verið hvött til að hafa prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki í fyrirrúmi í lífi okkar, starfið sem Jesús sagði fyrir að unnið yrði á okkar dögum. — Matteus 24:14.

25 Já, hinn trúi og hyggni þjónn heldur svo sannarlega vöku sinni. Sem einstaklingar verðum við líka að halda vöku okkar. Megum við, þegar Mannssonurinn kemur til að fullnægja dómi, vera meðal þeirra sem standa velþóknanlegir frammi fyrir honum — vegna þess að við höfum haldið vöku okkar. — Matteus 24:30; Lúkas 21:34-36.

[Neðanmáls]

a Faith on the March, eftir A. H. Macmillan, Prentice-Hall, Inc., 1957, blaðsíða 19-22.

b Sjá Varðturninn 15. ágúst, 1966, blaðsíðu 504-10.

Til upprifjunar

◻ Hvers vegna þurfum við að halda vöku okkar, eins og fram kemur í Matteusi 24:42?

◻ Hvernig héldu Jesús og fylgjendur hans á fyrstu öldinni andlegri vöku sinni?

◻ Hver hefur atburðarásin orðið síðan 1870 af því að þjónar Jehóva hafa haldið vöku sinni?

◻ Hvað mun vera til vitnis um að við sem einstaklingar höldum vöku okkar?

[Mynd á blaðsíðu 28]

Charles Taze Russell á efri árum.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Rúmlega 4.700.000 boðendur Guðsríkis eru virkir um alla jörðina.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Jesús var ötull við starfið sem faðir hans fól honum. Hann bað einnig ákaft.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila