Verið viðbúnir!
„Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ — Lúkas 12:40.
1. Hvað sagði Kristur um nauðsyn þess að vera á verði og vaka?
JESÚS Kristur brýndi fyrir fylgjendum sínum að vera árvakrir. Til dæmis sagði hann: „Verið varir um yður. Ég hef sagt yður allt fyrir . . . Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð. . . . En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ — Markús 13:23-37.
2. Hvers vegna gefur fyrirmyndarbænin í skyn árvekni, en hvernig hafa kirkjur kristna heimsins drepið niður eftirvæntinguna eftir Guðsríki?
2 Í greininni á undan voru lögð fram ítarleg gögn frá hlutlausum aðilum sem sýndu fram á að kirkjur kristna heimsins hafa ekki ‚vakað.‘ Að því er The Catholic Encyclopædia segir hafa þær nær gengið af eftirvæntingunni eftir Guðsríki dauðri með því að fullyrða að ‚Guðsríki þýði . . . stjórn Guðs í hjörtum okkar,‘ og með því hafa þær rænt fyrirmyndarbænina, „Faðirvorið,“ allri merkingu. Þó segir The New Encyclopædia Britannica: „Bænirnar fólgnar í fyrirmyndarbæninni hafa sem forsendur þær mjög þjakandi aðstæður að nafn Guðs og vilji sé fótum troðinn, að ríki hans sé enn ókomið.“ Já, fyrirmyndarbænin gerir ráð fyrir árvekni. Fyrir hverju áttu kristnir menn sérstaklega að vera á varðbergi?
„Vakið“ — eftir hverju?
3. Hvers vegna ættu kristnir menn ekki að hafa að engu tímaþáttinn?
3 Náin athugun á spádómum Biblíunnar um „hinstu hluti“ leiðir í ljós nákvæmlega hverju kristnir menn áttu að „vaka“ fyrir. Í fyrsta lagi skyldu þeir ekki missa sjónar á tímanum, því að Jesús Kristur talaði um tiltekinn „tíma“ sem einungis faðir hans vissi. (Markús 13:32, 33) Þar að auki sagði Jesús lærisveinunum að Jerúsalem yrði ‚fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna væru liðnir.‘ (Lúkas 21:24) Bersýnilega gaf Jesús fylgjendum sínum upplýsingar til að hjálpa þeim að þekkja endalokatímann, því að þær eru hluti af svari hans við spurningunni: „Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?“ — Lúkas 21:7.
4. Hvaða ‚tákni‘ áttu kristnir menn að vera á verði fyrir?
4 Auk þess að kristnir menn gæfu gaum tímanum áttu þeir að hafa augun opin fyrir hinu umbeðna ‚tákni‘ sem einnig er nefnt í Matteusi 24:3 og Markús 13:4. Þetta margþætta tákn — fólgið meðal annars í alþjóðlegum styrjöldum, hungursneyð, jarðskjálftum, drepsóttum og ofsóknum á hendur sannkristnum mönnum — myndi, ásamt uppfyllingu spádómanna um tímann, auðkenna þá „kynslóð“ sem ekki myndi „líða undir lok“ fyrr en þeir hlutir væru orðnir sem verða ættu á tíma endalokanna. — Lúkas 21:10-12, 32.
5. Hvernig myndi Kristur vera með sönnum fylgjendum sínum út í gegnum aldirnar, en var það allt og sumt sem hann átti við þegar hann sagði til um tákn ‚nærveru sinnar‘?
5 Hvaða mikilvæga atburði tengda ‚endalokum veraldar‘ myndi þetta tákn boða? Lærisveinar Jesú spurðu hann: „Hvert mun tákn komu þinnar [á grísku parousia, nærvera] og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) Hvað mundi „nærvera“ Krists þýða? Miklu meira en það að hann yrði í anda með sönnum fylgjendum sínum þegar þeir kæmu saman eða inntu af hendi það ætlunarverk sitt að gera menn að lærisveinum. Hann ætlaði að styðja fylgendur sína með þeim hætti í aldanna rás. (Matteus 18:20; 28:18-20) Jafnvel guðfræðingar kristna heimsins játa að orðið „nærvera“ hafi tekið á sig sérstaka merkingu. Fræðibókin The New International Dictionary of New Testament segir: „Hugmyndin um nærveruna binst nú eftirvæntingu kirkjunnar eftir því að Kristur birtist við endi aldanna.“ Allt frá upphafi til enda hvetja kristnu Grísku ritningarnar kristna menn til að vera eftirvæntingarfullir eftir nærveru Krists. — Matteus 24:3, 27, 37, 39; Jakobsbréfið 5:7, 8; 2. Pétursbréf 3:3, 4; 1. Jóhannesarbréf 2:28; Opinberunarbókin 1:7; 22:7.
6. (a) Hvað myndi nærvera Krists þýða fyrir þessa illu heimsskipan? (b) Hvernig myndi nærvera Krists hafa áhrif á smurða kristna menn sem höfðu dáið trúfastir og þá sem enn væru lífs á jörðinni?
6 Nærvera Krists myndi þýða ekkert minna en ‚endalok veraldar.‘ (Matteus 24:3; Markús 13:4) Hún myndi þýða að hin núverandi illa heimsskipan hefði náð ‚endalokum‘ sínum eða „síðustu dögum.“ (Daníel 12:4, 9; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Hún myndi þýða að Kristur hefði fengið frá föður sínum skipun um að beita konungsvaldi sínu yfir jörðinni ‚mitt á meðal óvina sinna.‘ (Sálmur 110:2; 2:6-9; Opinberunarbókin 11:15-18) Áður en Kristur dæmdi heiminn í heild myndi hann skoða rækilega sinn eigin söfnuð og reisa upp frá dauðum smurða kristna menn sem hefðu dáið trúfastir. (1. Kó-orintubréf 15:21, 23; 1. Þessaloníkubréf 2:19; 3:13; 4:13-17; 2. Þessanloníkubréf 2:1) Þá smurðu kristnu menn, sem enn væru á lífi á jörðinni og gegndu trúfastir hlutverki sem „þjónn“ Krists með því að halda andlegri vöku sinni og miðla andlegum „mat á réttum tíma,“ myndi Kristur setja „yfir allar eigur sínar,“ alla hagsmuni Guðsríkis á jörðinni. (Matteus 24:45-47; Lúkas 12:42-44) Þessi „trúi og hyggni þjónn“ yrði að taka þátt í og hafa yfirumsjón með prédikun ‚þessa fagnaðarerindis um ríkið‘ um allan heiminn og ‚síðan myndi endirinn koma.‘ — Matteus 24:14.
7. Hvaða öðrum táknum áttu kristnir menn að gefa gætur, jafnvel meðan nærvera Krists stæði yfir, og hvers vegna myndu þeir halda áfram að biðja um ‚komu‘ Guðsríkis?
7 Sannkristnir menn áttu að ‚vaka‘ fyrir öllu þessu sem myndi sanna að þeir lifðu á tímum nærveru Krists og ‚endaloka‘ veraldar.‘ En jafnvel meðan „endalokatíminn‘ stæði yfir áttu þeir að gefa gætur að ‚tákni Mannsonarins,‘ ‚komu‘ hans til að fullnægja dómi yfir illu heimskerfi Satans. (Matteus 24:30, 44; Markús 13:26, 35; Lúkas 12:40; 21:27; 2. Þessaloníkubréfi 1:7-10) Þótt hann yrði „nærverandi‘ og ríki hans hefði þegar verið stofnsett, ættu bæði hann og ríki hans eftir að ‚koma‘ og „knosa og að engu gjöra“ þjóðir og ríki í heimi Satans. (Daníel 2:44) Það skýrir hvers vegna Kristur bætti við, eftir að hafa greint frá ‚tákninu um nærveru sína‘: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ (Lúkas 21:31) Já, jafnvel meðan nærvera Krists stæði yfir yrðu kristnir menn að halda áfram að biðja um komu Guðsríkis, og þeir myndu enn þurfa að ‚vera varir um sig‘ og ‚halda sér vakandi‘ gagnvart tilteknum tíma ‚endisins‘ og ‚lausnar‘ sinnar. — Markús 13:7, 29, 32-37; Lúkas 21:9, 28.
Hverjir hafa reynst ‚árvakrir‘?
8. Greinið í stuttu máli frá því sem kristnir menn áttu að vera á verði fyrir.
8 Við höfum komist að því að kristnir menn áttu að vænta þess að ‚tímar heiðingjanna‘ tækju enda. Þeir áttu að gefa gætur að ‚tákninu um nærveru Krists og endalok veraldar.‘ Þeir áttu að vænta upprisu smurðra kristinna manna sem hefðu dáið trúfastir, og þess að hópurinn, sem myndaði ‚trúa og hyggna þjóninn,‘ yrði greinilega auðkenndur og settur yfir alla hagsmuni ríkis Krists á jörð. Að síðustu ætti þessi „þjónn“ að halda áfram að miðla andlegri fæðu og taka um leið forystuna í að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina“ áður en „endirinn“ kæmi. „Tákn Mannsonarins“ myndi birtast í því að hann ‚kæmi‘ til að eyða illu heimskerfi Satans.
9. Hverjir reyndust vera á varðbergi gagnvart því hvenær ‚tímum heiðingjanna‘ lyki, og hvernig hjálpaði Varð Turn Zíonar kristnum mönnum að vera andlega vökulir?
9 Hverjir hafa reynst vera á varðbergi gagnvart öllu þessu? Svo snemma sem árið 1876 hafði Charles T. Russell í Pittsburgh í Pennsylvania fyglst gaumgæfilega með endi ‚heiðingjatímanna.‘ Það ár birti hann grein sem hét: „Tímar heiðingjanna: ‚tíðirnar sjö myndu enda á því herrans ári 1914.‘ Frá árinu 1880 birtust sömu upplýsingar á síðum tímaritsins Varð Turn Zíonar, Í mars árið 1880 sagði þar: „‚Tímar heiðingjanna‘ ná fram til 1914 og hið himneska ríki mun ekki hafa full yfirráð fyrr.“ Að vísu höfðu þeir biblíunemendur, sem skrifuðu þessar greinar, ekki á þeim tíma þann nákvæma biblíu- og sagnfræðilega skilning á því hvað þessir „tímar heiðingjanna“ þýddu eins og við höfum nú.a En aðalatriðið er að þeir voru ‚á verði‘ og hjálpuðu kristnum trúbræðrum sínum að vera andlega vökulir.
10. Hvernig var merking ‚nærveru‘ Krists skýrð?
10 Þessi sami hópur bibliunemenda, sem tengdur var Charles Russell og tímaritinu Varð Turn Zíonar, hjálpaði líka einlægum kristnum mönnum að skilja að „nærvera“ Krists yrði ósýnileg, og að hann myndi ekki snúa til jarðar á ný í holdi til að ríkja sem konungur. Þeir beindu stöðugt athygli ‚hjúa‘ meistarans að heimsviðburðum tengdum ‚tákninu‘ um nærveru Krists og um ‚tíma endalokanna.‘
11. (a) Hvað skildu menn ekki til fulls á þeim tíma í sambandi við hin jarðnesku ríki og það að smurðir kristnir menn yrðu „hrifnir burt“? (b) Hvaða betri skilning höfum við nú við Daníel 2:44 og 1. Þessaloníkubréfi 4:15-17?
11 Það skal viðurkennt að haldið var að stofnsetning Guðsríkis á himnum hefði í för með sér tafarlausa eyðingu jarðneskra ríkja, og að smurðir kristnir menn yrðu „hrifnir burt“ til að sameinast látnum kristnum mönnum sem yrðu reistir upp við nærveru Krists. (2. Þessaloníkubréf 2:1) En hver getur áfellst þá fyrir að skilja ekki til fullnustu á þeim tíma að mikið starf fólgið í samansöfnun ætti að eiga sér stað frá því að Daníel 2:44 byrjaði að uppfyllast og þar til því lyki, eða að 1. Þessaloníkubréf 4:15-17, sem talar um að vera ‚hrifinn burt,‘ eigi við tafarlausa upprisu hinna smurðu sem deyja eftir að fyrri upprisan er hafin? — 1. Korintubréf 15:36, 42-44; Rómverjabréfið 6:3.
12. (a) Hvað ætlaðist Kristur til að trúfastur „þjónn“ hans væri að gera þegar hann kæmi til að skoða hjú sín, og hverja fann hann gera svo? (b) Hvað hefur hinn trúfasti „þjónn“ haldið áfram að gera síðan?
12 Við skiljum þessi atriði núna, þökk sé hinu aukna ljósi sem hefur verið varpað á orð Guðs af hinum ‚trúa og hyggna þjóni.‘ (Orðskviðirnir 4:18) Jesús sagði um þennan ‚þjón‘: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:45-47) Þegar hinn krýndi Drottinn Jesús skoðaði hjú sín árið 1919 komst hann að raun um að sá hópur kristinna manna, sem var tengdur tímaritinu Varðturninn, gerði sér kostgæfilega far um að ‚vaka og vera á verði‘ með hjálp andlegrar ‚fæðu á réttum tíma.‘ Allt til þessa dags hefur þessi ‚þjónshópur‘ haldið af trúfesti áfram að útbýta andlegri fæðu, til að gera ‚hjúum‘ meistarans og félögum þeirra kleift að ‚vera varir um sig og vaka.‘ — Markús 13:33.
Árvekni eða sinnuleysi?
13. Hvaða spurninga ættu þeir sem gagnrýna votta Jehóva að spyrja sig?
13 Það er auðvelt fyrir hinar rótgrónu kirkjudeildir kristna heimsins og aðra að gagnrýna votta Jehóva, því að rit þeirra hafa stundum sagt að vissir atburðir gætu gerst á vissum tímum. En er ekki slíkt í samræmi við fyrirmæli Krists um að ‚vaka‘? (Markús 13:37) Hafa kirkjur kristna heimsins hvatt til kristilegrar árvekni með því að kenna að Guðsríki sé „stjórn Guðs í hjörtum okkar“? Hafa þær ekki frekar hvatt til andlegs sinnuleysis með því að skoða eftirvæntinguna eftir ‚endinum‘ sem ‚tilgangslausa‘ eða ‚þýðingarlitla goðsögn‘? Hafa fráhvarfsmenn, sem fullyrða að ‚síðustu dagar‘ hafi byrjað á hvítasunnunni og nái yfir allt tímaskeið kristninnar, stuðlað að kristinni árvekni? Hafa þeir ekki frekar orsakað andlega syfju?
14. Hvaða dæmi eru um trúfasta þjóna Jehóva í fortíðinni sem voru yfir sig ákafir að sjá tilgang Guðs rætast?
14 Að vísu hafa sumar vonir, sem virtust studdar af tímareiningi Biblíunnar, ekki ræst á þeim tíma sem vænst var. En er ekki miklu æskilegra að gera einhver misktök sökum mikils áhuga að sjá tilgang Guðs ná fram að ganga, heldur en að vera andlega sofandi gagnvart uppfyllingu spádóma Biblíunnar? Misreiknaði ekki Móse sig um 40 ár þegar hann reyndi fyrir tímann að létta áþjáninni af Ísraelsmönnum? (1. Mósebók 15:13; Postulasagan 7:6, 17, 23, 25, 30, 34) Voru ekki postular Krists yfir sig ákafir að sjá Guðsríki komið á fót, að ekki sé talað um algeran misskilning þeirra á því hvað Guðsríki raunverulega væri? (Postulasagan 1:6; samanber Lúkas 19:11; 24:21.) Voru ekki smurðir kristnir menn í Þessaloníku óþolinmóðir að sjá „komu Drottins vors Jesú Krists“ og ‚dag Jehóva‘? — 2. Þessaloníkubréf 2:1, 2.
15. Hvaða dæmi sýna að ekki er óbiblíulegt að nota tímatalsfræði til að reyna að finna út hvenær tilgangur Guðs rætist, og hvað hafa trúfastir þjónar Jehóva, fyrr og nú, hrópað?
15 Það er alls ekki óbiblíulegt að nota tímatalsfræði í þeim tilgangi að finna út hvenær sé ‚tilsettur tími‘ fyrir uppfyllingu á fyrirætlunum Guðs. (Habakkuk 2:3) Daníel reiknaði út hvenær auðnarástand Jerúsalem skyldi enda. (Daníel 9:1, 2) Trúfastar leifar Gyðinga á fyrstu öld væntu komu Messíasar, vegna þess að þær höfðu reiknað út frá spádómunum hvenær ákveðnu tímabili lyki. (Daníel 9:25; Lúkas 3:15) Síðla á 19. öld og í byrjun 20. aldar gátu kristnir menn vænst valdatöku Guðsríkis árið 1914 með góðum fyrirvara, því að þeir reiknuðu út hvenær ‚tímum heiðingjanna‘ skyldi ljúka. (Lúkas 21:24; Daníel 4:16, 17) Það var því skiljanlegt hvers vegna reynst var að nota aðrar vísbendingar Biblíunnar um tímann til að finna út hvenær hinar langþráðu vonir kynnu að rætast. Trúir þjónar Jehóva í fortíðinni hrópuðu: „Hversu lengi, [Jehóva]?“ — Jesaja 6:11; Sálmur 74:10; 94:3.
Hvers vegna að vera reiðubúinn?
16. (a) Ber okkur að skilja Markús 13:32 svo að við megum ekki hafa áhuga á því hvenær endirinn kemur? (b) Hvaða „tákn“ er sýnilegt en hvaða annars ‚tákns‘ bíðum við?
16 Fyrst Jesús sagði greinilega að enginn maður gæti vitað „þann dag eða stund,“ sem faðirinn myndi skipa syni sínum að ‚koma‘ gegn illu heimskerfi Satans, gætu sumir átt til að spyrja: ‚Hvers vegna er svona brýnt að bíða endalokanna með eftirvæntingu?‘ Það er brýnt vegna þess að næstum í sömu andránni bætti Jesús við: „Verið varir um yður, vakið! . . . Vakið.“ (Markús 13:32-35) ‚Táknið‘ um nærveru Jesú hefur verið auðsætt frá 1914. Við bíðum þess nú að sjá „tákn Mannssonarins“ þegar hann ‚kemur‘ sem aftökumaður Jehóva.
17, 18. (a) Hvers vegna skipaði Jesús kristnum mönnum á fyrstu öld að flýja Jerúsalem jafnskjótt og þeir sæju táknið um yfirvofandi eyðingu hennar? (b) Hvers vegna væri hættulegt að gera í huga sér lítið úr því hversu tímarnir eru áríðandi?
17 Þegar Jesús gaf kristnum mönnum í Júdeu á fyrstu öld tákn til að þekkja á hvenær tímabært væri að flýja Jerúsalem brýndi hann fyrir þeim nauðsyn þess að gera það tafarlaust. (Lúkas 21:20-23) Hvers vegna lá svona mikið á fyrst næstum fjögur ár liðu frá því að táknið birtist árið 66 þar til Jerúsalem var eytt árið 70? Vegna þess að Jesús vissi að biðu þeir myndu þeir draga flótta sinn á langinn og falla að síðustu í hendur rómverskra herja.
18 Eins væri það núna mjög hættulegt fyrir kristinn mann að draga úr því í huga sér að tímarnir séu áríðandi, og taka lífinu með ró sem endurspeglar efasemdir um nálægð endalokanna.
19. Hvaða aðvörun gáfu Pétur og Jesús?
19 Nærvera Krists hefur nú staðið í 70 ár og ‚koma‘ hans og ‚dagur Jehóva‘ til að fullnægja dómi á heimi Satans nálgast óðfluga. Pétur postuli segir að þessi dagur ‚muni koma sem þjófur‘ og bætir við að við ættum að ‚vænta eftir og flyta fyrir,‘ eða hafa efst í huga, ‚návist dags Jehóva.‘ (2. Pétursbréf 3:10-12) Jesús aðvaraði líka: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. . . . Vakið því.“ — Lúkas 21:34-36.
20. Hvað ættum við að vera þakklát fyrir, og hvernig mun viðeigandi, kristin eftirvænting vera okkur til verndar?
20 Vottar Jehóva ættu að vera mjög hamingjusamir og þakklátir fyrir að þeim skuli hafa verið haldið andlega vakandi af trúföstum og árvökrum ‚þjóni‘! Viðeigandi, kristin eftirvænting mun vernda okkur á hinum viðsjárverðu „síðustu dögum,“ og fá okkur til að taka af kostgæfni þátt í að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið.“ Þar með munum við hjálpa öðrum að halda vöku sinni og lifa af inn í nýja heimsskipan þar sem „réttlæti býr.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:14; 2. Pétursbréf 3:13.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina „Let Your Kingdom Come“ 14. kafla og viðauka við kaflann í bókarlok með ítarlegri samantekt heimilda.
Manst þú?
◻ Hvers vegna ættu kristnir menn ekki að hafa að engu tímatáknin í Biblíunni?
◻ Hvaða sérstaka merkingu öðlaðist orðið „nærvera“?
◻ Hvers vegna er enn við hæfi að biðja þess að Guðsríki komi?
◻ Hvernig myndir þú svara þeim sem gagnrýna votta Jehóva fyrir áhuga þeirra á tímatali?
◻ Hvers vegna er hættulegt að gera í huga sér lítið úr því hversu áríðandi okkar tímar eru?
[Rammi á blaðsíðu 18]
Það sem kristnir menn áttu að vera á varðbergi fyrir
Endir ‚heiðingjatímanna.‘ — Lúkas 21:24.
‚Táknið‘ um nærveru Krists og ‚endalok veraldar.‘ — Matteus 24:3-25:46.
Skýr staðfesting á því hver ‚trúi og hyggni þjóns‘-hópurinn er. — Matteus 24:45-47.
„Tákn Mannssonarins“ þegar hann ‚kemur‘ til að fullnægja dómum Jehóva. — Matteus 24:30.
[Mynd á blaðsíðu 17]
C. T. Russell og félagar hans voru vakandi og á verði.